mánudagur, janúar 17, 2005

Orðsifjafræði

Ég hef óskaplega gaman af að velta fyrir mér merkingu og upphafi orða og þá sérstaklega orðatiltækja. Mörg þeirra eru upprunin í landslagi, landlegu, veðurfari, og síðast en ekki síst í atferli fólks og þjóða. Það er náttúrulega alveg vita vonlaust að ætla sér að þýða orðatiltæki og þaðan af síður málshætti og vegna legu landsins, eða þess hluta landsins sem við búum í þá er svo ótalmarkt í íslenskri tungu sem á ekki við hér en þar sem við erum að nota það ilhýra hér þá notum við allra handa orð og orðatiltæki sem eiga bara alls ekki við, en notum samt oft og iðulega. Hann Ærir vinur okkar sagði um daginn að eitthvað hefði rekið á okkar fjörur. Þar sem hér er eins langt til sjávar eins og það mest gerist hér á jörðu og engar eru fjörurnar, því miður, þá náttúrulega leitar hugurinn heim í Fjörðinn eina og sanna, á Lönguklöpp og fjörunnar neðar í brekkunni í Heiðinni fögru, beint á móti Fjallinu....nú er ég orðin illa haldin af heimþrá!!! Svo eru það orð sem ég hef því miður þurft að hlusta á í tíma og ótíma síðustu misseri vegna þessa kalls skröggs sem er forseti í landinu hérna og það eru orð yfir hernað....sjóher, landher, hervopn, herdeild, og annað þar fram eftir götunum. Á íslensku eru þetta voðalega fátæklegt úrval og allt skal það hafa her- fyrir framan en hér í landi herskárra þá eru til ógrynni af orðum yfir þetta fyrirbæri árása og það hefur tekið mig þessi bráðum 15 ár að skilja allt það sem um er rætt þegar stríðskak er annars vegar. Þjóðir eins og sú íslenska eiga aftur á móti fjöldann allan af orðum yfir veðrið, og þá náttúrulega sérstaklega vindinn, snjóinn, og rigninguna....ekki skil ég afhverju!!

Þá er að drífa sig í rúgbrauðið sem bakað var í gærkveldi eftir uppskriftinn góðu frá tvíburabróður mínum. Kaffi og nýbakað rúgbrauð með osti skal það vera!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er slæmt til þess að vita, að karlinn fái ekki taðreykt álegg af Mývatnsheiði eða nágrenni. Slíkur kostur er allra meina bót og margs konar aukavinningar í formi vindgnauðs og annars mögulegir. Það er þó ljóst að fæðan er ekki dónaleg þarna ytra og ekkert nema gott um ostinn að segja; Halur borðar hins vegar aldrei rúgbrauð með osti. Halur hefur verið áminntur margsinnis fyrir óþef og vindgang og er það ein af ástæðunum fyrir einangrun hans.

Illt er vondum vana að kasta,
vil ég Kata segja þér.
Ekki skal ykkur hjónin lasta,
með ost, rúgbrauð og smér.

ærir sagði...

Í landafræði skal löngum minnast
að langar fjörur ei þar finnast.
En rúgbrauð gott
og silungsvottt
má þar líka kynnast.

Og svo fyrir Halla eða vin hans Hal Húfubólguson (ort með kvæðahætti Hals):

Rennur á kappann rúgbrauðsæði,
rifjar upp og lifnar við
Taðreyktan silung og smjörið, -bæði
smyrjist að ofan að góðum sið.

En silungur enginn sést hér ytra,
syndir aðeins að fjörum landa.
En (k)ostur berst til vinar vitra
og veitist til beggja handa.