mánudagur, mars 17, 2008
Það var óskaplega fallegt að keyra norður í gær. Heiður himinn alla leið og landið hvítt og fallegt. Að keyra inn Eyjafjörðinn var engu líkt. Pollurinn spegilsléttur svo Vaðlaheiðin speglaðist heil í, Fjallið mitt eina og sanna alhvítt, skuggi kominn á skíðasvæðið en Súlur og Glerárdalur baðað sólskini. Fjöldi manns var við Pollinn og á leirunum að taka myndir enda skýjamyndun afar falleg. Þegar ég kom yfir á Lönguklöpp henti ég öllu dótinu inn og fór beint út að moka frá. Ég gat ekki hugsað mér að fara inn eftir bílferðina og rauk því út og hamaðist við snjómokstur í hálfíma eða svo og stóð svo og andaði djúpt að mér loftinu og anganinni sem var. Vorangan þótt allt sé hvítt. Í dag er enn stafalogn en hálfskýjað og fyrst í morgun voru fjalltopparnir í vesturátt baðaðir rauðri birtu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli