fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Hún mamma mín blessunin er 77 ára í dag. Henni hefur farið mikið aftur á  síðustu árum. Þessi glæsilega kona sem spilaði golf uppá hvern dag sem mögulega hægt var, fór á skíði eins og oft og tækifæri var, og oftast meira en það, skálmaði um bæinn þveran og endilangan og stundaði svo jóga þess í milli er ekki svipur hjá sjón, hvorki andlega né líkamlega. Þrátt fyrir veika líkamlega burði þá er hún enn oftast glæsileg og vel til fara. Ég er að reyna að læra af hennar mistökum í lífinu. Við erum afskaplega líkar líkamlega og ég vona að ég hafi unnið heimavinnuna mína nógu vel til að lenda ekki í sömu kröm og hún. Bakið, mjaðmirnar, og nú hnén, er allt öfugt og snúið, bogið og brotið. En alltaf er hún jafn dugleg við handavinnuna sína. Það eru ófá listaverkin sem komið hafa úr hennar höndum og enn er hún að. Hún var að klára rúmteppi fyrir Kristínu. Hún hefur heklað líklega hátt á anna tug teppa en þetta slær öllum við. Það er með ólíkindum hvað hún er dugleg að sitja við að hekla og prjóna, og allt er þetta listavel gert. Það hefur ekki breyst.

2 ummæli:

Guðný Pálína sagði...

Til hamingju með mömmu þína Kata mín. Það getur verið erfitt að horfa á foreldra sína eldast og hætta að líkjast sjálfum sér. Ég var einmitt að skoða gamlar myndir um daginn, meðal annars frá því þegar ég varð stúdent 1988 og þá voru nokkrar myndir af mér með mömmu og pabba. Á þessum tíma var pabbi alveg kominn út úr heiminum og vissi ekkert hvað var að gerast. Eins skrýtið og það hljómar þá fannst mér það ekkert erfitt á þessum tíma en núna fannst mér það allt í einu hálf sorglegt. Hm, og nú veit ég ekki af hverju ég fór að skrifa þessa langloku hér í kommentakerfið hjá þér... Allavega, bestu kveðjur "að heiman" :-)

Katrin Frimannsdottir sagði...

Þakka þér fyrir kveðjuna Guðný mín. Mér finnst líka mjög erfitt að skoða myndir af mömmu. Það sést svo vel á mörgum myndanna hversu tóm hún virðist. Og það er ekki líkt henni mömmu eins og hún var.