mánudagur, janúar 31, 2005

Af eplum

Í dag er ósköp notalegt vetrarveður, rétt undir frostmarki, kyrrt og snjómugga. Ég kem til mað að eyða stórum hluta dagsins við saumavélina við kjólasaum, mér leiðist það nú ekki.
Í gær fórum við í dagsferð til Tvíborganna, stoppuðum í MoA (Mall of America) til að kíkja í Apple búðina. Það getur vel verið að hér á heimili sé kristin trú lítið ræktuð, eða önnur trúarbrögð ef útí það er farið, en það eru annarskonar trúarbrögð ræktuð og ein af þeim er tölvutrúarbrögð af eplakyni. Hér hefur verið Apple tölva á heimili síðan haustið 1984, ekki sú sama heldur einar 7 kynslóðir í viðbót við ipodda og önnur tæki. Haustið 1984 var verkfall BSRB, rétt fyrir verkfall komu tölvur í fyrsta sinn í grunnskóla þann í Reykjavík sem ég kenndi við. Ég var ein af kennurunum sem átti að sjá um þessar ágætu tölvur og þegar ljóst var að ekki tækist að semja við Albert þá fékk ég lánaða tölvu heim til að æfa mig betur á fyrirbærinu. Syni okkar, þá tæplega fjögurra ára, fannst þetta hið mesta galdratæki og eftir nokkra daga þá tilkynnti hann að hann þyrfti sko ekki að læra að skrifa því hann ætlaði bara að nota tölvu það sem eftir væri til þeirra verka. Við það hefur hann að mestu staðið, er núna með eina af epla gerð og aðra af hinni gerðinni, þessari sem ekki má nefna því hún er fulltrúi annarra trúarbragða, og er þess vegna ekki góð, ekki einu sinni boðleg.

laugardagur, janúar 29, 2005

Upphitun

Í fyrra vor fórum við hjónin til 10 daga ferð til Suður-Kóreu sem í sjálfu sér er ekki í frásögu færandi. Ferðin var afar skemmtileg, við ferðuðumst um og enduðum á skíðasvæði inní miðju fjalllendi. Enginn var snjórinn því þetta var í byrjun júní, en skíðasvæði geta verið hin bestu útivistarsvæði á sumrin líka, enda fórum við í nokkrar góðar fjallgöngur á svæðinu þá daga sem við vorum þarna. Daginn sem við komum átti að vera 3ja kílómetra hlaup fyrir þá þátttakendur fundarins sem áhuga höfðu. All margir höfðu safnast saman fyrir framan hótelið þegar líða tók að hlaupatíma. Halli hafði hugsað sér að taka þátt svo við stóðum þarna saman og biðum eftir að sjá hvert halda átti. Ekki vissum við hvert því allt fór fram á kóreönsku svo við skildum ekki nokkurn skapaðan hlut af því sem sagt var og þá var bara að bíða eftir að hópurinn tæki á sig fararsnið og fylgja. Allt í einu kallar einn skipuleggjenda eitthvað í sitt gjallarhorn og allir leggja af stað í átt að stóru bílastæði, raða sér upp í afar jafnar raðir eins og herdeild og standa stífir og eru greinilega að bíða eftir skipunum. Þar sem þetta var í Asíulandi þá segir það sig sjálft að allir voru litlir og svarthærðir, og fyrir þá sem ekki vita þá er maðurinn mitt hár og ljóshærður, og þarna stóð hann í miðjum hópnum, hár og gæsilegur og vissi ekki hvað hann átti að gera, svo enn og aftur fylgdist hann vel með gerðum hinna. Byrjar þá stjórnandinn að gefa skipanir á kóreönsku í sitt ágæta gjallahorn og allir vissu greinilega hvað gera átti, því nú skildi hitað upp fyrir hlaupið á þann hátt sem allir þar í landi læra í skólum landsins frá fyrstu tíð. Halli gerði sitt besta til að fylgjast með en þarna stóð hann og baðaði út öllum öngum hálfum takti á eftir öllum hinum, svo þegar hinir beygðu sig niður þá stóð hann uppréttur og þegar hinir teigðu úr sér þá var hann enn að toga í tærnar. Afar lipur kona var fyrir framan hann í röðinni svo hann reyndi að fylgja henni, en sá sem var fyrir aftan Halla var í meiri vandræðum því minn maður hafði greinilega truflandi áhrif á takt æfinganna svo eftir dapra byrjun þá skipti sá um röð, fannst greinilega vænlegra að fylgja sínu heimafólki. Upphitunin tók nú sem betur fer ekki meira en fimm mínútur og svo var farið að snúa sér að aðalatriðinu, hlaupinu sjálfu sem minn er mun betri í en allara handa teiguæfingar, fettur og brettur.

föstudagur, janúar 28, 2005

Æfingar og annað trimm

Eins og fram hefur komið á þessari síðu þá er hjá okkur í heimsókn vinur okkar sem norskur er. Hann er svona af þessari gerð Norðmanna sem hjólar allt sem þarf, hleypur ef vill, fer í skíðagöngutúra lengri en við hin eigum að venjast, er brúnn og sællegur allan ársins hring, og gengur enn í stærð 28 þrátt fyrir árin 45. Skíðaferðir fer hann sumsé í svona til að ganga þvert yfir Grænlandsjökul og svo eyddi hann 6 vikum í norður-Kanada með tveimur öðrum mönnum, 30 hundum, í 40-60 frosti, og bjó að sjálfsögðu í tjaldi. Nú er það svo að ektamaki minn keyrir nánast aldrei bíl, á reyndar þrjú mótorhjól sem hann notar ekki á veturna nema þegar viðrar vel, hann hjólar eða hleypur til vinnu flesta daga, hleypur stundum maraþon og er að öllu jöfnu í fínu formi. Nú er svo komið fyrir honum að um hann má með sanni segja að andskotinn hafi hitt ömmu sína því nú er hlaupið tvisvar á dag, hjólað hraðar en venjulega, því gamall vani breytist ekki, hratt skal farið, og alltaf hraðar en samferðamennirnir. Þeir vinirnir hverfa hér úr húsi uppúr 6 á morgnana og halda til vinnu, koma svo rennsveittir innúr dyrunum um klukkan 7 á kvöldin, ægihressir, viðurkenna alls ekki að þreyta sæki að, háma í sig grautinn og eru svo sestir við tölvur til rannsóknaskrifa strax eftir matinn. Við meigum þakka fyrir að gesturinn sé hér í tvær vikur en ekki tvo mánuði, því þeir myndu annars ganga af hvor öðrum dauðum. Ég fylgist með úr fjarlægð, nálægð, fer í mína leikfimi, en verð þreytt á því einu að fylgjast með.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Meira ruglið með þessa íslensku stafi, en þetta eru sumsé ég, Gunnar hinn norski og Þór í vetrarferð.

Mynd


DSCF0004, originally uploaded by Kata hugsar.

Þetta erum við Gunnar (sá norski) og Þór í vetrarferð

Hundurinn okkar

Hann Þór okkar er orðinn gamall. Hann kom til okkar haustið 1993, sex vikna gamall, pínulítill og voðalega fallegur dökkur sheffer. Síðan þá hefur hann verið stór hluti af fjölskyldunni, verndar okkur öll fyrir ógnum umheimsins, myndi gera útaf við hvern þann sem sýndi börnunum einhverja óvirðingu. Hann lét ekkert kvikt í friði langt fram eftir ævi; kanínur, dádýr, þvottabirni, kalkúna og sérstaklega var honum uppsigað við íkorna. Honum er reyndar enn meinilla við þá, þrátt fyrir að mörg ár séu liðin síðan hann náði að elta uppi þann síðasta. Fyrir nokkrum árum síðan þá hafði íkorna grey einhverra hluta vegna troðið sér inní þakrennurör sem lá hérna bakvið hús og beið eftir að notað yrði í viðgerðir. Þór kom að þar sem dýrið var að reyna að komast út, hann beit fyrst í annan endann og svo hinn svo nú komst dýrið hvorugan veginn út. Hann gekk um lóðina með rörið í kjaftinu og dinglaði því aftur og bak og áfram með aumingja íkornan innanborðs. Hundurinn heyrði náttúrulega í íkornanum og vildi ólmur fá hann út og sá stutti var sammála en komst hvergi. Að lokum náðum við Þór inn en þá vildi ekki betur til en svo að bróðursonur minn sjö ára sem var í heimsókn var farinn að leika sér með þetta ágæta rör. Hann heyrði einhver hljóð koma úr rörinu, kíkti inn, sá lítið svo hann opnaði rörið aðeins til að athuga hvað væri á seiði og kemur þá ekki íkorninn fljúgandi beint í andlitið á honum. Aumingja Aroni brá svo skelfilega að ekki mátti á milli sjá hvor var meira skelfingu lostinn hann eða íkorninn. Nú sefur Þór flesta daga, enda heyrnin orðin léleg, gigtin slæm, og sjónin döpur. Hann á það nú samt stundum til að halda að hann sé ungur enn og hleypur þá um, brattur og í fínu formi, smá stund, en svo ekki söguna meir.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Vinskapur

Við eigum marga góða vini, eða svo höldum við. Margir þeirra hafa sótt okkur heim til fjarlægra landa, austan hafs og vestan, og sumir hafa jafnvel komið í kaffi á Lönguklöpp. Það er merkilegt með stóran hluta af þessum vinahópi að hann tilheyrir heilbrigðisstéttinni og þá aðallega þeim hluta hennar sem telst til lækna. Ekki veit ég afhverju, en svona er þetta nú og ekkert við því að gera lengur þar sem allt er þetta miðaldra fólk, virðulegt og ráðsett, sem ekki fer að skipta um karríer svona á þessu stigi málsins, enda engin þörf á þar sem mér er sagt að starfið sé fjölbreytilegt og skemmtilegt, allt efniviður í skemmtilegt og gefandi lífsstarf. Þar sem við búum nú í svokallaðri Mekka heilbrigðisþjónustu, heilbrigðismenntunar, læknisfræði, og læknisþjónustu, og Stofnunin eina og sanna býður uppá allra handa fundi, námskeið, endurmenntun og guð má vita hvað annað, þá er það nú býsna merkilegt að það er bara einn vinur (náttúrulega mun betri en hinir sem ekki hafa komið, hann er rithöfundur frá Reyðarfirði) sem komið hefur og sótt fundi sem Stofnunin hefur uppá að bjóða og svo annar náttúrulega góður líka sem komið hefur tvisvar til að skoða með eigin augum hvað maðurinn minn gerir svona dagsdaglega. Mér finnst að hinir sem gætu kannski haft gagn og gaman af heimsókn hingað ættu nú að fara að láta sjá sig, ekki í mýflugumynd heldu svona í einhverju stærra líki. Það er nú kannski að kasta steini úr glerhúsi að tala um fólk í mýflugumynd, mér skilst að fólk haldi að þannig lítum við út við hjónin.... en svo er nú það. Hér er hjá okkur staddur þessa dagana Norðmaður einn góður sem tilheyrir læknastéttinni. Hann býr hérna hjá okkur í tvær vikur og er einnig að athuga hvað maðurinn minn er eiginlega að aðhafast hér alla daga. Þetta þýðir náttúrulega að hér gengur heimilishaldið á þremur tungumálum, við þessi ráðsettu erum að blása rykið af norskunni sem er náttúrulega ekkert ryk heldur bara venjulegt ryð sem sums staðar er komið í gegn, því miður. Eftir bráðum 15 ár frá flutningi yfir Atlandsála þá eru mörg orðin all illilega gleymd og grafin, og þar sem minn heittelskaði er ekki mikill málamaður þá er þetta nú mun erfiðara honum en mér. Hann er kannski ekki málamaður í venjulegum skilningi en hann er afar laginn í nýyrðasmíðinni, norsku til handa. Ég fer örugglega að skrifa á norsku bráðum, ég stend mig allavega að því að hugsa og tala við sjálfa mig á norsku, það verður ekkert vandamál ef það eru Landar í heimsókn, því þetta Ilhýra kann ég enn eftir 18 ára útlegð.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Framhaldssaga

Drengurinn tók boðinu. Allt körfuboltaliðið hennar fór inn til strákaliðsins í einni röð og létu boðhlaupskeflið ganga á milli sín þangað til Karólína fékk það síðust, hún gaf það svo til Mike og þær gengu svo allar út án þess að segja orð. Hann stóð þarna og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Eftir æfingu kom hann og nokkrir úr strákaliðinu á æfingu stelpnanna og afhentu þakkarbeiðnina. Meira veit ég ekki!

mánudagur, janúar 24, 2005

Eitthvað fór nú þetta úrskeiðis en myndin er hér sumsé í tveimur stærðum þó svo íslensku stafirnir hafi farið eitthvað í rugl. Þetta eru þau Adam og Karólína fyrir homecoming s.l. haust í blómaseremóníunni.

Carolina and Adam3


Carolina and Adam3, originally uploaded by Kata hugsar.

Það tókst!!!! Þetta eru sumsé Karólína og Adam, hann að setja blómið á!



Sweetheart dance

Það er stór dagur hjá Karólínu í dag. Hún ætlar að bjóða strák á sweetheart ballið, strák sem hún þekkir ekkert voðalega mikið og þegar svona feimin stelpa ætlar að fara svona útfyrir "comfort zone" þá verður þetta meiriháttar mál. Hér er það þannig að það eru þrjú formleg böll á ári, í viðbót við þessi venjulegu skólaböll. Á haustin er homecoming og þá bjóða strákarnir stelpunum, í febrúar er sweetheart og þá bjóða stelpurnar strákunum og í maí er prom og þá eru það eingöngu upperclassmen sem fá að fara á ballið og strákarnir bjóða stelpunum. Nú er það sumsé sweetheart og formlegt ball þýðir síður ballkjóll, uppsett hár, neglur, og allt annað sem tilheyrir hér í sveit, og strákarnir eru í jakkafötum og öllu tilheyrandi. Strákarnir gefa svo stelpunum blóm til að hafa á hendi og stelpurnar gefa strákunum blóm í barminn. Þetta eru miklar seremóníur og finnst kalli mínum þetta vera voðalega ónáttúrulegt, hvað sem það svo þýðir. Það sem ég sé er að þau venjast formlegheitum; formlegt boð, formleg föt, formlegur matur, skipulagning á öllu saman, o.s.frv. og þetta er allt mjög civiliserað, það er víst nóg af hinu svo það er svona stíll yfir þessum böllum sem mér finnst skemmtilegt. Ég hef saumað nánast alla kjólana á stelpurnar fyrir þessi formlegu böll svo ef þetta gengur vel hjá Karólínu þá fæ ég örugglega mjög nákvæm skilaboð um útlit og hönnun kjólsins. Nú er að sjá hvort drengurinn tekur boðinu! Það er alltaf mikill undirbúningur fyrir boðs-aðferðina, það er sko ekkert boðskort heldur er það önnur seremónía. Í haust bauð góður vinur hennar annarri vinkonu og samdi lag og kom svo í tíma og spilaði og söng lagið fyrir framan allan bekkinn, Karólínu var boðið á pizzustað í haust fyrir homecoming og þá hafði strákurinn látið setja boðið á pizzuna skrifað með grænmeti! Í dag ætlar Karólína að nota boðhlaupskefli sem skilaboðaskjóðu, ég veit ekkert nánar en ef allt gengur upp þá fæ ég eflaust að vita meir. Núna ætlaði ég að vera voða klár og setja mynd af Karólínu og Adam þegar þau voru í blómaseremóníunni í haust en konunni tókst það ekki en það verður verkefni vikunnar að finna útúr þessu með myndir!

laugardagur, janúar 22, 2005

Husið a slettunni

Fólk mér kunnugt sem telst til vina og sem er mér reyndar afar kært hefur verið að henda gaman af því að við búum á Sléttunni einu og sönnu og jafnvel þessari þar sem Hús Ingalls fjölskyldunnar er. Þetta er reyndar ekkert gamanmál því u.þ.b. kílómetra héðan frá húsinu okkar er vegur sem kallast Laura Ingalls road og er sá sem Lára og fjölskylda ferðaðist um þegar þau fluttu frá Wisconsin til Nebraska fyrir margt löngu. Þau fluttu náttúrulega mun vestar en við erum og voru því á miðri Sléttunni en við erum hérna á henni austanverðri. Hér blása nú samt sléttuvindar og hér er lítið um skjól þegar þeir blása, nema rétt undir húsvegg, og eftir snjókomu gærdagsins þá fór ég út að moka í morgun og þá blésu þessir ágætu vindar og mér varð (&%$#"! kalt en hressandi var það og gott að byrja daginn með fersku lofti og nýföllnum snjó!

föstudagur, janúar 21, 2005

Vetrardagur

Það snjóar þessa stundina og á að snjóa næsta sólarhringinn. Það er smá vindur með svo hér telst þetta vera stórhríð og körfuboltaleik kvöldsins hefur verið frestað. Karólína var óhress, vildi fá að spila við þetta lið sem þær töpuðu með 8 stigum fyrir síðast. Nú átti sko aldeilis að sýna þeim í tvo heimana. Ofankoman er nú engin ósköp og úrkoman er svona rétt 1-2 sentimetrar á klukkutímann. Það hefur verið fimbulkuldi hér síðustu vikurnar þetta svona 30 stiga frost á nóttunni og nær kannski 15-20 stiga frosti yfir daginn. Í dag er bara 6 stiga frost og það á að hlýna enn meira eftir helgi. Það verður gott að þurfa ekki að pakka sér inn, nasirnar haldast í sundur þegar andað er að, tærnar halda lit og naglakul er ekki daglegt brauð. Við höfum reyndar ekki hugsað okkur að flýja til Flórída eins og Halur Húfubólguson og spúsa hans ætla að gera. Við látum okkur hafa þetta og það þiðnar hérna með vorinu og svo í júní verður orðið svo heitt að vart verður haldist við utandyra nema á sundlaugarbarmi. Í júlí og ágúst verð ég á Íslandi og þarf ekki að upplifa 30-40 stiga hita og raka en þá er það rokið og rigningin sem kemur til með að lemja mig.........aldrei ánægð, alltaf eitthvað og það hlutir sem ég get nú bara alls ekki stjórnað, eins og veðrið.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Hugleiðingar um gæði menntunar

Ég var í Princeton hjá dóttur minni í síðustu viku. Þetta mekka menntunar verður mér alltaf tilefni til hugsana um gæði menntunar, hvað er gott og hvað er vont, hvers vegna, hvernig verður svona skóli að einum besta skóla heims, og hvernig er hægt að byggja svona skóla upp frá grunni. Ég verð alltaf viðutan þegar ég er þarna og þar sem Kristín er ekki vön því að hafa viðutan mömmu þá hefur hún alltaf áhyggjur af því að móðir hennar sé reið, eða leið eða óánægð þegar ég þegi þunnu hljóði tímunum saman. Það er nú alls ekki ástæðan heldur sú að ég fer alltaf í þann hluta hugans sem hefur með menntun og stjórnun menntunar að gera. Það væri ótrúlega skemmtilegt verkefni að byggja upp skóla frá grunni, með nokkurnvegin frjálsar hendur um mannaval, námsefni, skipulag og svo þarf náttúrulega góðan fjárstuðning. Þetta með fjármagnið er reyndar alls ekki aðal málið, það myndi gera hlutina auðveldari en gæði menntunar eru ekki bundin fjármagni eða launum kennara, nema óbeint sé. Kennarar fara t.d. ekkert að kenna betur en þeir gerðu áður ef launin hækka einhver ósköp því það væri náttúrulega þar með verið að gefa í skyn að kennara ynnu ekki eins vel og þeir gætu fyrir launahækkun. Aftur á móti er það vitað að laun hafa áhrif á hvernig lífsstarfið er valið. Því hærri sem launin eru því mun "betri" verður starfskrafturinn, þ.e. kraftmeiri, metnaðarfyllri, áhugasamari, meira skapandi, og skipulagðari. Þetta er náttúrulega alls ekki svona einfalt, það eru ótal breytur í jöfnunni og margt sem spilar inní en eftir stendur að launin ein og sér hafa ekki afgerandi áhrif á gæði skóla og menntunar. Vandamálið við að byggja upp góðan skóla er náttúrulega aðallega það að það er örugglega enginn sammála mér hvernig á að gera þetta eða hvað telst vera gott og vont í menntun!

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Ég hef verið að gera skemmtilega rannsókn í vinnunni síðustu vikur. Þetta er hluti af 10 ára áætlun fyrir háskóla stofnunarinnar. Það sem við vorum að gera var að finna út og gera áætlun um hvernig menntun heilbrigðisstétta verði háttað árið 2015 og hluti af því var auðvitað að finna út hvernig heilbrigðisþjónustan kemur til með að líta út það herrans ár. Þetta varð náttúrulega til þess að ég fór að velta fyrir mér allra handa persónulegum högum, eins og breytingum á síðustu 10 árum og hvað hefur gerst á þeim tíma. Ég veit ekki með ykkur en ég á nú fullt í fangi með að átta mig hvernig hlutirnir komi til með breytast á næstu tveimur árum, hvað þá næstu 10. Hvað verð ég orðin gömul þá? Hvað verða börnin mín orðin gömul þá? og svo þetta ævinlega, hvar kem ég til með að búa þá? Þetta voru voðalega erfiðar spurningar og ekki voru svörin skárri þegar búið var að afgreiða þetta augljósa. Menntun heilbrigðisstétta er að því leitinu frábrugðin menntun kennara að tæknin hefur mun meiri áhrif á heilbrigðisstéttirnar. Heilbriðisstéttirnar eru jú að glíma við sjúklinga en kennarar við hvernig á að kenna börnum, sem svo aftur leiðir okkur að þessari eilífðar spurningu; hver/hvernig á að kenna kennurunum? Ég væri nú ekki sjálfri mér samkvæm ef ég ekki hefði skoðun á því....en það er nú efni í annan pistil. Svona framtíðarspár eru erfiðar sálartetrinu, sem er nú ekki öflugt fyrir, það er eitthvað svo ónotalegt að velta fyrir sér persónulegum hlutum svona langt fram í tímann. Þótt ég sé skipulögð að þá hefur það aldrei verið mín deild að skipuleggja lífið mitt og minna nánustu til langframa, ég tek svona hverjum degi eins og hann kemur og reyni að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Við erum jú með ákveðin framtíðarplön....og það þýðir við vitum svona nokkurnveginn hvenær við flytjum heim til Íslands! en þar með er það upptalið.
Mikið vorkenni ég atvinnuíþróttafólki. Það er oftar en ekki farið með það eins og húsdýr, það gengur kaupum og sölum á milli liða til þess eins að nota það mesta og besta úr þeim þegar hentar en henda þeim svo út á guð og gaddinn þegar tómt er orðið á tankinum eða hann orðinn brotinn og beiglaður. Sjaldan fá þau að ákveða hvar þau búa og í þessu landi þá er það nú meiriháttar mál. Fæst þeirra þéna einhver lifandis ósköp, en það eru þessi fáu sem halda drauminum lifandi um frægð, frama og ríkidæmi í íþróttum. Ferlið frá barnaíþróttum til atvinnuíþrótta er langt og erfitt andlega og líkamlega og því hellast flestir úr lestinni á leiðinni. Ég er reyndar algjör íþróttabulla sem stundar flestar íþróttir af miklum móð á rauða sófanum mínum í stofunni þar sem íþróttafólk hefur gefið mér margar ánægjustundirnar og því er ég náttúrulega meðsek í vinsældum íþrótta þar sem ég telst til þess hóps fólks sem auglýsendur ná til öllum stundum. Keppnisíþróttir eru afar skemmtilegar, það er ótrúlega gaman að horfa á íþróttamenn sem eru bestir í sinni grein í sínu allra besta formi. Þar sem ég á tvær dætur sem stunda afreksíþróttir þá höfum við (eða öllu heldur þær) lagt okkar að mörkum að manna þessi 98% af íþróttamönnum sem enginn hefur heyrt um. Ég viðurkenni það fúslega að ég hef ótrúlega gaman af að horfa á þær æfa og keppa í þessum fjórum íþróttum sem þær stunda og legg allt til hliðar til að vera hjá þeim þegar þær keppa. Íþróttirnar hafa gefið mér og þeim mikið, allt frá vinum til líkamsræktar til skipulags lífsstíls. Þær gáfu mér tækifæri í lífinu sem ég hefði aldrei fengið annars, eins og að spila golf í miðnætursól og renna mér á skíðum á vetrarkvöldi með norðuljósin ein sem lýsingu. En það er alveg jafn mikilvægt að æfa vel eins og að vita hvenær rétt sé að hætta íþróttaiðkun með afrekskeppni í huga. Þessi rétti tími er misjafn frá einum til annars, flest atvinnufólk endist hámark 10 ár, en við hin eigum misgott með að taka þessa ákvörðun, eins og best sést á þátttöku fólks í öldunga þetta og öldunga hitt. Ég vona að þegar þær taka þá ákvörðun að hætta að keppa þá verður það vegna þess að það er annað mikilvægara í lífinu sem tekið hefur við en ekki vegna meiðsla eða leiða. Vona svo sannarlega að þær haldi áfram eftir það að halda sér við líkamlega með það eitt að markmiði að líða vel. Ég veit að ég kem til með sakna fótboltaleikja, körfuboltaleikja, róðrarkeppni, og frjálsíþróttamóta þegar stelpurnar ákveða að hætta, en það veit sá sem allt veit að ekki vildi ég mínum versta óvini þau örlög að verða atvinnuíþróttamaður og það vona ég að þær verði þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa gleði og ánægju af að stunda íþróttirnar sínar fram að síðustu keppni.

Þegar ég las yfir þessa rullu mína þá sá ég að ég fer úr einu í annað, rugla saman keppnisíþróttum og atvinnuíþróttum og annað þar fram eftir götunum en ég ákvað að setja þetta á síðuna mína samt!

mánudagur, janúar 17, 2005

Orðsifjafræði

Ég hef óskaplega gaman af að velta fyrir mér merkingu og upphafi orða og þá sérstaklega orðatiltækja. Mörg þeirra eru upprunin í landslagi, landlegu, veðurfari, og síðast en ekki síst í atferli fólks og þjóða. Það er náttúrulega alveg vita vonlaust að ætla sér að þýða orðatiltæki og þaðan af síður málshætti og vegna legu landsins, eða þess hluta landsins sem við búum í þá er svo ótalmarkt í íslenskri tungu sem á ekki við hér en þar sem við erum að nota það ilhýra hér þá notum við allra handa orð og orðatiltæki sem eiga bara alls ekki við, en notum samt oft og iðulega. Hann Ærir vinur okkar sagði um daginn að eitthvað hefði rekið á okkar fjörur. Þar sem hér er eins langt til sjávar eins og það mest gerist hér á jörðu og engar eru fjörurnar, því miður, þá náttúrulega leitar hugurinn heim í Fjörðinn eina og sanna, á Lönguklöpp og fjörunnar neðar í brekkunni í Heiðinni fögru, beint á móti Fjallinu....nú er ég orðin illa haldin af heimþrá!!! Svo eru það orð sem ég hef því miður þurft að hlusta á í tíma og ótíma síðustu misseri vegna þessa kalls skröggs sem er forseti í landinu hérna og það eru orð yfir hernað....sjóher, landher, hervopn, herdeild, og annað þar fram eftir götunum. Á íslensku eru þetta voðalega fátæklegt úrval og allt skal það hafa her- fyrir framan en hér í landi herskárra þá eru til ógrynni af orðum yfir þetta fyrirbæri árása og það hefur tekið mig þessi bráðum 15 ár að skilja allt það sem um er rætt þegar stríðskak er annars vegar. Þjóðir eins og sú íslenska eiga aftur á móti fjöldann allan af orðum yfir veðrið, og þá náttúrulega sérstaklega vindinn, snjóinn, og rigninguna....ekki skil ég afhverju!!

Þá er að drífa sig í rúgbrauðið sem bakað var í gærkveldi eftir uppskriftinn góðu frá tvíburabróður mínum. Kaffi og nýbakað rúgbrauð með osti skal það vera!

sunnudagur, janúar 16, 2005

Hitastig er afstætt fyrirbæri, sérstaklega hér á sléttunum þar sem árssveiflan getur verið allt að 80 gráðum. Í morgun var 24 stiga frost og fannst okkur kalt en ekkert sem ógnar okkur eða kemur í veg fyrir dags dagleg störf. Við förum reyndar ekki út að hlaupa og minn eini hjólar ekki í vinnuna, en ef ég væri t.d. ennþá að kenna á skíði þá myndi ég bara klæða mig aðeins betur og passa uppá að nemendurnir væru allir með húfur og vetlinga og rennt uppí háls, en á skíði myndum við fara. Þar sem ég er ekki skíðakennari lengur þá þarf ég náttúrulega ekkert að hugsa um þetta og allt eru þetta því akademískar vangaveltur. Ekki það, ég sakna skíðakennslunnar heil lifandis ósköp, því ég skíðaði hvern dag í þrjá mánuði á ári og það var ekki slæmt. Síðan þá hef ég orðið að kuldaskræfu og set fyrir mig að renna mér í brekkunum þegar það fer undir 15 frostgráðum, þá er svo skelfilega kalt að sitja í stólalyftunni. En aulagangur er það. Nú erum við mæðgurnar á leið í verlsunarleiðangur, ég hélt nú reyndar að fyrir jól hefði ég keypt allt það sem þyrfti á þetta heimili þangað til í vor en nú eru það nærföt og sokkar sem vantar....alltaf eitthvað!

laugardagur, janúar 15, 2005

Þar kom að þvi

Þar sem ég hef verið að angra vini mína með skrifum og ótímabærum athugasemdum á þeirra bloggsíðum þá hef ég ákveðið að fá mér mína eigin, og með aðstoð Kristínar þá tókst þetta nú loksins. Ástæða fyrir vandræðunum var nú aðallega sú að heimasíða blog kom uppá kóreönsku, eða það held ég allavega, og allar leiðbeiningar þar með ónothæfar. Tungamál þetta skil ég alls ekki, svo það þurfti að nota ímyndunaraflið ásamt fyrri reynslu af netsíðunotkun til að komast í gegnum ósköpin. Núna þykjumst við Kristín vera voða klárar, en ekki vildi ég nú þurfa að bjarga mér á tungumálinu. Við hjónin vorum í Suður Kóreu í fyrra vor og þótti mér eitt það merkilegasta við ferðina sú tilfinning að geta alls ekki bjargað mér. Ekki gat ég notað kort því hvorki skildi ég kortið né skiltin sem lesa þurfti á og þaðan af síður vissi hvert ég vildi/þurfti að fara. Ég kann mun betur að meta þessi fáu tungumál sem ég kann eftir þessa reynslu og vorkenni mörgum þeim sem búa í sama landi og ég vegna þeirra fötlunar flestra þeirra að skilja/tala bara eitt tungumál.
Mál er að linni í þetta fyrsta skipti.