þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Við Halli eigum tvo litla stráka sem fóstur barnabörn. Sá eldri er Jóhannes og sá nýfæddi var skírður í höfuðið á Halla og heitir Haraldur Tómas. Myndirnar voru teknar á sunnudaginn þegar Halli tók Jóhannes gaur útí snjóinn og svo á eftir kúrði sá litli í fanginu á nafna sínum.

Í fannferginu


Í fannferginu
Originally uploaded by Kata hugsar.

Nafnar


Nafnar
Originally uploaded by Kata hugsar.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Við hérna í þessum landshluta og þessum hluta fylkisins erum að brynja okkur gagnvart stórhríð sem á að byrja í kvöld og vara fram á mánudag. Við ætluðum að fara á Þorrablót uppí Minneapolis á morgun en það lítur ekki vel út með færðina. Það er búist við að flestir vegir verði ófærir þegar líða tekur á daginn. Hann ætlar að byrja með ísrigningu í kvöld sem síðan breytist í snókomu og það á víst að blása all hressilega með og því verður það óðsmanns æði að keyra hraðbrautina uppeftir ef spáin rætist. Kannski vinnum við í staðinn að UMSÓKNINNI einu og sönnu. Ég er að vonast til að henni verði lokið þegar ég fer til Íslands á fimmtudaginn og að ég geti komið henni til skila.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Mælingadagur í ræktinni í dag. Klípa, vikta, mæla.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Ég er að reyna að koma mér af stað aftur eftir lungnabólgu vesenið. Ég fór í ræktina á föstudaginn og hafði þá ekki farið í nærri þrjár vikur. Þótt ég hafi bara verið í rúman einn og hálfan tíma, þar af bara 35 í þoli þá var ég alveg búin um kvöldið. Fékk reyndar smá tak fyrir brjóstið þegar hjartslátturinn fór yfir mörkin og hætti því snemma. Í gær fór ég aftur og þá aftur í rúman einn og hálfan og megnið í þoli og mér leið feykivel en var alveg búin í gærkveldi. Ég fer aftur á eftir og vonandi fer þetta að koma. Venjulega get ég æft í tvo tíma og verð alveg endurnærð á eftir en ég hef greinilega misst meira þrek, styrk og þol niður en ég hélt í þessum veikindum. Á næsta ári ætla ég að láta sprauta mig fyrir flensunni!

mánudagur, febrúar 19, 2007

Kall minn er kominn heim eftir níu daga útivist. Mér fannst vera kominn tími til. Mér leiðist að vera lengi svona alein. Eftir að Karólína fór í skólann, Þór dó og nágrannar okkar og bestu vinir fluttu þá er voðalega einmanalegt um að litast hér í og við húsið og ég verð oft hrædd þegar ég er ein heima á nóttunni. Ég vaknaði með andfælum um klukkan 2 aðfaranótt föstudagsins við það að það var einhver að fikta við útihurðina. Mér varð náttúrulega um og ó og hélt á símanum tilbúin að hringja ef einhver kæmist inná gólf. Ég beið aðeins og fór að hlusta betur og fannst hljóðin einkennnileg ef einhver var að reyna að brjótast inn. Þetta var meira nudd en eitthvað annað. Smám saman áttaði ég mig á því að það hlaut að vera dýr og þá stórt dýr og þá allra líklegast dádýr og róaðist ég niður þótt ég hafi ekki sofnað aftur fyrr en undir morgun. Daginn eftir fékk ég þetta staðfest því það voru dádýra spor í snjónum alveg uppvið dyrnar þar sem dýrið hafði verið að naga runna sem þar er. Og rétt utan við stéttina voru tvær stórar dældir í snjónum þar sem dýrin höfðu lagt sig. Það hefur verið snjór yfir öllu í margar vikur og ógnarkalt og því eflaust afar lítið um æti enda dádýr búin að skafa snjóinn ofan mörgum plöntum hér í garðinum til að ná í eitthvað að borða. Beingaddaðar plöntur þykja eflaust góðar þegar hungrið sverfur að.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Takk öll fyrir umhyggjuna. Það er nú einu sinni svo að þegar búið er að tína hismið frá kjarnanum þá stendur uppi þetta mannlega. Vinir og fjölskylda. Þegar fjölskyldan er svo í tveimur heimshlutum og vinirnir líka þá tekst tryggðin all verulega á, því vinir og fjölskylda eru á báðum stöðum og því er það tryggð við eigin sál sem uppi stendur og blessuð sálin getur verið sár og erfið meðferðar. Ef þetta væri svört og hvít ákvörðun þá væri þetta einfalt en þetta er eins grátt eins og hægt er að hafa það. Kostirnir og gallarnir miklir á báðum endum og það nánast á ólíkum sviðum. Foreldrar okkar og eigin systkini og fjölskyldur þeirra á Íslandi, börnin okkar hérna megin; vinirnir á báðum stöðum, þeir gömlu heima og þeir nýrri hér; ótrúlega spennandi og krefjandi fagleg vinna hérna megin en áskorun um mikla stjórnunarvinnu og nýjan spítala hinumegin; góð laun hérna megin en allt óvíst hinumegin; 20 ár hérna megin og 27 hinumegin; mikil vinna hérna megin en líklegast ennþá meiri hinumegin; George Bush hérna megin og Óli Grís hinumegin; ÍSLAND öðrumegin og USA hinumegin; kalt öðrumegin og heitt hinumegin (veljið sjálf árstíðina).

Mér sýnist það vera tæpt þegar þetta er allt lagt á vogarskálarnar.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Auglýsing með þessari fyrirsögn kom til okkar í gær:

Prófessor í myndgreiningu, yfirlæknir á myndgreiningarsviði - Háskóli Íslands / LSH - Reykjavík - 200702/045

Það bíður okkar stór og mikil ákvörðun. Ekki það að Halli sé viss um að fá stöðuna, alls ekki, en það þarf að ákveða hvort á að sækja, því ef...... hvað þá?

Við vorum í Arizona yfir helgina, Halli er þar reyndar ennþá, og í gær ræddum við fátt eins mikið og þetta, og svo í símann í gærkveldi, og aftur í morgun..... Hann kemur ekki heim fyrr en um helgina eftir stopp í San Diego og þá er að leggjast undir feld, leggja höfuðið í bleyti, hugsa mikið, ræða málin...og svo að ákveða. Umsóknarfresturinn er til 12. mars. Ég fer til Íslands 2. mars svo það bíður okkar ærið verkefni þangað til.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Hún Guðný vinkona mína skrifar og segir voðalega skemmtilega frá. Hún skrifar alltaf reglulega um ferðir sínar í sundlaugina, þessa einu sönnu efst í Gilinu. Rétt fyrir norðan íþróttahúsið. Austan við Iðnskólann. Vestan við frímúrarahöllina. Ofan við andapollinn. Það er svo merkilegt þegar ég er að lesa dásamlegar lýsingar hennar á mannlífinu í sundinu að ég fer í huganum alltaf í gamla búningsklefann. Þennan með glansandi fallegu viðarinnréttingunni. Með tveimur speglum, einum á hvorum enda. Með útsýni til vesturs uppí Fjall og yfir lífið í sundinu. Með útsýni til austurs yfir Kirkjuna, Pollinn og Heiðina. Ég hef náttúrulega oft komið í sund síðan lauginni var breytt og veit vel að það eru engir viðarskápar lengur og engir gluggar til að hanga í og skoða mannlífið úr. En samt fer hugurinn alltaf á gamla staðinn. Skrýtið þetta minni.
Áfram er ógnarkuldi og ég ligg í lungnabólgu. Kuldinn í New York var ekki svo hollur fyrir flensuna sem ég var með í síðustu viku. Ég fann ískaldann og rakan New York vindinn og 5 stiga frostið langt ofaní lungu og varð á orði þegar við vorum að þramma uppí vindinn að ég myndi enda á spítala með lungnabólgu. Það var sagt í hálfkæringi en á mánudagsmorguninn staðfesti læknirinn að ég væri með bullandi lungnabólgu. Ég hef haldið mig inni þessa vikuna enda ekki haft orku til að fara eða gera nokkurn skapaðan hlut. Var eiginlega útúr heiminum á mánudaginn, aðeins skárri í gær og mun skárri í dag en enn með hitavellu. Við erum að fara til Phoenix á föstudaginn, og sem betur fer í hita. Ég hefði haldið mig heimavið ef þetta hefði verið ferð á kaldari slóðir en ég held að hlýja loftið í eyðimörkinni geri mér gott.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Það er nú meira hvað gengur á hér um slóðir. Það bættist nýr Íslendingur í hópinn á miðvikudaginn. Hann Haraldur Tómas ákvað að það væri ekkert varið í að koma með hausinn fyrst inní þennan heim og fékk sér göngutúr í maga móður sinnar á föstudeginum og á miðvikudaginn ætlaði hann að koma sér út með rassin á undan en þá tóku læknarnir við og ákáðu að þar sem annar fóturinn var að flækjast fyrir þá væri best að skera og koma honum í heiminn með hjálp læknisfræðinnar. Jóhannes bróðir hans var hérna hjá okkur um nóttina og kíkti svo á litla bróður og mömmu á fimmtudaginn. Þann dag fórum við hjónin svo til New York til að horfa á Karólínu keppa og að sjá Kristínu. Það var góð ferð en alveg hrikalega kalt. Hitastigið ekki eins lágt og hér en þeim mun meiri vindur. Þegar við komum svo heim í gærkveldi þá var 24 stiga frost hér og í morgun var 31 stigs frost. Kalt, hvernig sem á það er litið; vindur ekki vindur, raki ekki raki, snjór ekki snjór. 31 stigs frost er bara kalt!