Hinn maðurinn sem ég sá og er mér afskaplega minnisstæður var svona Kjarval, með samskonar flókahatt, pípu og stóra möppu sem gæti svo sannarlega hafa innihaldið málningatrönur. Þessi var greinilega utan við sig því hann gekk fram og til baka yfir götuna og var alls ekki viss um hvert hann var að fara. Ég var að hugsa um að stoppa og hjálpa manninum en hætti við. Ég kunni ekki við það. Kannski vissi hann hvað hann var að gera og hvert að fara en þurfti að skoða þetta allt eftir kúnstarinnar reglum. Kannski er hann hjátrúarfullur og þurfti að ganga þarna eftir götunni í réttri röð hlutanna. Gott hjá honum ef svo er, mér líkar sérkennilegir fuglar mannlífsins. Þeir gefa lífinu svo mikinn og fallegan lit. Rétt eins og vorið sem er svo sannarlega að láta sjá sig þessa dagana.
fimmtudagur, mars 19, 2009
Á ferð minni um bæinn í vorblíðunni í gær var margt fólk úti á göngutúr. Þar á meðal voru tveir karlmenn, hvor í sínu lagi og langt frá hver öðrum í tíma og rúmi. Sá fyrri var í ljósbrúnum frakka, með hatt og pípu. Nokkuð sem ég hef ekki séð í fjöldamörg ár. Hann minnti mig á "gömlu" kallana heima á Akureyri þegar ég var ung þegar þeir voru á stjái snemma á morgnana í Hafnarstrætinu á leið á pósthúsið eða bankann. Þeir tóku ofan þegar þeir heilsuðu, að ég held bara fyrir kvenfólki, en er þó ekki viss. Þetta voru t.d. Jón Sólnes, Jón Gúmm, Kobbi komm, og Jabob Frímanns. Afar virðulegir menn. Þetta með aldurinn er afstætt. Ef ég reyni nú að reikna út aldurinn þá voru þessi menn kannski hámark um sextugt þegar ég man fyrst eftir þeim.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli