föstudagur, september 29, 2006

Ég er á leiðinni,
alltaf á leiðinni.......
til Íslands.
Í dag.

mánudagur, september 25, 2006

Kall minn er farinn til Rússlands í veiðiferð, hann sem veiðir svo sjaldan að hann hefur hvorki átt vöðlur né veiðibox á ævinni en nú brá svo við að hann skellti sér til Rússlands með góðum vinum í laxveiði. Það þurfti náttúrulega að kaupa inn fyrir ferðina og það var farið í Cabelas og keypt þessi lifandis ósköp af veiðidóti og hann fór albúinn í átökin. Ferðalagið var langt og mikið....Minnepolis, Keflavík, Stokkhólmur, Moskva, Murmansk, Umba allt í einni bunu. Ég reikna með að minn hafi verið orðinn þreyttur þegar í kofa var komið enda var hann á vakt alla síðustu viku, var kallaður út þrjár nætur í röð, gaf þrjá fyrirlestra og kláraði bókarkafla, þetta allt í viðbót við venjulega atið sem alltaf er á honum. Vonandi nær hann að hvílast, hann er hvorki með símasamband né tölvusamband....sem betur fer, þá er ekki hægt að ná í hann! Við hittumst svo á Íslandinu um næstu helgi. Ég er því hérna alein í kofanum og er að reyna að nota tækifærið til að skrifa og lesa og lesa og skrifa. Það gengur, ekki hratt en mjakast.

þriðjudagur, september 19, 2006

Ég held áfram að minnka. Ég skemmti mér mikið á föstudaginn þegar ég fór niður um eina buxnastærðina enn og ég þarf að búa til nýtt gat á beltið því ég er komin alla leið. Fjórum buxnastærðum minni en fyrir ári síðan. Ég veit ekki hversu lengi ég held þessu áfram, allavega fram í miðjan nóvember þegar ár er liðið frá því að ég byrjaði fyrir alvöru að taka sjálfri mér tak. Annars líkar mér þessi lífsstíll, ég veit svo sem ekki hvað á að kalla hann annað en heilbrigðan með mikilli hreyfingu og hollum en litlum mat. Það er voðalega notaleg tilfinning að stjórna gerðum sínum og athöfnum og að auki að vera létt í spori. Ég á samt ennþá 5 kíló eftir í takmarkið sem ég setti mér en þegar ég setti mörkin þá gerði ég mér enga grein fyrir hvernig ég myndi líta út við hverja vörðu og því var þetta sett svona bara-af-því-bara.

mánudagur, september 18, 2006

Mér dauðbrá í morgun þegar bankað var á rennihurðina útí garð. Ekki að það sé svo óvenjulegt en allir þeir sem eiga til að gera þetta eru farnir í skóla eða fluttir svo hjartað í mér fór á fleygiferð. Mér varð litið út og þar voru einir 15 kalkúnar á vappi á stéttinni minni og einn þeirra var að banka á gluggann. Hann sá eflaust spegilmynd sína og var óhress með nálægðina og goggaði í. Annar hafði hoppað uppá borðið, nokkrir að rífa upp grasið og enn aðrir að gera þarfir sínar. Ég þurfti ekki að gera mikið til að fæla þá í burtu, gekk í áttina að glugganum og ég er náttúrulega svo skelfileg kona að þeir hræddust og hurfu á braut.

laugardagur, september 16, 2006

Fyrirsögn í Mogga í dag:

"Leika án Jón Arnórs"

Eru nafnorðabeygingar orðnar úreltar í íslensku máli?

föstudagur, september 15, 2006

Skelfilegt var að lesa fréttir um dauðsföll í umferðinni á Íslandi í Mogganum í gær. Ég hef eingöngu lesið mbl.is fram að þessu en gerðist áskrifandi að Mogga og les því mitt blað á hverjum degi. Í gær var sumsé þessi umfjöllun og auglýsing með myndum af þeim sem látið hafa lífið það sem af er árinu. Mikil skelfing sem var að sjá. Þetta kemur reyndar ekkert ógnarlega á óvart því ég er með lífið í lúkunum þegar ég keyri á Íslandi, hvort heldur sem er í Reykjavík eða úti á vegum. Umferðin er mun rólegri á Akureyrinni minni. Það að keyra á 90-100 km hraða á þjóðvegunum þykir ekki nóg af alltof mörgum ökumönnum og það er flautað og blikkað til að láta vita að þessi hægakeyrsla er ekki góð lenska. Það sem mér finnst þó öllu verra er hversu stutt er á milli bíla í umferðinni útá þjóðvegunum. Það þykir ekkert tiltökumál að hafa nokkra metra á milli bíla þegar keyrt er á mikilli ferð, og þar með er ekkert pláss fyrir "mistök" eða hik, rétt eins og um rallakstur sé að ræða. Hér í Minnesota er notuð sú þumalfingursregla að hafa þrjár sekúndur á milli bíla og það má stoppa ökumenn sem keyra of nálægt, það heitir "tailgaiting" og þykir með því allra hættulegasta í umferðinni. Þetta er orðið svo fast í mínum huga að ef mér finnst ég vera of nálægt þá finn ég mér viðmið og byrja að telja og þegar ég geri þetta á Íslandi þá er það segin saga að það er flautað á mig og þegar ég virði fyrir mér aðra ökumenn þá er það viðburður ef ég get byrjað á einni sekúndu hvað þá tveimur eða þremur. Börnin mín eru ekki vön að keyra á Íslandi og ég er dauðskelkuð að vita af þeim á vegunum því þau eru ekki svona umferðarmenningu vön....so far so good....og ég held áfram að hræðast.

miðvikudagur, september 13, 2006

Haustið lætur á sér kræla þessa dagana. Það hefur rignt í fjóra daga, svona íslenskur rigningarsuddi og kalt, þetta 14, 15 stig. Nú fer hann hlýna aftur og á að vera 20-30 næstu vikuna og sól. Ég er ekki alveg tilbúin fyrir haustið, vil fá að hafa sumarið aðeins lengur. Stelpurnar eru í sínum skólum og hafa það fínt, báðum líður vel og við þessi gömlu höfum það líka gott, líður vel saman. Það verður ekki eins gaman í lok næstu viku þegar Halli fer til Rússlands og ég verð ein í rúma viku, en við hittumst svo á Íslandi eftir Rússíá og verðum að vinna á Lönguklöpp í viku, ekki svona skrifstofuvinnu heldur líkamlega vinnu við smíðar og annað viðhald. Það verður gott að gera.

laugardagur, september 09, 2006

Moldvörpurnar eru ennþá í garðinum. Kristín lagði til að við settum skilti við gangamunnan sem vinsamlegast benti moldvörpunum á að það væri bannað að grafa í garðinum okkar. Ég er að hugsa málið, þyrfti líklegast að lesa mér til í Andrés til að sjá hvað virkar.

fimmtudagur, september 07, 2006

Kristín fékk nýjan einstaklingsbát um daginn. Gamli báturinn var eyðilagður fyrr í sumar af #$%&/&%$# mönnum sem tóku hann í leyfisleysi. Þessi nýi er appelsínugulur eins og sjá má, voðalega fallegur bátur í alla staði. Þau feðgin lögðu af stað í langferðina í gær og eru þegar þetta er skrifað að kveðja Ohio og keyra inní Pennsylvania. Þau reikna með að komast inní Philadelphia þar sem Adam er um kvöldmatarleytið og keyra svo til Princeton eftir matinn. úfffffff þetta er langt ferðalag! Ég er hér ein í kotinu og verð að fara að venjast einverunni núna þegar allir eru farnir.

Kristín og báturinn Þór


Kristín og báturinn Þór, originally uploaded by Kata hugsar.

föstudagur, september 01, 2006

Það var gaman að lesa Aftenposten í gær og sjá að Munch verkin tvö eru fundin og komin á safnið aftur. Það var aftur á móti sorglegt að lesa blaðið í dag því þar var umfjöllun um hversu gott það er fjárhagslega fyrir landið að fá svona umfjöllun í heimspressunni. Þetta á tímum þegar Noregur þénar meira á dag í olíugróða en málverkin kosta. Ekki þar fyrir málverkin eru verðlaus í mínum huga, tvö af mínum uppáhaldsmálverkum, og mér finnst það móðgun að fjalla svona um þau. En mín skoðun skiptir náttúrulega engu máli frekar en fyrridaginn.

www.aftenposten.no:
"Meldingen om at maleriene ”Madonna” og ”Skrik” er i politiets hender, har gått som ildebrann over hele verden. Saken har fått fyldig dekning i flere store medier, og norske pr-eksperter er enige om at omtalen er verdt gull for Munch-museet og Norge... Vi snakker om en verdi på flere hundre millioner kroner, sier direktør for samfunnsavdelingen i Burson-Marsteller, Sigurd Grytten....Hvis du hadde ønsket å få like mye omtale av et nytt produkt ville det kostet deg 10 millioner kroner. Da ville du fått en større kampanje som kunne gått over en uke. I dette tilfellet snakker vi om redaksjonell omtale, og det regnes som tre til syv ganger så verdifullt som omtale gjennom reklame, sier Grytten."