Ég hef ekki farið á golfvöll meira en einu sinni á sumri í fimm ár. Þetta er hið versta mál því ég sakna íþróttarinnar heil lifandis ósköp. Ástæðan fyrir þessu er sú að nú til dags þá lít ég á golf sem félagslega samkomu, fjögurra tíma samveru með skemmtilegu fólki við dásmlega iðju, en ekki keppnisíþrótt til þess eins fallin að vinna, og því þarf ég vini eða allavega skemmtilegt fólk til að spila með. Ekki svo að skilja að keppnisskapið sé alveg horfið, ég er nú ekki dauð úr öllum æðum enn, mér finnst ekkert voðalega gaman að spila illa og hvað þá að tapa leik, en það er reyndar orðið að tiltölulega litlu máli í golfleiknum. Eftir að ég flutti hingað til Rochester árið 2000 þá hef ég ekki hitt neinn sem gaman er að spila golf með, eða bara spilar golf svona almennt séð, ég hlýt að hrærast í skrýtnum hópi því hér spila mjög margir golf. Einhverra hluta vegna þá eru engir af okkar kunningjum golfarar, en nú stendur þetta til bóta. Ég skráði mig í kvennahóp (women´s league) sem spilar einu sinni í viku. Þetta er eiginlega kvennaklúbbur sem hefur allrahanda uppákomur minnst einu sinni í viku allt sumarið. Í viðbót við 18 holu uppákomurnar eru svo mót minnst einu sinni í mánuði. Við byrjum á þriðjudaginn og svo verður spilað alla þriðjudaga fram í lok september. Ég er eins og krakki sem hlakkar til jólanna, enda fer ég á æfingasvæðið í dag til að leita að sveiflunni minni og grafa upp stutta spilið. Ég spilaði í svona kvennaklúbb í Minneapolis í sjö ár og hafði ómælda ánægju af og sakna þeirra kvenna mikið svo nú vona ég að ég eignist sams konar vinahóp af golfkonum hér í bænum.
Það er annars merkilegt þessi golfíþrótt að því leitinu til að hvort sem maður er að keppa eða ekki þá veit ég nákvæmlega eftir daginn hvort vel eða illa gekk. Það er nefnilega allt skráð í kortið góða, ef ekki með blýanti þá er það örugglega skrásett í minninu. Ég get rennt mér á skíðum allan daginn og gengið alla vega en ég velti mér sjaldan uppúr því hvort ég skíðaði vel eða illa, eða spilað tennis og þá nenni ég sjaldnast að telja, nema þegar við Halli spilum á móti hvoru öðru, þá er alveg nauðsynlegt að telja! En eftir 18 holur í golfi þá er sest niður og reiknað og skráð og velt sér uppúr höggum og púttum. Ég hef reyndar ásett mér að slappa af yfir golfinu í sumar og njóta þess að vera úti á fallegum velli.....
föstudagur, apríl 29, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli