miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Þetta sagði moggi í dag um meyjar:

"Engin vél gæti leikið eftir það sem meyjan gerir í dag. Hún lagar sig snilldarlega að öllum flækjum sem verða á vegi hennar. Líklega gefur hún sér ekki einu sinni tíma til þess að verða hissa, heldur brettir bara upp ermarnar."

Vonandi gengur það eftir því það er margt á lista dagsins sem þarf mikla orku og ákveðni til að allt gangi upp.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Öll lifðum við þessa ferðina af og allt gekk samkvæmt áætlun. Karólína er ánægð með herbergisfélagann, Margot er frá Reno í Nevada og virðist vera hin allra geðugasta stelpa. Þær fengu herbergi í nýjustu vistinni þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja, lofkæling og fallegir litir, stór gluggi með góðri dagsbirtu og baðið beint á móti á ganginum. Loftkæling er mikill lúxus í Norður Karólínu, það var 39 stiga hiti og mjög rakt þegar við fórum í gær og það er ekki auðvelt að sofa í húsnæði sem er ekki kælt því það kólnar ekki mikið á nóttunni þegar það er svona rakt. Það eru ekki nærri allar vistarnar í Duke með loftkælingu svo hún er mjög heppin. Karólína fór í þýsku tíma í gær í húsi sem er ekki loftkælt og hún þurfti að skipta um hvern þráð þegar heim var komið vegna svitabaðs. Það er farið að kólna hérna heima, það var bara 18 stiga hiti í gærkveldi þegar við lentum og í dag verða þetta svona 20-25 og lítill raki.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Ég tognaði í kálfa á föstudaginn. Var í rauninni ekki að gera neitt sérstakt annað en að hlaupa. Hætti strax en er hálf skökk og skæld í gangi. Ég sem er að fara útúr dyrunum með örverpið mitt í skólann! Þar þarf ég og ætlaði mér að ganga þessi lifandis ósköp. Það eru víst mjög skemmtilegar gönguleiðir í skóginum í kringum skólann. Það gengur vonandi, ég er mun betri í dag en í gær og allt önnur en í fyrradag.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Í kvöldmat verða 12 manns. Íslenskt lambalæri á boðstólnum handa amerískum vinum. Tilefnið er að allar sex dætur okkar þriggja vinahjóna eru að fara í college. Allar fara þær austur á bóginn, fjórar til Massachusets, Kristín til New Jersey og Karólína til Norður Karólínu. Það verður tómlegt hér á bæ þegar þær hverfa því allar hafa þær hafa haldið til hér hjá okkur meira og minna síðustu árin. Tvær hafa verið nágrannar okkar síðan við fluttum hingað til Rochester en nú eru foreldrar þeirra, sem eru líka bestu vinir okkar, að flytja til Phoenix í eyðimörk Arizona okkur til mikillar bölvunar. Við ráðum nú víst voða litlu um hvernig þau taka ákvarðanir um líf sitt. Við erum óhress samt.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Það eru moldvörpur að grafa í sundur framgarðinn minn. Ég uppgötvaði gangana þeirra í þriðjudaginn því það er nokkuð auðvelt að sjá hvar gangarnir liggja því grasið ofan á gönngunum fellur og flötin lítur út eins og æðakerfið á handarbakinu á mér. Á nokkrum dögum voru moldvörpurnar búnar að koma sér vel fyrir undir sumarblómabeðunum og búnar að ýta til fínu blómunum mínum. Ég tók mig því til og sprautaði eitri yfir svæðið. Ég hef enn ekki séð viðbót við það sem var en moldvörpurnar eru iðin dýr og eru eldsnöggar að grafa gangana svo ég vona að það bætist ekkert við og þetta jafni sig.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Í dag er vika þangað til Karólína hverfur á vit framhaldsmenntunar í Norður-Karólínu. Við mæðgurnar fljúgum næsta mánudag til Durham, hún flytur inn á vist daginn eftir og svo taka við allra handa kynningar og skemmtanir þangað til skólinn sjálfur byrjar mánudaginn 28. Kristín fer svo í byrjun september og þá verður tómt í kofanum. Sú yngri átti að byrja að pakka um helgina en það fór nú minnst niður í kassa eða töskur. Hún er afskaplega skipulögð og rökrétt í vinnubrögðum og er búin að skipuleggja fataskápinn þannig að allt sem hún tekur með sér er fremst og auðvelt að grípa til þegar raða á niður. Svo er hún komin með lista yfir allt sem hún ætlar að taka með sér og það sem við ætlum að kaupa áður er hún fer og svo það sem þarf að kaupa á staðnum. Ég hef óljósan grun um að þegar kemur að því að koma dótinu niður þá tekur það stuttan tíma, það er allt á sínum stað hjá henni og það fer lítill tími í óþarfa snúninga. Hún systir hennar er ekki þannig! Bíllílykillinn og peningaveskið hennar eru þeirrar náttúru að hverfa þegar minnst varir og þegar hún á síst von á og má bara alls ekki vera að svoleiðis leikaraskap og þá fer allt heimilið og húsið af stað. Sú eldri á það til að hringja í litlu systur og biðja um hjálp við leitir....jafnvel þótt hálf heimsálfa sé á milli þeirra og sú yngri hafi hvergi verið nálægt þegar hvarfið varð. Það sama á við þegar tölvuvandmál eru í gangi, sú yngri er tölvugeek og finnur alltaf leiðir útúr öllum svoleiðis vandamálum. Sú eldri hjálpar aftur á móti til við hugmyndaleit, sköpun, ævintýri og skemmtilegheit. En orku hafa þær ómælda báðar tvær svo hér verður tómlegt og rólegt þegar þær hverfa á braut.

föstudagur, ágúst 11, 2006

Við erum Volkswagen fjölskylda. Eigum bara bíla frá þeim, allir fjórir. En bíllinn sem stelpurnar hafa haft síðastliðin þrjú ár er nú farinn. Þetta var bjalla, eiturgræn og fín, dísel og beinskipt. Kristín ætlar að taka bílinn til Princeton og bjallan er ekki til þess fallin að frakta margt fólk og fullt af farangri. Allt þetta tilheyrir hlutverki "upperclassman", keyra yngri stelpurnar í liðinu og sendast í búðir. Þess vegna var ráðist í að skipta um bíl. Þetta gekk nú ágætlega framanaf en svo þegar komið var að því að taka endanlega ákvörðun þá rákust þau feðginin all þyrmilega á og hér var flugeldasýning í nokkra daga. Kristín og Halli eru alveg eins skapi farin; stjórnsöm, ákveðin, skoðanahvöss, og láta allt þetta í ljósi, hann með háttalagi og líkamsmáli en hún með orðum. Þvílíkt og annað eins! Svo gekk þetta nú allt um síðir, þau orðin sátt og hinir mestu mátar eins og oftast, og það er annar Passat kominn hingað heim. Þær sakna nú bjöllunnar, hann var næstum því eins og hluti af útliti Karólínu en þessi er betri fyrir það sem nota á hann í og því eru allir nokkuð sáttir. Passatinn er ekki eins töff og flottur, svolítið virðulegur, svolítið of virðulegur fyrir mínar dætur en stundum verður að gefa frá sér stílinn og láta hagkvæmnina ráða.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Eftir þrumuveður næturinnar hefur aðeins hægt á en hann rignir enn og það er yndislegt. Það hefur ekki komið dropi úr lofti í margar vikur og allt var orðið brúnt og sviðið í hitunum en nú er græni liturinn kominn aftur og þegar hann hættir að rigna seinni partinn þá verður yndislegt úti. Ég hef ekkert heyrt frá leiðbeinandanum mínum ennþá og er því í lausu lofti og les bara, vil ekkert skrifa fyrr en ég fæ að vita hvort ég sé á réttri leið eða algerlega úti að aka. Það skiptir ekki máli hversu gamall maður er, óvissan er alltaf jafn óþægileg.