mánudagur, nóvember 10, 2008

Helgin var yndisleg með góða gesti í heimsókn. Við bruggðum okkur í Amish byggðir á laugardaginn. Keyrðum um sveitirnar og horfðum á þau vinna haustverkin. Undirbúa akrana fyrir veturinn með uxa fyrir plógnum. Gera við girðingar án véla, og keyra um í vögnunum með hesta til reiðar. Öll klædd í svart eða blátt. Konurnar í skósíðum svörtum kjólum, með bláa svuntu og með svart höfuðfat og karlmenn í bláum vinnufötum með annaðhvort svartan eða ljósan hatt á höfði. Svo fórum við í verslun í þorpinu sem selur bútasaumsteppi, dúkkur og körfur handgert af Amish fólkinu. Mér finnst alltaf jafn gaman að fara þangað niðureftir, en þetta er svolítið eins og að horfa á dýr á sýningu. En Amish heillar mig, sagan þeirra og lifnaðarhættir. Mismundandi trúfélög innan Amish og rökin sem færð eru fyrir lífsstílnum. Ekki það, þau þurfa ekkert að réttlæta eitt eða neitt. Svona lifa þau sínu lífi og ekkert við það að athuga og kemur mér og öðrum samborgurum akkúrat ekkert við.

Einfaldleikinn heillar mig, en ekki líf án rafmagns eða annarra nútíma þæginda. 

Nægjusemin er til eftirbreytni.

Engin ummæli: