þriðjudagur, apríl 26, 2005

Frá miðvestri til norðausturs

Eyfirðingar, og þá sérstaklega Akureyringar, hafa þann dásamlega vana að nota áttir við allt sem skýra þarf út. Þeir eru með höfuðáttirnar fjórar á hreinu og allar hinar á tæru. Það er gaman að sjá að aðfluttir, Halur Húfubólguson þar á meðal, hafa tileinkað sér þessa leið til útskýringa. Halur skrifaði á síðu sinni "Hann tók þó vissa áhættu í dag er hann færði silfurblöðkuna í suðvesturbeðinu um nærri 80 cm til suðausturs í sama reit eða beði". Það sem betra er, ég veit nákvæmlega um hvað maðurinn er að tala, það fer ekkert á milli mála hvar beðið er og hvert tréð góða var flutt. Það þarf ekki nákvæmari útlistingar á þessu verki, þetta er augljóst. Góður borgarbúi og vinur foreldra minna var eitt sinn búinn að fó nóg af þessu áttatali eftir nokkurra daga golf með vinum í höfuðstað norðurlands. Í kvöldmat á Hótel KEA um kvöldið bað hann um að kartöflurnar yrðu settar í suðvesturhornið á disknum. Hann hélt sjálfur að þetta væri hið besta grín en honum til mikillar undrunar hikaði ekki þjónninn við og gerði eins og honum var sagt. Fjörðurinn góði sem af náttúrunnar hendi gefur bæjarbúum í vöggugjöf tilfinningu fyrir áttunum, jafnvel þegar þeir ekki fæðast þar, kenndi mér þessa aðferð með miklum ágætum. Það er reyndar öllu verra að nota sér þessa kunnáttu þegar komið er hingað á slétturnar þar sem engin eru fjöllin, og þaðan af síður firðir eða dalir, viðmiðaðirnar verða jú að vera á sínum stað, en einhvernveginn hefur mér nú samt tekist að tileinka mér áttatal á flatlendinu innfæddum til mikillar undrunar.

Engin ummæli: