sunnudagur, nóvember 30, 2008
Við vöknuðum við hríðarmuggu í morgun. Ósköp notalegt fyrsta sunnudag í aðventu. Morgunmatur með Mogga, kaffi og ristuðu brauði. Handþvoði svo ullarpeysur með Gunna Gunn og Des undir. Fyrstu jólalögin sem ég spila þetta árið. Það er vel við hæfi, þessi diskur er einn af mínum uppáhalds frá Íslandi. Ég er lítið gefin fyrir poppuð jól. Frekar vil ég norsk jólalög, t.d. Alf Prøysen, eða í raun alla vel flutta og óýkta jólatónlist.
föstudagur, nóvember 28, 2008
Mikið voðalega var ég stolt af mági mínum í kvöld. Hann stóð sig eins og hetja í Útsvarinu. Ég átti alls ekki von á öðru því hann er vel lesinn og afskaplega minnugur svo ekki sé talað um fróðleiksfús. Svo komu leikhæfileikar hans mér á óvart. Hann hefur tekið þátt í starfi leikfélagsins í bænum í nokkur ár og leikið aðalhlutverk með meiru en ég hef aldrei séð hann á sviði...nema þessu á Lönguklöpp í sumar.
fimmtudagur, nóvember 27, 2008
Í dag er Thanksgiving. Í fyrsta sinn er ekkert barnanna hjá okkur. Bjarni og Nicole eru hjá vinum sínum í Chicago og Kristín og Karólína eru saman í New York. Kristín þurfti að vinna og vegna þess að Adam fór heim þá hefði Kristín verið ein ef Karólína hefði ekki farið til hennar. Það gat litla systir ekki hugsað sér, og við ekki heldur, og því var ákveðið að Karólína væri hjá systur sinni og við hér heima. Við eigum ekki heimangengt vegna anna...er það ekki svona sem sagt er þegar fólk er upptekið. Við förum svo til vina okkar í kalkúninn í kvöld. Þetta er alltaf jafn notalegur dagur, engar gjafir, og ekkert tilstand annað en góður matur, bara samvera með vinum og vandamönnum.
þriðjudagur, nóvember 25, 2008
Mikið óskaplega er ég heppin að vera gift mínum besta vini.
Ef hann læsi þetta þá myndi hann reyndar vera mér algerlega sammála en hann er nú svo voðalega varkár að hann samþykkti aldrei svona skrif. Hann segist náttúrulega alls ekki vera örlaga trúar en honum finnst nú samt að með því að segja svona upphátt þá sé hætta á að illa fari og að ég eyðileggi allt með því að segja og skrifa svona svo aðrir sjái.
Hvað um það, ég er samt afskaplega heppin að vera gift mínum besta vini.
laugardagur, nóvember 22, 2008
Tuttugasti og sjötti brúðkaupsdagurinn okkar kom og fór án þess að við tækjum eftir því. Fimmtudagurinn var ein kaos frá upphafi til enda. Murphy´s law gilti allan daginn, það var alveg sama hvað ég gerði, það gekk ekkert upp og allt fór úrskeiðis sem hugsast gat. Það eina sem gerðist sem þurfti að gerast var að ég sendi ritgerðina inn til nefndarmanna. Allar 250 blaðsíðurnar. Aumingja þeir að þurfa að lesa þetta. Ég get nú ekki sagt að þetta sé skemmti lesning sem hentar vel til afþreyingar.
Ég komst á flugvöllin, nokkurnveginn á réttum tíma, því ekki missti ég af vélinni, en mikið hefði ég gefið fyrir að vita fyrir fram að hálftíma seinkun yrði því þá hefði ég getað hagað síðustu mínútunum aðeins öðruvísi. En það vissi ég ekki og náði næstum því að draga andann djúpt á flugvellinum. Til New York var ég komin um klukkan eitt um nóttina, og þegar ég reyndi að sofna þá var ég nálægt því að fá taugaáfall, ég nötraði öll og skalf af taugatitringi.
Í gær var samt hálfgerður dekurdagur hér í NYC. Ég labbaði um borgina í fjóra tíma á leið minni til og frá vinnustaðnum hennar Kristínar og að hitta Halla á milli fyrirlestra hjá honum. Á Equinox, vinnustaðnum hennar Kirstínar, fór ég svo og æfði í einn tíma áður en ég fór í nudd. En hún Kristín mín, þessi elska hafði pantað tíma fyrir mömmu gömlu hjá nuddara. Akkúrat það sem ég þurfti. Þetta var ótrúlega góður nuddari og ég meira að segja náði að slappa af, nokkuð sem ég hélt að myndi ekki takast fyrr en undir jól. Við enduðum svo daginn á Haru, dásamlegum sushi stað.
Í dag er hrikalega kalt, 5 stiga frost og vindur, og því verðum við eins lítið utandyra eins og hægt er. Sem er samt mikið því við göngum allt sem við þurfum og viljum komast.
miðvikudagur, nóvember 19, 2008
Ég er að drukkna í vinnu þessa dagana. Ekki bara að ég sé að klára síðustu innansleikjurnar í ritgerðinni heldur er ég með tvö verkefni í gangi á Mayo. Verkefnin áttu ekki að byrja fyrr en í næstu viku en vegna skipulagsvandræða þá byrjaði ég á mánudaginn og nú vinn ég 8 tíma á dag niður á Clinic og svo tekur vinna við hérna heima fram á nótt. Mikið voðalega verður gott að hoppa uppí flugvél annað kvöld á leið í helgarferð í New York. Það lítur reyndar út fyrir að ég verði mikið að vinna þar, þökk sé tölvu- og netöld. Það er hvergi friður nú orðið, alveg sama hvar maður er niður kominn það er alls staðar hægt að vinna.
föstudagur, nóvember 14, 2008
Ég viðurkenni að ég er mjög tvístígandi þegar kemur að aðstoð hins opinbera við einkafyrirtæki. Ég skil jú að íslenska ríkið er skuldbundið til að borga eigendum bankareikninga alla eða hluta upphæðarinnar sem á reikningum voru. Aftur á móti þá voru þessir bankar í einkaeigu og eigendurnir eiga að taka afleiðingum gerða sinna. Víst misstu þeir allt fé sem þeir áttu í bönkunum en þeir þurfa eftir sem áður ekki að taka afleiðingunum með því að borga út innistæðurnar. Mér finnst að eigendur reikninganna, hinn almenni jón og ég, eigi rétt á að fá útborgaða sína aura, en mér finnst ekki að skattgreiðendur eigi að borga brúsann...oft þeir hinir sömu og eiga reikningana.
Að sama skapi er ég mjög tvístíga gagnvart bílaframleiðendum hér í landi. Undir þeirra hatti eru 10% starfa í landinu og ef þeir fara á hausinn þá hefur það ótrúleg neikvæð áhrif á marga, sérstaklega þá eldri sem unnið hafa hjá þessum fyrirtækjum í áratugi. Þeir missa öll sín eftirlaun og tryggingar. Aftur á móti þá finnst mér fjandi hart að þessi fyrirtæki fái hjálp vegna þess að þau hafa hannað skelfilega bíla í áratugi sem enginn vill kaupa. Allavega ekki nógu margir, það er jú ástæðan fyrir því að þau eru á hausnum. Þau hafa verið illa rekin og framleitt vöru sem ekki selst. Af hverju á svo að verðlauna þessi fyrirtæki fyrir lélegan rekstur og skelfilega vöru. Þeir þurfa fyrst að sýna að þeir geti hannað og framleitt bíla sem kaupendur vilja eignast áður en þeir fá einhverjar trilljónir til þess eins að halda áfram að hjakka í sömu sporunum.
En þá eru það hinn almenni starfsmaður sem situr í súpunni, rétt eins og á Íslandi þar sem hinn almenni kaupandi þjónustu bankanna situr í súpunni.
Það hlýtur að vera til einhver millivegur þar sem tryggt verði að eldri starfsmenn og eftirlaunþegar fái það sem þeim ber en eigendur hvattir/þvingaðir til að taka afleiðingum gerða sinna og ákvarðana.
fimmtudagur, nóvember 13, 2008
miðvikudagur, nóvember 12, 2008
Klukkan er rúmlega sex að morgni, Halli er löngu farinn í vinnuna og ég sit hér yfir Moggalestri dagsins. Úti er rétt um frostmark en þoka og hált á götum. Ég er á leið til Minneapolis í dag á fyrirlestur og fund með leiðbeinandanum mínum. Ef allt gengur upp þá verður þetta einn af okkar síðustu fundum fyrir vörn. Hún sendi mér reyndar tölvupóst í gær og vildi fresta fundi fram í næstu viku því hún hefur ekki litið á síðasta kaflann ennþá sem ég sendi henni í síðustu viku. Ég sagði henni að ég væri að fara á fyrirlestur og því yrði ég í bænum svo við sjáum til hvað setur. Vonandi er þetta ekki merki um að ég verði að fresta vörninni. Ég get ekki sent ritgerðina til nefndarinnar fyrr en Jean er búin að leggja blessun sína yfir hana og ritgerðina verða nefndarmenn að fá í hendurnar tveim vikum fyrir vörn.
Lokaspretturinn.
mánudagur, nóvember 10, 2008
Helgin var yndisleg með góða gesti í heimsókn. Við bruggðum okkur í Amish byggðir á laugardaginn. Keyrðum um sveitirnar og horfðum á þau vinna haustverkin. Undirbúa akrana fyrir veturinn með uxa fyrir plógnum. Gera við girðingar án véla, og keyra um í vögnunum með hesta til reiðar. Öll klædd í svart eða blátt. Konurnar í skósíðum svörtum kjólum, með bláa svuntu og með svart höfuðfat og karlmenn í bláum vinnufötum með annaðhvort svartan eða ljósan hatt á höfði. Svo fórum við í verslun í þorpinu sem selur bútasaumsteppi, dúkkur og körfur handgert af Amish fólkinu. Mér finnst alltaf jafn gaman að fara þangað niðureftir, en þetta er svolítið eins og að horfa á dýr á sýningu. En Amish heillar mig, sagan þeirra og lifnaðarhættir. Mismundandi trúfélög innan Amish og rökin sem færð eru fyrir lífsstílnum. Ekki það, þau þurfa ekkert að réttlæta eitt eða neitt. Svona lifa þau sínu lífi og ekkert við það að athuga og kemur mér og öðrum samborgurum akkúrat ekkert við.
Einfaldleikinn heillar mig, en ekki líf án rafmagns eða annarra nútíma þæginda.
Nægjusemin er til eftirbreytni.
föstudagur, nóvember 07, 2008
Fyrsti snjór haustsins féll í morgun. Við höfum fengið fjúk fyrr í haust en ekkert sem hefur sést á jörðunni, en nú er sumsé komin smá föl. Meira en grátt í rót. Snjórinn er samt ekki kominn til að vera því það á að hlýna eftir helgina.
Prestshjónin í Akureyrarkirkju eru að koma til okkar í dag. Þau ætluðu að eyða vetrinum við rannsóknir í Winnipeg og hafa verið þar í góðu yfirlæti síðan í sumar en vegna hruns krónunnar þá er eitthvað óljóst með framhaldið. Prestsfrúin og Halli eru náskyld, mamma hennar og Halli eru systkinabörn í gegnum Brún. Þau eru með tvö lítil börn og það verður gaman að fá líf í húsið. Það gæti reyndar verið erfið keyrsla framundan hjá þeim því það er slæmt veður í Norður Dakóta, stórhríð að mér skilst. En þau eru ýmsu vön eftir nokkur ár í Ólafsvík, vetrarpart á Lönguklöpp, og nokkur ár á Akureyri. Ég ætla því að baka í dag. Ég sendi síðasta kaflann til leiðbeinandans í gær svo ég verð í fríi frá skrifum um helgina og ætla að njóta þess að hafa fólk í heimsókn.
fimmtudagur, nóvember 06, 2008
Hún mamma mín blessunin er 77 ára í dag. Henni hefur farið mikið aftur á síðustu árum. Þessi glæsilega kona sem spilaði golf uppá hvern dag sem mögulega hægt var, fór á skíði eins og oft og tækifæri var, og oftast meira en það, skálmaði um bæinn þveran og endilangan og stundaði svo jóga þess í milli er ekki svipur hjá sjón, hvorki andlega né líkamlega. Þrátt fyrir veika líkamlega burði þá er hún enn oftast glæsileg og vel til fara. Ég er að reyna að læra af hennar mistökum í lífinu. Við erum afskaplega líkar líkamlega og ég vona að ég hafi unnið heimavinnuna mína nógu vel til að lenda ekki í sömu kröm og hún. Bakið, mjaðmirnar, og nú hnén, er allt öfugt og snúið, bogið og brotið. En alltaf er hún jafn dugleg við handavinnuna sína. Það eru ófá listaverkin sem komið hafa úr hennar höndum og enn er hún að. Hún var að klára rúmteppi fyrir Kristínu. Hún hefur heklað líklega hátt á anna tug teppa en þetta slær öllum við. Það er með ólíkindum hvað hún er dugleg að sitja við að hekla og prjóna, og allt er þetta listavel gert. Það hefur ekki breyst.
miðvikudagur, nóvember 05, 2008
Nú byrjar nýr kafli í sögu þessa ágæta lands sem við búum í. Allir sem ég hef talað við í morgun voru enn með gæsahúð af gleði yfir sigri Obama. Ein af bestu vinkonum Karólínu er svört og mamma hennar hágrét í allt gærkvöld. Kristín sagði mér af fólksmergð í New York borg sem hrópaði og kallaði af gleði. Fjöldinn allur með streymandi tár niður vangana. Þetta breytir öllu hér í landinu og verður vonandi til þess að svartir sem og aðrir minnihlutahópar fái það sjálfstraust og sjálfsvirðingu sem þarf til að ná árangri.
mánudagur, nóvember 03, 2008
Kosningar á morgun, loksins, loksins. Þá hættir vonandi skítkastið. Tvennar kosningar hérna í Minnesota eru afar ljótar. Ekki um forsetann því Obama hefur mikið forskot. Ekki það að við séum laus við skítkast McCain, en það er allavega ekki eins yfirþyrmandi eins og mér skilst að það sé í, t.d. North-Carolina. Hér eru það kosningar fyrir US Senate sem eru ljót. Sérstaklega á milli Norm Coleman og Al Franken. Coleman hefur notað allar þær ljóstustu aðferðir sem til eru í bókinni. Hin kosningin er á milli Michelle Bachman og Al Tinklenberg. Bachman er bókstafstrúar áhangandi Bush númer eitt (Coleman er númer tvö) hefur verið svo arfaléleg í kosningabaráttunni að það hefur verið allt að því pínlegt að fylgjast með henni. Hún hélt því fram að fall peningamarkaða væri vegna of mikils eftirlits og of þröngrar löggjafar. Jamm, enda hlógu allir sem á horfðu. Hún hélt því líka fram að Obama væri "anti-american" og það ætti í raun að fara fram rannsókn á því hverjir þingmanna væru "anti-american" því það væri til skammar að hafa þingmenn sem væru "anti-american" skv. hennar skilgreiningu. McCarthy-ismi endufæddur. Það á sumsé að koma upp svörtum lista yfir þá sem eru óvinir ríkisins.
Þetta skítkast endurspeglar náttúrulega það fyrirbæri að þeir sem eiga undir högg að sækja nota öll brögð til að ná sér upp, ljót sem önnur. Lygar og hálfur sannleikur og allt sem þeim fylgir.
sunnudagur, nóvember 02, 2008
Klukkunni var breytt í nótt. Við græddum einn klukkutíma. Það er allt eitthvað svo öfugsnúið dagana á eftir klukkubreytingum. Klukkan er rétt rúmlega fjögur og sólin er að hverfa bakvið trén og mér finnst eins og ég eigi að fara að huga að kvöldmat en það er enn langt í hann. Annars var 22 stiga hiti í dag og við fórum í langan göngutúr og svo fór ég út og þvoði gluggana á neðri hæðinni að utan. Við vöfðum eplatrén og hlyninn með striga til að verja fyrir kali og svo blessuðum dádýrunum.
Svona á veðrið að vera fram eftir vikunni en svo koma skörp kuldaskil í miðri viku og kannski snjóar á fimmtudaginn.
Annika litla var hjá okkur í nótt því mamma hennar og pabbi fóru á tónleika í Minneapolis. Það er svo gaman að hafa svona lítið stýri í heimsókn. Hún er geðgóð og ljúf í umgengni og hún lyftir upp lífinu hérna hjá okkur. Hún var hérna fram eftir morgni þegar Halli fór að fljúga og við vorum hér í góðu yfirlæti. Nú er læknisvottorðið hans Halla loksins komið í gengum kerfið hjá FAA og hann fer að fljúga aleinn í næstu viku.
Lífið mjakast því áfram sinn vanagang með smá skrefum framávið.
Fimm vikur í vörn
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)