Það er nú búið að vera stanslaust prógram hjá okkur síðan við komum til Íslands. Hver dagur hefur verið skipulagður frá morgni til kvölds. Það hefur sína kosti og galla. Kostirnir eru þeir að við komum miklu í verk en gallarnir eru þeir að við höfum lítinn tíma til að gera það sem okkur langar til þá stundina. Ekki að þetta hafi verið leiðinlegt, ó nei.
Það hefur verið ofsalega gaman. 30 ára júbíleringin var mjög skemmtileg, skírn, 80 ára afmæli tengdamömmu að ógleymdum gærdeginum sem fór í flúðasiglingu í Hvítá. Það var ótrúlega skemmtilegt. Þetta var fimmtugs afmælisgjöf til Halla frá tveimur dásemdarvinum og þvílík gjöf. Ég mæli með þessu.
Okkur varð náttúrulega óbærilega kalt í jökulánni og mér er svona rétt farið að hlýna almennilega núna 17 tímum eftir að við komumst í hús. En fegurðin frá ánni, spennan að róa niður flúðir, hmmm, þetta voru svo sem engar hetju flúðir sko, en hentuðu okkur byrjendunum vel, svo gufan, heit sturtan og heit súpa á eftir var vel til fundið eftir volkið.
Við erum dulítið eftir okkur í dag, það verður að viðurkennast, en ekki svo. Ég ætla að reyna að komast í ræktina, ef það tekst ekki þá ætla ég allavega að fara í góðan göngutúr/hjólatúr um borgina.