miðvikudagur, janúar 07, 2009

Ég viðurkenni það að ég hef verið vantrúuð á að aðild að ESB yrði góð fyrir Ísland en eftir ófarir haustsins þá fór ég að skoða málið með opnari huga. Aðalástæða vantrúar minnar er kostnaður við alríkisstjórnina hér í landi og það peningabruðl sem viðgengst þar. Víst fær Minnesota stuðning í allskonar málum frá alríkistjórninni, t.d. NIH og menntun en mér finnst svo lítil virðing borin fyrir þeim peningum sem alríkisstjórnin hefur til umráða. Þeir peningar koma frá fylkjunum og okkur skattborgurunum en stjórnmálamennirnir í Washington hafa notað þá í ríkum mæli til að styðja vini og vandamenn og pólitíska stuðningsmenn í gegnum allrahanda bitlinga. Við borgum nefnileg 17% skatt af heildarlaunum til ríkisins og það eru miklar upphæðir. Ef þetta yrði þróunin á Íslandi þá yrði þetta viðbót við núverandi skatta, kannski ekki 17% en allavega 10% get ég ímyndað mér. Ég held að þetta sé vegna fjarlægðar, andlegrar og líkamlegrar, frá skattborgurunum og peningarnir verða þannig ekki tengdir fólki og vinnu þess heldur einhverju óskyldu og ótengdu.

Í Mogga í dag er tvennt sem ég rak augun í og er grundvallar atriði í hugmyndafræðinni að mér finnst. Í fyrsta lagi segir Jurgen Stark: "Þegar allt kemur til alls, þá er gjaldmiðill grunnþáttur fullveldis. Að deila sameiginlegum gjaldmiðli felur í sér að deila sameiginlegri pólitískri framtíð." Sumsé erum við til í að deila okkar pólitísku framtíð með hinum einstöku ríkjum ESB. Ég las reyndar grein um helgina eftir lagaprófessor sem ég man ekki hvað heitir þar sem hann ræðir muninn á fullveldi og sjálfstæði og hvað hvert hugtak þýðir og ég hef á tilfinningunni að við séum að gefa frá okkur stóran hluta sjálfstæðisins.

Hitt atriðið er : "Og þar sem ákvarðanir í myntbandalaginu væru teknar út frá hagsmunum svæðisins í heild, en ekki staðbundnum hagsmunum, þá þyrfti að tryggja að efnahagur hvers ríkis væri nógu traustur fyrir myntbandalagið." Væri þá ekkert tillit tekið til sérstöðu Íslands? Samkvæmt þessu þá skipti sérstaðan litlu máli því hagsmunir allra koma á undan sérhagsmunum landa. Og pínkulitla Ísland með 0.012% meðlima fjölda væri í hættu að verða kaffært. 

Svo er náttúrulega stóra spurningin hvort við hreinlega verðum að vera aðilar einmitt vegna smæðarinnar og því verður að láta tilfinningamál lönd og leið því við hreinlega getum ekki staðið utan ESB, þannig yrðum enn meira kaffærð.

Og áfram les ég!

Engin ummæli: