mánudagur, janúar 24, 2005

Sweetheart dance

Það er stór dagur hjá Karólínu í dag. Hún ætlar að bjóða strák á sweetheart ballið, strák sem hún þekkir ekkert voðalega mikið og þegar svona feimin stelpa ætlar að fara svona útfyrir "comfort zone" þá verður þetta meiriháttar mál. Hér er það þannig að það eru þrjú formleg böll á ári, í viðbót við þessi venjulegu skólaböll. Á haustin er homecoming og þá bjóða strákarnir stelpunum, í febrúar er sweetheart og þá bjóða stelpurnar strákunum og í maí er prom og þá eru það eingöngu upperclassmen sem fá að fara á ballið og strákarnir bjóða stelpunum. Nú er það sumsé sweetheart og formlegt ball þýðir síður ballkjóll, uppsett hár, neglur, og allt annað sem tilheyrir hér í sveit, og strákarnir eru í jakkafötum og öllu tilheyrandi. Strákarnir gefa svo stelpunum blóm til að hafa á hendi og stelpurnar gefa strákunum blóm í barminn. Þetta eru miklar seremóníur og finnst kalli mínum þetta vera voðalega ónáttúrulegt, hvað sem það svo þýðir. Það sem ég sé er að þau venjast formlegheitum; formlegt boð, formleg föt, formlegur matur, skipulagning á öllu saman, o.s.frv. og þetta er allt mjög civiliserað, það er víst nóg af hinu svo það er svona stíll yfir þessum böllum sem mér finnst skemmtilegt. Ég hef saumað nánast alla kjólana á stelpurnar fyrir þessi formlegu böll svo ef þetta gengur vel hjá Karólínu þá fæ ég örugglega mjög nákvæm skilaboð um útlit og hönnun kjólsins. Nú er að sjá hvort drengurinn tekur boðinu! Það er alltaf mikill undirbúningur fyrir boðs-aðferðina, það er sko ekkert boðskort heldur er það önnur seremónía. Í haust bauð góður vinur hennar annarri vinkonu og samdi lag og kom svo í tíma og spilaði og söng lagið fyrir framan allan bekkinn, Karólínu var boðið á pizzustað í haust fyrir homecoming og þá hafði strákurinn látið setja boðið á pizzuna skrifað með grænmeti! Í dag ætlar Karólína að nota boðhlaupskefli sem skilaboðaskjóðu, ég veit ekkert nánar en ef allt gengur upp þá fæ ég eflaust að vita meir. Núna ætlaði ég að vera voða klár og setja mynd af Karólínu og Adam þegar þau voru í blómaseremóníunni í haust en konunni tókst það ekki en það verður verkefni vikunnar að finna útúr þessu með myndir!

Engin ummæli: