sunnudagur, mars 30, 2008

Það var svo óskaplega gaman í morgun því þá fór ég á hestbak ásamt þilskipaútgerðarskrásetjaranum og henni Gurlu vinkonu okkar og svo tengdó hans. Það var reyndar alveg hrikalega kalt, svo kalt að ég dofnaði svo á tánum að þegar ég kom heim klukkustund eftir að reiðtúr var lokið þá voru tærnar ennþá mjallahvítar og dofnar. Enda vorum við með þeim örfáu sem riðu út í dag í hesthúsahverfinu. Ég hef ekki farið á hestbak í 10 ár og það var í Grand Teton þjóðgarðinum í Wyoming. Tveggja tíma ferð eða svo á fallegum slóðum þar sem reiðskapurinn var aukaatriði enda á hálfdauðum risa hrossum sem ekkert fældu. Þar áður fór ég í reiðtúr þegar ég var 11 ára eða svo. Í dag fór lítið fyrir hetjuskap mínum, ég var nú ekki mjög hughrökk á þessari líka fallegu meri en ég lagaðist þegar leið á og tókst næstum því að slappa af. Kannski næst. En gott var að vera úti og ennþá betra að koma í hús. Ég og merin vorum að ákveða allan tímann hvor okkar réði...ég vann, merkilegt nokk en mikið voðalega fannst henni leiðinlegt að láta þennan viðvaning stjórna sér. 

föstudagur, mars 28, 2008

Ég varð vitni að skondnu samtali í ræktinni í gær. Þar voru nokkrar stelpur svona nokkurnveginn sjö ár eða svo, ekki meira. Ein dróg upp nýjan gemmsa og hinar komu eins og flugur að hunangi og töluðu hver ofaní aðra hvað hann væri æðislegur og að svona síma langaði þær ssssvvvoooo í. Þær spurðu eigandann hvar hún hefði fengið tólið, "ég fékk hann á sunnudaginn", "fékkst´ann í páskagjöf?" Svarið var óvænt fyrir gamla konu eins og mig: "nei, hann var sko inní páskaeggi númer 7, pabbi lét búa það til fyrir mig". Jahá. Þetta var nefnilega svona pæjusími, skærbleikur Motorola razor sem kostar einhverja tugi þúsunda hér á landi. Handa einni 7 ára!!!! Ég veit ekki hvort ég er meira hissa á símanum eða páskaegginu.

fimmtudagur, mars 27, 2008

Tvær vikur þangað til Halli leggur af stað til Íslands...og mín.

miðvikudagur, mars 26, 2008

Hvernig er þetta með þennan klaka hérna, á ekkert að fara að hlýna? Apríl er nú bara í næstu viku sko og þá finnst mér nú allt í lagi að það fari að slaga í 10 stigin alla vega svona einn og einn dag. Púúúffff ég sé enga hlýnun í spám veðurstofunnar, hvernig er þetta eiginlega með hlýnun jarðar, ætli hún hafi farið framhjá Íslandi?

þriðjudagur, mars 25, 2008

Það var svo gaman að upplifa gamaldags páskafrí. Þótt við höfum verið á Íslandi á páskum síðustu árin þá hef ég ekki verið svona lengi fyrir og í aðdraganda þeirra. Fara bara í frí og á skíði, sund, ræktina, heimsóknir, mat og svo lestur og prjónaskapur einhversstaðar inní milli. Hitti svo tengdafjölskylduna í veislu á páskadag í Borgarnesi. Þar var nánast allt liðið en ég var eini fulltrúi vesturfara en það var voðalega gaman að hitta svona marga. Í gær var svo fermingarveisla og hún snýst nú minnst um fermingarbarnið, það gefur jú tilefnið en annars snýst þetta um að hitta vini og spjalla yfir afbragðs góðum mat. Gaman, gaman. Nú er að snúa sér að vinnunni aftur og koma sér að verki. Ég á að halda fyrirlestur í KHÍ á föstudaginn en ég tók vikuvilt. Hélt að þetta væri í næstu viku en vaknaði upp við vondan draum á laugardagsmorgun þegar ég leit í dagbókina mína og áttaði mig á að það væri nú kannski vit í að fara að undirbúa eins og hálfs tíma fyrirlestur svona frekar fyrr en síðar.  Skólaheimsókn í dag og á morgun og svo nokkrar í næstu viku. Vonandi fer þetta allt að koma hjá mér.

föstudagur, mars 21, 2008

Það var dásamlegur morgun í fjallinu mínu. Ég var komin á skíði rúmlega hálf-tíu og þá var enginn á staðnum og ég skíðaði mikið þangað til allt var orðið troðfullt af fólki. Það var voða gaman að hitta fullt af gömlum vinum og kunningjum en skemmtilegast var þó skíðafærið, það var himneskt. Það snjóaði í allan gærdag og þeir tróðu í gærkveldi og ofan á það snjóaði í morgun og því var smá lausamjöll að leika sér í. Svo brunaði ég yfir á Lönguklöpp og mokaði frá og þar næst var það sundlaugin sem var stappfull eins og á fallegum sumardegi. Þar var gott að láta líða úr sér. Íslenskt lamb í kvöldmat, góður, góður dagur í páskafríi.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Á ég að fara á skíði í dag, í ræktina, sundlaugina eða bara allt þetta? Á ég nokkuð að vinna, er ekki best bara að vera í fríi, svona gamaldags páskafríi? Þetta eru stórar ákvarðanir...eða hitt þó heldur. Ég er mikil lúksus manneskja að geta velt mér uppúr svona smáatriðum.

mánudagur, mars 17, 2008

Það var óskaplega fallegt að keyra norður í gær. Heiður himinn alla leið og landið hvítt og fallegt. Að keyra inn Eyjafjörðinn var engu líkt. Pollurinn spegilsléttur svo Vaðlaheiðin speglaðist heil í, Fjallið mitt eina og sanna alhvítt, skuggi kominn á skíðasvæðið en Súlur og Glerárdalur baðað sólskini. Fjöldi manns var við Pollinn og á leirunum að taka myndir enda skýjamyndun afar falleg. Þegar ég kom yfir á Lönguklöpp henti ég öllu dótinu inn og fór beint út að moka frá. Ég gat ekki hugsað mér að fara inn eftir bílferðina og rauk því út og hamaðist við snjómokstur í hálfíma eða svo og stóð svo og andaði djúpt að mér loftinu og anganinni sem var. Vorangan þótt allt sé hvítt. Í dag er enn stafalogn en hálfskýjað og fyrst í morgun voru fjalltopparnir í vesturátt baðaðir rauðri birtu. 

fimmtudagur, mars 13, 2008

Fjórar vikur þangað til Halli kemur til landsins. Allt mjakast þetta, tíminn sem annað. Karólína fer heim í dag í langa helgarferð. Hún er í spring break en hefur þurft að vera í skólanum síðan fríið byrjaði vegna æfinga en fær frí frá þeim í fjóra daga. Hún er alsæl en hún ég verð ekki heima því miður. Mamma gamla ekki heima og enginn vekur hana með klóri á bakið og kossi á kinn. Nema pabbi en hann fer á stjá mun fyrr en örverpið losar svefn. Á morgun kemur Bjarni heim og þá ætlar allt gengið í bíó og út að borða en pabbi er á vakt svo það er óvíst hvort hann kemst með. Þá vantar "bara" okkur Kristínu.  Ég fer í leikhús hérna í Reykjavíkinni í kvöld svo mér er ekki vorkunn þótt ég hafi ekki mína allra nánustu hjá mér...eða ég er ekki hjá þeim.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Við eigum tólf ára gamlan VW Golf hér á Íslandi og höfum átt þennan ágæta bíl í ein 7 ár. Hann hefur verið notaður af mörgum og farið í gegnum eitt og annað blessaður en alltaf verið vandanum vaxinn. Hann fer í gang í hvert sinn sem við komum til landsins, það þarf jú stundum að jafnvægisstilla dekkin eftir margra mánaða setu í bílskúrnum hérna vesturfrá en það er nú bara venjuleg afleiðing af lífi eigendanna. Í gær fór ég í skólaheimsókn um morguninn og þurfti svo að skjótast í IKEA á leiðinni heim enda keyrði ég framhjá svo það var bara að skjótast inn. Sem ég og gerði, var voða fljót, kannski 15 mínútur, en þegar ég ætlaði að ræsa minn trausta vin þá gerðist bara ekki neitt, ekkert hljóð, engin ljós, allt dautt. Nú voru góð ráð dýr, ég uppábúin í business föt og háa hæla og bíllinn bilaður og kall minn bílamaðurinn í annarri heimsálfu. Ég hringdi því í bróður minn fyrir norðan sem allt veit um bíla og hann sagði mér að opna húddið og kíkja á rafgeyminn og athuga hvort allar leiðslur og snúrur væru fastar og þéttar. Þetta gerði ég og fannst að allt væri eins og það átti að vera. Hann gaf mér svo upp símanúmerið hjá Vöku og Króki og ég hringdi í Krók og átti bíll frá þeim að vera kominn eftir 45-60 mínútur. Þá tölti ég mér inní IKEA aftur og fékk mér að borða og var nú útlit fyrir að stutta IKEA ferðin yrði mun lengri en efni stóðu til.  Á meðan ég var að borða hringdi minn heittelskaði venjulega morgunsímtalið og þá varð ég að segja honum frá vandræðum mínum því ég var farin að sjá fyrir mér bílakaup og hvað annað þessum vandræðum gætu fylgt. Hann setti sig náttúrulega í gömlu bílaviðgerða stellingarnar og fór að greina vandræðin og komst að sömu niðurstöðu og bróðir minn að þetta hlyti að hafa eitthvað með rafgeyminn að gera. Ég sagði sem var að ég hefði engin tæki til að athuga málið og þekkti engan í nálægðinni og ætlaði því að bíða eftir Króki. Við fórum svo að velta fyrir okkur afleiðingunum ef þetta væri mikil viðgerð og dýr og hvort bíllinn væri þess virði að fara útí mikinn viðgerðakostnað. Hvorugt okkar hefur mikinn áhuga á bílakaupum í augnablikinu. Við vitum að við þurfum að endurnýja greyið innan ekki svo mjög langs tíma því bíllinn endist ekki að eilífu en hann er engum virði nema okkur, verðlaus gamall bíll sem ekkert fæst fyrir en hefur hingað til farið í gang og er í ágætu lagi. Svo er krónan óstöðug, fjármálamarkaðir í stórsjó og við höfum ekki mikinn áhuga á að fjárfesta í bíl við þessar aðstæður en ef neyðin hefði kallað á það þá var ekki um neitt að velja. Eftir klukkutíma bið þá hringdi ég aftur í Krók því enginn kom bíllinn og þá var mér sagt að ég þyrfti að bíða eitthvað lengur því árekstrar ganga fyrir svo smámálum. Svo leið og beið og ég búin að gera alla þá vinnu á tölvuna sem ég gat, tala við Halla mörgum sinnum á milli funda hjá honum og tala við alla krakkana mína, og kemur þá ekki blessaður kallinn. Hann ætlaði nú bara að skúbba bílnum uppá pallinn hjá sér en ég spurði hann hjáróma hvort hann gæti athugað hvort það væri nóg að gefa mér straum sem og þessi elska gerði og bíllinn rauk í gang. Þá voru sumsé snúrurnar við annan pólinn laflausar og hún ég hélt að þetta ætti að vera svona. Hvað veit ég...ekki neitt um bíla svo mikið er víst. Hann herti svo rær og skrúfur og þar með bílaviðgerð lokið! Og eftir rúmlega tveggja klukkutíma bið þá keyrði ég heim alsæl á gamla græna og þarf ekki að láta stórar fjárfúlgur í bílaviðgerðir og ekki þarf ég að standa í bílakaupum heldur svo allt fór þetta vel nema að egóið var dulítið hruflað á eftir, en það grær. 

þriðjudagur, mars 11, 2008

Ég var að lesa bloggsíðuna hans Hals Húfubólgusonar og varð hugsað til breytinga á orðum og orðanotkun og þá sérstaklega orðinu hestakerra. Sú var tíð að hestur dróg kerru sem í var annaðhvort fólk, afurðir eða aðföng en í nútímamáli þá er hestakerra vagn fyrir hesta og er hann dreginn af bíl. Hlutverk hestsins hefur breyst eins og hlutverk svo margs og margra. 

föstudagur, mars 07, 2008

Ég keypti vekjaraklukku í Elko í vikunni, nokkuð sem er svo sem ekki í frásögu færandi nema að þegar ég kom með klukkuna heim og fór að stilla hana og hafa hana tilbúna til notkunar þá kom í ljóst að klukkan hefur innbyggðan skjávarpa. Þ.e. að utan á klukkkunni er keilulaga rör og þegar kveikt er á því kemur rautt ljós. Þessu röri er hægt að snúa 180 gráður og það sem varpað er á vegg eða loft er skjár klukkunnar. Núna vísar skjávarpinn uppí loft hjá mér þannig að þegar ég vakna á nóttunni og vil vita hvað klukkan er þá þarf ég ekki að leita að klukkunni heldur lít ég uppí loft og þar er skjár klukkunnar endurvarpaður, live! Þetta er mjög skemmtilegt apparat, ekki nauðsynlegt, því ég hef aldrei saknað þess að geta ekki séð á klukkuna beint fyrir ofan koddann minn, en óneitanlega er þetta þægilegt þótt hingað til hafi ég aðallega verið að gjóa augunum á þetta skrýtna fyrirbæri í herberginu.

fimmtudagur, mars 06, 2008

Það var svo voðalega gaman í gærkveldi á Kringlu Kránni þegar Gleðisveit Guðlaugar lék jazz og jazzað popp og bara lög í jazz og blues. Fjöldi manns kom og ég í kompaníi við æskuvini sátum náttúrulega á fremsta bekk og mældum þilskipaútgerðarskrásetjarann spúsu hans og band út í hverju lagi og gerðum óspart grín af hversu alvarlegur kallinn með hattinn var. Hann sagði okkur að þetta væri svo erfitt að hann gæti nú ekki verið með eitthvert glens. Ég þekkti nú ekki marga en ég var alltaf að athuga hvort ég sæi kunnugleg andlit fullvitandi að sum þeirra gæti ég ekki hafa séð í áratugi og svona allflestir breytast mikið á löngum tíma. Allir nema Gæi. Ég fer því í gegnum þennan hugsanahátt að athuga hvort ég kannast við andlitið og svo að velta fyrir mér hvernig það sama andlit gæti hafa litið út mun yngra. Þetta eru mjög fyndnar hugsanir þegar ég velti fyrir mér hvort ég geti sett sum þessara andlita í tímavél...að sjálfsögðu má enginn setja mig í tímavél!

miðvikudagur, mars 05, 2008

Ég er sérlegur gestur á hádegisverðarfundi Íslenska Matsfræðifélagsins í dag. Þar verð ég með kynningu á doktorsverkefninu mínu í matsfræðunum. Kannski koma tveir, kanski fimm og kannski enginn. Ég get ekki skilið að nokkur hafi áhuga á því sem ég er að gera.

Það er annars merkilegt hvað mér finnst svo miklu skemmtilegra að vinna að mati en að gera rannsókn. Þetta er í fyrsta sinn sem ég geri þetta svona alveg hlið við hlið og mér finnst vinna mín í grunnskólum Akureyrar svo miklu meira spennandi en þessi sjálfhverfa sem mér finnst doktorsverkefnið vera. Ég á svo bágt með að sannfæra sjálfa mig um að niðurstöður rannsóknarinnar kom til með skipta einhverju máli, mér finnst nefnilega svo margt í fræðunum svo voðalega lítið merkilegt og deilur og skrif um lítilsverð mál....jú, jú, jú, ég veit alveg að það eru tekin pínulítil skref í einu í þessu fagi sem öðrum og mín rannsókn bætir einhverju litlu við en sjálfhverfa er þetta eftir sem áður því ég er að rannsaka það sem mig langar til. Mat og úttektir aftur á móti er vinna við að leita svara við spurningum sem brenna á svo mörgum og niðurstöður verða notaðar til að breyta, bæta eða taka ákvarðanir.

Doktors fj... verð ég bara að klára.

þriðjudagur, mars 04, 2008

Ég viðurkenni það fúslega að það hefur verið skrýtið að vera svona lengi á landinu. Það er óskaplega mikil naflaskoðun í gangi hérna á landi núna þegar kaup-brjálaðinu er lokið í bili. Mér finnst meiri ró yfir samfélaginu en verið hefur undanfarin ár, kannski er það bara ég sem er rólegri, hvur veit. Kannski er það árstíminn og veðurfarið, það er ekki mikið hægt að "gera" þegar hann snjóar og rignir til skiptist, hávaðarok og logn, einn daginn sól og blíða þann næsta kolvitlaust veður. Mér finnst ágætt að vera hérna, það er gott að vera "heima" og ekki vera útlendingur. Við erum jú búin að vera útlendingar í 21 ár og það tekur í sálartetrið á stundum Ég fýkur í mig þegar ég les og heyri á tali fólks að "þessir útlendingar" séu nú svona og svona. "Þessir útlendingar" eigi nú bara að fara heim til sín. Ég er ein af þeim þótt ég sé ekki útlendingur hér á landi, þótt mér finnist það nú stundum. Það er nú þannig komið fyrir okkur hjónunum allavega að okkur finnst við stundum ekki eiga föðurland, jú við erum og verðum alltaf Íslendingar, en við förum heim í hvora áttina sem við förum svo þar með eigum við tvö heimalönd... ekki föðurlönd, heldur heimalönd. Það fer að styttast í flutninga heim á Frón svo það er eins gott að fara að venja sig við tilhugsunina. Við setjum stefnuna á 2010 plús/mínus eitt ár.

mánudagur, mars 03, 2008

Ég sit við að skrifa skýrslu á íslensku, ekki ísl-ensku. Það eru allra handa pyttir á veginum sem ég þarf að varast því mér hættir til að vera heldur hvöss í skrifum, hmhm, það getur ekki verið. Sem betur fer hef ég hann tvíburabróður minn til að fara yfir skrifin áður en þau verða birt en ég kem til með að hafa fyrirlestur með kynningu á niðurstöðunum 15. apríl eða svo og þá er eins gott að hafa skotheldar niðurstöður, skrif, rökræðu og uppbyggingu. Svo er ég með kynningu á doktorsverkefninu á hádegisverðarfundi Matsfræðifélags Íslands á miðvikudaginn og það þarf víst að undirbúa það og svo er vinnan við doktorsverkefnið og allt sem því fylgir. Ég hef því nóg að gera, þess vegna ætla ég út að moka frá!

sunnudagur, mars 02, 2008

Þá er konan komin til höfuðborgarinnar. Ég keyrði í hlað rétt fyrir sex í gærkveldi og fór svo til þilskipaúterðarskrásetjarans í heljarinnar veislu. Hann grillaði dýrindis svín og bar það fram með ofnbökuðu rótargrænmeti ásamt salati. Í eftirmat hafði hann rabarbaraböku með þeyttum rjóma, mmmmm dásamleg máltíð og feykigott kompaní. Ég ætla svo á Kringlukránna á miðvikudagskvöldið til að hlusta á þau hjónin ásamt bandinu spila og skemmta.

Eftir að eyða eftirmiðdeginum í hamagang í ræktinni og svo matarinnkaup í tómt kotið þá kom ég heim á Kvisthaga og er búin að vera á Skype með kalli mínum. Þetta er voðalega notalegt, við sitjum hvort við sitt skrifborðið við vinnu og röbbum þegar þurfa þykir og þegjum saman þegar þannig verkar. Sjáum hvort annað og erum í eins miklli nánd eins og hægt er miðað við að vera hvort í sinni heimsálfunni. Mér líkar nýjasta tækni og vísindi.