föstudagur, desember 22, 2006

Vetrarsólstöður í dag. Samkvæmt skilgreiningu hér um slóðir þá byrjar veturinn formlega í dag og þá í þrjá mánuði fram að jafndægri á vori. Það er lítið vetrarlegt um að litast, ekki snjókorn að sjá en þoka og rigning öðru hverju og umhverfið allt grátt og ömurlegt. Stelpurnar mínar lýsa upp lífið þessa dagana, það er yndislegt að hafa þær heima.

fimmtudagur, desember 21, 2006

Mér hefur verið hugsað heim í Eyjafjörðinn síðasta sólarhringinn, ekki bara af eigingjörnum ástæðum heldur líka vegna samkenndar með sveitungum sem glíma þurfa við náttúruöflin. Langaklöpp er byggð á kletti og það er tiltölulega langt í Meyjarhólslækinn, einir 6-7 metrar og þeir allir vel fyrir neðan okkur svo Klöppin ætti að vera á þurru. Það hefði verið ófögur aðkoman ef aurskriður eða flóð hefðu riðið á. Vonandi standa trén okkar af sér veðrið og úrkomuna. Það er hætt við að vegurinn hafi látið á sjá, kannski er hann að hluta til horfinn við ræsið.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Þeir hjá rannís eru svo elskulegir að senda mér tölvupóst þegar auglýstir eru styrkir til rannsókna. Þetta er náttúrulega engin sér-elskusemi við mig, ég er áskrifandi að þessum tölvupósti. Í morgun fékk ég póst þar sem auglýst var eftir umóknum í "STIFTELSEN CLARA LACHMANNS FOND
FÖR BEFRÄMJANDE AV DEN SKANDINAVISKA SAMKÄNSLAN". Þetta er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema að "Skilyrði er að
umsækjendur séu frá fleiri en einu Norðurlandanna." Það eru nú ekki margir einstaklingar sem uppfylla þessi skilyrði en einn af þeim er Karólína okkar sem er íslenskur ríkisborgari sem fæddist í Noregi og hefur alist upp í Bandaríkjunum. Vandamálið er að hún hefur engan áhuga á svona rannsóknum svona fyrir utan það að hún hefur engan kvalikfíkasjónir fyrir svona styrk.
Það fæddist Íslendingur hérna í bænum í gær. Hún Steinunn Edda Þorvarðardóttir kom í heiminn öllum til mikillar gleði. Núna erum við 9 Íslendingarnir ef allir eru taldir, þ.á.m. öll okkar börn. Svo kemur einn enn í febrúar, líka búinn til á staðnum. Það sorglega er að allir flytja í burtu næsta sumar nema við. Það verður erfitt.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Prófið búið og ég stóðst það. Mikið voðalega er ég fegin að þessu er lokið. Næst þegar ég tek próf þá verður það það allra síðasta; vörnin.

föstudagur, desember 08, 2006

Ég lenti í hremmingum í síðustu viku áður en ég fór til Íslands. Á mánudeginum fór ég í rútínu mammogram en það var hringt í mig snemma á þriðjudagsmorgun og mér sagt að ég þyrfti að koma inn aftur. Ég vissi sem var að það var ekki vegna þess að myndirnar hefðu misheppnast, það var skoðað áður en ég fór daginn áður og því var þetta eitthvað annað og væntanlega meira. Mayo Clinic gerir ekkert nema almennilega og því var kíkt undir alla steina, litið á alla mögulega kosti, og öll vandamál skoðuð. Ég fór í aðra myndatöku, svo sónar, og svo sýnatöku. Þetta var ekki auðvelt því það fannst æxli og því var verið að skoða hvers kyns þetta æxli væri. Ég fékk svarið klukkan 15:45 daginn eftir og sem betur fer þá var þetta góðkynja. Biðin eftir svarinu var hræðilega erfið og ekki bætti úr skák að þetta var sama dag og ég beið eftir svari frá leiðbeinandanum mínum sem kom ekki fyrr en allt of seint og setti allt í kássu því til að fá að geta tekið prófið á settum degi þá varð ég að skila af mér til nefndarinn þennan dag fyrir klukkan 16:30 og leiðbeinandinn sendi mér ritgerðina í tölvupósti klukkan 15:30. Ég var ekki gæfuleg þann miðvikudaginn. Ég þurfti að ljúka við ritgerðina og skila henni af mér í þessu ástandi, pakka niður fyrir Ísland og ganga frá öllu hér heima. Það var því ósköp notalegt þegar loksins kom að því að ég settist uppí flugvél Icelandair á leið heim til Íslands. Það hefði reyndar verið mun betra ef Halli hefði verið með mér en það var ekki í þetta sinnið svo því var voðalega gott að sjá góða vini og fjölskylduna strax fyrsta daginn heima. Eftir allt þetta fékk ég svo ristil en er í sjálfu sér ekkert lasin, bara illa haldin af kláða.

fimmtudagur, desember 07, 2006

20 stiga frost í morgunsárið. Snjóaði dulítið í gær mér til mikillar gleði, brunagaddur er leiðinlegur þegar auð jörð er, mun skárri á hvítri. Kveikti upp í arninum til að ná upp hita fljótt og örugglega í morgun setti svo Gunna Gunn og Skálmið hans á og hann ásamt kaffilykt og ristuðu brauði setti punktinn yfir i-ið á notalegheit morgunsins í eldhúsinu mínu. Keyrði svo Halla í vinnuna fyrir sjö þegar birta dagsins var að brjótast upp yfir sjóndeildarhringinn. Þá er að ráðast í power pointið og kynninguna á ritgerðinni, þessari einu og sönnu.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Ég er komin aftur heim til mín til Minnesota eftir ljúfa Íslandsferð. Gerði í sjálfusér ekki margt en hitti fjölskyldu og vini yfir kaffi...miklu magni af kaffi. Ég held ég sé enn með hausverk af koffíneitrun. Hér bíður mín ógnarverkefni næstu viku, ég fæ hnút í magann við tilhugsunina eina saman, nákvæmlega ein vika í dag þangað til nefndin mín situr yfir mér og spyr mig spjörunum úr. Vonandi verð ég með nóga rænu til að muna og svara þannig að vit sé í. Tíu dagar þangað til stelpurnar mínar koma heim í jólafrí!!!!!!!!!

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Til Íslands í dag!!! Þarf að kíkja á veðurspána til að sjá hvernig ég þarf að pakka, hvort það verður brunagaddur eða hlýtt, snjór eða rigning, rok eða logn eða bara allt í bland.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Ég er í biðstöðu núna. Leiðbeinandinn minn er að lesa yfir í síðast sinn, því ég þarf að skila af mér á morgun svo það fer hver að verða síðastur með að gera athugasemdir við mín skrif og mínar kenningar. Tók mig því til í gær og hengdi upp jólaljósin úti, fór í ræktina í tvo og hálfan tíma og keypti nánast allar jólagjafir fyrir Íslandið. Þetta er hið besta mál því nú þarf að pakka inn og pakka niður áður en ritgerðin birtist í tölvupósti, vonandi seinnipartinn. Vonandi verða þetta allt minniháttar athugasemdir sem ekki tekur mig langan tíma að leiðrétta því svo er sumsé að prenta herlegheitin út í fjórum eintökum og koma í pósthólf nefndar meðlima á morgun, uppí University og Minnesota í Minneapolis. Á fimmtudaginn fer svo konan uppí flugvél Icelandair á leið til Íslands. Það verður mikið um keyrslu á milli Rochester og Minneapolis næstu dagana.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Allt dottið í dúnalogn aftur. Karólína fór til Duke í gær. Nú bíður hennar prófatörn fram til 15. des þegar hún kemur heim í jólafrí. Ég tek óralinn 13. des svo við mæðgur verðum í algeru prófastressi á sama tíma. Ritgerðin mín er búin, er núna 107 blaðsíður og þetta er ekki doktorsritgerðin sjálf heldur "bara" inngangurinn að henni. Allavega það sem verður uppistaðan í inngangi og lit review. Ég er orðin samvaxin skrifstofustólnum, rasssár, stíf í herðum, geðvond, og langþreytt. Þarf að koma mér í líkamsræktina í dag. Hef ekki farið síðan á fimmtudaginn og það er alltof langur tími. Fer svo til Íslands á fimmtudaginn í helgarferð. Það verður voðalega gott.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Thanksgiving í dag. Það er alltaf góður dagur. Við höfum reyndar bara eitt af okkar börnum heima því Bjarni er með veislu í Minneapolis og Kristín er í Princeton en hún Karólína kom heim í fyrrakvöld og það var svo gott að fá hana heim því með henni koma vinirnir og húsið verður fullt af lífi aftur. Það verða 9 manns í mat svo kalkúninn er ekkert voðalega stór en það verður fullt af meðlæti: kartöflumús, sætar kartöflur, brúnaðar gulrætur, spínat grateng, belgbaunir, salat, stuffing, og svo sósa auðvitað. Epla- og pecanpæ í eftirmat með ís og karamellu sósu. Ostar í forrétt. Létt rauðvín, kannski hvítvín líka. Gott fólk. Góður dagur.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Eftir ár eigum við silfurbrúðkaupsafmæli, heil 25 ár síðan við giftum okkur í hríðarhraglanda og hávaðaroki í Borgarneskirkju. Reyndar var brúðkaupsafmælið í gær. Við gerum vonandi eitthvað voðalega skemmtilegt næsta haust. Okkur langar að fara til annaðhvort Parísar eða Rómar, höfum aldrei komið til Rómar en oft til Parísar og finnst hún yndisleg. Kannski gerum við eitthvað allt annað. Okkur langar líka til að halda uppá þetta með vinum og vandamönnum á Íslandi. Kannski gerum við hvorutveggja, ferðumst og höldum veislu, hver veit.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Þetta var hin besta helgi. Við horfðum á Kristínu keppa á laugardagsmorguninn og fórum svo til New York seinni partinn. Versluðum ekkert, löbbuðum bara um, skoðuðum hús, horfðum á fólk og mannlegt líf og settumst á kaffihús. Voðalega gaman. Í gær, sunnudag, vorum við í Philadelphia. Ég hef eiginlega aldrei komið þangað, bara flogið inn og keyrt beint til Princeton en núna sumsé skoðuðum við miðborgina. Hún kom mér á óvart, var kaótísk, evrópsk og skemmtileg. Eitt af því góða við Princeton er staðsetningin, klukkutími til New York í aðra áttina og klukkutíma til Philly í hina. Margir flugvellir að velja í milli og því hægt að haga seglum eftir vindi með hvað gert er og notað tækifærið til að skoða.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

VIð hjónin erum að fara til Princeton um helgina að heimsækja Kristínu. Við hlökkum mikið til því við höfum ekki séð hana í rúma tvo mánuði. Við ætlum að fara til New York á laugardaginn og Philadelphia á sunnudaginn. Við verðum voðalegar borgarmanneskjur þegar við komum heim aftur til litla Rochester. Svo kemur Karólína heim á þriðjudaginn í Thanksgiving frí, þá verður aftur líf í húsinu.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Árstíðirnar berjast óvenju hart þessa dagana um völdin. Það var 8 stiga frost fyrir nokkrum dögum síðan, svo var 24 stiga hiti í fyrradag sól og logn og í dag er þriggja stiga frost og snjókoma, og í þetta sinnið er þrumuveður með. Það er alltaf jafn einkennilegt að vera í bullandi snjókomu og eldingum, þótt lógískt séð þá er þetta ekkert skrýtnara en þegar heitt og kalt mætist á sumrin. Þetta gerist bara svo mun sjaldnar.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Það fer víst ekki framhjá neinum að það eru kosningar í þessu landi í dag. Eins og ég hef annars gaman af að hugsa og ræða pólitík þá finnst mér kosningabarátta alveg hræðilega leiðinleg. Það haf birst svo andstyggilegar auglýsingar í sjónvarpinu og það er skammarlegt að hugsa til þess að c.a. helmingur af þessu fólki verða fulltrúar í bæjarstjórn, fylkisþinginu eða á Þinginu. Ég er líka algerlega búin að fá mig fullsadda af gömlum frösum og stereótýpum. Repúblikarnir hafa verið að hrista fram kommúnistagrýluna endalaust og þykjast þess fullvissir að landsmenn geri engan greinarmun á kommúnisma og sósíalisma. Þetta allt eða ekkert viðhorf í allt og öllu er líka alveg að gera útaf við mig. Það er eins og enginn millivegur sé til!

mánudagur, nóvember 06, 2006

Þá er jólavertíðin hafin í sjónvarpinu. Fyrstu jólaauglýsingarnar birtust á laugardaginn, bara ein að ég held, en í gærkveldi voru nokkrar og ég geri ráð fyrir að þær verði allsráðandi eftir viku eða svo, kannski ekki fyrr en eftir Thanksgiving sem er eftir tvær vikur, það er kannski of mikil bjartsýni. Ég hef séð örlítið af jóladóti í búðum síðustu vikuna eða svo, það er allt fullt af Thanksgiving dóti núna, en það verður allt orðið rautt og hvítt eftir smá tíma.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Það er 11 stiga frost núna í morgunsárið. Það er kalt. Þetta er rétt byrjunin, það á eftir að verða kaldara. Miklu kaldara. Kannski ekki í dag eða á morgun en eftir nokkrar vikur. Það er sól og logn og á eftir að fara yfir frostmarkið yfir daginn en það hefur verið kalt fyrir hann Halla minn að hjóla í vinnuna klukkan sex í morgun.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Einhverra hluta vegna hefur mér verið mikið hugsað til hennar Siggu ömmu minnar og hans Gumma afa míns að undanförnu. Hún lést haustið 1985 eftir að hafa fengið heilablóðfall tæpur tveimur árum áður og hann lést úr sorg eftir að amma fékk heilablóðfallið og þurfti að vera á spítalanum það sem eftir var. Hún var matreiðslukona allt sitt líf, sá um heimili fína fólksins í Reykjavík, smurði skreyttar snittur á Brauðbúðinni Borg, bakaði heimsins besta flatbrauð, tók slátur fram á síðasta haustið sitt, eldaði ofaní og sá um hann Gumma afa, og svo okkur systkinin þegar á þurfti að halda. Þau voru verkamenn allt sitt líf, afi sjómaður fyrir vestan lengi vel en eftir að þau fluttu Suður þá fór hann að vinna á Laugardalsvellinum. Hann var afburða snyrtimenni og þoldi ekki drasl og illa umgengni. Fór í sund flesta daga, á skauta eins oft og hann gat, stundaði jóga, fór á skíði og gekk allt sem hann fór. Hann leit á það sem sitt samfélagslega hlutverk að sjá til þess að hvergi væri drasl að sjá, laun voru aukaatriði en snyrtimennska aðalatriði. Þau eignuðust aldrei bíl. Þau voru alltaf svo fín í tauinu, amma átti bæði upphlut og peysuföt og fádæma fallegan möttul sem er núna í minni eigu og klæddi sig upp oft og iðulega. Amma fór aldrei svo útúr húsi að hún væri ekki búin að setja á sig varalit, hatt og fara í fína kápu. Hún var með staurfót frá því hún ung fékk berkla í hné, en gömlu hjónin bjuggu á fjórðu hæð í blokk síðustu árin og aldrei kvartaði hún yfir stigunum, bar með sér aðföngin alla leið upp, stundum nokkrar ferðir. Þau voru afar nægjusöm og glöddust yfir litlu. Það mátti ekki trufla afa ef verið var að sýna skauta í sjónvarpinu og þá var oft lokað inní stofu svo hann fengi að vera í friði, sérstaklega ef vinkonur eða systur ömmu voru í heimsókn. Þá þótti honum nóg um hávaðann. Nokkrum árum fyrir andlátið krafðist afi þess að það yrði sett parkett á alla íbúðina því hann hafði þá skoðun að það væri svo mikill óþrifnaður í teppum. Þetta var löngu fyrir tísku parketts en gamli maðurinn var með þetta á hreinu. Það er margt annað sem hann sagði mér sem taldist til vitleysu í mínu höfði lengi vel en hefur með tíð og tíma verið sannað á vísindalegan hátt að var hárrétt: þú átt að borða mikinn fisk því þá verður þú svo gáfuð, þú skalt smyrja júgursmyrsl á fætur og hendur þegar kalt er, rúsínukökur með haframjöli eru meinhollar, þú þarft að passa uppá að vera sterk og liðug allt þitt líf, þannig meiðist þú ekki. Hann afi minn var ekki rugludallur!

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Í Sara P Duke garðinum


Í Sara P Duke garðinum, originally uploaded by Kata hugsar.

Vatnalilja


Vatnalilja, originally uploaded by Kata hugsar.

Kaffihúsið á bókasafninu


Kaffihúsið á bókasafninu, originally uploaded by Kata hugsar.

Bókasafnið


Bókasafnið, originally uploaded by Kata hugsar.

þriðjudagur, október 31, 2006

Ég gerði fína ferð til Norður-Karólínu, við mæðgurnar fórum út að borða, versla og göngutúra í mikilli blíðu. Það var ótrúlega fallegt þessa helgina, 25 stiga hiti, sól og logn og haustlitirnir í algleymingi. Ég horfði svo á Karólínu æfa í gær, fyrst kúluvarp, svo spjótkast, og þá hlaupin. Hún keppir líklegast í fyrstu fimmþrautinni innanhúss um miðjan janúar. Klukkunni var breytt um helgina svo við fengum einn klukkutíma í kaupbæti, nú er 6 klukkutíma munur á okkur hér í Minnesota og Íslandi og í dag er Halloween, uppáhaldsdagur barnanna minna í mörg ár. Ég held ég hafi saumað síðasta búninginn fyrir þremur árum, þá var Karólína 15 ára!

fimmtudagur, október 26, 2006

Ég fer til Durham í Norður-Karólínu á morgun til að heimsækja hana Karólínu mína. Það er fjölskylduhelgi, pabbinn er á vakt, Bjarni að vinna og Kristín að keppa svo þetta verður mæðrahelgi í staðinn. Ég hlakka svo til því ég hef ekki séð hana í heila tvo mánuði. Hún bað um heimabakað rúgbrauð, skinkuhorn frá mömmueldhúsi og allan þann mömmumat sem ég get borið með mér. Svo bað hún um húfur, vettlinga og úlpu, hún tók nattúrulega ekkert með sér af þess háttar fatnaði enda er sjaldan kalt þarna niðurfrá en nú brá svo við að það fór niður undir frostmark í fyrrakvöld og minni konu var kalt. Það eru reyndar þetta 15-20 stig yfir daginn svo það verður notalegt en hún er svo oft á ferðinni á kvöldin og þá er kalt. Mamma verður því að pakka í stóra ferðatösku fyrir fjögurra daga ferð!

föstudagur, október 20, 2006

Ég er með voðalega mikla strengi í dag. Ég var hjá þjálfaranum mínum í fyrradag og reyndi greinilega mikið á mig því handleggirnir eru sárir og þungir, lærin loga svo og aðrir staðir á líkamanum sem óþarft er að minnast á. Á þriðjudaginn var ég í erfiðu yogalates og var aum og sár eftir það, og þá sérstaklega í maganum því við gerðum magaæfingar í allt að því hálftíma samfleytt, án hvíldar á milli æfinga, það var erfitt. Ég er rétt að vona að ég geti hlegið í dag með góðu móti. Í dag fer ég í léttari yogalates og það verður voðalega gott eftir átök vikunnar. Ég sem hélt ég væri í svo voðalega góðri þjálfun en það þarf greinilega ekki mikið til til að koma vöðvunum á enn meiri hreyfingu. Þjálfarinn minn er ung kona og hún sagði við mig í fyrradag, "you are so freakishly strong", þetta tek ég sem hól, sérstaklega þar sem hún var að bera mig saman við unga fólkið sem hún þjálfar. Það er best að njóta þess sem að manni er rétt, það er ekki svo oft sem hólið heyrist, þetta fylgir víst aldrinum.

Í gær var ég í borgarferð í Minneapolis, fór á fund með leiðbeinandanum mínu. Við erum að nálgast hvor aðra, hún er að átta sig á hvað ég vil og hvert ég er að fara í mínum skrifum. Hún þekkir reyndar þetta svið út og inn en ég held að hún hafi bara ekki sett sig inní mín skrif og mína nálgun en nú er þetta allt að koma.

mánudagur, október 16, 2006

Af hverju er það þversögn að vera hægrisinnaður og náttúruverndarsinni? Það á við hér í BNA rétt eins og á Íslandi að hægriöflin -sem eru reyndar allt öðruvísi hér en heima en það er annað mál- berjast ekki fyrir náttúruvernd. Ekki það að þau séu alltaf á móti náttúruvernd, enda er heilt haf á milli þess að vera með eða á móti, heldur eru þau ekki sett á oddinn og þar með eru þau aftarlega í forgangsröðinni. Við hjónin vorum hér heima í miklum rólegheitum yfir helgina og ræddum þó nokkuð um pólitík og þetta var eitt af því sem við vorum að velta fyrir okkur. Almenningssamgöngur, heilbrigðisþjónusta, náttúruvernd, menntun og annað í þeim dúr á ekki að vera bundið við pólitík, nálgunin er kannski pólitísk en ekki grundavallar atriðin í málinu og það hefur því miður brunnið við þessir málaflokkar "tilheyri" vinstri vængnum. Þetta á ekki að vera bundið einum eða neinum væng, þetta eru mannréttindamál og þau koma öllum við.

sunnudagur, október 15, 2006

Hvernig skildi mer liða i dag?

Land Mitt


Land Mitt er úthafseyja
eldfjallamóðir, -kona, -meyja,
sem ég ann svo heitt
að aldrei neitt
okkar á milli ber.

Á meðan aðrir heimsstríð heyja,
hér vil ég lifa og líka deyja,
eiga vísan stað
og vita að
vakað er yfir mér.

....


Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

föstudagur, október 13, 2006

Náttúran stendur í stríði þessa dagana um yfirráðin. Sumarið er að tapa stríðinu, vetur lætur sig sjást af og til svona til að benda á hver hann er og hvað hann gerir. Það snjóaði í gær, svona snjókorn hér og þar og hífandi rok rétt um frostmarkið, ekki nóg þó til að grána í rót. Það á hlýna í 15 stigin yfir helgina og svo vera þetta 10 stigin fram eftir viku, þá gæti vetur kall bankað aftur á dyr. Ég hafði hugsað mér að horfa á víðavangshlaup í gærkveldi en gat bara ómögulega fengið mig til að dúða mig og arka útí kulda kvöldsins. Frekar kveikti ég upp í arninum, hjúfraði mig uppí sófann minn rauða, prjónaði lopapeysu og horfði á CSI.

fimmtudagur, október 12, 2006

Börnin mín gáfu pabba sínum innrammað ljóð í gjöf á feðradaginn fyrir einum 13 árum eða svo. Karólína hafði verið að velta fyrir sér þessu MD sem var fyrir aftan nafn föður hennar á öllum skiltum allsstaðar í vinnunni og ég hafði sagt henni hvað þetta þýddi. Nokkrum dögum seinna rakst ég á þetta dásamlega ljóð sem börnin gáfu svo föður sínum:

My Daddy, M.D.

Whenever Daddy signs his name
he always writes M.D.
So people all will know
that he belongs to me.
For MD means "My Daddy"
or something just the same
and that is why he always
puts these letters in his name.
Some letters in his name are small
but these are not, you see.
He always makes them big like that
because he's proud of me.

Ramminn var á skrifstofu hans öll árin sem hann var á háskólasjúkrahúsinu en þegar við fluttum hingað niðureftir þá fannst ljóðið ekki. Ég var svo að grúska í gömlu dóti niður í geymslu í fyrradag og kemur þá ekki blessað ljóðið uppí hendurnar á mér. Góður dagur það.

miðvikudagur, október 11, 2006

Það var alveg ótrúlega fallegt í Eyjafirðinum þessa daga sem við vorum þar. Mér skilst að það sé haldur kaldara um að litast núna en var fyrir viku síðan.

Íslensk fegurð


Íslensk fegurð, originally uploaded by Kata hugsar.

Íslensk fegurð


Íslensk fegurð, originally uploaded by Kata hugsar.

Mikið er gott að vera ekki ein heima lengur. Ég þekki öll hljóð í þessu húsi sem og á Lönguklöppinni minni. Öll stígum við til jarðar mis þungt, mis mikill bægslagangur í hverjum og einum, allir ganga á sínum hraða, hver trappa hefur sitt hljóð, svo og hver hurð og hvert herbergi og þannig er hægt að vita hvar hver og einn er með því einu að hlusta. Það sem húsið mitt hér í Rochester og Langaklöpp hafa sameiginlegt er að þau eru timburhús og það brakar og brestur allt eftir hreyfingu hússins og þau svigna og dansa eftir takti vindsins og úrkomunni og hitastiginu utandyra. Þegar ég var ein hér heima um daginn þá mögnuðust öll þessi hljóð upp á kvöldin og þegar ég var að sofna þá heyrðist oft brak og brestir í annars hljóðri nóttinni og í mókinu hugsaði ég ósjálfrátt um manneskjuna sem þessi hljóð fylgdu en rauk svo upp með andkvælum og hraðan hjartslátt þegar ég áttaði mig á því að ég var ein í húsinu og viðkomandi hvergi nálægur. Það tók mig oft langan tíma að ná mér niður aftur. Ég tók á það ráð að sofna út frá sjónvarpinu, stillti það lágt og á einhvern þátt sem ég þekki vel og þar með heyrði ég ekki í hljóðum hússins. Mikið er nú gott að vera aftur með minn besta vin hér heima.

þriðjudagur, október 10, 2006

Morgunmaturinn í dag samanstendur af heimabökuðu rúgbrauði með reyktum silungi veiddum af heiðurs-húsbóndanum í Vinaminni, kaffi, appelsínudjús til að skola niður lýsisperlunum og svo Andreu Gylfadóttur með Tríói Björns Thoroddsen. Gerist ekki öllu betra hér á bæ. Í augnablikinu eru þau -og svo ég- að flytja Ömmubænina hans Jenna Jóns.

mánudagur, október 09, 2006

Mikið voðalega var gaman á Íslandinu í þessari ferð. Okkur tókst að framkvæma allt sem til stóð...klæða skúrinn, bera á og ganga frá útihurðinni og svo fórum við í þessa líku dásamlegu haustlitaferð austur í Helludal til Þilskipaútgerðarskrásetjarans, spúsu hans og höllina þeirra. Við fórum í stuttan göngutúr í Haukadalsskógi sem er óskaplega fallegur með falleg tré...bara eiginlega skóg...læk, gljúfur, útsýni yfir Geysi og umhverfi og svo inná öræfi, sumsé allt sem prýða getur fallegt umhverfi, svo ekki sé nú talað um kompaníið. Okkur var boðið í heljarins afmælisveislu í nýja húsinu, kaffi, kakó og heimabakað. Ég er farin að hlakka til næstu ferðar og líka til þess að flytja heim, hvenær sem það nú verður, vonandi innan fimm ára, kannski minna, kannski meira.

Halli gerði góða ferð austur í Rússíá, kom eldhress og andlega úthvíldur til baka.

Hamarinn og asparhlíðin


Hamarinn og asparhlíðin, originally uploaded by Kata hugsar.

Frá Lönguklöpp


Frá Lönguklöpp, originally uploaded by Kata hugsar.

vinnupallurinn kominn upp


vinnupallurinn kominn upp, originally uploaded by Kata hugsar.

gilið og lækirnir fossa á ......

Þetta var haustlitaferð


Þetta var haustlitaferð, originally uploaded by Kata hugsar.

ferðafélagarnir í Haukadalsskógi

föstudagur, september 29, 2006

Ég er á leiðinni,
alltaf á leiðinni.......
til Íslands.
Í dag.

mánudagur, september 25, 2006

Kall minn er farinn til Rússlands í veiðiferð, hann sem veiðir svo sjaldan að hann hefur hvorki átt vöðlur né veiðibox á ævinni en nú brá svo við að hann skellti sér til Rússlands með góðum vinum í laxveiði. Það þurfti náttúrulega að kaupa inn fyrir ferðina og það var farið í Cabelas og keypt þessi lifandis ósköp af veiðidóti og hann fór albúinn í átökin. Ferðalagið var langt og mikið....Minnepolis, Keflavík, Stokkhólmur, Moskva, Murmansk, Umba allt í einni bunu. Ég reikna með að minn hafi verið orðinn þreyttur þegar í kofa var komið enda var hann á vakt alla síðustu viku, var kallaður út þrjár nætur í röð, gaf þrjá fyrirlestra og kláraði bókarkafla, þetta allt í viðbót við venjulega atið sem alltaf er á honum. Vonandi nær hann að hvílast, hann er hvorki með símasamband né tölvusamband....sem betur fer, þá er ekki hægt að ná í hann! Við hittumst svo á Íslandinu um næstu helgi. Ég er því hérna alein í kofanum og er að reyna að nota tækifærið til að skrifa og lesa og lesa og skrifa. Það gengur, ekki hratt en mjakast.

þriðjudagur, september 19, 2006

Ég held áfram að minnka. Ég skemmti mér mikið á föstudaginn þegar ég fór niður um eina buxnastærðina enn og ég þarf að búa til nýtt gat á beltið því ég er komin alla leið. Fjórum buxnastærðum minni en fyrir ári síðan. Ég veit ekki hversu lengi ég held þessu áfram, allavega fram í miðjan nóvember þegar ár er liðið frá því að ég byrjaði fyrir alvöru að taka sjálfri mér tak. Annars líkar mér þessi lífsstíll, ég veit svo sem ekki hvað á að kalla hann annað en heilbrigðan með mikilli hreyfingu og hollum en litlum mat. Það er voðalega notaleg tilfinning að stjórna gerðum sínum og athöfnum og að auki að vera létt í spori. Ég á samt ennþá 5 kíló eftir í takmarkið sem ég setti mér en þegar ég setti mörkin þá gerði ég mér enga grein fyrir hvernig ég myndi líta út við hverja vörðu og því var þetta sett svona bara-af-því-bara.

mánudagur, september 18, 2006

Mér dauðbrá í morgun þegar bankað var á rennihurðina útí garð. Ekki að það sé svo óvenjulegt en allir þeir sem eiga til að gera þetta eru farnir í skóla eða fluttir svo hjartað í mér fór á fleygiferð. Mér varð litið út og þar voru einir 15 kalkúnar á vappi á stéttinni minni og einn þeirra var að banka á gluggann. Hann sá eflaust spegilmynd sína og var óhress með nálægðina og goggaði í. Annar hafði hoppað uppá borðið, nokkrir að rífa upp grasið og enn aðrir að gera þarfir sínar. Ég þurfti ekki að gera mikið til að fæla þá í burtu, gekk í áttina að glugganum og ég er náttúrulega svo skelfileg kona að þeir hræddust og hurfu á braut.

laugardagur, september 16, 2006

Fyrirsögn í Mogga í dag:

"Leika án Jón Arnórs"

Eru nafnorðabeygingar orðnar úreltar í íslensku máli?

föstudagur, september 15, 2006

Skelfilegt var að lesa fréttir um dauðsföll í umferðinni á Íslandi í Mogganum í gær. Ég hef eingöngu lesið mbl.is fram að þessu en gerðist áskrifandi að Mogga og les því mitt blað á hverjum degi. Í gær var sumsé þessi umfjöllun og auglýsing með myndum af þeim sem látið hafa lífið það sem af er árinu. Mikil skelfing sem var að sjá. Þetta kemur reyndar ekkert ógnarlega á óvart því ég er með lífið í lúkunum þegar ég keyri á Íslandi, hvort heldur sem er í Reykjavík eða úti á vegum. Umferðin er mun rólegri á Akureyrinni minni. Það að keyra á 90-100 km hraða á þjóðvegunum þykir ekki nóg af alltof mörgum ökumönnum og það er flautað og blikkað til að láta vita að þessi hægakeyrsla er ekki góð lenska. Það sem mér finnst þó öllu verra er hversu stutt er á milli bíla í umferðinni útá þjóðvegunum. Það þykir ekkert tiltökumál að hafa nokkra metra á milli bíla þegar keyrt er á mikilli ferð, og þar með er ekkert pláss fyrir "mistök" eða hik, rétt eins og um rallakstur sé að ræða. Hér í Minnesota er notuð sú þumalfingursregla að hafa þrjár sekúndur á milli bíla og það má stoppa ökumenn sem keyra of nálægt, það heitir "tailgaiting" og þykir með því allra hættulegasta í umferðinni. Þetta er orðið svo fast í mínum huga að ef mér finnst ég vera of nálægt þá finn ég mér viðmið og byrja að telja og þegar ég geri þetta á Íslandi þá er það segin saga að það er flautað á mig og þegar ég virði fyrir mér aðra ökumenn þá er það viðburður ef ég get byrjað á einni sekúndu hvað þá tveimur eða þremur. Börnin mín eru ekki vön að keyra á Íslandi og ég er dauðskelkuð að vita af þeim á vegunum því þau eru ekki svona umferðarmenningu vön....so far so good....og ég held áfram að hræðast.

miðvikudagur, september 13, 2006

Haustið lætur á sér kræla þessa dagana. Það hefur rignt í fjóra daga, svona íslenskur rigningarsuddi og kalt, þetta 14, 15 stig. Nú fer hann hlýna aftur og á að vera 20-30 næstu vikuna og sól. Ég er ekki alveg tilbúin fyrir haustið, vil fá að hafa sumarið aðeins lengur. Stelpurnar eru í sínum skólum og hafa það fínt, báðum líður vel og við þessi gömlu höfum það líka gott, líður vel saman. Það verður ekki eins gaman í lok næstu viku þegar Halli fer til Rússlands og ég verð ein í rúma viku, en við hittumst svo á Íslandi eftir Rússíá og verðum að vinna á Lönguklöpp í viku, ekki svona skrifstofuvinnu heldur líkamlega vinnu við smíðar og annað viðhald. Það verður gott að gera.

laugardagur, september 09, 2006

Moldvörpurnar eru ennþá í garðinum. Kristín lagði til að við settum skilti við gangamunnan sem vinsamlegast benti moldvörpunum á að það væri bannað að grafa í garðinum okkar. Ég er að hugsa málið, þyrfti líklegast að lesa mér til í Andrés til að sjá hvað virkar.

fimmtudagur, september 07, 2006

Kristín fékk nýjan einstaklingsbát um daginn. Gamli báturinn var eyðilagður fyrr í sumar af #$%&/&%$# mönnum sem tóku hann í leyfisleysi. Þessi nýi er appelsínugulur eins og sjá má, voðalega fallegur bátur í alla staði. Þau feðgin lögðu af stað í langferðina í gær og eru þegar þetta er skrifað að kveðja Ohio og keyra inní Pennsylvania. Þau reikna með að komast inní Philadelphia þar sem Adam er um kvöldmatarleytið og keyra svo til Princeton eftir matinn. úfffffff þetta er langt ferðalag! Ég er hér ein í kotinu og verð að fara að venjast einverunni núna þegar allir eru farnir.

Kristín og báturinn Þór


Kristín og báturinn Þór, originally uploaded by Kata hugsar.

föstudagur, september 01, 2006

Það var gaman að lesa Aftenposten í gær og sjá að Munch verkin tvö eru fundin og komin á safnið aftur. Það var aftur á móti sorglegt að lesa blaðið í dag því þar var umfjöllun um hversu gott það er fjárhagslega fyrir landið að fá svona umfjöllun í heimspressunni. Þetta á tímum þegar Noregur þénar meira á dag í olíugróða en málverkin kosta. Ekki þar fyrir málverkin eru verðlaus í mínum huga, tvö af mínum uppáhaldsmálverkum, og mér finnst það móðgun að fjalla svona um þau. En mín skoðun skiptir náttúrulega engu máli frekar en fyrridaginn.

www.aftenposten.no:
"Meldingen om at maleriene ”Madonna” og ”Skrik” er i politiets hender, har gått som ildebrann over hele verden. Saken har fått fyldig dekning i flere store medier, og norske pr-eksperter er enige om at omtalen er verdt gull for Munch-museet og Norge... Vi snakker om en verdi på flere hundre millioner kroner, sier direktør for samfunnsavdelingen i Burson-Marsteller, Sigurd Grytten....Hvis du hadde ønsket å få like mye omtale av et nytt produkt ville det kostet deg 10 millioner kroner. Da ville du fått en større kampanje som kunne gått over en uke. I dette tilfellet snakker vi om redaksjonell omtale, og det regnes som tre til syv ganger så verdifullt som omtale gjennom reklame, sier Grytten."

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Þetta sagði moggi í dag um meyjar:

"Engin vél gæti leikið eftir það sem meyjan gerir í dag. Hún lagar sig snilldarlega að öllum flækjum sem verða á vegi hennar. Líklega gefur hún sér ekki einu sinni tíma til þess að verða hissa, heldur brettir bara upp ermarnar."

Vonandi gengur það eftir því það er margt á lista dagsins sem þarf mikla orku og ákveðni til að allt gangi upp.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Öll lifðum við þessa ferðina af og allt gekk samkvæmt áætlun. Karólína er ánægð með herbergisfélagann, Margot er frá Reno í Nevada og virðist vera hin allra geðugasta stelpa. Þær fengu herbergi í nýjustu vistinni þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja, lofkæling og fallegir litir, stór gluggi með góðri dagsbirtu og baðið beint á móti á ganginum. Loftkæling er mikill lúxus í Norður Karólínu, það var 39 stiga hiti og mjög rakt þegar við fórum í gær og það er ekki auðvelt að sofa í húsnæði sem er ekki kælt því það kólnar ekki mikið á nóttunni þegar það er svona rakt. Það eru ekki nærri allar vistarnar í Duke með loftkælingu svo hún er mjög heppin. Karólína fór í þýsku tíma í gær í húsi sem er ekki loftkælt og hún þurfti að skipta um hvern þráð þegar heim var komið vegna svitabaðs. Það er farið að kólna hérna heima, það var bara 18 stiga hiti í gærkveldi þegar við lentum og í dag verða þetta svona 20-25 og lítill raki.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Ég tognaði í kálfa á föstudaginn. Var í rauninni ekki að gera neitt sérstakt annað en að hlaupa. Hætti strax en er hálf skökk og skæld í gangi. Ég sem er að fara útúr dyrunum með örverpið mitt í skólann! Þar þarf ég og ætlaði mér að ganga þessi lifandis ósköp. Það eru víst mjög skemmtilegar gönguleiðir í skóginum í kringum skólann. Það gengur vonandi, ég er mun betri í dag en í gær og allt önnur en í fyrradag.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Í kvöldmat verða 12 manns. Íslenskt lambalæri á boðstólnum handa amerískum vinum. Tilefnið er að allar sex dætur okkar þriggja vinahjóna eru að fara í college. Allar fara þær austur á bóginn, fjórar til Massachusets, Kristín til New Jersey og Karólína til Norður Karólínu. Það verður tómlegt hér á bæ þegar þær hverfa því allar hafa þær hafa haldið til hér hjá okkur meira og minna síðustu árin. Tvær hafa verið nágrannar okkar síðan við fluttum hingað til Rochester en nú eru foreldrar þeirra, sem eru líka bestu vinir okkar, að flytja til Phoenix í eyðimörk Arizona okkur til mikillar bölvunar. Við ráðum nú víst voða litlu um hvernig þau taka ákvarðanir um líf sitt. Við erum óhress samt.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Það eru moldvörpur að grafa í sundur framgarðinn minn. Ég uppgötvaði gangana þeirra í þriðjudaginn því það er nokkuð auðvelt að sjá hvar gangarnir liggja því grasið ofan á gönngunum fellur og flötin lítur út eins og æðakerfið á handarbakinu á mér. Á nokkrum dögum voru moldvörpurnar búnar að koma sér vel fyrir undir sumarblómabeðunum og búnar að ýta til fínu blómunum mínum. Ég tók mig því til og sprautaði eitri yfir svæðið. Ég hef enn ekki séð viðbót við það sem var en moldvörpurnar eru iðin dýr og eru eldsnöggar að grafa gangana svo ég vona að það bætist ekkert við og þetta jafni sig.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Í dag er vika þangað til Karólína hverfur á vit framhaldsmenntunar í Norður-Karólínu. Við mæðgurnar fljúgum næsta mánudag til Durham, hún flytur inn á vist daginn eftir og svo taka við allra handa kynningar og skemmtanir þangað til skólinn sjálfur byrjar mánudaginn 28. Kristín fer svo í byrjun september og þá verður tómt í kofanum. Sú yngri átti að byrja að pakka um helgina en það fór nú minnst niður í kassa eða töskur. Hún er afskaplega skipulögð og rökrétt í vinnubrögðum og er búin að skipuleggja fataskápinn þannig að allt sem hún tekur með sér er fremst og auðvelt að grípa til þegar raða á niður. Svo er hún komin með lista yfir allt sem hún ætlar að taka með sér og það sem við ætlum að kaupa áður er hún fer og svo það sem þarf að kaupa á staðnum. Ég hef óljósan grun um að þegar kemur að því að koma dótinu niður þá tekur það stuttan tíma, það er allt á sínum stað hjá henni og það fer lítill tími í óþarfa snúninga. Hún systir hennar er ekki þannig! Bíllílykillinn og peningaveskið hennar eru þeirrar náttúru að hverfa þegar minnst varir og þegar hún á síst von á og má bara alls ekki vera að svoleiðis leikaraskap og þá fer allt heimilið og húsið af stað. Sú eldri á það til að hringja í litlu systur og biðja um hjálp við leitir....jafnvel þótt hálf heimsálfa sé á milli þeirra og sú yngri hafi hvergi verið nálægt þegar hvarfið varð. Það sama á við þegar tölvuvandmál eru í gangi, sú yngri er tölvugeek og finnur alltaf leiðir útúr öllum svoleiðis vandamálum. Sú eldri hjálpar aftur á móti til við hugmyndaleit, sköpun, ævintýri og skemmtilegheit. En orku hafa þær ómælda báðar tvær svo hér verður tómlegt og rólegt þegar þær hverfa á braut.

föstudagur, ágúst 11, 2006

Við erum Volkswagen fjölskylda. Eigum bara bíla frá þeim, allir fjórir. En bíllinn sem stelpurnar hafa haft síðastliðin þrjú ár er nú farinn. Þetta var bjalla, eiturgræn og fín, dísel og beinskipt. Kristín ætlar að taka bílinn til Princeton og bjallan er ekki til þess fallin að frakta margt fólk og fullt af farangri. Allt þetta tilheyrir hlutverki "upperclassman", keyra yngri stelpurnar í liðinu og sendast í búðir. Þess vegna var ráðist í að skipta um bíl. Þetta gekk nú ágætlega framanaf en svo þegar komið var að því að taka endanlega ákvörðun þá rákust þau feðginin all þyrmilega á og hér var flugeldasýning í nokkra daga. Kristín og Halli eru alveg eins skapi farin; stjórnsöm, ákveðin, skoðanahvöss, og láta allt þetta í ljósi, hann með háttalagi og líkamsmáli en hún með orðum. Þvílíkt og annað eins! Svo gekk þetta nú allt um síðir, þau orðin sátt og hinir mestu mátar eins og oftast, og það er annar Passat kominn hingað heim. Þær sakna nú bjöllunnar, hann var næstum því eins og hluti af útliti Karólínu en þessi er betri fyrir það sem nota á hann í og því eru allir nokkuð sáttir. Passatinn er ekki eins töff og flottur, svolítið virðulegur, svolítið of virðulegur fyrir mínar dætur en stundum verður að gefa frá sér stílinn og láta hagkvæmnina ráða.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Eftir þrumuveður næturinnar hefur aðeins hægt á en hann rignir enn og það er yndislegt. Það hefur ekki komið dropi úr lofti í margar vikur og allt var orðið brúnt og sviðið í hitunum en nú er græni liturinn kominn aftur og þegar hann hættir að rigna seinni partinn þá verður yndislegt úti. Ég hef ekkert heyrt frá leiðbeinandanum mínum ennþá og er því í lausu lofti og les bara, vil ekkert skrifa fyrr en ég fæ að vita hvort ég sé á réttri leið eða algerlega úti að aka. Það skiptir ekki máli hversu gamall maður er, óvissan er alltaf jafn óþægileg.

mánudagur, júlí 31, 2006

Heitt, heitt ,heitt!!!!!!!!! Það er ógnar hitabylgja í gangi hér, hann fór í 39 gráður í gær og fyrradag, og á að vera það samam í dag og á morgun en hann á að kólna í miðvikudaginn.......... alveg niður í 30 gráður. Síðustu tvær vikurnar hefur ekki farið niður fyrir 30 gráður, heitt, heitt sumar. Í gær fórum við í heimsón til kærra vina sem eiga hús við vatn með bát og öllu saman. Það var voðalega notalegt að eyða deginum með vinum í bátsferð, leggja uppað bryggju veitingastaðar og setjast niður yfir íste og léttum mat. Súper sumardagur.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Þetta er mynd sem Halli tók á leið uppúr Héðinsfirðinum á leið til Siglufjarðar. Mikil fegurð sem byrjað er að hrófla við því þeir bræður gengu framhjá jarðýtu og gröfu sem var að vinna að undirbúningi gangagerðar.

Héðinsfjörður, 14, júlí 2006

mánudagur, júlí 24, 2006

Crunch time, crunch time! Nú er að duga eða drepast með skrifin mín. Á morgun ætla ég að senda inn allt sem ég hef til leiðbeinandans míns og ég þarf að bæta við, breyta, laga til, skipuleggja og annað því um líkt. Allt tímafrek verk. Hér hefur verið fádæma blíða og verður áfram og hitinn verður 30 - 40 gráður næstu vikuna. Þá er bara að skella sér í laugina eða vera inni og skrifa...hmmmmmmm?

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Ég næ ekki uppí nefið á mér af reiði við forsetann í þessu landi. Þegar hann neitaði að skrifa undir lög um stofnfrumurannsóknir (ég held að þetta sé íslenska orðið yfir stem-cell research) í gær þá var mér allri lokið og hvað þá þegar ég hlustaði á rökin hans fyrir gerðum sínum. Ég var á brettinu í gær í ræktinni að horfa á CNN þegar hann flutti ræðuna og ég reifst og skammaðist við hverja setningu. Ég var með heyrnartól á mér og á fullri ferð og var ekkert að velta fyrir mér hverjir væru í kringum mig, þá tók ég eftir því að konan við hliðina á mér lét sig hverfa og færði sig á annað bretti lengra í burtu, OOOPS! hún var greinilega ekki sammála mér. Kallinn var eins og prestur í pontu að flytja lýðnum boðskapinn eina og sanna og komst að orði rétt eins og trúboði og sagði allra handa hluti sem eiga sér hvergi stað í raunveruleikanum. Þetta væri allt í lagi ef hann væri í trúboði en það er hann ekki og ætti í raun að vera að færa rök fyrir máli sínu með haldbærum upplýsingum og staðfestum rökum en það gerði hann ekki. Reyndar er stærsti hluta Bandaríkjamanna sammála mér og skilur ekkert hvað maðurinn er að gera. Allra handa Repúblikanar hafa reynt að telja manninum hughvarf án árangurs og eftir standa vísindamenn hér í landi eftir með sárt ennið og geta ekki haldið áfram rannsóknum og því er restin af heiminum komin langt frammúr enda flytjast vísindamenn háðan úr landi í stríðum straumum. Kannski ekki alveg en margir eru farnir og margir að tygja sig og að sjálfsögðu er enginn á leiðinni hingað, enda lítið hér að sækja fyrir vísindamenn í þessu fagi.

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Það er sannkallað sumarveður hér. Í gær var 39 stiga hiti og mjög rakt og í dag á að vera eitthvað svipað. Ég fór að sjálfsögðu á sundlaugarbarminn í gær og las í bók á milli þess sem ég kældi mig í lauginni....ljúft líf en ekki of oft og ekki of lengi í senn. Á svona dögum sakna ég þess að hafa ekki laug hérna heima í garði en ég ætla að fara í ræktina í dag svo það er ekki víst að ég hafi tíma til sundlaugarferðar. Það er reyndar ekkert hægt að vinna utandyra í þessum hita enda notaði ég morguninn í að tína arfa og hreinsa til hér fyrir utan, ekki veitir af því því arfanum líður vel í hita og raka og það liggur við að ég sjái hann spretta. Það á að koma þrumuveður annaðkvöld og svo að kólna eftir það. Ekki veitir af rigningunni því hér hefur ekki komið dropi úr lofti síðan ég fór og náttúran er gul og brún á að líta og líður greinilega ekki vel.

mánudagur, júlí 17, 2006

Komin heim til Rochester eftir fína Íslandsferð. Okkur Halla tókst að gera allt mögulegt til að viðhalda fasteignum okkar á Íslandinu, hefðum svo sem ekkert haft á móti því að gera meira en það eru víst bara 24 tímar í sólarhringnum og eitthvað þurfum við að sofa og svo þarf að njóta lífsins í fríinu. Við fórum í góða gönguferð á föstudaginn. Af stað lögðu átta manns frá Kleifunum við Ólafsfjörð. Upphafleg áætlun var að ganga í Héðinsfjörðinn og til baka aftur. Þegar að var komið var ljóst að gangan yrði erfið því Árdalurinn var fullur af snjó. Þegar uppá Rauðárskarðið var komið og við búin að njóta útsýnisins yfir Héðinsfjörðinn ákváðu sex úr hópnum að halda til baka en Halli og Ari bróðir hans ákváðu hins vegar að ganga til Siglufjarðar! Við hin fengum því góða fjögurra tíma fjallgöngu þennan daginn en þeir bræður nærri tólf tíma ferð. Ég keyrði til Siglufjarðar um kvöldið til að ná í herramennina. Halli var mjög sprækur og fann tiltölulega lítið fyrir göngunni en Ari var aumari en brattur þó og það var augljóst að þeir skemmtu sér vel á ferðalaginu. Þrátt fyrir að Halli hafi þurft að hætta við Laugavegshlaupið þá fór hann allavega í góða fjallgöngu í staðinn. Ég hafði búist við góðri göngu hjá okkur hinum en ég hafði alls ekki búið mig undir að ganga í snjó 3/4 af leiðinni. Næst fer ég betur skæð! Skór með harðri tá var nauðsyn þegar ofar kom í fjallshlíðina því þar var þétt hjarn undir sem erfitt var að fóta sig á í brattanum. Við gerðum ýmislegt í þessari Íslandsferð sem við höfum aldrei gert áður; fórum í siglingu um Breiðafjörð, gönguferð/hlaupaferð á Hverfjall í Mývatnssveit og svo gönguferðina góðu. Sumsé hin besta ferð í fríinu

föstudagur, júní 30, 2006

Klípupróf í gær. Það gekk vel, eða þannig. Ég hef ekki minnkað mikið síðan síðast, bara voðalega lítið, en stækkað hef ég ekki, og það er hið besta mál. Þegar ferðalögum linnir og rútína hversdagsins tekur við síðsumars þá tek ég mér tak aftur og tíni af þessu síðustu 10 kíló eða svo. Það er reyndar miklu skemmtilgra að mæla vigt í pundum því einingin er miklu minni en kíló en aftur á móti er miklu skemmtilegra að fá niðurstöður klípuprófs í sentimetrum en tommum, af sömu ástæðu. Reyndar skiptir það ekki máli hvað tölurnar sýna allt er þetta víst einn og sami líkaminn og hann er mín eign og það er víst enginn annar en ég sem um hann á að hugsa og bera ábyrgð á.

Til Íslands á morgun!!!!!!!!!

þriðjudagur, júní 27, 2006

Þar sem ég hef skrifað um fegurðina hérna hjá mér þá gekk ég hér útfyrir mínar dyr og tók myndir af húsinu og vesturhluta lóðarinnar í eftirmiðdagssólinni í dag.

Heima á Westwood Court


Heima á Westwood Court, originally uploaded by Kata hugsar.

heima


heima, originally uploaded by Kata hugsar.

mánudagur, júní 26, 2006

Þessa vikuna þarf ég að undirbúa brottför til Íslands. Ekki að það sé svo mikið verk, við höfum áður farið til Íslands :o ! og það í lengri ferð en þessar litlu tvær vikur sem ég verð í burtu í þetta skiptið. Halli er í Portúgal og við hittumst á Íslandi á sunnudaginn en Karólína og Becky vinkona hennar ferðast til Íslands með mér. Ég er farin að hlakka mikið til Íslandsferðarinnar, það er einhver Íslandslöngun í mér núna, ekki heimþrá en löngun eftir Lönguklöpp og fjölskyldunni. Sumarið hefur verið yndislegt fram að þessu og garðurinn minn í blóma og allt svo fallegt úti. Við Karólína vorum að tala um það í gærkveldi þegar við vorum að keyra hingað heim, innan hverfisins, að okkur þætti svo gaman að keyra hingað, og ekki er það síðra að ganga, það er svo falleg leiðin hingað heim; upp krókóttan, skógi vaxinn veg, kvöldsólin sendi geisla sína í gegnum trjágreinarnar og myndar röndótta, gulgræna birtu með rauðu ívafi, fuglarnir á fleygiferð; eldrauðir kardínálar, fagurbláir blue jays, skærgular finkur, appelsínugulir oreoles, og svo voru dádýrin og villtir kalkúnar á vappi og náttúrulega allir íkornarnir. Þetta er svo fallegt, og svo komum við á Lönguklöpp í næstu viku og sjáum fegurð sem er engu lík en af allt annarri ætt en fegurðin hér.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Voðalega verður tómlegt þegar svona margir hafa verið í húsinu og svo bara halda þeir til síns heima eins og ekkert sé. Ég sakna þess all verulega að hafa ekki fjölskylduna, og vinina, oftar hérna hjá mér. Það er svo gaman að hafa gott fólk í kringum sig. Hreint mannbætandi. Vonandi koma þau fljótt aftur, kannski í haust, hver veit.

miðvikudagur, júní 21, 2006

Mér finnst gaman að lifa. Það er svo ótalmargt áhugavert sem gerist í lífinu, skemmtilegt og leiðinlegt, fyndið og sorglegt, spennandi og dapurt, en áhugavert er það mest allt. Börnin mín eru náttúrulega óendanleg uppspretta allra þessara lýsingarorða, þau eru alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og spennandi mér oftast til gleði en stundum til armæðu og eitthvert orsakasamband er milli þeirra gerða og hnútanna sem myndast í maganum á mér reglulega. Þegar ég lít til baka þá er ég alveg viss um að allar mínar gerðir og ákvarðanir hafi verið skynsamlegar og teknar eftir ígrundun og yfirlegu yfir kostum og göllum, hættum, vandræðum og alltaf var tekið með í reikninginn hvað gæti gerst....................eða þannig. Það verður víst hver að fljúga eins og hann er fiðraður! Það er engin sérstök ástæða fyrir þessum hugleiðingum, ég geng í gegnum þetta ferli reglulega að reyna að taka sem allra minnst þátt í ákvörðunum barna minna, ég skal ræða málin ef þess er óskað og ég skal gefa ráð sé þess óskað en ég reyni að bjóða mína hjálp ekki fram nema eftir því sé sóst en drottinn minn hvað það getur verið erfitt að halda að sér höndunum. Kristín og Halli rifust/deildu/ræddu/töluðu um ákvarðanir og ferlið sem í það fer í gær. Þau voru nefnilega alls ekki sammála um Princeton og umsóknina þangað á sínum tíma. Hann var alfarið á móti því og hún stóð fast á sínu og það var stál í stál eins og oft er á milli þeirra. Hún komst inn og er afar ánægð og hann stoltur af sinni stelpu......en hvort hafði rétt fyrir sér er ekki á hreinu enda tíminn einn sem leiðir það í ljós eins og með svo margt.

mánudagur, júní 19, 2006

Það er heldur hljótt í húsinu núna eftir að hér hafi búið einar níu manneskjur síðustu tvær vikurnar og þá eru ekki taldir með vinir stelpnanna sem halda til hér meira og minna. Það var voðalega gaman að hafa Hranfnagilsfjölskylduna hérna og þetta gekk ótrúlega vel. Ofaná þetta þá héldum við 150 manna útskrifarveislu um síðustu helgi hér heima og ekki var það leiðinlegt að hafa fjölskyldumeðlimi á staðnum. Ég er hálf dösuð eftir þetta og var eins og stungin blaðra í gær, en Jóhannes litli lífgaði uppá tilveruna í gær því hann var hér nánast allan daginn. Veðrið var fyrir það mesta afskaplega gott þessar tvær vikur, nema um síðustu helgi þegar hitinn fór niður undir 15 gráðurnar en annars var þetta svona 25-33 stiga hiti og sól festa daga og nú er yndisleg veðurspá næstu dagana, 30-35 stig og sól og lítill raki, voðalega notalegt í alla staði.

miðvikudagur, júní 07, 2006

Húsið fullt af fólki núna, tvíburabróðir minn og hans fjölskylda í heimsókn og það er voðalega gaman að hafa þau hér. Halli kominn frá Spáni, Kristín komin í sumarfrí og Karólína útskrifuð. Útskriftarveisluna höldum við svo á sunnudaginn þegar stúlkutetrið verður viðlátið. Fyrst þarf hún að keppa á Fylkismeistaramótinu í frjálsum. Þar vann hún sér keppnisrétt í tveimur greinum, langstökki og 200 metra hlaupi og keppir í langstökki og undanrásum í 200m á föstudaginn og ef hún kemst í úrslit í 200m þá eru þau á laugardaginn. Það hefur verið heitt og gott síðustu vikurnar og þá sérstaklega síðustu dagana, þetta svona 27-34 stiga hiti og sól alla daga. Afskaplega notalegt veður og vonandi verður svona gott áfram. Karólína hefur unnið sér rétt að keppa í mótinu fjögur ár í röð og öll árin hefur verið ausandi rigning og kalt en nú lítur út fyrir rjómablíðu. Hún er sú eina af fjölskyldumeðlimunum sem þolir vel hitann og finnst reyndar voðalega gott að vera í miklum hita og því hentar þetta veðurfar þessa dagana henni vel.

laugardagur, júní 03, 2006

Honum leiddist aldrei í kulda og snjó

Þór


Thor, originally uploaded by Kata hugsar.

Það er stutt milli sorgar og gleði. Hann Þór okkar dó í gær, hann er búinn að vera hluti af fjölskyldunni síðan við fengum hann sex vikna gamlan haustið 1993. Stelpurnar muna ekki eftir sér án hans og við varla heldur. Hann er búinn að vera veikur allt síðasta árið og þá sérstaklega síðan um jól. Á fimmtudagskvöldið datt hann á eldhúsgólfið og gat ekki staðið upp í marga klukktíma og var mjög hræddur og leið mjög illa í alla staði bæði andlega og líkamlega. Þetta í viðbót við slæma gigt, hræðsluköst og magasár varð til þess að við létum svæfa hann í gær. Þetta var hræðilega erfitt en þetta gekk mjög fallega fyrir sig og hann sofnaði í fanginu á Kristínu með okkur mæðgurnar og vini Kristínar í kring. Halli er í Philadelphia og Bjarni komst ekki og þetta var erfitt fyrir þá ekki síður en okkur, en við gerðum þetta fyrir Þór, það var hræðilegt að horfa uppá dýrið þjást svona og sem betur fer þá gekk þetta mjög vel og gekk afskaplega fallega fyrir sig.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Okkur leiddist ekki eftir að keppnin var búin!

í gleðirússi


í gleðirússi, originally uploaded by Kata hugsar.

þriðjudagur, maí 30, 2006

Við mæðgur erum komnar heim eftir afburða sigur Princeton stelpnanna í háskólameistaramótinu. Mótið hefur aldrei unnist með svona miklum mun, þær voru ótrúlega góðar og ég fór ekki alveg yfirum en svona næstum því. Þær voru fyrstar í allri riðlakeppninni frá fyrsta árataki og það sama var uppá teningnum í úrslitunum. Það var ofsalega gaman að sjá svona gott lið og það eina sem ég gat hugsað, þ.e. í riðlakeppninni þá var ég ekki eins stressuð og í úrslitunum, það er þá svona sem á að gera þetta!

NCAA sigurvegararnir


NCAA sigurvegararnir, originally uploaded by Kata hugsar.

Kristín


Kristín, originally uploaded by Kata hugsar.

föstudagur, maí 26, 2006

Fyrsti riðillinn búinn og Princeton stelpurnar mínar unnu hann og fengu lang besta tíma morgunsins. One down, two to go. Ég legg í hann eftir tvo tíma og hlakka ósköpin öll til helgarinnar. Var að tala við Kristínu mína og hún sagði að þær hefðu róið vel en ekkert afspyrnu vel. ÚFFFFFFFFFFF

fimmtudagur, maí 25, 2006

Taugatitringurinn er byrjaður hjá mér. Kristín keppir í Háskólameistaramótinu um helgina. Princeton er númer eitt í landinu svo það eru miklar væntingar en þær voru númer eitt í fyrra líka og urðu númer tvö á meistaramótinu svo þetta verður voðalega spennandi og hún mamma hennar verður ein taugahrúga. Í fyrra unnu Cal (U of Cal Berkley) stelpurnar með tveim sekúndum (af c.a. 7 mínútum) og það er búist við álíka harðri keppni núna. Og hún ég sem gæti tekið uppá því að öskra úr mér lifur og lungu verð alveg búin eftir helgina. Ég skil reyndar ekkert í því af hverju ég er að eyða orku í að garga svona því Kristín heyrir ekki nokkurn skapaðan hlut í mér, hún er lengst útá vatni og í svo miklum átökum að hún heyrir ekkert nema suð í eyrum af of hröðum hjartslætti. Líklegast verð ég að líta mér nær og viðurkenna það að þetta er bara fyrir mig svo ég líði ekki útaf af spenningi, það er þá skömminni skárra að vera að "gera eitthvað" heldur en að standa þarna og góna. Núna í ár ætla ég að taka með mér sjónauka, reyndar verður risa stór skjár við markið þar sem sýnt er nákvæmlega hvar bátarnir eru á vatninu svo kannski þarf ég ekki sjónauka, en allur er varinn góður, og enn og aftur ég verð að gera eitthvað!

miðvikudagur, maí 24, 2006

Þrjú tré komust í jörðina í gærkveldi. Við erum með fjöldan allan af eikartrjám á lóðinni og allsskonar aðrar trjátegundir en nú vildi bóndi minn eplatré sem bera ávöxt, ekki bara til skrauts. Ég vildi rauðan hlyn svo þrjú urðu þau trén. Eitt kvenkyns og eitt karlkyns eplatré og einn rauður hlynur. Hlynurinn er að sjálfsögðu miklu fallegri en eplatrén, en hann er nú að mestu bara til skrauts. Það gekk þrumuveður yfir í nótt svo náttúran sá fyrir þeirri vökvuninni en nú á hann að hlýna all verulega og fara í 30 stigin næstu daga.

mánudagur, maí 22, 2006

Helgin fór í garðavinnu eins og svo oft áður á þessum árstíma. Sumarblómin komin niður og stór hluti af vorhreingerningu lokið en það er alltaf eitthvað eftir þegar risalóð á í hlut. Stundum finnst mér ég vera eins og smábóndi án húsdýra, bara eitt gæludýr hér á bæ, með allt þetta land sem þarf að hirða, ekki hirða beinlínis því stærstu hlutinn er skógi vaxinn, en það þarf að hugsa um þetta og passa vel svo það fari ekki í niðurníðslu. Halli hefur verið í grófari og karlmannlegri verkunum; höggva tré, saga greinar, kvarna greinar, o.s.frv. og ég sé um að leggja stéttar, byggja veggi og blómabeð, hreinsa arfa, bera á og svoleiðis. Þetta er ágætis verkaskipting mér er meinilla við stórvirkar sagir og vélar og hann er ekki gefinn fyrir dútlið. Það hefur reyndar verið kuldakast að undanförnu, það eru örfáar gráður á morgnana og ekki nema rétt um 20 stig yfir daginn og það er kalt fyrir þennan árstíma.

laugardagur, maí 20, 2006

Karólína og Peter


Karólína og Peter, originally uploaded by Kata hugsar.

Karólína í tangó kjól


Karólína í tangó kjól, originally uploaded by Kata hugsar.

ahhhhhhhhhh, yndisleg stund. Ég er að hlusta á Public Radíóið mitt, það er Prairie Home Companion, einn af mínum uppáhaldsútvarpsþáttum, afspyrnu gott útvarp, og ekki skemmir fyrir að núna er þátturinn frá Þjóðleikhúsinu þessu eina sanna við Hverfisgötuna. Diddú, Karlakórinn Fóstrbræður, Bill Holm og þessir venjulegu gestir. Gaman, gaman. Hann nær að gera dásamlegt grín af landi og þjóð, meira að segja trúarbrögðum Landans, eða skorti þar á. Halli minn er að lenda í Minneapolis rétt þegar þetta er skrifað. Loksins! Við hjónin höfum lítið sést síðasta mánuðinn, hann að ferðast, ég að ferðast, sitt á hvað, hingað og þangað, svo fer hann til Spánar eftir rúma viku, og svo Ísland aftur, og svo, og svo..... það er alltaf eitthvað framundan hjá honum.

föstudagur, maí 19, 2006

Arizona

Ég var að vinna í Phoenix Arizona í gær og fyrradag. Þangað hef ég aldrei komið áður og hef verið sjaldan í eyðimörk svona ef út í það er farið. Góðir vinir okkar og nágrannar eru að flytja þangað í sumar og allan tímann, sem var nú reyndar afar lítill, velti ég því fyrir mér hvernig fólk getur búið á svona stað í svona borg. Það var 43 stiga hiti, skraufþurr, og mér fannst ég varla getað náð andanum. Ég velti því fyrir mér augnablik að fara út í göngutúr en sú hugsun varaði voða stutt. Það sem verra er, það er bara maí, allur sumarhitinn er eftir! Eflaust venst fólk þessu en genin mín voru mótuð í gegnum tíðina með það í huga að þola kulda og vosbúð, það var ekki tekið með í reikninginn að einhverntími gæti ég þurft að þola 45 stiga hita, svo ég er á því að ég geti aldrei búið í eyðimörk í Arizona. Mayo Clinic Arizona verður að komast af án mín, enda svo sem ekkert verið að ræða annað.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Ég er farin að hlakka all verulega til frumsýningar á Da Vinci Code, ég hafði ómælda ánægja af að lesa bókina og ég hef miklar vonir bundnar við myndina, kannski er það vís leið til vonbrigða. Er þetta ekki dæmigert að þora aldrei að hlakka til án þess að slá einhverja varnagla, þetta er nú þrátt fyrir allt bara bíómynd ekki fræðslumynd. ERGO: ég hlakka til að fara í bíó og skammast mín ekkert fyrir það, og hananú.

föstudagur, maí 12, 2006

Komin heim í heiðardalinn, þótt hvorki sé hér heiði né dalur. Veðráttunni sem er hér utandyra yrði lýst í Firðinum mínum heima sem ísköldu norðanroki og rigningu í júlí. En hann ætlar að hlýna á sunnudaginn og það verður 20-25 stiga hiti alla næstu viku, eða eins lengi og spáin nær. Þá er um að gera að nota tíminn til inniverka áður en styttir upp úti og vorverkin kalla á mig.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Atlantshafið og strönd Flórída eru fyrir utan gluggann minn núna. Ég er að vinna hérna að tveimur skemmtilegum verkefnum. Íbúar svæðisins eru afar ánægðir því það hefur rignt af og til í 3 daga, en hafði ekki gert það í þrjá mánuðina þar á undan, ég aftur á móti hefði alveg þegið sól því hótelið mitt er á ströndinni. Ég fór reyndar í tveggja tíma göngutúr á ströndinni í gær og kom vind- og salt barin inn og alsæl með lífið. Ég fer heim á morgun og kall minn svo til Íslands á föstudaginn í vikuferð, hann fer reyndar á fund í eina tvo tíma af þessari viku en svo á að planta trjám og pota niður kartöflum á Lönguklöpp en annars njóta höfðuborgarinnar.

föstudagur, maí 05, 2006

Þetta er afmælisbarnið mitt en eitthvað er nú skannerinn farinn að gefa sig!

Karólína


Karólína, originally uploaded by Kata hugsar.

050588, þá fæddist örverpið mitt og er því 18 ára í dag, telst til fullorðinna, en vill ekki vera fullorðin alveg strax, bara svona stundum. Finnst ennþá gott að eyða tíma með mömmu og pabba, koma heim og hnoða mömmu sína, bara smá.

fimmtudagur, maí 04, 2006

Síðasti kjóllinn fyrir Karólínu. Nú er það senior prom og ákveðið var að gera allt að því Carmen. Kjóllinn verður tangó rauður með doppóttu svörtu neti yfir, efri hlutinn kallast "halter top" hérlendis, berar axlir og bert bak en toppruinn tengdur saman aftan á hálsinum, neðri hlutinn næstum því hringsniðið pilsið rétt niður fyrir hné, tengt saman með þröngu breiðu mittisbandi. Svo ætlar hún að vera í svörtum skóm með svart blóm í hárinu. Strákurinn sem bauð henni er afskaplega settlegur, kurteis, og hræðilega vel upp alinn, Karólína og vinkonurnar kalla mömmu hans Frau. Hann skreytti bílinn hennar, sem er eiturgræn Volkswagen bjalla, í blöðrum og skrifaði hann allan út í skilaboðum um prom. Honum hefur eflaust fundist hann vera að gera eitthvað ótrúlegt en allir stafirnir voru nákvæmlega skrifaðir og allt í beinni línu og röð og reglu. Það á nefnilega ekki að fara út fyrir línurnar!

miðvikudagur, maí 03, 2006

Ég fór til augnlæknis í fyrradag. Ég þurfti nefnilega að lesa gamla grein um helgina sem prentuð með smáu letri og þá komst ég að þeirri niðurstöðu að augun mín sem hafa nú nánast alla tíð verið góð og séð um það sem þarf eru nú farin að gefa sig eitthvað. Allavega þegar letrið er smátt og augun þreytt eftir mikla notkun síðustu mánuðina. Ég get reyndar séð allt vel sem er nálægt mér á meðan birtan er góð og ekki er um að ræða eitthvert pínulítið....þetta er sumsé, sko, bara í lítilli birtu og lítið og smátt eins og letur og krosssaumur...annars er þetta bara gott, sko. Ekki það að ég þurfi á lesgleraugum að halda, nei, ekki strax allavega, sagði augnlæknirinn, það átti líklega að vera huggun enda sagði hún að ég sæi mjög vel miðað við aldur...það átti líka að vera huggun.

sunnudagur, apríl 30, 2006

Rettarkerfið

Ég skil ekki íslenskt réttarkerfi. Ekki hef ég hugmynd um hvort þeir Baugsmenn eru sekir eða ekki, það kemur eiginlega málinu ekki við núna. Þeir hafa eflaust stigið á margar tær á leiðinni upp og gert ýmislegt sem tilheyrir gráu svæði en það eru margir sem hafa gert og réttarkerfið væri stappfult af lögsóknum um siðlaust athæfi ef allt sem væri siðlaust væri lögsótt. Það sem ég ekki skil er að saksóknari fékk annað tækifæri til að lögsækja fólk á forsendum sem búið var að henda út úr réttarkerfinu fyrir fádæma léleg vinnubrögð. Hann fékk sumsé að taka upp próf sem hann kolféll á í vor. Ég skil það fullvel að þau voru ekki dæmd saklaus heldur var ákæruliðunum vísað frá en samkvæmt mannréttindalögum þá má bara lögsækja fólk einu sinni fyrir hverja sök og stór hluti af nýju ákæruliðunum er sá sami og í fyrra máli. Stórfurðulegt og vonandi fer þetta fyrir mannréttindadóm.

föstudagur, apríl 28, 2006

Þá eru fjaðrirnar farnar að týnast af mér þessa helgina. Karólína fór til Princeton í gær og Halli fer í dag og við Þór verðum hér ein í kotinu. Kristín er að keppa í fyrramálið, síðasti róðurinn í Princeton fyrir tvö úrslitamótin. Ég þykist ætla að skrifa og lesa, og lesa og skrifa heil reiðinnar ósköp um helgina en ég ætla að gefa mér tíma til að fara í leikfimi. Ég hef ekki komist eins oft og ég kýs undanfarnar fimm vikur og bakið er farið að kvarta yfir allri setunni og nú ætla ég að taka skurk í að fara á hverjum degi, minnst einn og hálfan tíma í senn. Það er nefnilega "slökun" í því að hreyfa sig, það er allavega mikil vellíðan fylgjandi góðri leikfimi hvort sem hún er slakandi leikfimi eða ekki, ég er allvega afslöppuð þegar leikfiminni er lokið (Halur á heiðurinn af þessum hugsunum, ég hef ekkert skapandi í mínum heila, ekki einu sinni svona hugsanir). Ég er farin að hlakka til þriðjudagsins, þá byrjar golfið mitt þetta sumarið, alla þriðjudagsmorgna þegar ég er ekki að vinna eða ferðast þá spila ég golf, gaman, gaman.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Þá er fyrsta uppkastið af fyrstu tveimur köflunum (þetta hljómar afar lítið af litlu) af RITGERÐINNI farið. Ég er orðin andlaus og vitlaus af þessu akademíska brölti og hef ekkert sem heitir sköpunargáfu eftir í heilanum á mér, ég get varla bloggað. En ég ætla að halda áfram og reyna að klára þetta, útlit fyrir að þetta verði á vormánuðum að ári.....eða haustmánuðum. Hún eldri dóttir mín er ekki hrifin af móður sinni þessa dagana, ég á nefnilega að vera til í að tala við hana í síma tuttugu sinnum á dag ef vel á að vera og ég hef verið að reyna að ignorera heiminn að undanförnu henni til mikillar bölvunar. Í fyrradag áttum við þetta samtal eftir að ég hafði verið að afsaka sinnuleysi mitt gagnvart vinum:
Kristín (20): "Ætlar þú að vera svona í allt sumar?"
"Svona hvernig, leiðinleg?"
"Já, þú ert ekki skemmtilegt núna"
ég skellihló og þá sagði Kristín
"ég var ekkert að reyna að vera fyndin, þetta er háalvarlegt mál!"

Þetta minnti mig á samtal Kristínar við afa hennar þegar Kristín var fimm ára. Afi var að passa börnin í tjaldi í ausandi þrumuveðri í Norður Dakóta á meðan foreldrarnir fóru á stúfuna að finna þurrt húsnæði. Sú stutta hafði verið með einhverja frekju og afi setti ofaní við hana og Kristínu líkaði það ekki og sagði afar blítt þessa fleygu setningu:

"Þú ert leiðinlegur í dag afi minn". Afi er enn að hlægja að þessu því hún var að reyna að vera svo kurteis í allri frekjunni.

mánudagur, apríl 24, 2006

Þetta var nú meiri dýrðar helgin. Veðrið eins og það gerist best hér, 23 stiga hiti, sól og smá gola. Það verður nefnilega all verulega heitt hérna bráðum, ég veit ekki hvenær bráðum verður en það kemur. Ég gaf mér meira að segja tíma til að sitja útí sólinni í gær og horfði þar á kall minn og tengdaföður sinna smíðaverkum. Nú þarf að klára allt mögulegt smálegt fyrir útskrift. Það er eitt afar gott við afmæli, útskrift og aðra stórviðburði að við tökum okkur alltaf til og klárum eitt og annað sem setið hefur á hakanum, það er málað, tekið til í skápum og vistarverum sem eru ekki í augsýn dags daglega. Það verður reyndar voðalega mikið að gera hjá okkur þetta vorið en það verður bara að setja í næsta gír og koma meiru í verk en vanalega.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Það er slæmt hvað mér finnst orðið leiðinlegt að versla. Ég fór til Minneapolis í gær með tengdaforeldra mína og gat ekki fyrir mitt litla líf hugsað mér að fara í Mall og America (MoA) og fór því í mitt uppáhalds moll, allavega hér á árum áður, en nú brá svo við að ég gat ekki beðið eftir því að komast þaðan út. Ekki var troðið því það var fátt á ferli, ekki var ég tímabundin og peninga hafði ég til að versla með en ég bara gat alls ekki hugsað mér að eyða tíma í verslunarmiðstöðinni. Ekki veit ég hvort þetta er famför eða afturför en þetta lagast eflaust, allavega þannig að ég geti keypt á mig sumarföt því ekki get ég notað það sem í skápnum er og ekki geng ég í síðbuxum og ullarpeysum hér í sumarhitunum.

Annars fór mikil orka hjá mér í gær í það að fylgjast með uppstokkun hjá hinum óþolandi Bush kalli. Það verður forvitnilegt að heyra hvað analísu sérfræðingarnir hafa um þetta að segja. Ég hlusta og horfi náttúrulega bara á það sem passar mínum skoðunum sem er ekki Fox og aðrir róttækir hægri miðlar, ég held mig við New York Times og Washington Post. Það er nefnilega svo miklu betra að fá staðfestar eigin skoðanir heldur en að hlusta á einhvern sem heldur einhverju allt öðru fram því það er náttúrulega bara bull það sem ég er ekki sammála!

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Nú þykist ég sitja við að skrifa doktorsritgerð, fyrsta kaflann, berst um á hæl og hnakka að koma allri vitneskjunni á blað þannig að aðrir skilji. Stundum finnst mér ég ekki vita neitt og hef því ekkert að skrifa og í annan tíma er ég svo uppfull af hugmyndum og þekkingu að það fer allt í hnút í heilanum á mér og þar með get ég hvorki skrifað þegar ég ekkert veit eða veit mikið. Svo enn aðra daga þá allt í einu léttir þokunni og ég sé þetta allt mjög skýrt og finnst þetta lítið mál, en það er því miður ekki oft en í gærkveldi kom svona stund þar sem ég náði mér á flug og tókst að koma rauða þræðinum alla leið. Þá er að setja kjötið á beinin og fá einhverja mynd úr þessu öllu saman. Þarf víst að klára fyrir næsta miðvikudag, er nú ekki viss um að það takist en ég er að reyna og meira get ég víst ekki ætlast til af sjálfri mér. Ég er oft voðalega vond við sjálfa mig og finnst ég heimsk, vitlaus og löt en ég verð víst að vera það (þ.e. vond) til að ná settum markmiðum.....er það ekki svoleiðis sem þetta virkar?

sunnudagur, apríl 16, 2006

Páskadagur. Komin heim í kotið og finnst alveg yndislegt. Kom reyndar heim hundslöpp og með einhverjan ólukkans pesti, ekki beint lasin en slöpp og með hausverk og drusluleg. Það hlýtur að ganga yfir. Það var 28 stiga hiti og sól þegar ég lenti og samskonar veður á föstudag og í gær en nú er þrumuveður með tilheyrandi rigningu og 10 stiga hita. Það er gott að sjá til vors og sumars, grasið orðið fagur grænt, grátvíðirinn orðinn ljósgrænn og græn slykja komin á skóginn og það styttist í að ávaxtatrén blómgist og þá verður veröldin enn fallegri, hmmmmmmm, dásamlegt.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Islandið

Íslands- og Evrópuferð minni að ljúka að sinni, ég yfirgef Ísland á morgun rétt passlega þegar flestir Íslendingar fara í langþráð páskafrí. Ég er farin að hlakka mikið til að komast til minna heima í faðm fjölskyldunnar. Mikið voðalega sakna ég þeirra. Ég er þó búin að hafa það afskaðlega gott. Það var vitlaust veður fyrir norðan í síðustu viku og ég lokaðist inni á Lönguklöpp tvo daga í röð og eftir að hafa verið mokuð út tvisvar þá ákvað ég að flytja fram á Hrafnagil. Það var svo sem ekkert alslæmt að vera föst inni, ég var með mikið af lesefni sem ég þurfti að komast yfir og gerði það með sóma og sann. Ég er þó ekki hagvön í íslenskri veðráttu lengur og finnst vont að berjast í blindhríð. Eftir að hafa skemmt mér mikið yfir Gettu Betur og sigri minna manna og svo horft á hokkí leik þar á eftir þá lagði ég í´ann heim á leið. Það var snjókoma og hvasst og erfitt að sjá til hvar vegurinn liggur fyrir veðri og myrkri. Ég keyrði (lúsaðist) því framhjá afleggjaranum en þekkti trén og runnana við innkeyrsluna, bakkaði og keyrði svo inná rétt nóg til að afturendinn stæði ekki útá þjóðveg eitt. Hélt svo af stað gangandi upp hlíðina. Þetta eru nú ekki nema tvöhundruð metrar eða svo en ég hélt ég yrði úti samt. Það sáust ekki nokkur kennileiti og eftir nokkra stund ég datt útaf veginum og sökk í mittisdjúpan snjóinn en náði mér upp á fjórum fótum og skreið svo langa leið þangað til ég var komin uppfyrir klettana. Þá gat ég staðið upp og gengið nokkuð upprétt en með vindinn og snjókomuna í fangið. Ég komst svo inní hús nokkurnvegin ósködduð en sjaldan hef ég verið eins fegin að sjá húsið mitt og þá, og það tók mig dágóða stund að ná mér niður andlega og líkamlega. Ég var náttúrulega afar hrædd og blaut innað beini enda var rétt um frostmark úti og úrkoman í allt að því slydduformi en ég hef verið hóstandi síðan og helaum í öndunarfærunum. En fyrst þetta hafðist þá má víst setja þetta í hóp atvika sem gera lífið skemmtilegt og litríkt en það var svo sannarlega ekki þannig á meðan á því stóð.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Það eru þúsund hlutir sem þarf að gera áður en farið er í þriggja vikna leiðangur og ég er að reyna að muna eftir þeim öllum og ég finn að sjálfsögðu ekki út fyrr en allt of seint allt það sem gleymdist að gera. Svona er nú það.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Þá er komið að því að pakka niður fyrir Evrópuferð. Við förum á fimmtudaginn til Ítalíu og komum svo til Íslands föstudaginn 31. mars. Ég verð þar í heilar tvær vikur, Halli í einn sólarhring og Karólína í viku. Systir mín á stórafmæli og það á að halda uppá það með pompi og pragt. Ég hlakka svo til, ég hef ekki komið á Lönguklöpp síðan í fyrrasumar og það hefur aldrei liðið svona langur tími á milli dvala þar. Ef vel vill til þá kemst ég kannski á skíði, það væri nú ekki slæmt þótt ekki sé um páskana sjálfa. Á skíði hef ég ekki stigið í nokkur ár, það hefur verið snjólaust/snjólítið hér og þegar hefur gefið þá er eitthvað um að vera. Kannski förum við Halli í skíðaferð á næsta ári þegar við verðum ein í kotinu.

mánudagur, mars 20, 2006

Ég var í súkkulaði þörf í gær og átti ekkert nema Siríus suðusúkkulaði, þetta í tvöföldum pakka og vafið í bökunarpappír. Þar má lesa:

"Siríus vanilin Konsum súkkulaði er í senn úrvals suðusúkkulaði og gott til átu. Það er framleitt úr völdum kakóbaunum í nýtískuvélum. Siríus vanilin Konsum súkkulaði er nærandi, auðmeltanlegt, bragðgott og drjúgt til suðu. Það hefur árum saman verið eftirlætisnesti ferðamanna."

Þetta minnir á maltölið góða sem er nærandi og gott fyrir meltinguna.

föstudagur, mars 17, 2006

Þjofnaður

Við lentum í verulegu veseni með kreditkortin okkar. Númerunum var stolið og svo var einhver að versla í Kanada á mínu nafni fyrir eina $5000. Mér þykir þetta mjög undarleg því það eru ekki margir sem leggja í að bera fram nafnið mitt hvað þá að þurfa að stafa það. Það þurfti náttúrulega að loka kortunum og búa til ný og ganga frá allri pappírsvinnunni til að ná þessum innkaupum útaf okkar kortum og nú er þetta allt að koma. Þetta hefur verið bölvað vesen, ekki bankinn var afar hjálpsamur en það er óþægileg tilfinning að verða fyrir svona þjófnaði því það er eins og það hafi verið brotist inn hjá okkur, allavega svona "virtual theft". Svo erum við að fara til Evrópu eftir viku og það þýðir nú lítið að ferðast án kreditkorta. Það þurfti nefnilega að taka öll okkar kort í gegn og svo var verið að passa uppá debetkortin líka. Bölvans vesen.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Það var enginn skóli á mánudaginn vegna veðurs og það sama er uppá teningnum í dag, engin skóli vegna veðurs. Það kyngir niður snjó og litlu börnin...þessi 17-20 ára fóru út að leika sér á mánudaginn. Kristín kom heim um helgina og ætlaði að fara aftur mánudagsmorguninn en það ver ekkert flogið svo hún fékk aukadag, henni, og okkur, til mikillar ánægju. Það var 17 stiga hiti á laugardaginn og svo kom þessi líka vetur í heimsókn og það á ekkert að hlýna að ráði fyrr en eftir aðra helgi og þá verðum við á Evrópuflandri.

Körfuboltalið Karólínu, Mayo High School, tapaði í gær naumlega fyrir besta liðinu í fylkinu svo þá er karfan búin, búin, alveg búin. Þær eru ennþá í Minneapolis og það er óvíst hvenær þær komast heim.

Kristín, Karólína og Lily


Kristín, Karólína og Lily, originally uploaded by Kata hugsar.

Adam, Kristín, Karólína, Lily, Abby og Becky

þriðjudagur, mars 14, 2006

Segið þið mér gott fólk sem á Íslandinu búið er virkilega búið að breyta nafninu á Íslandsbanka í Glitnir? Ef svo er þá er ég gjörsamlega búin að missa trúna á viðskiptaviti bankafólks. Hvað ætli svona breyting kosti? Kannski ég ætti að bíða eftir staðfestingu á þessu áður en gjörsamlega síður uppúr hjá mér.

laugardagur, mars 11, 2006

Ég veit ekki hversu lengi þetta verður á netinu en hér er fréttin í bæjarblaðinu

http://news.postbulletin.com/newsmanager/templates/localnews_story.asp?a=250136

skoðið myndina vel.
Þær unnu leikinn í gær!!!!!!!! Nú er það Target Center (heimavöllur Timberwolves) á miðvikudaginn, reyndar á móti besta liðinu í fylkinu en það er allt í lagi, þetta er stór áfangi að hafa komist í STATE.

föstudagur, mars 10, 2006

Þá er klípuprófinu og öllum hinum mælingunum lokið í þetta sinnið. Ég á bágt með að trúa framförunum og breytingunum en tölurnar ljúga víst ekki er mér sagt, þetta hefur gengið vonum framar og ég er alsæl. Þær tölur sem skipta mig mestu máli eru BMI og þolið. BMI hefur lækkað um 7 prósentustig og þolið aukist um heil lifandis ósköp.... off the chart eins og þjálfarinn sagði. Þjálfarinn minn byrjaði nýtt prógram fyrir mig í gær og ég er alveg að !#"%$# í strengjum í dag. Núna þegar farið er að sjást í þetta sem var undir spikinu þá er víst kominn tími til að skerpa vöðvana enn meira og láta þá sjást betur og það kostar herfilega strengi í dag og það sem verra er á morgun líka því mér finnst alltaf annar dagurinn verstur.

Í kvöld er úrslitaleikurinn hjá Karólínu í suður Minnesota deildinni í körfu. Þær unnu undanúrslitaleikinn í framlengingu (hinn undanúrslitaleikurinn þurfti tvær framlengingar til að knýja fram úrslit, brjálaður dagur í höllinni) og ef þær vinna í kvöld þá er það fylkismeistaramótið sjálft með öllu húllumhæinu sem því fylgir...meiriháttar mál það.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Róðraræfingu morgunsins lokið. Þetta var mín síðasta. Í næstu viku hafa krakkarnir "atvinnu" þjálfara því þau þurfa víst einhvern harðari en mig. Takið eftir, ég var ekki nógu hörð við krakkana, ég var of lin við þau, ég hef mildast með árunum það er víst ábyggilegt. Þetta er nú kannski ekki alveg sannleikanaum samkvæmt en þetta var síðasta æfingin mín því þau fara í "Spring training" til Tennessee eftir tvær vikur og svo verður komið vor og þau hætt innanhúss æfingum og vatnið tekið við og alvöru róður. Kannski verð ég aðstoðarþjálfari á vatninu, hver veit hvað John dettur í hug að biðja mig um, og mér dettur í hug að samþykkja. Ég hef gert allt mögulegt til að gera þessar æfingar líflegri því það er nú ekkert voðalega spennandi að rembast eins og rjúpan við staurinn og það eina sem maður fær útúr því er hraður hjartsláttur. Ég hef reynt að láta þau "sitja kyrr á sama stað og samt að vera að ferðast". Við höfum hjólað um Rochester og svo tók ég þau til Íslands einn morguninn og við fórum suður fyrir, hjóluðum yfir jökla og svo að sjálfsögðu enduðum við með að hjóla inn Eyjafjörðinn í miðnætursól á leið okkar að Lönguklöpp.

Ég gat lítið hjólað með þeim í dag því á morgun fer ég í metabolic testing og ég má víst ekkert reyna á mig að gagni í dag því þá kem ég ekki eins vel útúr prófinu, og hvað geri ég ekki til að ná árangri.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Gaman, gaman, fyrsta þrumuveður vorsins með tilheyrandi rigningu!
Nú sit ég við alla daga, eða allavega hluta úr öllum dögum, við það að skrifa ritgerð, þessa með stórum staf og greini. Ef allt gengur upp, sem það gerir nú sjaldnast þegar þessi ritgerð er annars vegar, þá verð ég á Íslandi megnið af haustinu við rannsóknavinnu, nota veturinn til að greina og skrifa og vonandi ver ég afkvæmið eftir ár eða svo. Ég setti deadline hjá mér á 1. maí 2007. Ég er reyndar að byrja á verkefni á Mayo sem gæti orðið stærra og meira en ég geri mér grein fyrir, ég þarf að ferðast til Arizona og Florida til að afla gagna, en það verður ekki fyrr en í maí svo þangað til hef ég rúmam tíma......ó nei, ég verð á ferðalagi í þrjár vikur í mars og apríl svo þessi blessaði tími sem er víst bara 24 tímar í sólarhringum er ekki svo mikill þegar allt kemur til alls. Vinna á Íslandi verð ég víst að gera, það þýðir ekki að liggja í leti þar. Ég er að öllu jöfnu afskaplega skipulögð í vinnubrögðum en "betur má ef duga skal" eins og þar stendur.

föstudagur, mars 03, 2006

Það er enginn duglegur eða drífandi á Íslandi lengur. Allir sem nenna að koma hlutunum í verk eru ofvirkir... ekki duglegir eða drífandi heldur ofvirkir. Ég ætla rétt að vona að þetta sé skammtíma breyting á tungumálinu því það er tvennt ólíkt að vera ofvirk(ur) eða dugleg(ur), annað telst vera normal en hitt ekki. Við öðru eru stundum gefin lyf en hinu ekki. Annað getur verið vandamál en hitt ekki. Það fyrra skilar oftast litlu meðan hið síðara miklu. Ofvirkir eiga gjarnan erfitt með að einbeita sér og klára byrjað verk á meðan dugnaði fylgir sú hugsun að klára það sem byrjað er á því hlutirnir eru drifnir af.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Fyrir einu og hálfu ári síðan var mér falið að flytja útskriftarræðu í MA fyrir hönd 25 ára stúdenta. Ræðan mín gekk útá að gera nýstúdentum grein fyrir því að nú tilheyrðu þeir MA fjölskyldunni og það þýddi að hvar sem þeir væru og hvert sem þeir færu þá væri MA fjölskyldan skammt undan til að hjálpa ef á þyrfti að halda eða að biðja um hjálp ef nauðsyn væri á. Mér datt þetta í hug í gær þegar Halli fékk tölvupóst frá MAingi (EB). Sá hinn sami er læknir í Svíþjóð og verður á Mayo í sumar við rannsóknir. Hann endaði tölvupóstinn með að segja að þeir hefðu væntanlega ekki hist síðan 1983 á Árnagarði og svo kvittaði hann undir með nafni og svo stúdent MA 1978. Þetta gerist svo ótrúlega oft að gamli MA er hlekkurinn sem tengir okkur saman við gesti og gangandi. Við ætlum að sjálfsögðu að vera þeim innan handar við að koma sér fyrir og hjálpa til þar sem hjálpar er þörf.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Við fögnuðum bolludegi í gær með gamaldags bollukaffi. Það hentar okkur miklu betur að hafa þetta á sunnudeginum en mánudeginum svo við lögum okkur að aðstæðum hér í Ameríkunni. Það voru fjórtán manns í kaffi og ég bakaði 85 bollur. Það eru margar eftir enn hér í poka því ég skildi eftir nokkrar fyrir eiginmanninn. Hann var nefnilega á leiðinni heim frá Miami þegar við sátum hér heima yfir kaffi og bollum.

föstudagur, febrúar 24, 2006

Nú hef ég verið í heilsuátakinu í þrjá mánuði og ég er alsæl með árangurinn. Tíu kíló farin, komin í afburða þjálfun, borða svo miklu "betur" en ég gerði áður, minnkað um tvær fatastærðir, BMI lækkað um 5 prósentustig, orðin afskaplega sterk og stælt, bakið í fínum fasa, full af orku alla daga og mér líður í alla staði ljómandi vel. Ég ætla að halda áfram lengi enn, ég ætlaði að létta mig um 10 kíló til viðbótar en ég er ekki viss um að það verði svo gott, ég er nógu krumpuð nú þegar, og dætur mínar mótmæla, sérstaklega sú eldri, en ég ætla að sjá til hvernig þetta gengur og hvernig mér líður. Ég setti upphaflega 20 kílóa markið á 1. júní og ég er á réttu róli hvað það varðar en ég sé til. Mér líður nefnilega svo voðalega vel, það eru ár og dagar síðan ég hef verið í svona góðri þjálfun svo ég held áfram að æfa mig, borða vel og rétt, og hreyfa mig rétt. Ég fer í ræktina 5-6 sinnum í viku, einn og hálfan til tvo og hálfan tíma í senn en ég hreyfi mig lítið þar fyrir utan. Hér er lítið hægt að ganga útivið á þessum árstíma og fyrir utan ræktina þá eyði ég stærstum hluta dagsins við skrifborð svo líkaminn þarf á þessu að halda öllu saman til að grotna ekki niður. Ekki yngist ég með árunum frekar en aðrir!

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Það er svo margt þessa dagana sem er "síðasti körfuboltaleikur, síðasta þetta og síðasta hitt" hjá Karólínu og hjá okkur foreldrunum sem senda þetta örverpi fleiri þúsund kílómetra til skólavistar í haust. Í kvöld er "senior night" í körfunni. Við foreldrarnir (mæðurnar) komum saman í gærkveldi og bjuggum til spjöld með myndum af þessum sex senior stelpum. Gamlar körfuboltamyndir voru dregnar fram og ég bjó til risastóra "scrapbook" af Karólínu í körfubolta og eitthvað slæddist með af öðrum myndum úr íþróttalífinu hennar og lífinu hennar með Kristínu. Svo bjó ein mamman til blöð til að dreifa af öllum senior stelpunum sex með yfirliti yfir fæðingarstað, foreldra, systkin, uppáhalds mat (mjólkurgrautur), o.s.frv. með mynd og allt er þetta í lit. Fyrir leikinn í kvöld verða þær kynntar ein í einu og tilkynnt hvert þær fara í haust og hvaða framtíðaráætlanir þær hafa. Það verður líklegast bara ein af þessum sex sem kemur til með að spila körfu í college svo fyrir hinar er þetta með síðustu leikjum sem þær spila á ævinni. Á föstudaginn er síðasti leikur á tímabilinu fyrir "playoffs" og eftir það er bara að sjá hversu langt þær komast. Liðið er númer 13 í fylkinu svo þetta er gott lið, sérstaklega ef haft er í huga að engin þeirra spilar körfu allt árið, þær eru allar í öðrum íþróttum og bara tvær líta á körfu sem þeirra íþrótt númer eitt. Lengi vel var karfan síðust á lista hjá Karólínu en þetta árið hefur verið mjög skemmtilegt og henni hefur gengið ótrúlega vel (flest stig, næstflest fráköst, flestar blokkir....) svo væntanlega hefur karfan færst uppfyrir fótboltann en ekkert kemst nærri frjálsum.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Þetta eru vinkonurnar Alyssa og Karólína, stundum kallaðar Karolyssa því þær eru óaðskiljanlegar. Ballið gekk vel og þær skemmtu sér afar vel að mér skilst. Í gær var svo Powerpull mótið. Fylkismeistaramótið í innanhússróðri...þetta hljómar undarlega en svona er þetta nú samt. Keppt er um hver fær besta tímann að "róa" 2 km á róðrarmaskínu! Þetta gekk mjög vel og það var mjög gaman að fylgjast með. Krakkarnir sem ég þjálfa einn morgun í viku kepptu allir og það voru margir sem keyrðu sig algerlega út og áttu í hinum mestu erfiðleikum með að ganga/anda/standa á eftir. Ég saknaði þess náttúrulega að hafa ekki Kristínu mína þarna en hún var í símanum meira og minna allt mótið, hugurinn var sumsé í Rochester.

Karólína og Alyssa


Karólína og Alyssa, originally uploaded by Kata hugsar.

laugardagur, febrúar 18, 2006

Það er 30 stiga frost og vindur, ekki gola heldur vindur! Ég hélt ég yrði úti við það eitt að fara á milli húsa í gær og þá var bara 20 stiga frost. Það er ár og dagur síðan ég hef verið í 30 stiga frosti með vindkælingu uppá 50 stiga frost og ekki sakna ég þess, það er víst áreiðanlegt.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Hversdagsverk

Þá er hann hættur að snjóa en við fengum eina 20-25 sentímetra í gær, og kuldaboli mættur í staðinn. Það er 20 stiga frost nú í morgunsárið en hann hlýnar eitthvað yfir daginn. Það sem verra er að það er skafrenningur og það er ótrúlega kalt á opnum svæðum. Þegar ég var að moka frá í gær þá hélt ég að ég myndi fá naglakul en það bjargaðist þegar ég fór að moka frá með skóflunni, þá hlýnaði mér á fingrunum all verulega. Það er erfitt að nota snjóblásara þegar snjórinn er léttur og að auki er vindur. Það þarf að haga "seglum" eftir vindi til að fá ekki allt í andlitið eða að blása ekki snjónum aftur yfir unnið svæði, ég fékk þó nokkrar gusur yfir mig, ofaní háls, bakvið gleraugun, inní nasirnar... það er ekki þægilegt en í nútíma fatnaði með kraga uppað eyrum, lokað fyrir við úlnliði, smellt fyrir að innanverðu þannig að ekki blási uppá bak þá er mér nú engin vorkunn enda er ég ekkert að vorkenna sjálfri mér. Mér finnst ekkert leiðinlegt að moka frá, það er eitthvað notalegt við að hafa sjálfsbjararviðleitnina í lagi og þurfa ekki að leita til annarra með allra handa aðgerðir og viðgerðir. Reyndar tókst mér ekki að losa um stíflu í eldhúsvaskanum í fyrradag þrátt fyrir allra handa vopn og góða tlburði og því fékk ég pípara sem mætti með allra handa dælur á staðinn en þá tók ekki betra við, uppþvottavélin hafði stíflast eða gegnblotnað og nú vill hún ekki ganga þrátt fyrir góða tilburði þar líka svo nú kemur uppþvottavélaviðgerðamaðurinn í dag.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Hann snjóar og snjóar, skólar lokaðir, Karólína sefur því á sínum græna og verkefni dagsins takmarkast af færðinni úti. Það á að snjóa í allan dag og kólna svo all verulega á morgun og er þó 12 stiga frost eins og er. Þetta er vetur hér um slóðir og ekkert við því að gera, enda eins gott því engin yrði mér sammála ef ég fengi að ráða veðrinu, þótt ekki væri nema í einn dag.

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Valentínusar ballið er á laugardaginn hjá Karólínu og það þýðir kjóll hjá mér. Hún vildi hafa hann frekar formlegan og einfaldan svo svartur er hann, hlýralaus, rétt niður fyrir hné. Ég var mjög heppin með efni, það er bæði glæsilegt og meðfærilegt. Ég klára hann væntanlega á morgun.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Ég var að tala við hana Kristínu mína í Princeton, New Jersey. Þar er allt á kafi í snjó, og hún meinar á bólakafi. Hún hefur oft séð mikinn snjó en þetta var ógnin öll sem féll á tiltölulega stuttum tíma. Henni leiðist þetta nú ekki, það er stutt í ærslafullan Íslendinginn í henni þar sem snjór er ekki vandræði heldur tilefni til skemmtunar og gleði. Fyrir 30 árum síðan þá tóku vinir okkar sig til, nú til dags eru þetta virðulegir læknar, skógfræðingar og annað þ.u.l., og byggðu kentár eftir snjókomu dagsins fyrir utan heimavistina. Snjórinn var fullkominn sem byggingarefni, blautur, þungur og þéttur enda rétt undir frostmarki. Skógfræðingurinn var listamaðurinn og hinir vinnudýr sem rúlluðu upp snjóboltum og byggðu hálfgerðan kassa til að vinna með. Þetta var náttúrulega ekki í smámynd heldur stórtækt eins og hans er von og vísa. Í minningunni var höfuð kentársins vel yfir tveim metrum á hæð. Afturendinn var eins og lög gera ráð fyrir eins og á hesti, dýr sem skógfræðingurinn þekkti vel en Ærir síður í þá tíð. Framhlutinn var að sjálfsögðu mannsmynd og var einn ágætur vinur (þá kærasti, nú eiginmaður) hafður sem fyrirmynd. Myndir voru teknar en þær eru dulítið gráar vegna birtuleysis, en þær eru í albúminu gamla á sínum stað. Þar má líta þiskipaútgerðaritarann við höfuð dýrsins, skógfræðinginn á baki og skólastjórann suður með sjó að fylgjast með. Eins og oft gerist á Íslandinu þá kom þíða um nóttina, svo rigning og það var lítið eftir af ótrúlega flottum kentár þegar hringt var í tíma morguninn eftir.