mánudagur, febrúar 19, 2007

Kall minn er kominn heim eftir níu daga útivist. Mér fannst vera kominn tími til. Mér leiðist að vera lengi svona alein. Eftir að Karólína fór í skólann, Þór dó og nágrannar okkar og bestu vinir fluttu þá er voðalega einmanalegt um að litast hér í og við húsið og ég verð oft hrædd þegar ég er ein heima á nóttunni. Ég vaknaði með andfælum um klukkan 2 aðfaranótt föstudagsins við það að það var einhver að fikta við útihurðina. Mér varð náttúrulega um og ó og hélt á símanum tilbúin að hringja ef einhver kæmist inná gólf. Ég beið aðeins og fór að hlusta betur og fannst hljóðin einkennnileg ef einhver var að reyna að brjótast inn. Þetta var meira nudd en eitthvað annað. Smám saman áttaði ég mig á því að það hlaut að vera dýr og þá stórt dýr og þá allra líklegast dádýr og róaðist ég niður þótt ég hafi ekki sofnað aftur fyrr en undir morgun. Daginn eftir fékk ég þetta staðfest því það voru dádýra spor í snjónum alveg uppvið dyrnar þar sem dýrið hafði verið að naga runna sem þar er. Og rétt utan við stéttina voru tvær stórar dældir í snjónum þar sem dýrin höfðu lagt sig. Það hefur verið snjór yfir öllu í margar vikur og ógnarkalt og því eflaust afar lítið um æti enda dádýr búin að skafa snjóinn ofan mörgum plöntum hér í garðinum til að ná í eitthvað að borða. Beingaddaðar plöntur þykja eflaust góðar þegar hungrið sverfur að.

2 ummæli:

Guðný Pálína sagði...

Ég skil vel að þér skuli vera órótt að vera ein í stóru húsi. Tala nú ekki um þegar þú heyrir einhvern fikta við útihurðina (jafnvel þó þessi einhver tilheyri dýraríkinu).

P.S. Þú ert vonandi búin að ná þér af lungnabólgunni.

Katrin Frimannsdottir sagði...

Ég er orðin nánast jafngóð aftur! Þetta var ótrúlega erfitt viðureignar og ég varð hundveik en Arizona gerði mér gott og nú er að hlýna hérna...loksins. Ég kem heim í lok næstu viku og kíki þá við hjá ykkur, ég verð í heila viku heima.