fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Þá er komið að langþráðum áfanga, ég er á leið til Íslands á morgun föstudag til þess að klára doktorsrannsóknina mína, loksins, loksins. Það eru góðu fréttirnar, þær slæmu eru að ég sé ekki manninn minn í langan tíma. Við höfum ekki verið aðskilin svona lengi síðan 1975 og það er langt síðan þá. Ég lendi á laugardagsmorguninn og reikna með að keyra norður á sunnudaginn því ég byrja vinnu á mánudagsmorguninn. Mér sýnist veðurspáin vera heldur döpur fyrir ferðalög á laugardaginn, kannski lendi ég á Egilsstöðum eða Akureyri eða Kaupmannahöfn, hver veit. Eða kannski lendi ég í Keflavík og verð veðurteppt á Reykjanesbrautinni. Hvert sem verður þá fæ ég engu um það ráðið svo ég bara fer af stað í mitt ferðalag, fyrst keyri ég til Minneapolis og flýg þaðan til Boston og svo Boston til Íslands. Minneapolis flug Icelandair er í vetrarfríi svo ég þarf að flækjast um Ameríku fyrst. Aftur kem ég heim til Minnesota þegar vorið verður komið á fleygiferð, garðurinn minn orðinn grænn, trén komin með grænan lit, sum laufguð, önnur ekki. Vorið og haustið eru fallegasti tími ársins og því vil ég ekki missa af.

Engin ummæli: