fimmtudagur, maí 26, 2005

Helgin framundan

Ég legg í hann til Sacramento um klukkan fjögur í fyrramálið. Ég þarf að keyra á Minneapolis flugvöllinn og vélin fer svo rúmlega 6. Kristín kom þangað í fyrradag og það hefur verið óbærilega heitt, um 35 stig og sól náttúrulega. Um helgina verður um 30 stigin svo þetta verður viðráðanlegt. Sem betur fer þá eru hótelin okkar mjög nálægt hvoru öðru svo ég get séð hana oft og lengi. Halli er í Noregi svo það verður 9 tíma tímamismunur á okkur og það verður erfitt að koma upplýsingum til hans. Hann kemur reyndar heim á laugardagskvöldið og mikilvægasti dagurinn er sunnudagurinn. Karólína keppir í stóru móti á morgun, Big 9, og þar sem við foreldrarnir getum ekki verið á tveimur stöðum í einu, þá verður hún ein á báti. Um næstu helgi er enn stærra mót og þá verðum við bæði hjá henni svo þetta er ekkert mál. Þetta verður mun flóknara ef hún fer í Stanford og ef hún kemst í frjálsíþróttaliðið (öll þessi ef alltaf að flækjast fyrir) því báðar keppa þær systur í voríþrótt. Hér skiptast íþróttir í þrjú tímabil, haust, vetur og vor, og að auki þá yrðu þær systur og sinni ströndinni hvor. Duke yrði mun auðveldari skóli staðsetningarinnar vegna en ég hef tiltölulega lítið (minna en ég vil, meira en ég held) um það að segja hvert Karólína fer í college, en sumarið og haustið fer í að ákveða það.

miðvikudagur, maí 25, 2005

Ég var að setja ruslið út að götu og það leið ekki löng stund áður en þar varð hrafnaþing. Ruslatunnan er troðfull svo ég gat ekki lokað henni og þá hafa hrafnarnir greiðan aðgang að ruslapokunum og eiga þeir ekki neinum vandræðum með að kroppa gat til að ná sér í æti. Því er hávaði og læti úti núna því þeir rífast yfir matnum eins og svangra er siður.

Ég er annars að fara í leiðangur í dag í gróðrarstöðvar. Okkur vantar tvö stór tré sunnan við hús og nú á að ákveða hverju skal plantað. Halli vill fá ávaxtatré sem bera ávöxt, en ef það verða ávaxtatré þá vil ég fá tré vorblómanna vegna en ekki ávaxtanna vegna og því vil ég ávaxtatré sem ekki bera ávöxt. Annars hefði ég helst viljað reynivið, gullregn eða weeping willow. Kannski getum við farið bil beggja og fengið okkur eitthvað fyrir alla, væri það nú ekki svolítið gáfulegt að gera það, þá verður ekki deilt um trjátegundir á meðan!

sunnudagur, maí 22, 2005

Prom í Mayo High School

Þá er prommið búið. Jade kom á þessari líka flottu Corvettu til að ná í dömuna, henni til mikillar ánægju. Mér skilst að þau hafi skemmt sér vel og allt verið fínt nema plötusnúðurinn sem var víst með leiðinlega tónlist, og það er nú heldur dapurt þegar maður er á balli. Hópurinn kom hingað í myndatöku og þar sem það var þurrt og fínt þá var haldið út og myndir teknar úti í garði. það eru fleiri myndir á http://homepage.mac.com/bjarn001/PhotoAlbum12.html

Corvettan, Karolina og Jade


Corvettan, Karolina og Jade, originally uploaded by Kata hugsar.

Jade og Karolina


Jade og Karolina, originally uploaded by Kata hugsar.

laugardagur, maí 21, 2005

Dagsverk

Halli er á Íslandi, fer Norður í dag. Mér skilst að árstíðirnar hafi ruglast í ríminu og vetur kallinn hafi birst aftur síðustu dagana í Eyjafirðinum. Kartöflunum verður samt potað niður hvernig sem viðrar, jafnvel þótt jarðvegurinn væri frosinn þá myndi hann finna leið til að klára þetta mikilvæga vor verk. Hér hefur verið afar vætusamt síðustu tvær vikurnar, rignt meira og minna á hverjum degi. Það er samt hlýtt, rúm 20 stig í gær og verður um 25 í dag. Það er prom í dag og því nokkuð mikilvægt að hann hangi þurr seinni partinn. Vinahópur Karólínu kemur hingað í myndatöku um fjögur leytið, það stendur til að taka myndirnar hérna útí garði, og svo er haldið af stað í matinn, limósínukeyrsluna að dansstaðnum, "grand march" (þar sem öll pörin eru kynnt með stíl), og svo að lokum dansiballið sjálft. Kjóllinn er tilbúinn, bleikur og glitrandi, svo og skórnir og allt hitt. Ég ætla að klára að setja niður sumarblómin mín í dag og vonandi tekst það, veðurspáin er mér ekki hliðholl. Það er svo gaman þegar það er búið því þá verður allt svo sumarlegt og fínt. Bara að dádýrin komi ekki í matarleit í garðinn minn, þá verður nú ekki mikið eftir að blómunum mínum. Annars keypti ég hræðilega illa lyktandi efni til að sprauta á plönturnar, efni sem á að fæla dádýrin, íkornana og kanínurnar frá. Það versta er að það fælir mannskeppnuna líka frá, það er svo voðalega vond lykt af því.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Lífsins gangur

Nú er farið að síga á seinni hlutann á þessu vori. Karólína á tvær vikur eftir af skóla og Kristín tekur sitt síðasta próf á morgun en kemur heim 3ja júní. Þá verður fullt hús hér af fjölskyldumeðlimum í fyrsta sinn í tvö ár. Ég hef verið stjórnandinn hér innan heimilis í bráðum 30 ár en ég finn fyrir þeirri skrýtnu tilfinningu að börnin mín eru að taka yfir, þe.a.s. þegar þau eru heima. Bjarni eldar oft í viku, Kristín kemur og fer eins og fljúgandi fuglinn og eldar sína grænmetisfæðu sjálf, eitthvað sem ég kann ekkert á, og Karólína sér um þvottinn þegar skólinn er búinn, þau koma svo til með að ráða taktinum í fjölskyldulífinu í sumar. Þetta er mikil breyting en hefur samt gerst svona hægt og rólega, stundum koma tímabil þar sem stórbreytingar verða en oftast eru þetta smábreytingar sem gerast á löngum tíma. Það er forvitnilegt að fylgjast með eigin lífi svona utanfrá og reyna að fylgjast með og átta sig á breytingum jafn óðum og þær gerast. Fyrir nokkrum árum síðan þegar þetta var að byrja þá fann ég að mér fannst ég vera að missa þetta eina yfirráðasvæði sem ég hef en svo smám saman hef ég látið eftir og finnst gaman að sjá hvernig þau vinna saman, leysa sín vandamál, deila því sem þarf að deila, hjálpast að og þrasa. Ég reyni að taka ekki þátt í þeirra deilum, reyni að skipta mér ekki af þegar þau ekki vilja það, reyni að taka ekki fram fyrir hendurnar á þeim, reyni að styðja Þau þótt mér finnist þau ekki vera að gera rétt, þau eru jú þrátt fyrir allt "hálf-fullorðið fólk". Stundum tekst mér þetta og stundum ekki, en áfram held ég að reyna.

mánudagur, maí 16, 2005

Framarlega í Eyjafirði að austan og vestan.

Það eru ófáir dagarnir sem ég byrja á því að líta á Akureyri.is og þar á Akureyri í beinni. Ég þarf svo nauðsynlega að sjá hvernig Gilið lítur út og hvort sést yfir í Heiði og á Lönguklöpp. Á annarri heimasíðu sé ég yfir Háskólann í Þingvallastræti og Sundlaugina. Einhverntíma eftir einhver ár og allrahanda lífsins skyldur þá flytjum við Norður og þá get ég notið þess á hverjum morgni að horfa yfir Fjörðinn, hvort heldur ég bý að austan að vestanverðu við hann. Við förum "yfrum" hvorumegin sem við búum og verðum "að handan" ef einhver vill koma í heimsókn. Halli kemur heim til Íslands á laugardaginn á leið sinni til Noregs. Þá fer hann Norður til að pota niður kartöflum svo við verðum ekki hungurmorða í sumar. Mér finnst hann eigi að koma af stað rabarbara og fleiri tegundum af rótargrænmeti því kartöflur einar og sér halda ekki í mér lífinu, kannski hann tölti svo niður að sjó í leit að fiskmeti. Hann hefur ógnar áhuga á að reyna sjálfsþurftarbúskap. Hann ætlar sér svo að reyna að koma af stað Kirsuberjatré, hann Ærir vinur okkar stakk þessari hugmynd að mér og Halli ætlar að reyna, hvort það verður í þessari ferð eða þeirri næstu er ég ekki viss um, en nóg verður af ferðunum næstu mánauðina, Halli kemur þrisvar til Íslands í vor og sumar og við Karólína verðum í heilar sex vikur á landinu.

fimmtudagur, maí 12, 2005

Tré í blóma

Svona lítur kirsuberjatréð mitt út þessa dagana. Ég vildi að ég gæti sett lyktina af því á blogginn líka -sambland af rósaangan, ferskjum, og lavender- en það verður í næsta lífi.

vor


vor, originally uploaded by Kata hugsar.

Hún Karólína

Þá er komið að prom. Karólínu var boðið á prom í fyrsta sinn svo nú er að skella saman einum kjól. Því miður þá fékk hún allt frjálsíþróttaliðið með í að ákveða útlit kjólsins -allar 83 að mér skilst- og útkoman er ekki mjög áhugaverð fyrir mig en ég verð að finna útúr þessu með henni. Ég hef rúma viku til að hanna og sauma kjólinn og er það í allra minnsta lagi. Þetta þýðir náttúrulega það að ég verð að byrja strax. Ég fór í leiðangur í gær og fann snið sem ég get unnið með en efni fann ég ekki en það eru fjórar efnabúðir í bænum og ég er bara búin að skoða í einni þeirra. Það er ausandi rigning og kalt núna og á að vera fram á sunnudag svo það er best að nota sér leiðindaveðrið til að vinna inni, það er spáð fínu veðri eftir sunnudaginn og þá hef ég lítinn áhuga á inniveru. Annars er hún Karólína hoppandi um á hækjum þessa dagana. Það kom í ljós í MRI að það er vefur á milli beina í ökklanum sem klemmist þegar hún stekkur hástökk. Hún fékk cortisone sprautu í ökklann á mánudaginn og má ekki setja þunga á hann fyrr en næsta mánudag, svo gengur hún á honum í nokkra daga áður en hún fer að reyna að stökkva og hlaupa aftur. Vonandi gengur þetta hjá henni. Þetta er ekki auðvelt fyrir hana en hún stendur sig eins og hetja.

mánudagur, maí 09, 2005

Þá er enn ein törnin búin. Það mætti halda að lífið mitt væri vertíðabundið, það er annað-hvort-eða hér á bæ. Það var brjálað að gera allan laugardaginn við greiðasölu, það voru um 1000 manns á svæðinu og ég settist ekki niður allan daginn, ekki einu sinni á aðra kinnina. Það var rigning um morguninn en svo stytti upp og varð mjög gott seinni partinn. Svo hlýnaði all verulega í gær og rakinn kom með svo nú er hálfgert sumarveður, 28 stig og rakt og þrumuveður á kvöldin. Við erum ekki enn búin að kveikja á loftkælingunni, mér finnst heldur snemmt að gera það í byrjun maí, við hljótum að geta þolað þetta í nokkrar vikur en svo fáum við lika nóg og þá er kominn tími á loftkælinguna og sundlaugarbarm.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Karólína 17 ára

Litla barnið mitt er 17 ára í dag. Hún hefur nú reyndar aldrei verið neitt sérstaklega lítil, er orðin að 180 sentímetra ungri dömu. Hún gleymir reyndar oft þessu dömulega en það er bara þegar hún þarf að vinna í keppni, þá gildir það eitt að vinna alla hina....ekkert skil ég hvaðan barnið hefur þetta keppnisskap. Hún eyddi morgninum í MRI myndatöku af ökklanum plagaða. Við fáum vonandi að vita í dag, allavega á morgun hvað þar var að sjá. Nú er hún komin í skólann og verður þar það sem eftir er dags. Svo á að vera íslenskur mjólkurgrautur í kvöldmat. Krakkarnir mínar hafa fengið að ráða hvað er í matinn á afmælisdaginn frá því þeir voru pínulítlir og það er enn mjög mikilvægt. Mjólkurgrautur er hennar uppáhaldsmatur og graut skal hún fá í kvöldmat.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Þessa vikuna er mikið að gera hjá mér. Ég sé um alla greiðasöluna fyrir frjálsíþróttamót í skólanum á laugardaginn. Það verða um 700 keppendur allan laugardaginn og ég er búin að láta búa til boli og stuttbuxur sem við þurfum náttúrulega að selja, helst allt saman. Við verðum svo með þetta venjulega, kaffi, samlokur, pylsur, poppkorn, gos, vatn og íþróttadrykki og svo sælgæti. Ég hef verið að safna saman hópi fólks til að vinna fyrir mig, það þarf heilan her til þess að þetta gangi upp, svo þarf að panta allan matinn, þrífa húsið og ganga svo frá öllu saman. Ég gerði þetta í fyrra líka svo ég veit meira núna en þá að hverju ég geng og hvernig ég á að standa að hlutunum. Allur ágóðinn rennur til frjálsíþróttadeildarinnar svo þetta skiptir all verulegu máli. Það er spáð mjög góðu veðri og það hefur mikil áhrif á söluna, í fyrra var kalt en þurrt, núna á að vera hlýtt og þurrt. Karólína keppir ekki því hún er meidd, hún fer í MRI í fyrramálið, á sjálfan afmælisdaginn. Það verður gott að fá að vita nákvæmlega hvað það er sem hrjáir ökklann, íþróttalæknirinn og sjúkraþjálfarinn halda að núna sé það bein í bein sem orsakar sársaukann en við vitum meira á morgun. Allavega þá er hún í algerri hvíld í 10 daga og svo sjáum við til.

mánudagur, maí 02, 2005

Asatru

Ég hef verið að velta því fyrir mér í nokkurn tíma að gerast sjálfboðaliði í fangelsissjúkrahúsi hérna í bænum. Þetta er alríkisstofnum, sem þýðir það að afbrotafólk frá öllu landinu sem þurfa heilbrigðisþjónustu til lengri tíma halda til þarna. Ég fór inná heimsíðuna þeirra í gær til að athuga hvort og hvað vantaði af sjálfboðaliðum, ég er helst að velta fyrir mér lestrar- og stærðfræðikennslu. Efst á lista var auglýst eftir fólki með sérþekkingu á asatru. Auglýsingin hljóðaði svona "volunteer is needed to supervise male inmates incarcerated at the Federal Medical Center during the nature-based Asatru services and ceremonies. The volunteer must be a "subject matter expert" in Asatru." Það tók mig svolitla stunda að bera orðið "asatru" fram á íslensku og setja kommur á rétta staði og fá út Ásatrú, ég var ekki akkúrat að hugsa um Ísland og íslensku þegar ég var að lesa þetta. Ég er enn að velta fyrir mér hversu margir hérna í litla bænum Rochester hafa sérþekkingu á Ásatrú!

sunnudagur, maí 01, 2005

Sunnudagsmorgunkaffi

Mikið dómadags mikinn hausverk getur maður fengið af of mikilli kaffidrykkju. Við fengum nágranna okkar og góða vini í morgunkaffi í dag og ég þambaði alltof marga bolla af sterku kaffi yfir skemmtilegu spjalli og er núna að taka afleiðingunum sem eru dúndrandi hausverkur og eirðarleysi. Get bara alls ekki setið kyrr á mínum stóra botni. Ég ætti líklegast að koma mér í ræktina til að ná þessu úr mér, ég ætlaði að vinna í garðinum og æfa svo golfið mitt dulítið í dag en það er svo assgoti kalt, 6 stig og vindur svo ég held að innanhúss ræktin verði fyrir valinu. Veðrið stendur til bóta um miðja næstu viku þá á að fara aftur yfir 20 stigin, mikið hlakka ég til! Það verður væntanlega fínt á 17 ára afmælisdaginn hennar Karólínu á fimmtudaginn.