mánudagur, ágúst 14, 2006

Í dag er vika þangað til Karólína hverfur á vit framhaldsmenntunar í Norður-Karólínu. Við mæðgurnar fljúgum næsta mánudag til Durham, hún flytur inn á vist daginn eftir og svo taka við allra handa kynningar og skemmtanir þangað til skólinn sjálfur byrjar mánudaginn 28. Kristín fer svo í byrjun september og þá verður tómt í kofanum. Sú yngri átti að byrja að pakka um helgina en það fór nú minnst niður í kassa eða töskur. Hún er afskaplega skipulögð og rökrétt í vinnubrögðum og er búin að skipuleggja fataskápinn þannig að allt sem hún tekur með sér er fremst og auðvelt að grípa til þegar raða á niður. Svo er hún komin með lista yfir allt sem hún ætlar að taka með sér og það sem við ætlum að kaupa áður er hún fer og svo það sem þarf að kaupa á staðnum. Ég hef óljósan grun um að þegar kemur að því að koma dótinu niður þá tekur það stuttan tíma, það er allt á sínum stað hjá henni og það fer lítill tími í óþarfa snúninga. Hún systir hennar er ekki þannig! Bíllílykillinn og peningaveskið hennar eru þeirrar náttúru að hverfa þegar minnst varir og þegar hún á síst von á og má bara alls ekki vera að svoleiðis leikaraskap og þá fer allt heimilið og húsið af stað. Sú eldri á það til að hringja í litlu systur og biðja um hjálp við leitir....jafnvel þótt hálf heimsálfa sé á milli þeirra og sú yngri hafi hvergi verið nálægt þegar hvarfið varð. Það sama á við þegar tölvuvandmál eru í gangi, sú yngri er tölvugeek og finnur alltaf leiðir útúr öllum svoleiðis vandamálum. Sú eldri hjálpar aftur á móti til við hugmyndaleit, sköpun, ævintýri og skemmtilegheit. En orku hafa þær ómælda báðar tvær svo hér verður tómlegt og rólegt þegar þær hverfa á braut.

Engin ummæli: