mánudagur, júlí 31, 2006

Heitt, heitt ,heitt!!!!!!!!! Það er ógnar hitabylgja í gangi hér, hann fór í 39 gráður í gær og fyrradag, og á að vera það samam í dag og á morgun en hann á að kólna í miðvikudaginn.......... alveg niður í 30 gráður. Síðustu tvær vikurnar hefur ekki farið niður fyrir 30 gráður, heitt, heitt sumar. Í gær fórum við í heimsón til kærra vina sem eiga hús við vatn með bát og öllu saman. Það var voðalega notalegt að eyða deginum með vinum í bátsferð, leggja uppað bryggju veitingastaðar og setjast niður yfir íste og léttum mat. Súper sumardagur.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Þetta er mynd sem Halli tók á leið uppúr Héðinsfirðinum á leið til Siglufjarðar. Mikil fegurð sem byrjað er að hrófla við því þeir bræður gengu framhjá jarðýtu og gröfu sem var að vinna að undirbúningi gangagerðar.

Héðinsfjörður, 14, júlí 2006

mánudagur, júlí 24, 2006

Crunch time, crunch time! Nú er að duga eða drepast með skrifin mín. Á morgun ætla ég að senda inn allt sem ég hef til leiðbeinandans míns og ég þarf að bæta við, breyta, laga til, skipuleggja og annað því um líkt. Allt tímafrek verk. Hér hefur verið fádæma blíða og verður áfram og hitinn verður 30 - 40 gráður næstu vikuna. Þá er bara að skella sér í laugina eða vera inni og skrifa...hmmmmmmm?

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Ég næ ekki uppí nefið á mér af reiði við forsetann í þessu landi. Þegar hann neitaði að skrifa undir lög um stofnfrumurannsóknir (ég held að þetta sé íslenska orðið yfir stem-cell research) í gær þá var mér allri lokið og hvað þá þegar ég hlustaði á rökin hans fyrir gerðum sínum. Ég var á brettinu í gær í ræktinni að horfa á CNN þegar hann flutti ræðuna og ég reifst og skammaðist við hverja setningu. Ég var með heyrnartól á mér og á fullri ferð og var ekkert að velta fyrir mér hverjir væru í kringum mig, þá tók ég eftir því að konan við hliðina á mér lét sig hverfa og færði sig á annað bretti lengra í burtu, OOOPS! hún var greinilega ekki sammála mér. Kallinn var eins og prestur í pontu að flytja lýðnum boðskapinn eina og sanna og komst að orði rétt eins og trúboði og sagði allra handa hluti sem eiga sér hvergi stað í raunveruleikanum. Þetta væri allt í lagi ef hann væri í trúboði en það er hann ekki og ætti í raun að vera að færa rök fyrir máli sínu með haldbærum upplýsingum og staðfestum rökum en það gerði hann ekki. Reyndar er stærsti hluta Bandaríkjamanna sammála mér og skilur ekkert hvað maðurinn er að gera. Allra handa Repúblikanar hafa reynt að telja manninum hughvarf án árangurs og eftir standa vísindamenn hér í landi eftir með sárt ennið og geta ekki haldið áfram rannsóknum og því er restin af heiminum komin langt frammúr enda flytjast vísindamenn háðan úr landi í stríðum straumum. Kannski ekki alveg en margir eru farnir og margir að tygja sig og að sjálfsögðu er enginn á leiðinni hingað, enda lítið hér að sækja fyrir vísindamenn í þessu fagi.

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Það er sannkallað sumarveður hér. Í gær var 39 stiga hiti og mjög rakt og í dag á að vera eitthvað svipað. Ég fór að sjálfsögðu á sundlaugarbarminn í gær og las í bók á milli þess sem ég kældi mig í lauginni....ljúft líf en ekki of oft og ekki of lengi í senn. Á svona dögum sakna ég þess að hafa ekki laug hérna heima í garði en ég ætla að fara í ræktina í dag svo það er ekki víst að ég hafi tíma til sundlaugarferðar. Það er reyndar ekkert hægt að vinna utandyra í þessum hita enda notaði ég morguninn í að tína arfa og hreinsa til hér fyrir utan, ekki veitir af því því arfanum líður vel í hita og raka og það liggur við að ég sjái hann spretta. Það á að koma þrumuveður annaðkvöld og svo að kólna eftir það. Ekki veitir af rigningunni því hér hefur ekki komið dropi úr lofti síðan ég fór og náttúran er gul og brún á að líta og líður greinilega ekki vel.

mánudagur, júlí 17, 2006

Komin heim til Rochester eftir fína Íslandsferð. Okkur Halla tókst að gera allt mögulegt til að viðhalda fasteignum okkar á Íslandinu, hefðum svo sem ekkert haft á móti því að gera meira en það eru víst bara 24 tímar í sólarhringnum og eitthvað þurfum við að sofa og svo þarf að njóta lífsins í fríinu. Við fórum í góða gönguferð á föstudaginn. Af stað lögðu átta manns frá Kleifunum við Ólafsfjörð. Upphafleg áætlun var að ganga í Héðinsfjörðinn og til baka aftur. Þegar að var komið var ljóst að gangan yrði erfið því Árdalurinn var fullur af snjó. Þegar uppá Rauðárskarðið var komið og við búin að njóta útsýnisins yfir Héðinsfjörðinn ákváðu sex úr hópnum að halda til baka en Halli og Ari bróðir hans ákváðu hins vegar að ganga til Siglufjarðar! Við hin fengum því góða fjögurra tíma fjallgöngu þennan daginn en þeir bræður nærri tólf tíma ferð. Ég keyrði til Siglufjarðar um kvöldið til að ná í herramennina. Halli var mjög sprækur og fann tiltölulega lítið fyrir göngunni en Ari var aumari en brattur þó og það var augljóst að þeir skemmtu sér vel á ferðalaginu. Þrátt fyrir að Halli hafi þurft að hætta við Laugavegshlaupið þá fór hann allavega í góða fjallgöngu í staðinn. Ég hafði búist við góðri göngu hjá okkur hinum en ég hafði alls ekki búið mig undir að ganga í snjó 3/4 af leiðinni. Næst fer ég betur skæð! Skór með harðri tá var nauðsyn þegar ofar kom í fjallshlíðina því þar var þétt hjarn undir sem erfitt var að fóta sig á í brattanum. Við gerðum ýmislegt í þessari Íslandsferð sem við höfum aldrei gert áður; fórum í siglingu um Breiðafjörð, gönguferð/hlaupaferð á Hverfjall í Mývatnssveit og svo gönguferðina góðu. Sumsé hin besta ferð í fríinu