sunnudagur, apríl 30, 2006

Rettarkerfið

Ég skil ekki íslenskt réttarkerfi. Ekki hef ég hugmynd um hvort þeir Baugsmenn eru sekir eða ekki, það kemur eiginlega málinu ekki við núna. Þeir hafa eflaust stigið á margar tær á leiðinni upp og gert ýmislegt sem tilheyrir gráu svæði en það eru margir sem hafa gert og réttarkerfið væri stappfult af lögsóknum um siðlaust athæfi ef allt sem væri siðlaust væri lögsótt. Það sem ég ekki skil er að saksóknari fékk annað tækifæri til að lögsækja fólk á forsendum sem búið var að henda út úr réttarkerfinu fyrir fádæma léleg vinnubrögð. Hann fékk sumsé að taka upp próf sem hann kolféll á í vor. Ég skil það fullvel að þau voru ekki dæmd saklaus heldur var ákæruliðunum vísað frá en samkvæmt mannréttindalögum þá má bara lögsækja fólk einu sinni fyrir hverja sök og stór hluti af nýju ákæruliðunum er sá sami og í fyrra máli. Stórfurðulegt og vonandi fer þetta fyrir mannréttindadóm.

föstudagur, apríl 28, 2006

Þá eru fjaðrirnar farnar að týnast af mér þessa helgina. Karólína fór til Princeton í gær og Halli fer í dag og við Þór verðum hér ein í kotinu. Kristín er að keppa í fyrramálið, síðasti róðurinn í Princeton fyrir tvö úrslitamótin. Ég þykist ætla að skrifa og lesa, og lesa og skrifa heil reiðinnar ósköp um helgina en ég ætla að gefa mér tíma til að fara í leikfimi. Ég hef ekki komist eins oft og ég kýs undanfarnar fimm vikur og bakið er farið að kvarta yfir allri setunni og nú ætla ég að taka skurk í að fara á hverjum degi, minnst einn og hálfan tíma í senn. Það er nefnilega "slökun" í því að hreyfa sig, það er allavega mikil vellíðan fylgjandi góðri leikfimi hvort sem hún er slakandi leikfimi eða ekki, ég er allvega afslöppuð þegar leikfiminni er lokið (Halur á heiðurinn af þessum hugsunum, ég hef ekkert skapandi í mínum heila, ekki einu sinni svona hugsanir). Ég er farin að hlakka til þriðjudagsins, þá byrjar golfið mitt þetta sumarið, alla þriðjudagsmorgna þegar ég er ekki að vinna eða ferðast þá spila ég golf, gaman, gaman.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Þá er fyrsta uppkastið af fyrstu tveimur köflunum (þetta hljómar afar lítið af litlu) af RITGERÐINNI farið. Ég er orðin andlaus og vitlaus af þessu akademíska brölti og hef ekkert sem heitir sköpunargáfu eftir í heilanum á mér, ég get varla bloggað. En ég ætla að halda áfram og reyna að klára þetta, útlit fyrir að þetta verði á vormánuðum að ári.....eða haustmánuðum. Hún eldri dóttir mín er ekki hrifin af móður sinni þessa dagana, ég á nefnilega að vera til í að tala við hana í síma tuttugu sinnum á dag ef vel á að vera og ég hef verið að reyna að ignorera heiminn að undanförnu henni til mikillar bölvunar. Í fyrradag áttum við þetta samtal eftir að ég hafði verið að afsaka sinnuleysi mitt gagnvart vinum:
Kristín (20): "Ætlar þú að vera svona í allt sumar?"
"Svona hvernig, leiðinleg?"
"Já, þú ert ekki skemmtilegt núna"
ég skellihló og þá sagði Kristín
"ég var ekkert að reyna að vera fyndin, þetta er háalvarlegt mál!"

Þetta minnti mig á samtal Kristínar við afa hennar þegar Kristín var fimm ára. Afi var að passa börnin í tjaldi í ausandi þrumuveðri í Norður Dakóta á meðan foreldrarnir fóru á stúfuna að finna þurrt húsnæði. Sú stutta hafði verið með einhverja frekju og afi setti ofaní við hana og Kristínu líkaði það ekki og sagði afar blítt þessa fleygu setningu:

"Þú ert leiðinlegur í dag afi minn". Afi er enn að hlægja að þessu því hún var að reyna að vera svo kurteis í allri frekjunni.

mánudagur, apríl 24, 2006

Þetta var nú meiri dýrðar helgin. Veðrið eins og það gerist best hér, 23 stiga hiti, sól og smá gola. Það verður nefnilega all verulega heitt hérna bráðum, ég veit ekki hvenær bráðum verður en það kemur. Ég gaf mér meira að segja tíma til að sitja útí sólinni í gær og horfði þar á kall minn og tengdaföður sinna smíðaverkum. Nú þarf að klára allt mögulegt smálegt fyrir útskrift. Það er eitt afar gott við afmæli, útskrift og aðra stórviðburði að við tökum okkur alltaf til og klárum eitt og annað sem setið hefur á hakanum, það er málað, tekið til í skápum og vistarverum sem eru ekki í augsýn dags daglega. Það verður reyndar voðalega mikið að gera hjá okkur þetta vorið en það verður bara að setja í næsta gír og koma meiru í verk en vanalega.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Það er slæmt hvað mér finnst orðið leiðinlegt að versla. Ég fór til Minneapolis í gær með tengdaforeldra mína og gat ekki fyrir mitt litla líf hugsað mér að fara í Mall og America (MoA) og fór því í mitt uppáhalds moll, allavega hér á árum áður, en nú brá svo við að ég gat ekki beðið eftir því að komast þaðan út. Ekki var troðið því það var fátt á ferli, ekki var ég tímabundin og peninga hafði ég til að versla með en ég bara gat alls ekki hugsað mér að eyða tíma í verslunarmiðstöðinni. Ekki veit ég hvort þetta er famför eða afturför en þetta lagast eflaust, allavega þannig að ég geti keypt á mig sumarföt því ekki get ég notað það sem í skápnum er og ekki geng ég í síðbuxum og ullarpeysum hér í sumarhitunum.

Annars fór mikil orka hjá mér í gær í það að fylgjast með uppstokkun hjá hinum óþolandi Bush kalli. Það verður forvitnilegt að heyra hvað analísu sérfræðingarnir hafa um þetta að segja. Ég hlusta og horfi náttúrulega bara á það sem passar mínum skoðunum sem er ekki Fox og aðrir róttækir hægri miðlar, ég held mig við New York Times og Washington Post. Það er nefnilega svo miklu betra að fá staðfestar eigin skoðanir heldur en að hlusta á einhvern sem heldur einhverju allt öðru fram því það er náttúrulega bara bull það sem ég er ekki sammála!

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Nú þykist ég sitja við að skrifa doktorsritgerð, fyrsta kaflann, berst um á hæl og hnakka að koma allri vitneskjunni á blað þannig að aðrir skilji. Stundum finnst mér ég ekki vita neitt og hef því ekkert að skrifa og í annan tíma er ég svo uppfull af hugmyndum og þekkingu að það fer allt í hnút í heilanum á mér og þar með get ég hvorki skrifað þegar ég ekkert veit eða veit mikið. Svo enn aðra daga þá allt í einu léttir þokunni og ég sé þetta allt mjög skýrt og finnst þetta lítið mál, en það er því miður ekki oft en í gærkveldi kom svona stund þar sem ég náði mér á flug og tókst að koma rauða þræðinum alla leið. Þá er að setja kjötið á beinin og fá einhverja mynd úr þessu öllu saman. Þarf víst að klára fyrir næsta miðvikudag, er nú ekki viss um að það takist en ég er að reyna og meira get ég víst ekki ætlast til af sjálfri mér. Ég er oft voðalega vond við sjálfa mig og finnst ég heimsk, vitlaus og löt en ég verð víst að vera það (þ.e. vond) til að ná settum markmiðum.....er það ekki svoleiðis sem þetta virkar?

sunnudagur, apríl 16, 2006

Páskadagur. Komin heim í kotið og finnst alveg yndislegt. Kom reyndar heim hundslöpp og með einhverjan ólukkans pesti, ekki beint lasin en slöpp og með hausverk og drusluleg. Það hlýtur að ganga yfir. Það var 28 stiga hiti og sól þegar ég lenti og samskonar veður á föstudag og í gær en nú er þrumuveður með tilheyrandi rigningu og 10 stiga hita. Það er gott að sjá til vors og sumars, grasið orðið fagur grænt, grátvíðirinn orðinn ljósgrænn og græn slykja komin á skóginn og það styttist í að ávaxtatrén blómgist og þá verður veröldin enn fallegri, hmmmmmmm, dásamlegt.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Islandið

Íslands- og Evrópuferð minni að ljúka að sinni, ég yfirgef Ísland á morgun rétt passlega þegar flestir Íslendingar fara í langþráð páskafrí. Ég er farin að hlakka mikið til að komast til minna heima í faðm fjölskyldunnar. Mikið voðalega sakna ég þeirra. Ég er þó búin að hafa það afskaðlega gott. Það var vitlaust veður fyrir norðan í síðustu viku og ég lokaðist inni á Lönguklöpp tvo daga í röð og eftir að hafa verið mokuð út tvisvar þá ákvað ég að flytja fram á Hrafnagil. Það var svo sem ekkert alslæmt að vera föst inni, ég var með mikið af lesefni sem ég þurfti að komast yfir og gerði það með sóma og sann. Ég er þó ekki hagvön í íslenskri veðráttu lengur og finnst vont að berjast í blindhríð. Eftir að hafa skemmt mér mikið yfir Gettu Betur og sigri minna manna og svo horft á hokkí leik þar á eftir þá lagði ég í´ann heim á leið. Það var snjókoma og hvasst og erfitt að sjá til hvar vegurinn liggur fyrir veðri og myrkri. Ég keyrði (lúsaðist) því framhjá afleggjaranum en þekkti trén og runnana við innkeyrsluna, bakkaði og keyrði svo inná rétt nóg til að afturendinn stæði ekki útá þjóðveg eitt. Hélt svo af stað gangandi upp hlíðina. Þetta eru nú ekki nema tvöhundruð metrar eða svo en ég hélt ég yrði úti samt. Það sáust ekki nokkur kennileiti og eftir nokkra stund ég datt útaf veginum og sökk í mittisdjúpan snjóinn en náði mér upp á fjórum fótum og skreið svo langa leið þangað til ég var komin uppfyrir klettana. Þá gat ég staðið upp og gengið nokkuð upprétt en með vindinn og snjókomuna í fangið. Ég komst svo inní hús nokkurnvegin ósködduð en sjaldan hef ég verið eins fegin að sjá húsið mitt og þá, og það tók mig dágóða stund að ná mér niður andlega og líkamlega. Ég var náttúrulega afar hrædd og blaut innað beini enda var rétt um frostmark úti og úrkoman í allt að því slydduformi en ég hef verið hóstandi síðan og helaum í öndunarfærunum. En fyrst þetta hafðist þá má víst setja þetta í hóp atvika sem gera lífið skemmtilegt og litríkt en það var svo sannarlega ekki þannig á meðan á því stóð.