þriðjudagur, janúar 27, 2009

Þá er ég lent, búin að sofa og held að ég sé komin með rænu aftur. Ferðin gekk ljómandi vel nema að leigubílastjóri í New York reyndi að snuða mig um $200, ég komst að því þegar ég kíkti á bankareikninginn minn í morgun. Vonandi tekst mér að afturkalla þessar færslur. 

Það var éljagangur þegar við áttum að lenda og vélin stefndi í austurátt lengi vel og við flugum yfir Reykjavík og svifum yfir Esjunni en þá var snúið við og lent í Keflavík háftíma á undan áætlun. Annars þykir mér anda köldu á landinu bláa, ekki í veðurfræðilegum skilningi.

föstudagur, janúar 23, 2009

Ég er farin að hlakka mikið til Íslandsferðarinnar á mánudaginn. Ég sé á veðurspánni að á þriðjudagsmorguninn gæti verið éljagangur. Á meðan það er ekki SV 30 þá held ég að þetta verði allt í lagi. Ég nenni ómögulega að lenda einhversstaðar í Evrópu. 

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Ég var að velta fyrir mér hvort hópurinn sem sýnt hefur ofbeldi innan um heiðarlega mótmælendur undanfarna daga sé rekinn áfram af samskonar hvötum og útrásarliðið: lítilsvirðing fyrir lögum, reglum og siðferði og alger skortur á umburðarlyndi gagnvart heiðarleika. Þeir hafa engan áhuga á að taka þátt í samfélagi siðaðrar þjóðar sem er búin að fá sig fullsadda af nákvæmlega svona heðgun.

miðvikudagur, janúar 21, 2009

Dádýr í heimsókn


Dádýr í heimsókn
Originally uploaded by Kata hugsar
Þssa mynd tók ég útum framdyrnar hérna hjá mér.
Ekki skil ég hvað íslenska ríkisstjórnin er að hugsa. Samskipti við almenning er greinilega ekki þeirra sterka hlið, stjórnmálamenn tala sjaldan til og við almenning og þegar það er gert þá hef ég á tilfinningunni að bara lítill hluti sé sagður. Það er eins og almenningi sé ekki treystandi fyrir sannleikanum. Þaðan kemur öll óvissan. Hér í landi er ekki síður óvissa en mér finnst samskipti vera mun betri, fjölmiðlar standa sig afar vel við að upplýsa almenning, fréttamenn spyrja af þekkingu og tala við fólk með virðingu og það er notað kurteislegt orðbragð og rétt mál. Stjórnmálamenn tala af þekkingu um málefni, og koma fram með upplýsingar sem skipta máli. Obama er alveg sér á báti hvað þetta varðar, hann virðist vera afar duglegur að setja sig inní mál og ef hann ekki hefur þekkingu þá fær hann fólk til sín sem hefur hana. Hann hefur heldur ekkert verið að fegra ástandið, ekki einu sinni í embættisræðunni í gær. Ég var mjög hissa hvað hann var hvass og var með lítið froðusnakk, falið í orðaflaumi og orðum sem fáir skilja. Hann talaði venjulegt en afar gott mál. Það var ekki erfitt að heimfæra margt af því sem hann sagði uppá íslenskar aðstæður:

 "Our economy is badly weakened, a consequence of greed and irresponsibility of some, but also a collective failure to make hard choices and prepare the nation for a new age."

 "Nor is the question before us whether the market is a force for good or ill. Its power to generate wealth and expand freedom is unmatched, but this crisis has reminded us that without a watchful eye, the market can spin out of control-and that a nation cannot prosper long when it favors only the prosperous..."

Ekki það, hér eru ótal mörg óhugnanlega ljót mál í gangi en eftir því sem ég best fæ séð taka afar fáir stjórnmálamenn þátt í þeim. Þeir eru ekki einu sinni í klappliðinu, nema í Chicago!

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Ég hefði betur látið vera að halda að dádýrin kæmu ekki í fæðuleit í garðinn minn fyrr en hlýnaði. Ég opnaði framdyrnar áðan og sá þá dádýraspor á stéttinni. Dýrið hafði gengið á stéttinni, sem er bogadregin fyrir framan húsið, að tröppunum og nagað runna og reynt að grafa upp fjölærar plöntur. Það er líklegast lítið um æti í náttúrunni þessa dagana fyrst þau eru svo ágeng að koma alla leið heim að dyrum.

Dádýraslóð


Dádýraslóð
Originally uploaded by Kata hugsar
Dádýrin fylgja mjög föstum stígum og þeir eru alltaf þeir sömu frá ári til árs. Einu skiptin sem þau fara útaf sporinu er þegar einhverja næringu er að hafa fyrir utan slóðina. Núna eru flestar plönturnar mínar vel faldar undir snjónum en það er bara spurning hvenær dýrin ráðast á sírenurnar sem eru tæpir þrír metrar á hæð. Dádýrin sækja mjög í þær svo og hlynina. Það er önnur slóð fyrir ofan húsið sem er mun nær þessum plöntum, svo það er bara að sjá hvað verður þegar fer að hlýna.

Dádýraslóð


Dádýraslóð
Originally uploaded by Kata hugsar

Í dag er mikill ánægju- og merkisdagur því við fáum nýjan forseta. Og þvílíkur sómamaður. Mér virðist hann vera enn betri en mér nokkurntíma fannst á meðan á kosningabaráttunni stóð og fannst mér hann þó góður þá. Loksins fer kalluglan hann Bush og vonandi lætur hann sig hverfa í Texas. Væntingar til handa Obama er ógnarháar og það er ekki nokkur leið að maðurinn geti uppfyllt alla þá drauma sem fólk virðist hafa en ég er ekki í vafa um að landið, og heimurinn, sé mun betur komið með hann við stjórnvölinn en forvera hans í starfi.

mánudagur, janúar 19, 2009

Lífið gengur sinn vanagang hérna á sléttunni og allt í sínum föstu skorðum. Það er nú ekki margt spennandi sem gerist hér í sveit í kaldasta mánuði ársins. Ég er farin að hlakka mikið til Íslands fararinnar eftir rétta viku og svo fæ ég að sjá Kristínu í nokkra klukkutíma þann daginn því ég þarf að fljúga í gegnum New York og svo stoppa ég hjá henni í þrjá daga á leiðinni til baka. Vonandi verður Karólína að keppa í New York þá dagana en það er reyndar allt í óvissu því það var verið að bæta á hana tveim mótum um næstu og þarnæstu helgi. Reyndar á ég frekar vona á að þjálfarinn gefi henni frí frá New York ferð því annars keppir hún þrjár helgar í röð.

Hún Annika litla fósturbarnabarn var hjá okkur um helgina þegar pabbi hennar var að keppa á gönguskíðamóti og mamma hennar var á vakt. Hún er alltaf jafn yndisleg og það lífgar svo mikið uppá á tilveruna að fá að hafa hana.

laugardagur, janúar 17, 2009

Það hefur loksins hlýnað og nú er ekki nema 6 stiga frost. En það snjóar og snjóar.

föstudagur, janúar 16, 2009

Enn er brunagaddur og allir skólar lokaðir. Ég var að vinna niður á Mayo Clinic í gær og skildi íþróttatöskuna eftir í bílnum með símanum mínum í. Þegar ég kom aftur 4 klst seinna var síminn beinfrosinn. Allir takkarnir óvirkir og batteríið í pásu. Þegar ég kom í ræktina voru íþróttafötin svo köld að ég þurfti að hita þau með hárblásara áður en ég vogaði mér að fara í þau. Skórnir voru beingaddaðir og ég gat ekki beygt þá. í dag er veðrið alveg eins ig í gær en það á að hlýna í -14 í dag og svo smám saman næstu daga þangað til hann gæti jafnvel tekið uppá því að fara upp fyrir frostmark í byrjun næstu viku. 

Ég trúi því þegar ég sé það.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Ég er farin að hlakka til Íslandsferðar eftir tvær vikur. Ég hef ekki verið á Íslandi síðan í ágúst og það er langur tími, alltof langur. Nú stendur þetta sumsé til bóta. 

Klukkan er rétt að verða 10 að morgni og það hefur hlýnað í -30 en með vindkælingu er -47 og það nálgast óðum að ég verði að fara út.

Jibbý
Í dag er hrikalega kalt, öðruvísi er ekki hægt að lýsa 34 stiga frosti. Öllum skólum er lokað í dag því börn mega ekki bíða autandyra eftir skólastrætónum í þessum kulda. Nýi hitamælirinn er sprunginn/frostinn og getur ekki sýnt svona mikinn kulda. Á hann þó að geta þolað -50 skv. leiðbeiningum. 

Halli ætlar ekki að hlaupa í vinnuna í dag. Í gær var hann svo dofinn á höndunum þegar hann kom í vinnuna að hann gat ekkert gert í dágóða stund. Ekki gott fyrir mann í hans vinnu. Sem betur fer hafði hann ekki aðgerð fyrr en seinna um daginn. Bara fundahöld til að byrja með. Í gær var þó bara -24 um morguninn.

Ég held mig heimavið þangað til ég þarf að fara niður á Mayo um hádegið.

miðvikudagur, janúar 14, 2009

Ég ætti nú að nota hádegismatartímann í að moka frá húsinu mínu en ég er með einhverja lumpu í dag, hálsbólga og beinverkir, og langar voðalega lítið til að fara út í 22 stiga frostið til að moka frá. En það verður víst að gera það svo ætli ég hundskist ekki út á eftir vafin inní allt það hlýjasta sem ég á af fötum, sem er nú talsvert. Ég verð líklegast eins og "overstuffed teddybear" sem varla getur sig hreyft.

þriðjudagur, janúar 13, 2009

Nú fer miður janúar að nálgast og þá má alltaf búast við köldustu dögum ársins og það stendur heima. Hér var stórhríð í gær og þegar hætti að snjóa þá kom kuldinn og hér var -29 stig í morgun, og -43 með vindkælingu, og hann fer kólnandi. Það gæti farið niður í -35 á morgun og hinn og einhver vindur verður líka með. Ég ætla ekki á skíði næstu daga. 

Það er óskaplega fallegt úti, það vantar ekkert uppá það. En mikið voðalega er ég þakklát fyrir að miðstöðin í húsinu er í góðu lagi...7-9-13

mánudagur, janúar 12, 2009

Það er svolítið merkilegt að fylgjast með umræðunni um mótmæli á Íslandi og er ég þá aðallega að hugsa um það sem gerðist á gamlársdag hjá Hótel Borg þegar bræður lentu í samstuði við mótmælendur. Eða kannski þegar mótmælendum var mótmælt. Uppákoman í morgun þar sem uppsögn þeirra bræðra var lögð fram, af grímuklæddum einstaklingum og væntanlega ekki þeim sjálfum, er merkileg uppákoma því hún sýnir svo vel að það eru bara þeir sem mótmæla "rétt" og á "réttan" hátt og fyrir "réttan" málstað sem eiga rétt á því að vera reiðir og þá að mótmæla eða að láta aðra vita á táknrænan hátt að þeir séu ósáttir. 

Fólk er hvatt til að taka þátt í mótmælum og ef það er ósátt við aðferðir, frummælendur eða málstaðinn og situr heima þá er það úthrópað sem fólk sem ekki er með samfélagslega ábyrgð.

Ég tek það fram að ég er ekki að verja þá bræður né þá sem mótmæltu á Borginni, því hvorutveggja finnst mér rangt. En þetta er merkilegt fyrirbæri þegar fólk mótmælir fyrir hönd "allrar" þjóðarinnar á þann hátt að "allir" eru sammála aðferðunum en samt þegar mótmæt er á annan hátt þá er það "rangt" vegna þess að málstaðurinn var rangur.

fimmtudagur, janúar 08, 2009

6. bekkur 7. stofa Barnaskóla Akureyrar 1972

Þessi er tekin af sigurliði skólans í sundi. Efst frá vinstri: Alli Gísla, Anna Sæm, Kalli, Fríða Trausta, ég, Elva Aðalsteins, Stebbi Trausta og Einar Kristjáns.
Jólaskrautið er smám saman að hverfa ofaní jólakassana sem svo fara úr augsýn næstu ellefu mánuðina á hilluna í geymslunni. Halli vill ekki láta jólatréð hverfa alveg strax svo það stendur fram að helgi. 

Ég held áfram að leita mér að vinnu. Það gengur hægt því á Mayo eru engar nýjar stöður auglýstar og ef staða losnar þá verður ekki fyllt í hana nema að það losni tvær. Sumsé ein ráðning fyrir hverjar tvær lausar stöður. Það er samt ekki alveg kolsvart, ég hef nokkrar stöður á radarnum og það var haft samband við mig að fyrrabragði vegna verkefnis sem Mayo er að fara útí með Obama stjórninni. 

Allt samt afar óljóst en ég hef grun um að ég þurfi góðan skerf af þolinmæði næstu vikurnar og kannski mánuði.

miðvikudagur, janúar 07, 2009

Ég viðurkenni það að ég hef verið vantrúuð á að aðild að ESB yrði góð fyrir Ísland en eftir ófarir haustsins þá fór ég að skoða málið með opnari huga. Aðalástæða vantrúar minnar er kostnaður við alríkisstjórnina hér í landi og það peningabruðl sem viðgengst þar. Víst fær Minnesota stuðning í allskonar málum frá alríkistjórninni, t.d. NIH og menntun en mér finnst svo lítil virðing borin fyrir þeim peningum sem alríkisstjórnin hefur til umráða. Þeir peningar koma frá fylkjunum og okkur skattborgurunum en stjórnmálamennirnir í Washington hafa notað þá í ríkum mæli til að styðja vini og vandamenn og pólitíska stuðningsmenn í gegnum allrahanda bitlinga. Við borgum nefnileg 17% skatt af heildarlaunum til ríkisins og það eru miklar upphæðir. Ef þetta yrði þróunin á Íslandi þá yrði þetta viðbót við núverandi skatta, kannski ekki 17% en allavega 10% get ég ímyndað mér. Ég held að þetta sé vegna fjarlægðar, andlegrar og líkamlegrar, frá skattborgurunum og peningarnir verða þannig ekki tengdir fólki og vinnu þess heldur einhverju óskyldu og ótengdu.

Í Mogga í dag er tvennt sem ég rak augun í og er grundvallar atriði í hugmyndafræðinni að mér finnst. Í fyrsta lagi segir Jurgen Stark: "Þegar allt kemur til alls, þá er gjaldmiðill grunnþáttur fullveldis. Að deila sameiginlegum gjaldmiðli felur í sér að deila sameiginlegri pólitískri framtíð." Sumsé erum við til í að deila okkar pólitísku framtíð með hinum einstöku ríkjum ESB. Ég las reyndar grein um helgina eftir lagaprófessor sem ég man ekki hvað heitir þar sem hann ræðir muninn á fullveldi og sjálfstæði og hvað hvert hugtak þýðir og ég hef á tilfinningunni að við séum að gefa frá okkur stóran hluta sjálfstæðisins.

Hitt atriðið er : "Og þar sem ákvarðanir í myntbandalaginu væru teknar út frá hagsmunum svæðisins í heild, en ekki staðbundnum hagsmunum, þá þyrfti að tryggja að efnahagur hvers ríkis væri nógu traustur fyrir myntbandalagið." Væri þá ekkert tillit tekið til sérstöðu Íslands? Samkvæmt þessu þá skipti sérstaðan litlu máli því hagsmunir allra koma á undan sérhagsmunum landa. Og pínkulitla Ísland með 0.012% meðlima fjölda væri í hættu að verða kaffært. 

Svo er náttúrulega stóra spurningin hvort við hreinlega verðum að vera aðilar einmitt vegna smæðarinnar og því verður að láta tilfinningamál lönd og leið því við hreinlega getum ekki staðið utan ESB, þannig yrðum enn meira kaffærð.

Og áfram les ég!

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Við (lesist ég) vorum svo heppin að fá mynd- og hljóð diskinn frá tónleikum Vilhjálms Vilhjálmssonar í jólagjöf mér til mikillar ánægju. Við systurnar fórum á minningartónleika sem haldnir voru í Salnum í fyrravetur og það var óskaplega gaman. Þetta var allt öðruvísi, mun unfangsminna, en óskaplega skemmtilegt. Ég er nú ekki hrifin af öllum flytjendunum en það er bara vegna þess að ég er gamaldags og fer fram á að flytjendur haldi lagi og svoleiðis. Ég hef mun meira gaman af mynddisknum en hinum aðallega vegna þess að ég á nánast allt sem gefið hefur verið út af þessum lögum og á ég mér að sjálfsögðu uppáhaldsútsetningar og flytjendur. Ég verð að segja að þegar Jóhann Vilhjálmsson byrjaði að syngja Lítill drengur þá fékk ég hroll eftir bakinu því hann hefur óskaplega fallega rödd og ótrúlega líka föður hans. Eins finnst mér Diddú gera Frostrósum falleg skil svo ekki sé talað um Íslenskt ástarljóð í flutningi Þuríðar en einhverra hluta vegna er hvorugt þessara laga á hljóðdisknum.

mánudagur, janúar 05, 2009

2. bekkur 9. stofa 1967


2. bekkur 9. stofa 1967
Originally uploaded by Kata hugsar
Ég var að fara í gegnum gamlar myndir og fann þessa yndislegu mynd. Ég hélt ég væri búin að týna henni en hún var í elsta albúminu mínu.
Efst frá vinstri: Hildur Birkis, Ásrún Kondrup, Sólveig Jóns, Kristín Hallgríms, Anna Sæm, Anna Jónína Ben, Kata, Elva Aðalsteins og svo Elli Óskars að kíkja inná.
Mikið var ég ánægð að sjá umfjöllun Moggans um ESB í dag. Ég renndi yfir það mesta en nú þarf ég að lesa þetta með athyglina í lagi og vonandi koma margar svona greinar. Ein grein dugir mér enganveginn. 

Nú erum við orðin ein í kotinu aftur. Karólína fór í skólann í gær og Bjarni og Nicole, sem voru hjá okkur yfir helgina, fóru seinni partinn í gær. Þetta var yndislegt jólafrí en nú er komið að rútínu hversdagsins. Nokkuð sem mér líkar afar vel. Nú er á áætlun að ganga frá doktorsritgerðinni svo hægt verði að gefa þessi ósköp út og svo að finna vinnu. Það verða forgangsverkefnin þennan veturinn. Ég á vona á að koma heim til Íslands í viku, c.a. 31. janúar - 6. febrúar en það fer svolítið eftir atvinnuleit þessa vikuna hvaða daga ég verð nákævæmlega heima en ferð heim er á dagskrá. Ég verð að kíkja á Lönguklöpp og sjá hvernig viðgerð gengur, athuga hvort allt sé í lagi á Kvisthaganaum, fygjast með mömmu, heimsækja fjölskylduna og svo vinina að sjálfsögðu. 

föstudagur, janúar 02, 2009

Ég velti mikið fyrir mér hvort betra sé fyrir Íslendinga að vera innan eða utan ESB. Við Halli ræðum þetta fram og til baka. Mér finnst ótækt að gefa frá sér sjálfstæði Íslands, fyrir því var barist of lengi, en ég viðurkenni að alþjóðavæðing hefur mikil áhrif á litlar þjóðir og stundum held ég að "you are dammned if you do, you are damned if you don´t" eigi allt of vel við í þessu samhengi. Það þarf að fara fram ótrúlega öflug umræða um kosti og galla áður en að þjóðaratkvæðagreiðslu kemur og ég er því miður ekki viss um að þjóðin sé í jafnvægi til að taka þátt í þeirri umræðu. Mér hefur fundist að allt of mikið sé skrifað með persónulegt skítkast sem upphafspunkt. Í umræðuþáttum, umfjöllun og fréttaskýringum hafa fréttamenn verið þungamiðjan og mér finnst þaða bara rangt. Fréttamenn eiga að spyrja kurteislega og hnitmiðað en láta stjórnmálamenn ekki komast upp með að leiða hjá sér mikilvægar spurningar en ekki að vera með skítkast og leiðindi. Þeir geta lært mikið af kollegum hérna vestanhafs, sérstaklega Katie Couric og Wolf Blitz.

Við erum enn með kosningarétt á Íslandi en það er á mörkum þess siðferðilega að nýta kosningaréttinn þegar við þurfum ekki að lifa með afleiðingunum nema að litlu leiti sem eigendur fasteigna á landinu.

fimmtudagur, janúar 01, 2009

Það var afskaplega rólegt hér hjá okkur á gamlárskvöld. Við vorum bara þrjú hérna heima í mat og svo skelltum við okkur í bíó. Það fer lítið fyrir áramótafagnaði hér í bæ, það er helst innan fjölskyldna og þar sem við eigum enga þá eru það bara við sem skemmtum hvoru öðru. Undanfarin ár höfum við verið hjá vinum okkar en þau eru í San Francisco þessi áramótin og því höfðum við það bara rólegt. Mér líkar það ágætlega þótt ég viðurkenni fúslega að ég hefði frekar kosið að vera á Íslandi, annað hvort sunnan eða norðan heiða. Kannski næsta ár. Annars hef ég verið illa haldin af Hawaii löngun síðustu daga og vikur. Það eru þrjú ár núna í janúar síðan við fórum þangað síðast og nú er kominn tíma á að fara aftur...að mér finnst en ekki Halla.

Annars bíður okkar mikið af ferðalögum útum allan heim svo og hér innanlands á þessu herrans ári 2009. Á Íslandi bíður okkar skipulagning á sumrinu en þá verður fimmtugsafmæli, 30 ára stúdentsafmæli og áttræðisafmæli tengdamömmu. Við erum að reyna að koma öllu fyrir á mánaðardeginum svo og mótunum hjá Karólínu. Það hefst en kannski með því að sleppa einhverju skemmtilegu, og það verður þá bara að hafa það.