miðvikudagur, desember 31, 2008

Aldrei hef ég strengt áramótaheit. Nákvæmlega hvers vegna veit ég ekki, ég hef ekki fundið neina þörf hjá mér að gera það. Hér þykir það sjálfsagt mál að strengja heit og fólki er oft brugðið þegar ég segist ekki hafa gert neitt slíkt. Ég hef oft tekið ákvarðanir um að breyta einu og öðru og mjög oft hef ég staðið við það en það hefur aldrei verið á ármótum. Þegar ég breytti um lífsstíl fyrir rúmlega þremur árum síðan þá urðu bæði næringarráðgjafinn og þjálfarinn minn hissa á tímasetningunni; byrjun nóvember, rétt fyrir Thanksgiving og jólamánuðinn. Báðar spurðu hvort ég væri viss um að ég vildi byrja á þessu svona rétt fyrir matarhátíðar ársins. Báðar spurðu mig svo seinna meir hvort ég hefði strengt áramótaheit...árið áður. Fyrra svarið var já og hið síðara nei. 

Þjálfarinn velti því oft fyrir sér hvað hafi orðið til þess að ég ákvað að breyta til og þeirri spurningu hef ég líka oft velt fyrir mér en ég hef ekki hugmynd af hverju. Ég hef aldrei á ævinni farið í megrun og ég hafði ekki velt þessu fyrir mér lengi, ég hafði svona leitt að þessu hugann og svo var ég að lesa bókina sem kemur frá Ræktinni og þar var prógram sem mig langaði að prófa og það gerði ég. Það var hvorki flóknara né einfaldara en það. 

Ég hreinlega hef ekki hugmynd hvað það ætti að vera ef ég skildi nú strengja áramótaheit í kvöld en það er af miklu að taka ef ég lít á það sem leið til betrunar.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla. Hittumst heil á nýju ári, árinu sem ég verð fimmtug!

mánudagur, desember 29, 2008

Ég var orðin heldur grönn þegar að vörninni kom en svo fór ég að slappa af og borða aftur, en ég hef hins vegar ekki verið nógu dugleg að fara í ræktina og hef því bætt á mig og það líkar mér ekki. Ég hef bara farið 3-4 sinnum í viku í ræktina, og stundum bara einn klukkutíma í senn, og það er ekki nóg. Ég þarf að fara 6 sinnum í viku til að vel sé og þá 1 1/2 til 2 1/2 í einu. Nú er komið að því að bæta úr þessu og í gær byrjaði ég að æfa almennilega aftur en það virðist ætla að verða einhver bið á minnkandi áti. Það voru að vísu afgangar í kvöldmatinn en það voru náttúrulega kjötafgangar, sósur, kartöflur, og allskonar gúmmulaði sem ekki er gott fyrir mig. Í staðinn fyrir að henda afgöngunum þá lék ég ruslatunnu!

Úfff, það verður átak að venja mig af kjöti og sætindum.

laugardagur, desember 27, 2008

Það sem við höfum haft það gott um hátíðarnar. Því miður þá tekur allt svona sæluástand enda um síðir og hér í landi eins-dags-jóla þá er ekkert til sem heitir romjul eins og í Noregi eða 13 dagar jóla eins og á Íslandi. Nei, einn dagur skal það vera og hann er kominn og farinn. Við höldum uppá á okkar jól að íslenskum sið svona eins og hægt er en Kristín fer til New York í fyrramálið því hún byrjar að vinna á morgun. Karólína verður þó eftir og fer ekki fyrr en þann 4. janúar. Hún á ein jól eftir enn þangað til vinna tekur við hjá henni og þá er nú ekki gott að vita hvert lífið tekur hana í lífsdansinum. 

Það hefur verið ógnar kalt hér, þangað til í gærmorgun þá brá svo við að hiti fór yfir frostmark og það varði í allan gærdag. Við Halli fórum í mat til vina okkar í Minneapolis í gærkveldi og það var mjög erfitt að keyra uppeftir því það var svarta þoka vegna uppgufunar. Við skiptumst á að keyra því við þreyttumst fljótt við að einbeita okkur við það eitt að hnikast áfram. Ég var mest hrædd við dádýr en Halli við bíla sem keyrðu hægar en við, og merkilegt nokk þá gerðist það nokkrum sinnum og lúsuðumst við þó. Heim komum við heilu og höldnu rétt um miðnætti eftir yndislegt kvöld í vinahópi þar sem norska var aðal-tungumálið. 

mánudagur, desember 22, 2008

Ég renndi lauslega yfir niðurstöður samræmdra prófa sem birtar voru í síðustu viku. Það sem mér þykir verðugt athugunarefni er hversu lélegar niðurstöður eru í ritun víða á landinu. Þar er greinilega verðugt verkefni. Útskriftarræðuna hjá mér um daginn hélt prófessor í vélaverkfræði og hann lagði úfrá því hvað sé nauðsynlegt í menntun hvers og eins. Þessi ágæti maður hefur fengið styrki frá ótrúlegustu stöðum heims og kennt og haldið mikið af fyrirlestrum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að það er alveg sama í hvaða fagi meistara- og doktorsnemar útskrifast, ritun sé eitt það miklvægasta úr okkar menntun og sá hluti hennar sem við eigum eftir að nota hvað mest. Það er afar nauðsynlegt að geta átt góð samskipti við fólk og nú á tímum hefur tölvutæknin gert það áríðandi að geta skrifað þannig að aðrir skilji, ritað stutt og hnitmiðað mál sem er rökrétt, málfræðilega rétt, og í samhengi við málefnið. 

Þessi umfjöllun hans á náttúrulega alls ekki bara við um meistara- og doktora. Þetta er kunnátta sem er öllum nauðsynleg, nánast alveg sama hvaða starfi er gegnt.

Með tölvutækni hefur lesskilningur orðið afar mikilvægur en til að geta miðlað hugmyndum og hugsunum, rætt málin, fært rök fyrir máli sínu og velt hlutunum fyrir sér í stóru samfélagi þar sem munnleg samskipti geta ekki alltaf átt sér stað þarf færni í ritun að vera í lagi. 

Eins og fyrrverandi yfirmaður minn sagði: "Writing is the ultimate organization of thought."

fimmtudagur, desember 18, 2008

Það er erfitt að flytja slæmar fréttir, því hef ég fundið fyrir síðustu daga. Ég er að skila af mér úttekt á deild sem á í miklum vandræðum og það kom í ljós að ástæðurnar eru tvískiptar. Annarsvegar eru það lélegir stjórnendur sem nota hræðslupólitík til að halda staffinu í skefjum og á hinn bóginn eru það stjórnendur sem ekki valda starfinu við mjög erfiðar aðstæður. Stjórnendur sem vilja hafa puttana í öllu og segja öllum fyrir verkum, og það í smáatriðum. Engum er treyst og enginn virðist kunna til verka nema stjórnendur, að þeirra eigin áliti. Allir aðrir eiga að skila af sér skýrslum í tíma og ótíma um gang mála, tíma sem væri mun betur varið í að vinna verkin sem þarf að klára. Þessum niðurstöðum er ég að skila af mér til þessara stjórnenda. Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem ég skila svona erfiðum niðurstöðum af mér, en svei mér þá þetta venst aldrei. Kannski sem betur fer því þá væri ég orðin köld inn við hjartarætur. Þetta er ekki vont fólk. Það bara kann ekki til verka og undirmenn blæða fyrir með vanlíðan og stressi. Erfiðasta viðtalið er eftir, það er stjórnandi sem notar eineltisaðferðir. Það viðtal er í fyrramálið.

miðvikudagur, desember 17, 2008

Vetrarmorgun


Vetrarmorgun
Originally uploaded by Kata hugsar
Eftir snjókomu gærdagsins þá er óskapleg vetrarfegurð úti. Þessar myndir eru teknar við sólaruppkomuna rétt fyrir 8 í morgun.

Vetrarmorgun


Vetrarmorgun
Originally uploaded by Kata hugsar

mánudagur, desember 15, 2008

Það er 22 stiga frost úti og "rok". Það gerir -37 með vindkælingu. Það er fjandi kalt barasta. Við fórum til Minneapolis í gær á jólabarnaball Íslendingafélagsins. Ég sé alltaf um sönginn og dansinn á þeim ágæta fagnaði. Þegar við lögðum af stað var 6 stiga hiti, nokkuð sem er afar óvenjulegt í desember. Þegar við komum heim í gærkveldi var komið 17 stiga frost...23 stiga munur frá hádegi til 8 að kvöldi. Nú er komið kuldakast og hann gæti farið í -30 í fyrramálið og svo fer að snjóa seinnipartinn á morgun. 

Alvöru vetur hjá okkur á sléttunni miklu.

laugardagur, desember 13, 2008

Útskriftin var í gær og það kom mér verulega á óvart hversu vel ég naut hennar og hvað ég varð eitthvað "tilfinningalega viðkvæm" þegar ég gekk inní salinn. Það var yndislegt að hafa alla grunn fjölskylduna saman, en það vantaði jú Adam og það var leiðinlegt en hann er í miðjum prófum og ef það er einhver sem skilur að nám komi fyrst þá er það ég.

Eftir útskrift fórum við öll á Ruth´s Chris Steakhouse og nutum góðs matar og hvers annars í hvívetna.

Ég átta mig á að vera búin einhverntíma seinna. Það er ekki komið ennþá.

Útskrift frá University of Minnesota


Gömlu hjónin


Gömlu hjónin
Originally uploaded by Kata hugsar

fimmtudagur, desember 11, 2008

Stelpurnar mínar koma heim í dag. Ég hlakka svo til. Miklu meira til þess að fá þær heim en að útskrifast. Það verður samt yndislegt að hafa alla fjölskylduna hjá mér á morgun. 

Það er óskaplega fallegt úti. Sól, logn og snjór yfir öllu. Ég fór út í smá göngutúr í morgun við sólarupprás um klukkan 7:30, og það brakaði svo fallega í snjónum, morgunloftið var svo tært, grenitrén þakin, trjágreinar eikartrjánna alsettar snjó og dádýr á hlaupum.

Ég sakna þess svo oft að kenna ekki á skíði lengur. Þá fór ég út á hverjum morgni, hvernig sem viðraði, og var úti í nokkra klukkutíma. 


þriðjudagur, desember 09, 2008

Athugasemdir prófnefndarinnar minnar fara mér ekki úr huga. Tveir nefndarmanna skildu bara alls ekki íslenskt skólakerfi þar sem skólar eru ekki ábyrgir fyrir námsárangri nemenda. Þeir voru ekkert að tala um meiriháttar ábyrgð sem hefði miklar afleiðingar, eins og t.d. lokun skóla. Ég er þeim að mörgu leiti afskaplega sammála. Skólar ættu t.d. að hafa að markmiði að a.m.k. 60% nemenda í 4., 7. og 10. bekk næðu 5 í einkunn í hverju fagi (þetta eru tölur teknar úr lausu lofti. Ég þyrfti að rýna í tölur frá samræmdum prófum s.l. ár til að fá nothæfar tölur). Ef það tekst ekki þá á skólaskrifstofan að koma í skólann og athuga hvað er að og hjálpa skólanum með úrræði. Ef það tekst ekki þá þarf að fá aðstoð annarsstaðar frá. Börnin eiga ekki að þurfa að taka afleiðingum lélegrar kennslu eða stjórnunar alla ævi. Það verður að grípa inní ferlið. Sjálfsmatið getur verið stór hluti af sjálfsskoðun skólanna, en það er alveg sama hvernig við snúum uppá skólastarfið og gerum það að flóknu fyrirbæri, skólastarf snýst um nemendur og nám þeirra. Það snýst ekki um kennara eða annað starfsfólk. Það eru nemendur sem þurfa að lifa með afleiðingum skólagöngunnar alla ævi. Það er ekki skólinn eða kennarinn sem gera það.

Þetta yrði mesta jöfnun sem hægt væri að gera í samfélaginu. Að sjá til þess að öll börn fái
góða menntun. Ekki bara þau sem eru svo heppin að hafa góða stjórnendur og kennara.

mánudagur, desember 08, 2008

Hér er stórhríð í uppsiglingu. Það á að snjóa og blása í alla nótt og fram eftir degi á morgun. Kannski ekki alveg svona 1975 Akureyrsk vikulöng stórhríð þegar hús fóru á kaf og bílar týndust undir fannferginu en það á að koma allt að 30 sentímetra jafnfallinn, sem svo fýkur í skafla. Karólína er farin að hlakka mikið til heimferðar á fimmtudaginn. Hún hefur ekki séð snjó síðan um síðustu áramót. Það fer nú lítið fyrir snjónum þarna í norður Karólínu. Kristín kemur líka á fimmtudaginn en hún stoppar bara í 36 tíma, svona rétt til að sjá mömmu gömlu útskrifast og þá verður öll fjölskyldan saman komin mér til ómælanlegrar gleði. Kristín er líka farin að hlakka óskapleg mikið til. Það verður gaman hjá okkur, og svo enn meira gaman þegar hún kemur heim yfir jólin.

laugardagur, desember 06, 2008

Vörnin búin og ég stóðst prófið. Það voru engar tilfinningar sem helltust yfir mig í gær þegar þetta var búið. Ég var bara búin. Í dag líður mér reyndar eins og ég sé galtóm. Engin gleði, enginn léttir, bara galtóm. Kannski léttirinn kom seinna. 

Ég þarf að breyta svolitlu í síðasta kaflanum, ég þarf að skýra vel út íslenskt menntalitet. Nefndin átti í hinum mestu erfiðleikum að skilja að það er ekki til neitt á Íslandi sem heitir ábyrgðarskilda með afleiðingum. Það eru afar fáir sem þurfa að taka afleiðingum gerða sinna, sérstakleg innan opinbera geirans. Þetta var gert í því samhengi að þótt svo skólar geri ekki sjálfsmat, jafnvel þótt það sé bundið í lög, þá eru engar afleiðingar, og það eru heldur engar afleiðingar að gera sjálfsmat annað en að þá fylgja þau lögum. Þetta á sumsé að vera bundið því að manni líður svo vel þegar maður gerir það sem á að gera, s.k. "intrinsic value." Ég sagði þeim að orðið "accountability" sé ekki til í íslensku máli. Það hefur verið þýtt sem ábyrgðarskilda en það nær ekki alveg yfir hugtakið. 

Merkilegt fyrirbæri þetta Ísland.

föstudagur, desember 05, 2008

mánudagur, desember 01, 2008

Við öll sjö


Við öll sjö
Originally uploaded by Kata hugsar
Og svona lítum við út, ásamt fjölgun, 33 árum seinna.
33 ár. 

Það er langur tími og eins og við er að búast á löngum tíma þá hafa skifst á skin og skúrir, gleði og sorgir, erfiðleikar og skemmtilegheit og þungir dagar og léttir, vondir og góðir. 

Það fer lítið fyrir lignum sjó hér á íslenska kærleiksheimilinu í Rochester.