laugardagur, desember 31, 2005

Litið til baka

Nú árið er liðið í aldanna skaut, og eldrei það kemur til baka..... Mér hefur alltaf fundist þessi orð svo falleg og fádæma vel sagt af honum Valdemar Briem hvað gerist við tímann. Ég hef áttað mig á því betur og betur hversu dýrmætur tíminn er. Ég get keypt allt milli himins og jarðar nema tíma, það er engin heimasíða til sem selur tíma. Þetta hefur orðið til þess að ég reyni að fara vel með hann og passa uppá hvað ég geri við hann. Þetta á þá sérstakleg vel við um tíma Halla og barnanna, það er ekki svo oft sem við erum með börnunum og það þarf að nota þann tíma vel og Halli vinnur mikið og þess vegna er það enn meira áríðandi að nota vel þann litla tíma sem gefst. Ekki það að það kalli á gerðir og athafnir, það þarf ekki alltaf að vera að gera eitthvað, heldur þarf að passa uppá að tala saman, njóta þagnarinnar saman, hafa hlýju á milli okkar, samkennd, vináttu og notalegheit. Okkur líður vel saman og finnst gott að hnoðast og veltast hvert innan um annað í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. SKíðaferðir hafa verið hvað bestar að okkur finnst. Þá erum við öll nokkurnveginn saman allan daginn og komum heim dauðþreytt og ekki uppá marga fiska og því eru það oftast leikir, bíómyndir eða snjónvarp sem við dundum okkur við áður en lagt er í hann aftur næsta morgun. Ferðalög okkar um Bandaríkin þver og endilöng með börnunum hafa skilið eftir margar yndislegar minningar og jafnvel þótt við höfum eytt ótrúlega mörgum klukkutímum í akstur þá eru stundirnar innan ramma bílsins mikilvægar í þeim skilningi að það er ekkert hægt að gera annað en að vera saman, på godt og på vondt.

föstudagur, desember 30, 2005

Tíðindalítið á vesturvígsöðvunum

Þá er körfuboltamóti Karólínu lokið og gekk það afar vel. Hún spilaði besta körfubolta sem ég hef séð hana spila og stjórnaði sínum konum með harðri hendi. Hún er mikill stjórnandi í sér....ekkert skil ég hvaðan barnið hefur það. Ég hef því séð marga leiki á síðustu þrem dögum, þrjá hjá henni og nokkra aðra á meðan verið er að bíða og svo úrslitaleikurinn í gær, tímabilið byrjar svo aftur næsta föstudag svo nú er viku frí hjá okkur en fjögurra daga frí hjá henni og er það mesta frí sem hún hefur fengið frá æfingum í marga mánuði. Skólinn byrjar aftur á þriðjudaginn hjá henni og þá byrjar lokaspretturinn í high school. Halli hjólaði í vinnuna í morgun eftir snjókomu næturinnar á nagladekkjum, í vetrarhjólafötum, með lambhúshettu og þykka vettlinga. Hann er nefnilega í fríi í dag og þá fer maður í vinnuna, bara aðeins seinna en venjulega og kemur heim aðeins fyrr en venjulega. Ég er með ógnar strengi í öllum skrokknum í dag eftir átök hjá einkaþjálfaranum á miðvikudaginn. Hún bætti allra handa erfiðum æfingum við prógrammið og nú loga lærin, ég get hvorki hóstað né hlegið, og þaðan af síður lyft handleggjunum yfir höfuð. Á eftir fer ég í yogalates og þá næ ég vonandi að hita vöðvana upp og teygja og sveigja þannig að ég skakklappist ekki um eins og gamalmenni.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Þá hefst hversdagsleikinn á ný, svona fyrir það mesta allavega. Halli fór í vinnuna í morgun, ekki það að hann hafi ekki unnið þessa síðustu daga, hann sat bara við skrifborðið hérna heima í staðinn fyrir í vinnunni. Karólína hefur körfuboltamót næstu dagana, Kristín sefur borðar æfir, talar við vinina, sefur borðar æfir, talar við vinina, sefur borðar æfir. Bjarni og Nicole eru að leita að íbúð og vinnu í Twin Cities, og hún ég held svona utanum þetta allt saman á meðan ég undirbý nýtt verkefni á Mayo. Ég á að halda námskeið í janúar í viðtalstækni, bæði einstaklings og hóp viðtöl. Kennt hef ég ekki í mörg ár svo það verður dágóður undirbúningur fyrir þessa lotuna. Hún verður samt búin fyrir Hawaii ferð!!!!!!!! Þar ætla ég að spila golf, fara í göngutúra á ströndinni, halda mér í formi, og njóta pólínesíunnar í hvarvetna...ananas og allt!

mánudagur, desember 26, 2005

Annar dagur jóla. Hann er nú reyndar ekki til hér í landi. Jólin eru bara einn dagur, og svo allt búið. Mér hefur alltaf fundist dagarnir milli jóla og nýárs, tími sem Normenn kalla svo fallega "romjul", svo notalegir dagar. Allt umstangið búið, engin plön, bara fullt af tíma sem hægt er að nota í allt mögulegt. Góðar bækur bíða, handavinna í körfu, skíðabrekkur, göngutúrar og heilsuræktarstöð nútímans. Þangað fer ég á eftir til að berjast við að nota orkuna sem kom í formi matar síðustu dagana, orka sem annars safnast upp, ónotuð, á stöðum sem ég vil ekki hafa hana.

laugardagur, desember 24, 2005

Aðfangadagsmorgun. Við Halli ein í eldhúsinu og húsið hljótt, allir aðrir sofandi. Kyrrt úti líka, enga mannveru að sjá. Nokkur dádýr á vappi. Hangikjötsilmur eftir suðu gærdagsins. Tréð skreytt, pakkarnir undir. Logar í arni og dagurinn bíður.

Nå har vi vaska gulvet og vi har båret ved,
og vi har sat opp fuglebånd, og vi har pyntet tre,
nå set vi oss å hvile og puste på ein stund....

Gleðileg jól.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Vetrarsolstöður

Þá er veturinn opinberlega genginn í garð. Hér skiptast nefnilega árstíðirnar í fjóra jafna hluta og miðast byrjun hvers og eins við vetrarsólstöður, jafndægur á vori, sumarsólstöður og jafndægur á hausti. Það skemmtilega er að veðrið fylgir þessu ótrúlega vel, þetta er sumsé ekki tilviljanakennt hér eins og á Íslandi. Alvöru vetur byrjar oftast ekki fyrr en líða tekur á desember, vorið lætur sjá sig fyrir alvöru í lok mars, hitabylgjur sumars byrja oftast um miðjan júní og haustið mjakast yfir í september. Veturinn hefur byrjað eins og alvöru vetur, snjóað minnst einu sinni í viku svo það er alltaf allt hreint, hvítt og fallegt, kuldaboli hefur heimsótt nokkrum sinnum, en nú er þetta sumsé að byrja fyrir alvöru. Annars byrjar veturinn sakleysislega, það er ekki nema tveggja stiga frost, en hann fer að snjóa bráðum og kuldinn kemur aftur, það er eitt af þessu sem við vitum með vissu. Tölfræðilega séð er kaldasta vika ársins þriðja vikan í janúar, þá verð ég á Hawaii og ekki í ull, flís, dún, með húfu, vettlinga, trefil, sokkabuxur, hlaupandi frá bíl í hús og hús í bíl, heldur útivið að njóta lífsins.

Getur annars einhver upplýst mig hvað Baltasar Kormákur var að segja í Mogganum í dag um engan snjó í Minnesota? Ég sá fyrirsögnina á mbl.is og varð litið útum gluggann og sá snjó eins langt og augað eygði!

þriðjudagur, desember 20, 2005

Veðrið i Minnesota

Það er að hlýna. Það er bara 15 stiga frost núna og á laugardaginn verður hann rétt undir frostmarki og kanski snjókoma, ekta aðfangadagur. Í fyrradag var 28 stiga frost og annað eins í gær en núna er þetta bara skaplegt. Fjölskyldumeðlimum finnst þetta fremur kalt, og þá sérstaklega þessari sem býr að öllu jöfnu rétt við New York. Henni sem aldrei var kalt hér áður og fyrr, finnst Minnesota í kaldara lagi. Mér finnst þetta tilheyra þessum árstíma hér á sléttunni, ef hann er hlýr, grár, og vindasamur þá er eitthvað að.

mánudagur, desember 19, 2005

Ég birti síðasta pistil óvart áður en ég var búin svo hér er framhaldið.
Við fórum líka í annað yndislegt boð hjá heiðurskonunni í Bólstaðarhlíðinni. Þar komu saman margir af gömlu vinunum úr MA. Eins og venjulega þá var þilskipaútgerðarskrásetjarinn í skipulagshugleiðingum. Hann og ektamaki minn eru farnir að skipuleggja ferðalög allt til 2008...og er þá ekki verið að tala um fundaferðir heldur svona venjuleg ferðalög útum heim. Mér var fengið það hlutverk að skipuleggja og halda utanum skíðaferð til Norefjell í febrúar 2007, Halli og Ingó eru að skipuleggja akstursferð suður Klettafjöllin einhverntíma sumars 2008, Stjáni og Halli ætla að mótórhjólast en hvorki ég né Guðlaug. Ingó ætlar svo að ríða með okkur norður Sprengisand í sumar, við Guðríður ætlum að koma með, ég ekki eins áköf og hinir. Svo var verið að tala um Nepal, Galapagos eyjar, Perú og guð má vita hvað annað. Guðríður og Anna Elín voru nú með plön minni í sniðum...kaffi á einhverju af kaffihúsum bæjarins einu sinni í mánuði eða svo. Nóg var af hugmyndunum því nú eru börnin að vaxa úr grasi og við komin með rýmri tíma en síðastliðin tuttugu ár eða svo.
Svo voru litlu jólin (fleirtala, ákveðinn greinir) í Þórólfsgötunni og Hamragerðinu. Það voru sagðar margar sögur, mikið hlegið, margt rætt, mikið borðað af góðum mat og í alla staði voðalega skemmtileg samkvæmi.

Vinaminnishjonin

Morgunmaturinn í dag er betri en gengur og gerist hér á bæ; kaffi og ristað brauð með reyktum silungi, veiddum af höfðingjanum og húsbóndanum í Vinaminni. Himneskt! Hann laumaði að okkur mörgum fínum flökum af þessum líka silungi sem við eigum eftir að njóta næstu vikurnar, ekki það að okkur finnst nú að hann eigi að koma með þetta til Ameríku í farteskinu sjálfur, enda hafði hann boðað komu sína í haust en við urðum allavega ekki vör við að hann kæmi, kannski var hann svona lítill fyrirferðar eða við orðin svona gleymin og eftirtektarlaus að við munum ekki eftir komu hans hingað. Hvernig sem svo silungurinn komst alla leið hingað til Rochester þá er hann með því betra fæði sem gerist. Þau heiðurshjónin buðu okkur í kaffi....þ.e.a.s. húsbóndinn bauð og boðaði konu sína á svæðið, enda urðum við þess heiðurs aðnjótandi að fljúga með honum norður yfir heiðar svo hann átti ekki annar kosta völ en að bjóða okkur í kaffi. Merkilegt þetta með vinskapinn, það er alveg sama hversu langt líður á milli spjalls yfir kaffibolla, þráðurinn er alltaf tekinn upp aftur þar sem frá var horfið.

laugardagur, desember 17, 2005

Það fer ekkert á milli mála að nú er ég komin heim til mín aftur. Hér er 19 stiga frost í morgunsárið, snjór og heiðskírt og farið að birta nú klukkan hálf sjö. Íslandið var yndislegt eins og venjulega. Ekki svo mikið blessað veðrið heldur mannfólkið. Við göngum alltaf í barndóm, allavega að unglingsárunum, þegar við hittum hverja yndislegu vinina á eftir öðrum, sjáum fjölkyldurnar nánast allar, borðum of mikið, tölum frá okkur allt vit og sofum fram að birtingu....sem er náttúrulega einhverntíma undir hádegi á þessum árstíma. Við fórum ekki á Klöppina okkar í þessari ferðinni. Nýju prestshjónin í Akureyrarkirkju búa þar núna á meðan þau bíða eftir eigin húsnæði. Það að hafa vígðan mann í húsinu verður vonandi til þess að Vaðlaheiðagöngin verða boruð langt sunnan við húsið og verða hin mesta blessun þegar allt er um garð gengið.

föstudagur, desember 09, 2005

Síðustu tvo dagana hef ég farið all verulega í taugarnar á sjálfri mér. Ég hef ekki gefið mér tíma og orku til að borða rétt og vel og í hvert skipti sem ég set eitthvað ofaní í mig sem ég veit að á ekki að fara þangað þá verð ég öskureið við gerandann. Ég hef verið á fleygiferð útum allar koppagrundir að klára jólainnkaup fyrir Íslandsferð og gef mér alls ekki tíma til að taka með mér mat eða snakk (eins og það sé nú tímafrekt, þetta er bara merki um leti og ómynd) eða finna staði sem selja almennilega fæðu. Þetta er náttúrulega alveg fáránlegt því ég veit að eins og mitt líf er nú þá er þetta mynstur ekki undantekning heldur reglan. Við ferðumst mikið og ég er eins og útspýtt hundskinn að ýmist að undirbúa ferðir eða að ganga frá eftir ferðir eða njóta þess að hafa gesti eða fara til vina og annað þar fram eftir götunum. Ég verð að finna út hvernig nýi lífsstíllinn minn virkar utan heimilisins míns. Þetta er allavega ekki að virka núna.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Það hefur verið fimbulkuldi hér síðustu dagana, allt niður í 27 stiga frost. Í dag er bara hlýtt, 10 stiga frost og snjókoma. Fallegt úti, jólalegt, og ljúft. Við höfum haft húsið fullt af góðum gestum frá litlu eyjunni sunnan meginlands Íslands. Fullt hús er nú all kröftulega í árinni tekið því plássfrek eru þau nú ekki. Þau fara heim í dag og við Halli svo á laugardaginn og ég búin að kaupa allar jólagjafir fyrir Íslandið!!!!!!!!!! Fyrst þarf ég víst að stjórna jólabarnaballinu hjá Íslendingafélaginu á laugardaginn og svo er það beint í flugvélina Heim.

fimmtudagur, desember 01, 2005

30

Fyrsti des 1975. Í dag eru þrjátíu ár. Oftast yndisleg, skemmtileg, óútreiknanleg, spennandi. Stundum kvíðafull, erfið, döpur. Alltaf full af lífi, orku. Alltaf eitthvað um að vera. Aldrei lognmolla. Við bæði með ómælda orku, framkvæmdagleði og skap. Því eru oft árekstrar, en þeir orðið mildari með árunum, hornin að slípast af okkur báðum. Eftir eitt ár verðum við orðin ein í koti. Börnin flogin á vit ævintýra og þeirra eigin lífs, og við að byrja okkar, okkar tveggja, uppá nýtt, en aldrei barnlaus samt, sem betur fer.