laugardagur, apríl 30, 2005

Laugardagsmorgun

Klukkan er 8 að morgni og ég bíð eftir að Halli komi heim. Hann fór að kenna klukkan 6 í morgun og er búinn um tíu leitið og þá leggjum við af stað til Minneapolis til að horfa á Karólínu. Hann er að undirbúa röntgenlækna fyrir sérfræðiprófið stóra. Ég keyrði Karólínu og vinkonu hennar í rútuna sem tók þær á frjálsíþróttamót dagsins, það var fyrir tveim tímum síðan svo nú er ég að velta fyrir mér hvort ég eigi að leggja mig aftur áður en lagt verður af stað til Minneapolis eða hvort ég eigi að setjast niður með góða bók. Ég held að bókin vinni. Annars er ég mjög óróleg þessa stundina og verð örugglega fram eftir degi. Ég verð alltaf svona þegar stelpurnar eru að keppa. Kristín keppir um hádegið, þetta verður mjög spennandi því liðin sem þær róa á móti í dag eru mjög góð og hún var rétt mátulega bjartsýn þegar ég talaði við hana í gærkveldi. Karólína keppir í hástökki, 100m, og 4x400 í dag. Hún má keppa i fjórum greinum og ekki veit ég af hverju hún ekki hleypur 200 metrana en Sean hefur sínar ástæður geri ég ráð fyrir þó svo ég skilji þær ekki alltaf og þótt ég skildi þær þá væri ég eflaust ekki sammála honum.....en það er nú svo.

föstudagur, apríl 29, 2005

Golf

Ég hef ekki farið á golfvöll meira en einu sinni á sumri í fimm ár. Þetta er hið versta mál því ég sakna íþróttarinnar heil lifandis ósköp. Ástæðan fyrir þessu er sú að nú til dags þá lít ég á golf sem félagslega samkomu, fjögurra tíma samveru með skemmtilegu fólki við dásmlega iðju, en ekki keppnisíþrótt til þess eins fallin að vinna, og því þarf ég vini eða allavega skemmtilegt fólk til að spila með. Ekki svo að skilja að keppnisskapið sé alveg horfið, ég er nú ekki dauð úr öllum æðum enn, mér finnst ekkert voðalega gaman að spila illa og hvað þá að tapa leik, en það er reyndar orðið að tiltölulega litlu máli í golfleiknum. Eftir að ég flutti hingað til Rochester árið 2000 þá hef ég ekki hitt neinn sem gaman er að spila golf með, eða bara spilar golf svona almennt séð, ég hlýt að hrærast í skrýtnum hópi því hér spila mjög margir golf. Einhverra hluta vegna þá eru engir af okkar kunningjum golfarar, en nú stendur þetta til bóta. Ég skráði mig í kvennahóp (women´s league) sem spilar einu sinni í viku. Þetta er eiginlega kvennaklúbbur sem hefur allrahanda uppákomur minnst einu sinni í viku allt sumarið. Í viðbót við 18 holu uppákomurnar eru svo mót minnst einu sinni í mánuði. Við byrjum á þriðjudaginn og svo verður spilað alla þriðjudaga fram í lok september. Ég er eins og krakki sem hlakkar til jólanna, enda fer ég á æfingasvæðið í dag til að leita að sveiflunni minni og grafa upp stutta spilið. Ég spilaði í svona kvennaklúbb í Minneapolis í sjö ár og hafði ómælda ánægju af og sakna þeirra kvenna mikið svo nú vona ég að ég eignist sams konar vinahóp af golfkonum hér í bænum.

Það er annars merkilegt þessi golfíþrótt að því leitinu til að hvort sem maður er að keppa eða ekki þá veit ég nákvæmlega eftir daginn hvort vel eða illa gekk. Það er nefnilega allt skráð í kortið góða, ef ekki með blýanti þá er það örugglega skrásett í minninu. Ég get rennt mér á skíðum allan daginn og gengið alla vega en ég velti mér sjaldan uppúr því hvort ég skíðaði vel eða illa, eða spilað tennis og þá nenni ég sjaldnast að telja, nema þegar við Halli spilum á móti hvoru öðru, þá er alveg nauðsynlegt að telja! En eftir 18 holur í golfi þá er sest niður og reiknað og skráð og velt sér uppúr höggum og púttum. Ég hef reyndar ásett mér að slappa af yfir golfinu í sumar og njóta þess að vera úti á fallegum velli.....

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Hún Kristín mín

Hún Kristín mín heldur úti bloggsíðu (kristinville.blogspot.com). Hún birti nokkrar myndir þar fyrr í vikunni og á meðal þeirra er ein af herberginu hennar og Ashley. Það er eins og fallið hafi sprengja í mitt herbergið. Það má reyndar segja þeim til varnar að herbergið er pínulítið og þegar þar eru tvær afar uppteknar dömur að klára önn og lokapróf að nálgast þá fer nú snyrtimennskan stundum útum gluggann, en þetta er nú heldur mikið af því góða. Eitthvað hefur draslið ángrað hana dóttur mína því hún tók mynd af öllu saman og kallaði hana "mom i swear it's not always like this". Nú er bara einn dagur eftir af önninni þá tekur við lestrarvika og svo lokapróf. Hún á eftir eina róðrarkeppni af tímabilinu áður en úrslitamótin tvö skella á. Þær hafa unnið öll mótin til þessa og svo er að sjá hvað gerist á Eastern Sprints og svo hinu eina sanna NCAA Championship (háskólamótið). Það verður í Sacramento Kaliforníu í lok maí og ég hef setið við tölvuna mína í leit að tilboðum þangað, það virðist ætla að takast!

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Frá miðvestri til norðausturs

Eyfirðingar, og þá sérstaklega Akureyringar, hafa þann dásamlega vana að nota áttir við allt sem skýra þarf út. Þeir eru með höfuðáttirnar fjórar á hreinu og allar hinar á tæru. Það er gaman að sjá að aðfluttir, Halur Húfubólguson þar á meðal, hafa tileinkað sér þessa leið til útskýringa. Halur skrifaði á síðu sinni "Hann tók þó vissa áhættu í dag er hann færði silfurblöðkuna í suðvesturbeðinu um nærri 80 cm til suðausturs í sama reit eða beði". Það sem betra er, ég veit nákvæmlega um hvað maðurinn er að tala, það fer ekkert á milli mála hvar beðið er og hvert tréð góða var flutt. Það þarf ekki nákvæmari útlistingar á þessu verki, þetta er augljóst. Góður borgarbúi og vinur foreldra minna var eitt sinn búinn að fó nóg af þessu áttatali eftir nokkurra daga golf með vinum í höfuðstað norðurlands. Í kvöldmat á Hótel KEA um kvöldið bað hann um að kartöflurnar yrðu settar í suðvesturhornið á disknum. Hann hélt sjálfur að þetta væri hið besta grín en honum til mikillar undrunar hikaði ekki þjónninn við og gerði eins og honum var sagt. Fjörðurinn góði sem af náttúrunnar hendi gefur bæjarbúum í vöggugjöf tilfinningu fyrir áttunum, jafnvel þegar þeir ekki fæðast þar, kenndi mér þessa aðferð með miklum ágætum. Það er reyndar öllu verra að nota sér þessa kunnáttu þegar komið er hingað á slétturnar þar sem engin eru fjöllin, og þaðan af síður firðir eða dalir, viðmiðaðirnar verða jú að vera á sínum stað, en einhvernveginn hefur mér nú samt tekist að tileinka mér áttatal á flatlendinu innfæddum til mikillar undrunar.

mánudagur, apríl 25, 2005

Heimþrá

Það sótti að mér heimþrá um helgina. Andrés og öldungablak í blíðskaparveðri í höfuðstað norðurlands getur valdið svona óskunda vestur í henni stóru Ameríku. Nú er kominn meira en mánuður síðan ég var á Íslandi síðast og þá fer nú að læðast að mér ferðahugur, þetta er að verða ansi langt, og hvað þá þegar ég hef ekki komið norður síðan í nóvember. Þetta er hið versta mál og best væri að bæta úr þessu sem fyrst en það verður víst að bíða, ég verð að nota þessa ágætu þolinmæði sem ég hef, ég hef víst verk að vinna hér heima hjá mér. Heimþrá kemur til mín í allra handa líki. Um helgina sat ég og horfði á Akureyri í beinni í listagilinu, mjög spennandi að sjá bæjarbúa keyra upp og niður gilið, sem hét í mínu ungdæmi Kaupangsgil. Það góða við þá myndavél að ég get næstum því séð á Lönguklöpp. Svo er myndavél í Fjallinu en þar var mest mold og drullu að sjá. Svo las ég um úrslit leikja í blakinu, þekkti fullt af fólki sem keppti, en hér sat ég vestur í henni álfu, hálfslöpp og illa fyrir kölluð með heimþrá.

föstudagur, apríl 22, 2005

Nú er ég með tvö af börnunum mínum heima og svo tengdadótturina. Bjarni og Nicole fluttu til okkar í síðustu viku og nú er veislumatur á hverju kvöldi. Í gær vorum við úti að versla í matinn og það hafði ekkert verið rætt hvað skildi haft á borðum svo ég stakk uppá að hafa eitthvað einfalt til að skella á grillið, jú það var samþykkt og Bjarni ákvað að hafa svínarif. Ekki vissi ég að hann myndi byrja að elda klukkan þrjú og ekki verða búinn fyrr en um sjöleytið. Hjá mér eru rif einfaldur og fljótlegur matur, en ekki hjá honum. Það var hreint ótrúlegt hvað þau gerðu til að undirbúa steikinguna sjálfa; kryddlegin í 1 tíma, soðin í ofni með 8 kryddtegundum í 2 tíma, og svo grilluð í sérstökum legi á eftir þessu öllu saman. Ég hef aldrei smakkað önnur eins rif, lungamjúk, safarík, bragðgóð og ilmandi. Daginn áður var indverskur korma réttur í jógúrtsósu, daginn þar áður enchiladas. Með þessu áframhaldi verð ég orðin hnöttótt þegar ég kem til Íslands í júní.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Það gengur illa að byrja keppnistímabilið í frjálsum. Það átti að byrja í síðustu viku en mótinu var aflýst vegna þrumuveðurs. Svo var keppt á laugardaginn í ausandi rigningu. Karólína var við skólann í Cannon Falls frá 8-5, það var ekkert húsaskjól að hafa fyrr en seint um daginn svo allt var gegnblautt, ískalt og heldur lítið geðfellt. Svo átti að vera mót í gær hér heima en því var frestað vegna mikillar þrumuveðurspár sem svo aldrei rættist. Þá er að sjá hvað gerist á föstudagskvöldið í Hudson. Það hefur annars verið fádæma blíða, allt að 28 stiga hiti og sól þessa síðistu vikur svo þetta er óttaleg óheppni að þessir fáu rigningardagar skulu vera á keppnisdögum. Það verður víst að taka því eins og hverju öðru hundsbiti.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Vor

"Vorið er komið og grundirnar gróa....." og hér er svo sannarlega komið vor. Allt að verða grænt, weeping willow tréð hérna hinumegin við götuna farið að sveigjast um í vorvindunum eins og húladansmær í ljósgrænu strápilsi, komnir knúppar á ávaxtatrén og þá fer að styttast í að veröldin verði bleik og hvít og ilmandi. Við erum með eitt kirsuberjatré hérna í garðinum hjá okkur sem blómstrar skærbleiku og okkur langar í fleiri, kannski látum við verða að því að górðursetja þau í sumar. Við ætlum að vinna í norðurenda lóðarinnar um helgina. Þá er ætlunin að slétta úr moldinni sem eftir varð þegar Halli hreinsaði í burtu skelfilegan undirgróðurinn í skóginum okkar, undirgróður sem var illgresi og sem var að drepa eikartrén vegna orkufrekju. Nú líður eikartrjánum vel því þau hafa nóg pláss til að anda. Seinna í þessum mánuði sái ég svo grasfræum í moldina en það verður að bíða þangað til jarðvegurinn verður orðinn þurrari og svo er að gróðursetja burkna og annan gróður sem dádýrin éta ekki. Svo kemur sumarblómatíminn bráðum.....

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Bílferð

Á mínum unglingsárum þá fór ég í Borgarnes minnst einu sinni á sumri til að heimsækja ungan mann sem þar bjó. Þessi ungi maður átti það til á veturna að banka á gluggann minn seint á kvöldin ef hann var svangur og þá var hann gjarnan í fylgd fleiri vina úr Skólanum. Því var það að þegar bankað var á gluggann minn á fallegri snemmsumarnótt 1978 þá var ég nú ekki alveg viss um hvað um var að vera því ungi maðurinn var farinn til síns heima og ég átti því alls ekki von á neinum, hvað þá á gluggann. Ég kíkti út og þar stóðu tveir af þessum ágætu vinum hans (okkar) og vildu fá mig með í bíltúr suður á land. Ekki strax þá um nóttina en svona næstum því. Annar þeirra hafði keypt sér splunkunýjan bíl úr kassanum stuttu áður og var það afar óvenjulegt því fæstir okkar skólakrakkanna áttu bíl, hvað þá nýjan úr kassanum. Það átti sumsé að nota sér farkostinn fína og bruna í Borgarnes í heimsókn til vina okkar þar. Skrásetjarinn frá Reyðarfirði hætti við allt saman og ákvað að suðurferðin væri ekki fyrir hann en Ærir og ég ákáðum að halda í´ann daginn eftir. Ferðin gekk vel framan af Öxnadalurinn, Öxnadalsheiðin og Blönduhlíðin tók okkur eina tvo tíma. Það voru náttúrulega malarvegir sem við keyrðum á og á vorin þá litu þessir ágætu malarvegir ekki svo íkja vel út, það voru víða hvörf í veginum, svo Ærir keyrði varlega á nýja bílnum. Þegar kom uppá Vatnsskarðið þá var ljóst að vegurinn þar var öllu verri en verið hafði og því var keyrt enn hægar. Varkárnin reyndist ekki næg því allt í einu datt litli Trabantinn nýi ofaní heljarinnar hvarf og festist þar. Það sem Trabantar eru (voru?) ekki gerðir úr varanlegum málmi heldur trefjaplasti ef ég man rétt þá var nú ekki erfitt að ná honum uppúr en nú fór í verra því pústkerfið hafði skemmst í meðförunum. Pústkerfið í Trabant er ekki á sama stað og á öðrum bílum og hafði það farið í sundur rétt fyrir framan mælaborðið. Áfram var samt haldið en það sem brotnað hafði var ekki til í að hafa hljótt um sig á leiðinni heldur hagaði sér eins og brotnum pústkerfum sæmir og var með mikinn hávaða og læti og það sem eftir lifði ferðar gátum við ekkert talað saman og höfum við bæði búið við varanlega heyrnarskemmd síðan. Við náðum í Borgarnes eftir langa ferð, 7 tímar ef ég man rétt, og þegar keyrt var inní sofandi bæinn þar sem aldrei slíku vant var logn þá glumdi svo vel í öllu að hálfur bærinn vaknaði með andköfum og var víst rætt um það víða daginn eftir hvaða flugvél hefði eiginlega farið yfir bæinn um nóttina.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Plága

Ég framdi fjöldamorð á maríuhænum í gær. Maríuhænur eru mikil plága hér, þær koma í hundruðum þúsunda, alltaf saman í skýjum og smokra sér inn um allar glufur sem finnast. Þetta eru reyndar ekki alvöru maríuhænur, eru víst kallaðar asíu-bjöllur og eru appelsínugular með svörtum doppum, en ég kalla þær nú samt maríuhænur. Þessi plága byrjaði árið 2000 og eins og svo margt annað komu þær frá Iowa hingað uppeftir. Verst er þetta á haustin en núna þegar hlýtt er þá fylla þær glugga og loft svo varla sést út eða í litinn á bakvið. Ég tók mig því til í gær og ryksugaði gluggana og loftin einu sinni á klukkutíma og þá náði ég hundruðum í einu. Ryksugun er eina leiðin til að þetta sé ekki subbuverk, það er hræðilega vond lykt af þeim þegar þær eru klesstar, minnir helst á gamlan fituþráa, svo nú tekur því ekki að ganga frá ryksugunni og fjöldamorð verða framin næstu daga. Halli var ekkert skárri en ég í gærkveldi hann gekk um vopnaður ryksugu og saug þær inn hvar sem þær var að sjá og finna.

mánudagur, apríl 04, 2005

Sumartími

Þá er búið að breyta klukkunni hér yfir á sumartímann. Það er alltaf svolítið mál að gera þetta, breyta öllum klukkum, mæta á réttum tíma, o.s.frv., og þegar þetta hittist á sama dag og fráfall páfa þá er nú tímabreytingin ekki mjög fyrirferðamikil í fréttatímum fjölmiðla og ég var alls ekki að hugsa um þetta. Ég gleymdi að breyta klukkunum á laugardagskvöldið og þar sem ég átti að ná í hann Jóhannes litla á sunnudagsmorgun klukkan 7 þá var þetta ekki vel gott því ég uppgötvaði á leiðinni þangað að klukkan var að verða 8! Þetta bjargaðist þar sem húsið var fullt af fólki sem sá um hann þangað til ég birtist, en neyðarlegt var það engu að síður. Nú er sumarblíða upp á hvern dag, 15-20 stiga hiti alla daga og sól og blíða. Vorið og haustið er besti tími ársins hér því þá er hvorki skelfilega heitt eða kalt en nú fara að koma vorrigningar, nauðsynlegur hluti af tilverunni því þá tekur náttúran sig til og gerir allsherjar vorhreingerningu, og það er alveg nauðsynlegt eftir sandburð vetrarins. Þrumuveðurspá fyrir miðja viku en rjómablíða fyrri hlutann.

föstudagur, apríl 01, 2005

Úr stjörnuspá Moggans í dag handa okkur meyjum:

"Þú finnur hugsanlega til aukinnar ábyrgðar vegna barna þinna í dag. Taktu því með ró. Börn þurfa umönnun, þannig er það bara, hvað sem tautar og raular".

Það er alveg sama hversu gömul börnin mín verða ég kem alltaf til með að hafa áhyggjur af þeim, ég er alveg hræðilega áhyggjufull móðir, eins og ég var tiltölulega afslöppuð yfir þeim þegar þau voru yngri, ég var svo viss um að allt yrði í lagi. Það er kannski vegna þess að þá hafði ég nánast allan ákvörðunarréttinn þegar þau voru annars vegar á meðan nú til dags eru það afar takmörkuð áhrif og að sjálfsögðu er ég viss um að mínar ákvarðanir séu mun ábyrgðarfyllri og skynsamari en þeirra. Sonur minn 24 ára vakti mig í dag klukkan kortér í sjö til að fá smá minniháttar hjálp og þá fór ég náttúrulega að hafa áhyggjur af því sem hann er að gera, sú yngsta, 16 ára, er að fara í sína fyrstu dagsferð á bílnum í dag. Fer í heimsókn í tvo háskóla og annar þeirra er í St. Paul en þar hefur hún aldrei keyrt ein áður. Hin dóttir mín, 19 ára, er meidd í olnboga, er mikið bólgin og á erfitt með að gera allt nema að róa að sjálfsögðu. Eiginmaðurinn í New Orleans á fundi svo "hér er ég því ég get ekki annað". Allt eru þetta fullorðið fólk, eða hálffullorðið allavega, og ætti ég því að treysta þeim fyrir þeirra eigin lífi, en svona er þetta nú.....og þetta er nú eiginlega fáránlegt en ég breytist örugglega aldrei. Þeim finnst reyndar sem betur fer voðalega gott að fá ráð hjá mömmu og þá líður mér náttúrulega vel og finnst ég enn vera ómissandi en ég þarf nú eiginlega að læra að slappa svolítið af yfir þessu öllu.