Viðvörunarbjöllurnar voru búnar að glymja í a.m.k. þrjú ár og það virðist vera að stjórnmálamenn hafi haft undir höndum alls konar upplýsingar sem hefðu átt að nægja til að mótmæla bankaþróuninni en enginn hafði döngun í sér til að gera eitthvað í málinu. Elsti bróðir minn kom með skýringu sem mér finnst vera afar líkleg. Hann sagði sem svo að þegar stjórnmálamönnum og peningamönnunum lenti saman útaf REI málinu og stjórnmálamönnunum tókst að stoppa útrásina þá hafi það sent skilaboð til allra stjórnmálamanna hvað gerðist þegar reynt var að stoppa liðið. Það fór allt í háaloft í Reykjavík og hausar fuku til hægri og vinstri og allra handa leynimakk komst uppá yfirborðið, óháð hvar í flokki menn og konur stóðu. Þetta varð til þess að stjórnmálamenn hreinlega þorðu ekki að fara í slag við útrásarliðið. Vald útrásarmanna kom svo greinilega í ljós og hvaða tögl og hagldir þeir höfðu á stjórnmálamönnum og ekki hvað síst hversu vel þeir voru búnir að koma sér fyrir innan allra flokka.
Þetta vald var hvergi skráð og var eins óformlegt og hægt er að hugsa sér nokkurt vald vera, en það var óhugnanlega mikið eftir sem áður. Þetta óformlega og óskráða vald sem útrásarliðið hafði finnst mér vanta í skýringar Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega á efnhagshruninu. Skýringar sem eru að öðru leyti mjög greinargóðar... að ég held, en hvað veit ég, fávís konan.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli