miðvikudagur, febrúar 20, 2008

Ég er voðalega busy þessa dagana og það er hið besta mál. Rannsóknin er alveg á fleygiferð og gengur vel og svo er ég að vinna fyrir bæinn minn eina og sanna. Þetta krefst því endalausra fundahalda, viðtala og heimsókna, formlegra og óformlegra. Ég fór á fimm fundi í dag...og ég endaði daginn með dúndrandi hausverk fjandanum þeim arna. Það er hin besta leið að leita að félagslegum samskiptum og hitta gamla og óvænta vini að fara á Bjarg á háannatíma. Gamlir skólafélagar frá því ég var 7 ára sem fylgdumst að í gegnum Barnaskólann, Gaggann, Landspróf og svo MA hef ég hitt, meira að segja tvo, og svo aðra frá MA árunum og svo alla hina sem ég hef ekki séð í ár- og stundum áratugi. Annars var hann tvíburabróðir minn lagður inn á spítala í dag honum til mikils ama því honum finnst að hægt sé að meðhöndla próblemið heimavið þar sem konan hans á allt til alls en ekki var hann ameríski sem kallaði manninn minn "the crazy man" þegar þeir spiluðu körfu saman hér fyrir einum 20 árum, sammála svo þá er bara að beygja sig undir það og eyða nóttunni á FSA-SA eða hvað hann nú heitir spítalinn á sunnanverðu Eyrarlandsholtinu.

Loksins er kyrrt og hljótt hérna á Klöppinni minni, rokið í pásu og mér finnst yndislegt að vera hérna ein þegar svo er. Ég verð öll svo uppspennt og stressuð þegar rokið allt að því rífur húsið upp og sendir mig útí Grímsey en ég þarf að venjast þessu og glíma við þetta á afslappaðan hátt. Húsið fer ekki neitt ég er alveg viss um það en þetta er alveg jafnóþægilegt fyrir því og ég sef hræðilega þegar suðaustanáttin ber húsið að utan, sérstaklega við höfuðgaflinn sem er við suðaustan vegginn. Kannski ég flytji mig í annaðhvort norðurherbergjanna í næsta suðaustanstormi. Nóg er víst plássið fyrir eina kvenkind.

mánudagur, febrúar 18, 2008

Ég sakna mannsins míns alveg hræðilega. Þetta er hið versta mál því ég er á köflum óvinnufær. Þrátt fyrir Skype og myndavélar og beinar útsendingar héðan og þaðan þá er þetta bara ekki nóg. Þetta er allt í lagi svona í stuttan tíma en nú er þetta að verða eiginlega nóg af því góða. Ég leggst uppá fjölskylduna í Hrafnagilsskóla regluega og svo fer ég til mömmu reglulega en hún er orðin afskaplega léleg til líkama og sálar blessunin og það er lítið hægt að ræða málin við hana. Svo heimsæki ég hina tvo bræður mína reglulega svo þetta hefur ekkert með aðra að gera, heldur sjálfa mig og minn mann. Ein vika búin og níu eftir. Vonandi kemur hann til landsins í mars eða ég fer heim í stutta ferð og þá get ég séð börnin mín og það væri nú hið besta mál, og eiginlega alveg bráðnauðsynlegt en það kemur ekkert í staðinn fyrir hann Halla minn. Eftir þessi rúm 32 ár þá er þetta eins og að taka hluta af heilanum í burtu, nú eða handlegg, eða fótlegg, eða einhvern hluta af mér, hver sem hann er.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Þá er rannsóknin mín, þessi eina og sanna, byrjuð og það hefur gengið afskaplega vel hingað til en það hefur svo sem ekki mikið gerst, og þó, skipulagningu og fyrstu vettvangsrannsókn er lokið. Svo er ég byrjuð á fyrsta verkefni Menntagreiningar ehf, virðulegt heiti á fyrirtækinu mínu og Kalla, það er þokkalega umfangsmikið verkefni sérstaklega þegar tekið er mið af að niðurstöðum á að skila 15. apríl. Ég þarf að láta hendur standa fram úr ermum ef allt á að ganga upp. Það gengur eflaust allt saman en ég má ekki liggja á meltunni, það eru 12-14 klukkustunda vinnudagar framundan, sem er nú svo sem ekkert miðað við manninn minn en það er nú ekkert að marka hann...er það nokkuð?

Nú þarf ég að læra á "garage band" tæknina í tölvunni minni því ég ætla að taka upp öll viðtöl beint inná tölvuna. Ég er hrædd um að yngsti bróðursonur minn, hann er 11 ára, verði að kenna mér á þetta. Ég reyndi en þetta gekk eitthvað treglega hjá mér og það er svo miklu einfaldara að tala við þann sem kann en að reyna að finna útúr þessu sjálf. Ég hef svo margt annað betra við tímann að gera...eða þannig. Prjónarnir mínir eru hérna, og svo verkefnin mín að sjálfsögðu.

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Komin á Klakann eftir hrakningar. Ég var veðurteppt í Boston í einn sólarhring vegna þess hversu illa gekk að afferma flugvélar Icelandair enda þurfti að bjarga einum farþega í einu með hjálp björgunarsveita og slökkviliðsbíla og það eftir margra klukkutíma bið um borð í vélunum. Það hefur verið leiðinleg bið það. Ég fór því í óvænta heimsókn til litlu drengjanna minna þeirra Jóhannesar og Haraldar og foreldra þeirra. Þau fluttu frá Rochester til Boston í fyrra sumar og við söknum þeirra óskaplega. Þessi töf kom sér því vel og það var voðalega gott að þurfa ekki að hanga alein á hóteli heldur vera á einkaheimili hjá vinum. Ég brunaði svo norður á sunnudaginn því ég byrjaði vinnu í gær og nú er það frá gengið að ég byrja doktorsrannsóknina mína í fyrramálið klukkan 10!!! jibíííí, loksins er komið að þessu. Mér tókst líka að ganga frá nettengingu fyrir Lönguklöpp og nú sit ég við eldhúsborðið mitt á Klöppinni og vinn hörðum höndum. Þetta er hinn mesti munur, því þá þarf ég ekki að leita mér að vinnustað hjá bræðrum mínum. Í dag er hávaðarok og gengur á með éljum. Ég vaknaði oft í nótt við hamaganginn en hann ætlar víst að lægja eitthvað einhverntíma.

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Þá er komið að langþráðum áfanga, ég er á leið til Íslands á morgun föstudag til þess að klára doktorsrannsóknina mína, loksins, loksins. Það eru góðu fréttirnar, þær slæmu eru að ég sé ekki manninn minn í langan tíma. Við höfum ekki verið aðskilin svona lengi síðan 1975 og það er langt síðan þá. Ég lendi á laugardagsmorguninn og reikna með að keyra norður á sunnudaginn því ég byrja vinnu á mánudagsmorguninn. Mér sýnist veðurspáin vera heldur döpur fyrir ferðalög á laugardaginn, kannski lendi ég á Egilsstöðum eða Akureyri eða Kaupmannahöfn, hver veit. Eða kannski lendi ég í Keflavík og verð veðurteppt á Reykjanesbrautinni. Hvert sem verður þá fæ ég engu um það ráðið svo ég bara fer af stað í mitt ferðalag, fyrst keyri ég til Minneapolis og flýg þaðan til Boston og svo Boston til Íslands. Minneapolis flug Icelandair er í vetrarfríi svo ég þarf að flækjast um Ameríku fyrst. Aftur kem ég heim til Minnesota þegar vorið verður komið á fleygiferð, garðurinn minn orðinn grænn, trén komin með grænan lit, sum laufguð, önnur ekki. Vorið og haustið eru fallegasti tími ársins og því vil ég ekki missa af.

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Hér eru nokkrar myndir frá fyrsta deginum í Vail. Eins og sjá má þá var veðrið óskaplega fallegt og fegurðin var einstök.

Kata og Halli í Vail


CIMG1908
Originally uploaded by Kata hugsar


CIMG1900
Originally uploaded by Kata hugsar

Vail


CIMG1915
Originally uploaded by Kata hugsar

Vail


CIMG1896
Originally uploaded by Kata hugsar

mánudagur, febrúar 04, 2008

Það var stórhríð sem mætti okkur í gærmorgun þegar við héldum af stað á flugvöllinn. Þar biðum við í nærri tvo klukkutíma eftir að vélin okkar sem hringsólaði fyrir ofan okkur lenti. Þegar við gengum um borð var skyggnið orðið að engu en í vélina fórum við og biðum svo í tvo tíma á flugbrautinni þangað til fluginu var aflýst endanlega. Þá var að reyna að finna hótelherbergi nálægt vellinum og það var þrautin þyngri því einum 10 vélum var aflýst og flestallt ferðamenn eins og við í leit að næturstað. Mér tókst að finna herbergi á hóteli en það eina sem var laust var reykingaherbergi og það er eins og þetta hafi verið hebergi sem var frátekið til þess eins að reykja í, stanslaust, þvílík var lyktin, meira að segja handklæðin voru gegnsósa af reykingalykt. Við (þ.e. ég) horfðum svo á seinni hálfleik Superbowl. Alveg afbragðs góður leikur. Í morgun var þétt snjókoma en á völlinn fórum við og eftir tveggja tíma bið létti til og eftir klukkutíma bið um borð á meðan vélin var afísuð þá komumst við loksins í loftið og heim komum við sólarhring á eftir áætlun.

Þetta var mikil draumaferð. Síðasta daginn fórum við á svæði sem kallað er Blue Sky Basin og það var ótrúlega skemmtilegt. Það er nýjasta svæðið og þar eru ekki bara leiðir sagaðar úr skóginum eins og á eldri svæðunum heldur eru tré skilin eftir hér og þar og svo er skíðað á milli trjánna og því er eins og maður sé aldrei á sömu skíðaleiðinni því það er alltaf eitthvað nýtt að prófa. Skíðafærið var með eindæmum, veðrið fyrir það mesta alveg afbragð, dásamlegir veitingastaðir og skemmtilegt fólk, aaahhhhh það gerist bara ekki betra blessað lífið.

föstudagur, febrúar 01, 2008

Það snjóaði í nótt og blés vel uppí fjöllum en þegar við fórum á skíði um klukkan 10 í morgun þá var ennþá snjókoma en lítill vindur. Við skíðuðum púðursnjó uppað hnjám í allan dag. Skyggnið var allt í lagi til að byrja með en lagaðist svo þegar blessuð sólin reyndi hvað hún gat að berjast í gegnum skýin, henni tókst svona af og til að vinna sér smá pláss en aldrei nóg til að komast alveg í gegn en þegar geislarnir komust niður á snævi þakkta jörðina þá var gott að skíða. Seinni partinn tapaði hún svo endanlega baráttunni um yfirráð á himninum fyrir snjófylltum skýjunum og skyggnið efst uppi varð afar lítið. Enda voru það þreytt læri sem komu heim á hótel uppúr klukkan 3 eftir 5 tíma skíðun í púðursnjó. Mér tókst að draga kall minn í heita pottinn honum til lítillar gleði. Hann fer nefnilega ekki ótilneyddur í sameiginlegt rassabað með ókunnugum. Potturinn hefði mátt vera heitari en gott var að láta líða úr sér. Ég fór svo í göngutúr seinnipartinn á meðan Halli fór á fund. Ég þurfti nefnilega nauðsynlega að verða mér út um súkkulaði, það er alveg bráðnauðsynlegt að borða súkkulaði eftir skíðaferð og ég átti bara ekkert súkkulaði og það er ekki gott, sérstaklega fyrir þá sem í kringum mig eru. Ég fann súkkulaðibúðina, ekki sælgætisbúð, og bara alls ekki sjoppu, heldur alvöru súkkulaðibúð, þar sem einsgöngu er selt súkkulaði og nú líður mér vel; dauðþreytt eftir skíðaferð dagsins, búin að hvílast í heita pottinum, borða súkkulaði og á leið í mat.