föstudagur, nóvember 07, 2008

Fyrsti snjór haustsins féll í morgun. Við höfum fengið fjúk fyrr í haust en ekkert sem hefur sést á jörðunni, en nú er sumsé komin smá föl. Meira en grátt í rót. Snjórinn er samt ekki kominn til að vera því það á að hlýna eftir helgina.

Prestshjónin í Akureyrarkirkju eru að koma til okkar í dag. Þau ætluðu að eyða vetrinum við rannsóknir í Winnipeg og hafa verið þar í góðu yfirlæti síðan í sumar en vegna hruns krónunnar þá er eitthvað óljóst með framhaldið. Prestsfrúin og Halli eru náskyld, mamma hennar og Halli eru systkinabörn í gegnum Brún. Þau eru með tvö lítil börn og það verður gaman að fá líf í húsið. Það gæti reyndar verið erfið keyrsla framundan hjá þeim því það er slæmt veður í Norður Dakóta, stórhríð að mér skilst. En þau eru ýmsu vön eftir nokkur ár í Ólafsvík, vetrarpart á Lönguklöpp, og nokkur ár á Akureyri. Ég ætla því að baka í dag. Ég sendi síðasta kaflann til leiðbeinandans í gær svo ég verð í fríi frá skrifum um helgina og ætla að njóta þess að hafa fólk í heimsókn.

Engin ummæli: