mánudagur, desember 22, 2008

Ég renndi lauslega yfir niðurstöður samræmdra prófa sem birtar voru í síðustu viku. Það sem mér þykir verðugt athugunarefni er hversu lélegar niðurstöður eru í ritun víða á landinu. Þar er greinilega verðugt verkefni. Útskriftarræðuna hjá mér um daginn hélt prófessor í vélaverkfræði og hann lagði úfrá því hvað sé nauðsynlegt í menntun hvers og eins. Þessi ágæti maður hefur fengið styrki frá ótrúlegustu stöðum heims og kennt og haldið mikið af fyrirlestrum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að það er alveg sama í hvaða fagi meistara- og doktorsnemar útskrifast, ritun sé eitt það miklvægasta úr okkar menntun og sá hluti hennar sem við eigum eftir að nota hvað mest. Það er afar nauðsynlegt að geta átt góð samskipti við fólk og nú á tímum hefur tölvutæknin gert það áríðandi að geta skrifað þannig að aðrir skilji, ritað stutt og hnitmiðað mál sem er rökrétt, málfræðilega rétt, og í samhengi við málefnið. 

Þessi umfjöllun hans á náttúrulega alls ekki bara við um meistara- og doktora. Þetta er kunnátta sem er öllum nauðsynleg, nánast alveg sama hvaða starfi er gegnt.

Með tölvutækni hefur lesskilningur orðið afar mikilvægur en til að geta miðlað hugmyndum og hugsunum, rætt málin, fært rök fyrir máli sínu og velt hlutunum fyrir sér í stóru samfélagi þar sem munnleg samskipti geta ekki alltaf átt sér stað þarf færni í ritun að vera í lagi. 

Eins og fyrrverandi yfirmaður minn sagði: "Writing is the ultimate organization of thought."

Engin ummæli: