þriðjudagur, desember 09, 2008

Athugasemdir prófnefndarinnar minnar fara mér ekki úr huga. Tveir nefndarmanna skildu bara alls ekki íslenskt skólakerfi þar sem skólar eru ekki ábyrgir fyrir námsárangri nemenda. Þeir voru ekkert að tala um meiriháttar ábyrgð sem hefði miklar afleiðingar, eins og t.d. lokun skóla. Ég er þeim að mörgu leiti afskaplega sammála. Skólar ættu t.d. að hafa að markmiði að a.m.k. 60% nemenda í 4., 7. og 10. bekk næðu 5 í einkunn í hverju fagi (þetta eru tölur teknar úr lausu lofti. Ég þyrfti að rýna í tölur frá samræmdum prófum s.l. ár til að fá nothæfar tölur). Ef það tekst ekki þá á skólaskrifstofan að koma í skólann og athuga hvað er að og hjálpa skólanum með úrræði. Ef það tekst ekki þá þarf að fá aðstoð annarsstaðar frá. Börnin eiga ekki að þurfa að taka afleiðingum lélegrar kennslu eða stjórnunar alla ævi. Það verður að grípa inní ferlið. Sjálfsmatið getur verið stór hluti af sjálfsskoðun skólanna, en það er alveg sama hvernig við snúum uppá skólastarfið og gerum það að flóknu fyrirbæri, skólastarf snýst um nemendur og nám þeirra. Það snýst ekki um kennara eða annað starfsfólk. Það eru nemendur sem þurfa að lifa með afleiðingum skólagöngunnar alla ævi. Það er ekki skólinn eða kennarinn sem gera það.

Þetta yrði mesta jöfnun sem hægt væri að gera í samfélaginu. Að sjá til þess að öll börn fái
góða menntun. Ekki bara þau sem eru svo heppin að hafa góða stjórnendur og kennara.

Engin ummæli: