föstudagur, nóvember 14, 2008

Ég viðurkenni að ég er mjög tvístígandi þegar kemur að aðstoð hins opinbera við einkafyrirtæki. Ég skil jú að íslenska ríkið er skuldbundið til að borga eigendum bankareikninga alla eða hluta upphæðarinnar sem á reikningum voru. Aftur á móti þá voru þessir bankar í einkaeigu og eigendurnir eiga að taka afleiðingum gerða sinna. Víst misstu þeir allt fé sem þeir áttu í bönkunum en þeir þurfa eftir sem áður ekki að taka afleiðingunum með því að borga út innistæðurnar. Mér finnst að eigendur reikninganna, hinn almenni jón og ég, eigi rétt á að fá útborgaða sína aura, en mér finnst ekki að skattgreiðendur eigi að borga brúsann...oft þeir hinir sömu og eiga reikningana.

Að sama skapi er ég mjög tvístíga gagnvart bílaframleiðendum hér í landi. Undir þeirra hatti eru 10% starfa í landinu og ef þeir fara á hausinn þá hefur það ótrúleg neikvæð áhrif á marga, sérstaklega þá eldri sem unnið hafa hjá þessum fyrirtækjum í áratugi. Þeir missa öll sín eftirlaun og tryggingar. Aftur á móti þá finnst mér fjandi hart að þessi fyrirtæki fái hjálp vegna þess að þau hafa hannað skelfilega bíla í áratugi sem enginn vill kaupa. Allavega ekki nógu margir, það er jú ástæðan fyrir því að þau eru á hausnum. Þau hafa verið illa rekin og framleitt vöru sem ekki selst. Af hverju á svo að verðlauna þessi fyrirtæki fyrir lélegan rekstur og skelfilega vöru. Þeir þurfa fyrst að sýna að þeir geti hannað og framleitt bíla sem kaupendur vilja eignast áður en þeir fá einhverjar trilljónir til þess eins að halda áfram að hjakka í sömu sporunum. 

En þá eru það hinn almenni starfsmaður sem situr í súpunni, rétt eins og á Íslandi þar sem hinn almenni kaupandi þjónustu bankanna situr í súpunni. 

Það hlýtur að vera til einhver millivegur þar sem tryggt verði að eldri starfsmenn og eftirlaunþegar fái það sem þeim ber en eigendur hvattir/þvingaðir til að taka afleiðingum gerða sinna og ákvarðana.

Engin ummæli: