fimmtudagur, janúar 31, 2008

Fyrsti skíðadagurinn í Vail að kveldi kominn, kannski ekki kveldi en skíðun er lokið í dag. Þvílík dýrð og dásemd. Hvergi skýhnoðra að sjá, allt á kafi í snjó, brekkur vel troðnar og tiltölulega fátt fólk. Klettafjöllin eins langt og augað eygir og einu dökku dílarnir sem sjást eru trén og meira að segja mörg þeirra eru hlaðin snjó. Við þurftum aldrei að bíða meira en í 5 mínútur í röð og það var bara fyrst í morgun þegar allir voru að koma sér af stað á sama tíma, eftir það rendum við okkur nánast beint í gegn. Enda erum við lúin eftir 4.5 klukkutíma skíðun. Á morgun er víst spáð stórhríð en mér skilst að veðurspáin hér sé óáreiðanleg svo ég ætla ekki að gefa upp vonina alveg strax. Það var alveg dásamlegt að þeysast niður langar brekkurnar og finna skíðin bregðast við eins og ætlast er til, finna skurðinn í beygjunum halda vel að, leika sér með litlar og stórar beygjur, j-beygjur og s-beygjur, hratt eða hægt. Leika sér aðeins í hólunum, ég mátti til, þeir voru svo freystandi. Finna kuldann bíta kinnarnar, setjast niður með mínum besta vini yfir kaffibolla á fjallstoppi með útsýni yfir vetrarfegurðina. Leika sér í snjónum eins og unglingar. Hver segir svo að það þurfi bara að þreyja Þorrann og Góuna og þá verður allt betra. Lífið verður nú ekki öllu betra en þetta svona þegar leikur er annars vegar.

Vail

Klukkan er 7:30 að morgni hér í í skíðalandi Vail Colorado. Við komum í gær og notðuðum daginn til þess að jafna okkur á hæðinni, við erum í rúmlega 3000 metra hæð og það er nokkuð mikið fyrir okkur flatlendingana. Við gengum um bæinn í gær og fórum svo í ræktina hérna á hótelinu og þá áttaði ég mig á því að ég gæti nú ekki djöflast eins og venjulega. Það leið næstum yfir mig og þrátt fyrir mikla vatnsdrykkju þá lagaðist þetta lítið og því var klukkutími látinn duga. Í dag verður haldið á skíði, veðurspáin er dásamleg, allt á kafi í snjó og það snjóaði í nótt svo færið verður eins og best verður á kosið. Ég ætla mér að fara rólega af stað, bara bláar brekkur fyrir mig og léttar, troðnar, svartar, sumsé þurfum við að vera skynsöm svo við getum gengið á morgun og hinn. Engir moguls, ekkert (lítið allavega) púður, bara dusta rykið af tækninni og gera nokkrar tækniæfingar og njóta þess að svífa um á fleygiferð....

mánudagur, janúar 28, 2008

Við gerðum þessa líka fínu ferð til Iowa City um helgina. Þar heimsóttum við góða Landa og vini sem áttu heima hér í bænum síðustu fjögur árin en tóku uppá því að flytja suður á bóginn til Iowa til náms og starfs. Okkur finnst við vera orðin of einangruð hérna í Rochester enda hafa okkar bestu vinir flutt á brott hingað og þangað á síðasta ári. Svo vinnum við það mikið að það er ekki tími til að gera margt annað en að koma sér til og frá vinnu og svo ferðalög þess í milli. Það eru engir eftir sem geta komið í heimsókn eða við farið í heimsókn til sem ekki þurfa formlegt boð með góðum fyrirvara. Það er svo sem nóg af svoleiðis formlegheitum en okkur finnast vinamót yfir kaffibolla eða göngutúr, nema hvoru tveggja sé, mun skemmtilegri. Það var óskaplega gott að komast í annað umhverfi og njóta samvista góðra vina. Annars er svo sem ekki mikil vera heimavið næstu vikurnar og mánuðina svo þetta er svona stutt tímabil en nógu langt til þess að við gerum okkur grein fyrir því hversu nauðsynlegt það er að komast í burtu reglulega.

föstudagur, janúar 25, 2008

5 dagar þangað til Vail. OOOOOHHHHH ég hlakka svoooo til. Hér eru webcams frá Vail

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Nú er ég búin að fá nóg af kuldanum. Það var 29 stiga frost í morgun og ekki veit ég hvert þessi hlýinda kafli fór því það hefur verið fjandi kalt alla vikuna. Þeir eru nú að spá miklum hlýindum, jafnvel yfir frostmarki á mánudaginn. Ég trúi því þegar ég sé það. Ekki það að ég hafi verið það mikið úti við þessa vikuna, en það að fara frá bíl í hús hefur verið alveg nóg fyrir mig til þess að átta mig á hversu lítinn áhuga ég hef á að eyða meiri tíma útivið. Það er voðalega fallegt að horfa út sól og logn, það vantar ekki en ég bara er búin að fá nóg af að vera að frjósa við það eitt að labba yfir bílastæðið hjá matarbúðinni og ekki er það vegna þess að ég er illa klædd; loðfóðraðir kuldaskór, dúnúlpa, föðurland, dúnvettlingar.... Eins og mér þykir vænt um veturinn. Sem betur fer er góð veðurspá fyrir Vail í næstu viku. Ekki nema 3-7 stiga frost og sól allavega tvo daga. Svo er að sjá hvort spáin rætist.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Það er óskaplega fallegt úti núna enda snjóaði í allan gærdag púðursnjó. Það er skafheiður himinn og stafalogn og sólin er komin á loft. Það er reyndar afar kalt, -23 eða svo og ég ætla því að bíða aðeins með að moka frá þangað til hlýnar dulítið. Nú er rétt rúm vika þangað til við förum í skíðaferð til Vail og þar er víst ævintýralegur skíðasnjór svo ég fæ að njóta vetrarfegurðar í einhverntíma. Svo er það Ísland og vetrarfegurðin þar....allavega svona dagur hér og þar með einhverju óræðnu í milli, kannski verður rigning, rok, sól, snjókoma, rok, sól, rigning, rok....logn!? Skildu stjórnmálin í Reykjavíkurborg taka mið af veðrinu? Það fer allt eftir því hvernig vindurinn blæs hver er við völd þar á bæ. Undarleg stjórnunaraðferð það.

mánudagur, janúar 21, 2008

Veður og hitastig er alltaf afstætt og allt miðast það við eitthvað ákveðið, í dag er t.d. nokkuð "hlýtt" ekki nema 16 stiga frost sem er náttúrulega 10 stigum hlýrra en í gær en skítkalt samt. Það snjóar núna og svo á að hlýna ennþá meira á morgun, kannski bara 7-9 stiga frost í nokkra daga og svo bara undir frostmark um helgina.....vááááá

laugardagur, janúar 19, 2008

Það er 26 stiga frost nú í morgunsárið, -36 með vindkælingu, og Halli ætlaði að fara a fljúga en það er of kalt. Flugskýlið er óupphitað og það er hreinlega hættulegt að vinna útí í þessum kulda. Þá er bara að nota daginn til innivinnu og fara í ræktina.

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Það snjóar og snjóar í dag, rétt eins og á suðurlandinu heima á Fróni. Á morgun byrjar svo kuldakast, það á að fara niður undir -25 á morgun og hinn og svo eitthvað hlýrra næstu dagana þá á eftir. Ég sit við og undirbý "focus groups" sem ég er að vinna við þessa dagana. Ég er að rannsaka matsferli og væntanleg áhrif ef bætt verður við það ferli. Í gær var ég í mestu vandræðum með einn þátttakandann, hún gat ekki hætt að tala sem varð til þess að aðrir komust ekki að. Ég notaði alla þá tækni sem ég kann að draga athygli frá henni, draga aðra inní umræðuna, fá hana til að þagna blessaða konuna. Hún tók engum óbeinum skilaboðum og ég gat náttúrulega ekki sagt konunni að þegja, svo að lokum þá varð ég að biðja þátttakendur með nafni um að svara mér þegar ég spurði en það varð til þess að ég tapaði "umræðum" sem oft leiða til afar góðra upplýsinga. En það var betra en að gera fókus hópinn að einræðu.

laugardagur, janúar 12, 2008

Letidagur

Við vorum með íslenska sendinefnd hér í gær og við sátum á erfiðum fundum með þeim í gærmorgun og þegar nefndin fór úr bænum um klukkan eitt í gær þá var ég eins og gömul, undin tuska. Þetta tók mun meira á en ég bjóst við. Nú bíðum við og sjáum hvað setur. Það á eftir að reyna á þolinmæðina að bíða en þessu verður ekki flýtt. The "Mighty Mayo Clinic" tekur sinn tíma ef að líkum lætur. Lýðræði getur verið svo þungt í vöfum en svona eru ákvarðanir teknar hér á bæ og við hjónin höfum lítið um þá stjórnunaraðferð að segja, hvað þá að breyta henni.

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Nú er ég farin að huga að líkamlegum undirbúningi fyrir skíðaferð til Vail í lok janúar. Ég hef engan áhuga á að verða svo útkeyrð eftir dag á skíðum að ég hafi litinn áhuga á að takast á við fjöllin daginn eftir. Í gær hljóp ég í 35mín, eliptical 35mín, step 20mín, lyfti í 30mín og þetta eða eitthvað svipað þessu ætla ég að gera 5-6 sinnum í viku út mánuðinn. Það verður samt örugglega ekki nóg, ég verð með strengi og helaum í neðri hluta líkamans eftir skíðin en allavega ekki alveg dauð. Ég hefði náttúrulega frekar viljað æfa mig á skíðum en það fer nú lítið fyrir skíðasvæðum hérna niðurfrá, kannski fer ég í Hyland, gamla vinnustaðinn minn og renni mér þar með gömlum samkennurum. Hver veit hverju mér tekst að koma fyrir í annríkinu. Annars er afar rólegt í dag, en það er lognið á undan storminum. Ég er að passa eina 8 mánaða stelpu í allan dag en í augnablikinu sefur hún...en nú heyri ég í henni svo þá er friðurinn úti í bili.

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Ég er ánægð með úrslit forkostninganna í gær í New Hampshire. Hillary vann og Huckabee varð langt á eftir. Romney varð því miður ofarlega en McCain vann sem betur fer. Á meðan repúblikarnir vinna ekki forsetann aftur þá er mér svo sem alveg sama hver er í framboði en á meðan möguleiki er á að þeir vinni þá er eins gott að frambjóðandinn sé einhversstaðar nær miðju en Romney og Huckabee. Reyndar var Romney tiltölulega nálægt miðju þegar hann var fylkisstjóri í Massachusets en svo tók hann 180 gráðu snúning og er núna argasta íhald á hinum ýmsu sviðum. Þá sérstaklega hefur hann snúið sér í "social" málum eins og réttindum samkynhneigðra, fóstureyðingum, trúarofstæki, og í málefnum innflytjenda. Ég skil reyndar ekki hvernig fólk sem tekur svona snöggum breytingum er tekið alvarlega því fyrir mér breytti hann um skoðanir til þess eins að eiga meiri möguleika á kjöri til forseta. Það er hið besta mál þegar stjórnmálamenn skipta um skoðanir á meðan hann/hún færir rök fyrir máli sínu en Romney hefur ekki gert það og þessi snögga breyting eykur síður en svo álit mitt á manninum. Annað sem var gott við forkostningarnar í gær er hversu vel kom í ljós að frambjóðendur Demókratanna eru miklu frambærilegri en hinna, Clinton, Obama og Edwards eru öll mun frambærilegri en nokkur frambjóðandi Repúblikana. Sérstakleg finnst mér Clinton og Obama góð. Það væri ekki slæmt ef þau bjóða fram saman í haust!

mánudagur, janúar 07, 2008

Því miður vann Hillary ekki Iowa og því miður vann Huckabee...ekki gott mál. Obama er reynda mjög frambærilegur maður en ég held að Hillary yrði betri forseti því hún hefur mikla reynslu og mér líst svo voðalega vel á stefnu hennar í heilbrigðismálum. Fyrir mér ætti það að vera réttur allra að fá menntun og heilbrigðisþjónustu. Í menntakerfinu lifir tvöfalt kerfi góðu lífi og þau lyfta hvoru öðru upp, einkaskólarnir setja þrýsting á opinberu skólana með góðum árangri og örðuvísi skipulagi og opinberu skólarnir sýna fram á að það er hægt að þjóna öllum og "koma öllum til einhvers þroska" án tillits til trúarskoðana eða efnahags. Ég held að það yrði afskaplega gott fyrir heilbrigðiskerfið hér að fá opinbera þjónustu að keppa við þar sem allir fá þjónustu en á allt öðrum forsendum en núna er, rétt eins og ég held að heilbrigðiskerfið á Íslandi hefði gott af að fá einkareknar stofnanir að keppa við í meiri og stærra mæli en nú er. Það er öllum holt að fá samkeppni og þurfa að standast samanburð við aðra. Hvorug leiðin er góð ein og sér en samhliða eru þær hið besta mál í þjónustugeirunum tveimur.

sunnudagur, janúar 06, 2008

Þá er komið að kveðjustundum. Kristín fer í dag og Karólína á morgun. Kristín leggur nú í síðustu ferðina til Princeton, stelpan útskrifast í vor. Og mikið óskaplega líður tíminn hratt, mér finnst svo stutt síðan hún fór þangað í fyrsta sinn, að mér fannst lítil, saklaus og hrædd. Núna er hún flott ung kona með fullt af sjálfstrausti eftir nærri fjögur ár af ógnvænlegu álagi jafnt líkamlegu, andlegu sem akademísku. Það fer ekkert á milli mála að Princeton stendur undir nafni sem einn af erfiðustu skólum landsins, álagið er þvílíkt að frá fyrstu til síðustu mínútu annarinnar er ekkert lát á. Það er ekkert sem heitir að lesa bara undir próf þar á bæ, ritgerðir, verkefni, umræður, kynningar, og svo próf er daglegt brauð og oft allt í sömu vikunni mörgum sinnum á önn. Það þýðir heldur ekkert að skila af sér lélegri vinnu, það kemur bara í hausinn aftur og þá beðið um betri vinnubrögð. Það liggur við að til þess að fá A þurfi hver ritgerð að vera hæf til birtingar í virtum blöðum og tímaritum. Og þetta allt í viðbót við róðurinn sem hún stundar 3-5 tíma á dag 6-7 daga vikunnar. Í ár er hún að auki fyrirliði og það kostar mikla vinnu því það þarf að halda hópnum saman og skipuleggja samkundur í viðbót við að vera fyrirmynd annarra. Hún tekur fyrirliðahlutverkið mjög alvarlega og fyrir vikið þá tekur það mikinn tíma....ég er hrædd um að hún ég hefði ekki þolað álagið.

laugardagur, janúar 05, 2008

Það er alveg hundleiðinlegt að vera lasin. Mér hefur verið óskaplega óglatt í allan dag án þess þó að kasta upp, beinverkir og þreyta. Þetta er að ganga, Kristín og Karólína höfðu þetta fyrr í vikunni og nú er komið að mér. Vonandi gengur þetta yfir sem allra fyrst, ég má ekkert vera að þessu. Ég hlýt að verða betri á morgun, allavega gekk þetta fljótt yfir hjá þeim systrum.

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Það hefur verið brunagaddur í dag, fór niður í -24 stig í morgun en nú er eitthvað að hlýna og það jafnvel í 5 stiga hita um helgina eða "January thaw" eins og það heitir. Annars er allt með kyrrum kjörum, stelpurnar mínar eru í augnablikinu að hlaupa á stærsta innivelli bæjarins. Karólína þarf að hlaupa svona alvöru, ekki bara á bretti og stóra systir fór með henni til halds og trausts eða öllu heldur til þess að vera henni til skemmtunar. Ég er ein heima, í fyrsta sinn í tvær vikur og hef notað daginn vel í vinnu. Bæði fyrir Mayo og fyrir rannsóknina mína einu og sönnu. Í dag var ég að skipuleggja framkvæmdina, svokallaða "timeline" og ákveða hvað ég ætla að gera hvar og hvenær svona svo ég lendi ekki í því að öllu verði hrúgað á sömu dagana í lokin. Ég get nú ekki stjórnað öllu þessu en ég er að reyna að halda landshlutunum aðskildum þannig að ég safni gögnum fyrir norðan í febrúar og í Reykjavík í mars og svo reikna ég með að tína upp allar restarnar í apríl. Ohhhh, þetta lítur svo vel út á pappírunum og ég vona bara að áætlunin haldi svona fyrir það mesta. Það myndi gera lífið mitt svo miklu auðveldara en það má búast við að lífið leiki mig ekki svo létt, ég bý mig því undir það versta en vona það besta.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Caucus kosningar verða í Iowa á fimmtudaginn og við hérna í suðurhluta Minnesota förum ekki varhluta af auglýsingaflóði frambjóðenda í sjónvarpinu vegna þess að stöðvarnar á okkar svæði ná yfir norður hluta Iowa og því eru stanslausar auglýsingar stjórnmálamanna og konu á skjánum. Ég vona svo innilega að Hillary vinni, hún er alger gersemi. Hvað repúblikarnir gera er ekki gott að vita, ég vona bara að Huckabee nái ekki kjöri, hann er vondur kostur með allar hans kristilegu kreddur sem eiga sér enga stoð í kristnum fræðum en eru byggðar á mannvonsku og hræðslu og virðingu fyrir eingöngu þeim manneskjum sem hann og hans líkar hafa skilgreint sem "gott kristið fólk". Hversu oft ætli ég hafi heyrt fólki lýsa kostum manneskju sem "he/she is a good Christian" og oftar en ekki var sagt á undan til skýringar á hegðun hans/hennar "I don´t understand what happened, he/she is such a good Christian". Huckabee og Romney...úff.