mánudagur, febrúar 27, 2006

Við fögnuðum bolludegi í gær með gamaldags bollukaffi. Það hentar okkur miklu betur að hafa þetta á sunnudeginum en mánudeginum svo við lögum okkur að aðstæðum hér í Ameríkunni. Það voru fjórtán manns í kaffi og ég bakaði 85 bollur. Það eru margar eftir enn hér í poka því ég skildi eftir nokkrar fyrir eiginmanninn. Hann var nefnilega á leiðinni heim frá Miami þegar við sátum hér heima yfir kaffi og bollum.

föstudagur, febrúar 24, 2006

Nú hef ég verið í heilsuátakinu í þrjá mánuði og ég er alsæl með árangurinn. Tíu kíló farin, komin í afburða þjálfun, borða svo miklu "betur" en ég gerði áður, minnkað um tvær fatastærðir, BMI lækkað um 5 prósentustig, orðin afskaplega sterk og stælt, bakið í fínum fasa, full af orku alla daga og mér líður í alla staði ljómandi vel. Ég ætla að halda áfram lengi enn, ég ætlaði að létta mig um 10 kíló til viðbótar en ég er ekki viss um að það verði svo gott, ég er nógu krumpuð nú þegar, og dætur mínar mótmæla, sérstaklega sú eldri, en ég ætla að sjá til hvernig þetta gengur og hvernig mér líður. Ég setti upphaflega 20 kílóa markið á 1. júní og ég er á réttu róli hvað það varðar en ég sé til. Mér líður nefnilega svo voðalega vel, það eru ár og dagar síðan ég hef verið í svona góðri þjálfun svo ég held áfram að æfa mig, borða vel og rétt, og hreyfa mig rétt. Ég fer í ræktina 5-6 sinnum í viku, einn og hálfan til tvo og hálfan tíma í senn en ég hreyfi mig lítið þar fyrir utan. Hér er lítið hægt að ganga útivið á þessum árstíma og fyrir utan ræktina þá eyði ég stærstum hluta dagsins við skrifborð svo líkaminn þarf á þessu að halda öllu saman til að grotna ekki niður. Ekki yngist ég með árunum frekar en aðrir!

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Það er svo margt þessa dagana sem er "síðasti körfuboltaleikur, síðasta þetta og síðasta hitt" hjá Karólínu og hjá okkur foreldrunum sem senda þetta örverpi fleiri þúsund kílómetra til skólavistar í haust. Í kvöld er "senior night" í körfunni. Við foreldrarnir (mæðurnar) komum saman í gærkveldi og bjuggum til spjöld með myndum af þessum sex senior stelpum. Gamlar körfuboltamyndir voru dregnar fram og ég bjó til risastóra "scrapbook" af Karólínu í körfubolta og eitthvað slæddist með af öðrum myndum úr íþróttalífinu hennar og lífinu hennar með Kristínu. Svo bjó ein mamman til blöð til að dreifa af öllum senior stelpunum sex með yfirliti yfir fæðingarstað, foreldra, systkin, uppáhalds mat (mjólkurgrautur), o.s.frv. með mynd og allt er þetta í lit. Fyrir leikinn í kvöld verða þær kynntar ein í einu og tilkynnt hvert þær fara í haust og hvaða framtíðaráætlanir þær hafa. Það verður líklegast bara ein af þessum sex sem kemur til með að spila körfu í college svo fyrir hinar er þetta með síðustu leikjum sem þær spila á ævinni. Á föstudaginn er síðasti leikur á tímabilinu fyrir "playoffs" og eftir það er bara að sjá hversu langt þær komast. Liðið er númer 13 í fylkinu svo þetta er gott lið, sérstaklega ef haft er í huga að engin þeirra spilar körfu allt árið, þær eru allar í öðrum íþróttum og bara tvær líta á körfu sem þeirra íþrótt númer eitt. Lengi vel var karfan síðust á lista hjá Karólínu en þetta árið hefur verið mjög skemmtilegt og henni hefur gengið ótrúlega vel (flest stig, næstflest fráköst, flestar blokkir....) svo væntanlega hefur karfan færst uppfyrir fótboltann en ekkert kemst nærri frjálsum.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Þetta eru vinkonurnar Alyssa og Karólína, stundum kallaðar Karolyssa því þær eru óaðskiljanlegar. Ballið gekk vel og þær skemmtu sér afar vel að mér skilst. Í gær var svo Powerpull mótið. Fylkismeistaramótið í innanhússróðri...þetta hljómar undarlega en svona er þetta nú samt. Keppt er um hver fær besta tímann að "róa" 2 km á róðrarmaskínu! Þetta gekk mjög vel og það var mjög gaman að fylgjast með. Krakkarnir sem ég þjálfa einn morgun í viku kepptu allir og það voru margir sem keyrðu sig algerlega út og áttu í hinum mestu erfiðleikum með að ganga/anda/standa á eftir. Ég saknaði þess náttúrulega að hafa ekki Kristínu mína þarna en hún var í símanum meira og minna allt mótið, hugurinn var sumsé í Rochester.

Karólína og Alyssa


Karólína og Alyssa, originally uploaded by Kata hugsar.

laugardagur, febrúar 18, 2006

Það er 30 stiga frost og vindur, ekki gola heldur vindur! Ég hélt ég yrði úti við það eitt að fara á milli húsa í gær og þá var bara 20 stiga frost. Það er ár og dagur síðan ég hef verið í 30 stiga frosti með vindkælingu uppá 50 stiga frost og ekki sakna ég þess, það er víst áreiðanlegt.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Hversdagsverk

Þá er hann hættur að snjóa en við fengum eina 20-25 sentímetra í gær, og kuldaboli mættur í staðinn. Það er 20 stiga frost nú í morgunsárið en hann hlýnar eitthvað yfir daginn. Það sem verra er að það er skafrenningur og það er ótrúlega kalt á opnum svæðum. Þegar ég var að moka frá í gær þá hélt ég að ég myndi fá naglakul en það bjargaðist þegar ég fór að moka frá með skóflunni, þá hlýnaði mér á fingrunum all verulega. Það er erfitt að nota snjóblásara þegar snjórinn er léttur og að auki er vindur. Það þarf að haga "seglum" eftir vindi til að fá ekki allt í andlitið eða að blása ekki snjónum aftur yfir unnið svæði, ég fékk þó nokkrar gusur yfir mig, ofaní háls, bakvið gleraugun, inní nasirnar... það er ekki þægilegt en í nútíma fatnaði með kraga uppað eyrum, lokað fyrir við úlnliði, smellt fyrir að innanverðu þannig að ekki blási uppá bak þá er mér nú engin vorkunn enda er ég ekkert að vorkenna sjálfri mér. Mér finnst ekkert leiðinlegt að moka frá, það er eitthvað notalegt við að hafa sjálfsbjararviðleitnina í lagi og þurfa ekki að leita til annarra með allra handa aðgerðir og viðgerðir. Reyndar tókst mér ekki að losa um stíflu í eldhúsvaskanum í fyrradag þrátt fyrir allra handa vopn og góða tlburði og því fékk ég pípara sem mætti með allra handa dælur á staðinn en þá tók ekki betra við, uppþvottavélin hafði stíflast eða gegnblotnað og nú vill hún ekki ganga þrátt fyrir góða tilburði þar líka svo nú kemur uppþvottavélaviðgerðamaðurinn í dag.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Hann snjóar og snjóar, skólar lokaðir, Karólína sefur því á sínum græna og verkefni dagsins takmarkast af færðinni úti. Það á að snjóa í allan dag og kólna svo all verulega á morgun og er þó 12 stiga frost eins og er. Þetta er vetur hér um slóðir og ekkert við því að gera, enda eins gott því engin yrði mér sammála ef ég fengi að ráða veðrinu, þótt ekki væri nema í einn dag.

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Valentínusar ballið er á laugardaginn hjá Karólínu og það þýðir kjóll hjá mér. Hún vildi hafa hann frekar formlegan og einfaldan svo svartur er hann, hlýralaus, rétt niður fyrir hné. Ég var mjög heppin með efni, það er bæði glæsilegt og meðfærilegt. Ég klára hann væntanlega á morgun.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Ég var að tala við hana Kristínu mína í Princeton, New Jersey. Þar er allt á kafi í snjó, og hún meinar á bólakafi. Hún hefur oft séð mikinn snjó en þetta var ógnin öll sem féll á tiltölulega stuttum tíma. Henni leiðist þetta nú ekki, það er stutt í ærslafullan Íslendinginn í henni þar sem snjór er ekki vandræði heldur tilefni til skemmtunar og gleði. Fyrir 30 árum síðan þá tóku vinir okkar sig til, nú til dags eru þetta virðulegir læknar, skógfræðingar og annað þ.u.l., og byggðu kentár eftir snjókomu dagsins fyrir utan heimavistina. Snjórinn var fullkominn sem byggingarefni, blautur, þungur og þéttur enda rétt undir frostmarki. Skógfræðingurinn var listamaðurinn og hinir vinnudýr sem rúlluðu upp snjóboltum og byggðu hálfgerðan kassa til að vinna með. Þetta var náttúrulega ekki í smámynd heldur stórtækt eins og hans er von og vísa. Í minningunni var höfuð kentársins vel yfir tveim metrum á hæð. Afturendinn var eins og lög gera ráð fyrir eins og á hesti, dýr sem skógfræðingurinn þekkti vel en Ærir síður í þá tíð. Framhlutinn var að sjálfsögðu mannsmynd og var einn ágætur vinur (þá kærasti, nú eiginmaður) hafður sem fyrirmynd. Myndir voru teknar en þær eru dulítið gráar vegna birtuleysis, en þær eru í albúminu gamla á sínum stað. Þar má líta þiskipaútgerðaritarann við höfuð dýrsins, skógfræðinginn á baki og skólastjórann suður með sjó að fylgjast með. Eins og oft gerist á Íslandinu þá kom þíða um nóttina, svo rigning og það var lítið eftir af ótrúlega flottum kentár þegar hringt var í tíma morguninn eftir.

föstudagur, febrúar 10, 2006

Draumar litillar stelpu

Ég var úti að moka frá í gær þegar flugvél fór yfir. Ekki tiltökumál í sjálfu sér en hljóðin minntu mig á fokker hljóð í Eyjafirði og eins og alltaf þegar ég heyri þau hljóð þá flýgur hugurinn heim til Akureyrar, í bakgarðinn í Birkilundinum þar sem ég ligg í grasinu og horfi uppí himininn sem er hvít-röndóttur eftir þoturnar á leið vestur og austur um haf og hlusta á hljóðin í kaffivélinni sem er að búa sig til lendingar. Þegar ég var lítil stelpa á Akureyri þá dreymdi mig um að komast í burtu, ferðast um heiminn, fljúga útum allt, læra fullt af tungumálum, sjá alla kima heimsins....en í draumaheiminum þá kom ég alltaf aftur heim til Akureyrar. Ég man afskaplega vel þegar við fluttum frá Akureyri í síðasta sinn. Það var 28. maí 1987. Við flugum suður með Bjarna 6 ára og Kristínu 17 mánaða og í vélinni var Erna Gunnars, gömul vinkona og skólasystir. Við vorum að spjalla og ég var að segja henni frá hvað við værum að halda útí -sem ég vissi náttúrulega ekkert um annað en að við værum að flytja til Voss- og hún segir sem svo að þetta verði bara gaman það sé svo gott að koma sér í burtu um tíma. Ég játti því en sagði sem var að óvissan um flutning aftur heim þætti mér erfið en ég vissi það eitt þó að heim myndi ég flytja eins fljótt og ég gæti. Þetta samtal hef ég oft rifjað upp með sjálfri mér því það segir svo vel hvað allt er afstætt. Að flytja heim eins fljótt og hægt er er enn á áætlun þótt bráðum séu 19 ár frá þessu samtali. Draumar litlu stelpunnar um að búa víða, tala mörg tungumál og ferðast útum allan heim hafa ræst en enn er ég nú samt ekki flutt heim....sem má náttúrulega deila um því við búum með annan fótinn heima, við eigum allavega hús, bíl og sumarbústað heima. En heim flyt ég aftur.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Þá er annar dagurinn minn sem aðstoðarþjálfari liðinn, þ.e. önnur æfingin, því dagurinn er allur eftir. Klukkan er hálfátta að morgni og ég búin að hjóla í klukkutíma með róðrarliðinu, lyfta, fara í sturtu og shina mig til. Þetta er voðalega þægilegt þegar yfir er staðið en mikið fjandi er erfitt að vakna klukkan 4:45. Sérstaklega þegar, blindur, heyrnarlaus og dement hundur hefur verið vakandi alla nóttina, vælandi og geltandi án þess að vita hvað hann vill. Hann Þór okkar er alveg að gera útaf við mig á nóttunni, hann ruglar saman nóttu og degi, veit ekki hvort hann er búinn að borða eða ekki, veit ekki hvort hann er nýkominn inn eða nývaknaður og hefur öll einkenni dementia, grey kallinn, 13 ára gamall, slæmur af gigt og sumsé nærri blindur og alveg heyrnarlaus.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Ég hef verið að fylgjast með meðferð múslima á Dönum þessa síðustu viku. Í mínum huga þá eru múslimir (þetta er alger alhæfing) að sýna það eina ferðina enn að þeir hafa engan skilning á því hvað ritfrelsi þýðir og enn síður hvað lýðræði þýðir. En það er svo sem alveg hægt að velta því fyrir sér hvort grínmyndir af Múhammeð séu siðlausar, en grín hefur verið gert að trúarbrögðum mannkyns í aldir en núna eru sá hluti múslima sem eru öfgasinnar orðnir það margir að þeir sem hófsamari eru mega sín einskis og því fer allt í háaloft. Ég hálf vorkenni Dönum. Í mínum huga eru þeir sem þjóð (enn önnur alhæfing) léttir í lund, með skopskyn í miklu magni, og afskaplega ligeglad.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Góðir vinir í mat í gærkveldi og voðalega gaman hjá okkur. Það var "Superbowl Sunday" í gær en þar sem ég var sú eina af eldri kynslóðinni í hópnum með vott af áhuga fyrir leiknum þá var nú ekki mikið horft en ég fylgdist með úr fjarlægð því imbinn var á og yngri kynslóðin fylgdist með. Ég var með íslenskan fiskpottrétt og heimabakað volgt rúgbrauð. Gestirnir eru Gyðingar, algerlega önnur fjölskyldan og allir nema húsmóðirin í hinni og að auki strangtrúar svo ekki má hafa kjöt, þ.e. sem ekki er kosher. Það voru reyndar rækjur í en þau tíndu þær úr svo þetta bjargaðist. Þetta kjötleysi hentar okkur ljómandi vel því fiskur er svo miklu einfaldari.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Föstudagur, leikur í Austin í kvöld, klukkutíma keyrsla, engin ósköp. Eftir þennan verða sex leikir eftir fyrir play offs. Allt líður þetta, því miður því þessi körfuboltavertíð hefur verið afburða skemmtileg og svo er þetta síðasta törn Karólínu í hópíþrótt áður en haldið verður á vit frjálsra íþrótta eingöngu. Bjarni og Nicole flytja á morgun til Minneapolis. Kristín er í æfingabúðum á Florida. Halli fer til Miami bráðum. Ég er heima eins og alltaf og held utanum þetta allt saman.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Mikið verð ég fegin þegar forseti vor, þ.e. þessi í BNA, hættir í embætti. Mig langar að garga í hvert sinn sem hann talar opinberlega og ég annaðhvort slekk á tækinu eða rífst við hann við hvert orð sem hann lætur útúr sér. Í fyrradag var State of the Union ræðan, þar sem línurnar eru lagðar fyrir næsta árið, og nú var það menntun sem hann talaði þó nokkuð um. Svo í gær þá byrjaði "follow up" ferðalagið og hann í fréttum allsstaðar. Hann sagðist t.d. ekki bara vera "commander in chief" heldur meira að segja "commander in chief of education". Guð hjálpi okkur ef þessi maður á að leggja fleiri línur í menntun. Ekki bara kom hann á "no child left behind" monsternum, apparat sem hefur stoppað allt sem heitið getur árangur í námi vegna samræmdra prófa mörgum sinnum á ári. Það fer svo mikill tími í próf að það er lítill tími eftir til að kenna, því þessi próf eru hrein viðbót við það sem fyrir var og var þó nóg fyrir. Við erum að tala um samræmd próf allt að fimm sinnum á ári! Ég er ekki á móti prófum, þau eru nauðsynlegur hluti af skólastarfi, fyrir nemendur, foreldra og kennara. Til þess að geta náð árangri þá þarf að vita styrk og veikleika, þetta á við í skólastarfi sem og öðru starfi. Og þessi #$#####(/&%XXXXX maður á að leggja línurnar fyrir menntakerfið, hann sem getur ekki einu sinni formað hugsanir sínar þannig að aðrir skilji og er því með allar ræður skrifaðar niður og hann les þær svo frá orði til orðs og oftast með allra handa framburðar vitleysum. Þá sjaldan sem maðurinn reynir að tala blaðlaust þá fer allt í vitleysu og ef hægt er að skilja hvað hann segir þá er það oftast einhverjir margþvældir frasar.

Og hananú!!!!!!!