þriðjudagur, janúar 31, 2006

Þá er rútínan að ná völdum aftur. Vinna, skóli, heimili, ræktin, körfuboltaleikir, vinna, skóli...... Annars var ég að bæta á mig þjálfun hjá róðrarliðinu. Ekki það, ég veit ekki nokkurn skapaðan hlut um róður annað en að hafa horft á hann í ein fimm ár og heyrt Kristínu og vinina tala um róður öllum stundum og ég er svo sem ekkert að koma nálægt bátunum. Hér er enda kalt og frosið á allsstaðar. Ég ætla að hjálpa til við undirbúningsþjálfunina og það klukkan fimm að morgni. Ég samþykkti að gera þetta einu sinni í viku, fimm að morgni er ansi snemmt, í fyrramálið vakna ég fyrir allar aldir til að fara í ræktina þar sem þau æfa. Það verður gaman að sjá hvort ég get haldið utan um 45 manna hóp af unglingum löngu fyrir sólarupprás. Ég á nú örugglega eftir að fá mér kríu seinni partinn á morgun.

Ég er búin að koma Hawaii myndum í albúm -þetta er svo einfalt þegar engin framköllun er- og hægt er að líta á þau á

http://homepage.mac.com/bjarn001/PhotoAlbum15.html
http://homepage.mac.com/bjarn001/PhotoAlbum14.html
http://homepage.mac.com/bjarn001/PhotoAlbum13.html

föstudagur, janúar 27, 2006

Heim

Komin heim, sem betur fer er hitabylgja. Hitabylgja hér í janúar þýðir yfir frostmarki, reyndar voru víst 8 gráður í gær en það var samt kalt eftir ylinn á Hawaii. Ferðalagið var langt...mjög langt, fyrst sex tímar frá Hawaii til Seattle, svo þrír tímar til Minneapolis og svo keyrslan hingað heim. Við vorum ekki uppá marga fiska þegar við komum, en það besta við öll ferðalög er að koma heim aftur.

mánudagur, janúar 23, 2006

Enn einn yndislegur dagur að kvöldi kominn í Pólínesíunni. Það er svo gott að vera á tuttugustu breiddargráðu, lítilli eyju þar sem stutt er milli fjalls og fjöru, náttúran eins og úr ævintýrunum um draumaveröldina, mannskeppnan búin að setja sitt mark en hér í kringum okkur hafa þarfir náttúrunnar verið teknar til greina og náttúru undrin fengið að halda sér. Það voru reyndar vonbrigði að sjá hversu miklu hefur verið breytt, rutt, mokað, flutt og grafið í kringum golfvöllinn sem ég spilaði í dag. Golfvöllurinn sjálfur er fallegur en í kring er búið að troða húsum og íbúðum á hvern fermetra sem hægt er að troða á. Skrapa hraunið og fletja það út á meðan eldri lóðirnar eru með gamlar, ósnertar hraunhellur alveg heima við dyr og flóran og fánan að sama skapi náttúruleg í umhverfinu.

sunnudagur, janúar 22, 2006

Enn a Hawaii

Mikið voðalega er ég heppin að foreldrar mínir kynntu mig fyrir golfíþróttinni fyrir margt löngu. Ég spilaði í gær á einhverjum fallegasta velli sem ég hef komið á um dagana. Hann minnti mig um margt á völlinn í Eyjum og á Hvaleyrinni því þetta er sjávarvöllur með margar brautir byggðar í hrauninu.....það vantaði bara kuldann og rigninguna af suðurlandi og svo voru náttúrulega pálmatré, blómstrandi tré og furðufuglar -dýrategundin- á vappi útum allt. Fyrir utan teiginn á myndinni hér fyrir neðan voru hvalir að leik, það var greinilega mjög gaman hjá þeim því það var hávaði og læti í þeim og þeir hoppuðu um sjóinn eins og smáfiskar.

Ekki skemmdi fyrir að ég spilaði eins og engill!

Ekki amalegur bústaður þetta

Ein af fallegustu golfholum í heimi

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Halli á Hawaii strönd


Halli á Hawaii strönd, originally uploaded by Kata hugsar.

Við höfum það alveg ótrúlega gott hérna á Hawaii. Halli meira að segja fór á ströndina með mér í dag! Það hefur aldrei gerst áður. Eftir 9 tíma flug frá Minneapolis til Honolulu og svo frá Honolulu til Island of Hawaii þá komumst við alla leið í gærkveldi. Það var sól og blíða í dag. Reyndar vöknuðum við þegar gnauðaði all hressilega í vindinum. Hljóðin minntu okkur á Lönguklöpp en pálmatrén úti pössuðu ekki. Við fórum svo í langan göngutúr á ströndinni, Halli svo út að hlaupa, ég í leikfimi, gengum svo á golfvöllinn og þangað fer ég vonandi flesta dagana okkar hér, og svo var það sumsé ströndin. Eins og sjá má á myndinni þá passaði Halli sig á því að breiða vel yfir sig svo það kæmist nú örugglega engin sól nálægt honum. Hin myndin er af útsýninu héðan af svölunum. Ekki svo slæmt!

hawaii


hawaii, originally uploaded by Kata hugsar.

mánudagur, janúar 16, 2006

Við erum að reyna að plana ferðalög ársins þessa dagana. Það er ótalmargt sem útlit er fyrir að gerist og það þarf að dansa tangó í kringum og með þessu öllu. Karólína útskrifast 3ja júní og það þarf að taka til hendinni hér innanhúss og utan. Það má búast við um 100 manns í veisluna. Það er jafnvel von til að einhverjir að heiman verði hjá okkur á þessum tíma! Svo verður afi 85 ára í byrjun júlí og Halli og Kristín ætla að hlaupa Laugavegshlaupið um miðjan júlí, því verða slegnar margar flugur í einu höggi í þeirri ferðinni. Svo fer Karólína til Duke í lok ágúst. Ofaná þetta bætast við keppnistímabilin hjá Kristínu og Karólínu, skólinn og vinnan hjá mér og vinnan hjá Halla....allt þetta venjulega og dags-daglega. Skemmtiferðum verður að finna stað innanum þetta allt en ferðalög sem tengjast vinnu verða ótalmörg svo eitthvað verður að sameina þetta. Halli á svo marga frídaga að það er útlit fyrir að hann nái ekki að nota þá alla, það er víst merki um ofurálag!

föstudagur, janúar 13, 2006

Það er kynslóð að alast upp sem vanist hefur tækni sem ekki hefur verið til áður. Ég var að passa hann litla Jóhannes minn í síðustu viku. Bjarni sat með hann í fanginu við eyjuna hér í eldhúsinu og barnið, eins árs, var alltaf að benda á tölvuskerminn minn og kallaði á ömmu sína í leiðinni. Ömmur hans búa nefnilega langt í burtu, önnur á Íslandi og hin í Danmörku, og hann talar við þá íslensku nærri á hverjum degi í gegnum web-cam og því er hún amma náttúrulega í öllum tölvum!

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Kennsla

Ég fer að kenna á þriðjudaginn, kenna hópi fólks að taka viðtöl. Ekki við sjúklinga heldur annað starfsfólk. Ég hlakka til, þetta verður ágætis tilbreyting. Þetta verður fjögurra klukkutíma kúrs, vonandi lifandi og fullur af umræðu, spurningum og vangaveltum allskonar. Ég ætla að reyna að hafa í huga allar fjórar lærdómsaðferir fólks og allt hitt í kennslufræðinni og laga þetta að þörfum allra....þetta er sumsé það sem ég kalla einstaklingsmiðað nám, ekki það sama og túlkun margra á Íslandi á fyrirbærinu. Þar sem einstaklingsmiðað nám er talið vera það sama og einkanám, þar sem hver og einn er með sitt eigið plan. Ég lít þannig á að einstaklinsmiðað nám gangi útfrá þeim forsendum að við lærum öll á mismunandi hátt og kennarinn þarf alltaf að hafa það í huga og laga sig að þörfum allra þannig að hefðbundnar kennsluaðferðir eru notaðar en kennt er útfrá forsendum allra fjögurra lærdómsaðferðanna -thinker, doer, watcher and feeler- Rannsóknir hafa sýnt að það er sumsé hægt að skipta aðferðunum niður í fjóra hópa (sumir segja þrjár, en ég aðhyllist fjórum). Flest okkar nota allar fjórar aðferðirnar, bara meira af einni en annarri. Svo breytast þarfirnar eftir því sem við vitum meira og köfum dýpra í vðfangsefnið og þess vegna er það svo áríðandi að kennarinn miði alltaf við allar fjórar aðferðirnar þegar kennsla er undirbúin því við erum öll á mismunandi stöðum í glímunni við lærdóminn. Flest fullorðið fólk er sér meðvitað um hvernig því finnst best að læra, ég er t.d. meira fyrir það gefin að horfa á í byrjun en færi mig fljótlega yfir í að gera hlutina. Svo einhverntíma seinna fer ég að velta fyrir mér hlutunum. Ég er t.d. lítið gefin fyrir tilfinningalega hlutinn í lærdómi en ég hef haft nemendur sem byrja allan lærdóm útfrá þeim forsendum og þurfa að vita allt sem lítur að tilfinningunni, annaðhvort líkamlegri eða andlegri, og það eru mér erfiðustu nemendurnir því þeir eru svo ólíkir mér í hugsun. En þetta er nú það sem er svo skemmtilegt við kennslu, þessi endalausi challenge að fá ljósið til að kvikna a perunni.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Jólin komin ofaní kassa aftur. Það verður alltaf hálf tómlegt á eftir. Allur litur horfinn þegar allt þetta rauða hverfur. Fámennt að verða í húsinu, hún dóttir mín sem tekur upp mikið andlegt og líkamlegt pláss er komin í skólann. Ég var að hlusta á fyrstu umræðu um Samuel Alito hæstaréttardómarakandídat í gær. Þar kom meðal annars fram að þegar hann var í Princeton þá barðist hann á móti því að konur og blökkumenn fengju aðgang að skólanum. Sem betur fór þá urðu þessi viðhorf að láta undan og nú er sumsé hún Kristín okkar í Princeton og er fulltrúi þessa skelfilega hóps fólks sem búist var við að myndu þynna út intellektúalinn í skólanum...og útlendingur að auki...og ekki get ég ímyndað mér að hún þynni út eitt eða neitt. En ég er nú bara mamma hennar þrátt fyrir allt og hef ekki nothæfa skoðun á stelpunni.

mánudagur, janúar 09, 2006

FL

Í dag er hálfgerður sorgardagur hér í miðvestrinu. Fj... fyrirtækið sem heitir allrahanda vitlausum nöfnum með group hér og þar en við köllum alltaf Flugleiðir uppá íslensku tekur sér frí frá Minneapolis fluginu fram til 13. mars. Ég skil ekki ákvarðanir þessa fyrirtækis, Northwest Airlines sem sér um 80% af flugi um flugvöllinn er í greiðslustöðvun og hefur verið frá því í sumar, hefur skorið niður mikið af Evrópufluginu og Flugleiðum væri í lófa lagið að nýta sér ástandið og fylla nokkrar vélar á viku og vinna þar með markað. En ó nei, þeir geta víst "lifað án Minneapolis flugsins því það gerðu þeir í öll þessi ár áður en Minneapolis varð eitt af viðamestu áfangastöðunum þeirra." Þetta er nánast bein tilvitnun í höfðingjana í markaðsdeildinni þeirra. Minneapolis flugið hefur væntanlega ekkert með velgengni fyrirtækisins að gera og það eru þrátt fyrir allt átta ár síðan þetta flug byrjaði og það er heil eilífð í markaðslífi fyrirtækja. Þetta er algerlega ofvaxið mínum skilningi. Ég veit ekki hversu margir hafa hringt í mig eða spurt mig útí þessa ákvörðun, og það er bara ég sem rek ekki ferðaskrifstofu eða ferðaþjónustu. Fólk sem ætlaði að fljúga í gegnum Ísland á leið sinni til Evrópu og vildi nota tækifærið og stoppa á Íslandi. Ég get rétt ímyndað mér hvernig markaðsstjórinn hérna hefur það, ég þarf reyndar ekki að ímynda mér neitt, við höfum talað um þetta oft og iðulega og er hún ekki ánægð því hún hefur verið að byggja upp markaðinn í þessi ár og nú er bara "við fljúgum ekki á Minneapolis fyrr en í vor."

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Dagurinn framundan

Dagsferð í borgina bíður mín í dag. Ég hef fund þar uppúr hádeginu og svo þarf að fara í Mall of America og koma tölvum í viðgerð. Það er reyndar spáð frostrigningu seinni partinn en vonandi verða aksturskilyrði í lagi. Ég er voðalega lítið hrifin af hálku á hraðbrautunum.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Reglusamt lif

Hann Halur Húfubólguson (www.valmart.blogspot.com) skrifar um nýjungagirni sína í dag. Frásögnin minnir mig á frænda fjölskyldunnar í Noregi. Sá hinn sami býr fyrir norðan Oslóarborg en vann þar í ráðuneyti einu í ein fjörutíu ár sem lögfræðingur, á sömu skrifstofunni. Á hverjum degi fór hann útúr húsi á sömu mínútunni, tók rútuna á sömu mínútunni, sat á sama stað í rútunni, hafði með sér þrjár heimabakaðar brauðsneiðar með brúnosti (ekkert smjör), kom heim með rútunni á sömu mínútunni í eftirmiðdaginn, borðaði sinn middag og fór svo að sinna búinu. Hann hefur átt fimm bíla um ævina, allir nema þessi síðasti voru drapplitaðir Volvo, núna gerði hann stórbreytingar á, hann keypti Volkswagen Passat, drapplitaðan, fyrir nokkrum árum síðan. Það voru stórfréttir þegar hann breytti brottfarartíma sínum með rútunni einhverntíma í kringum 1985. Það voru boruð göng og ferðin styttist um hálftíma og nú gat minn maður lagt af stað aðeins seinna, öll stórfjölskyldan frétti af stórbreytingunum. Þetta kalla ég reglusaman mann!

mánudagur, janúar 02, 2006

2006

Þá er að takast á við nýtt ár, ár þar sem við Halli verðum ein í koti síðsumars. Öll börnin þá flogin úr hreiðrinu, allavega svona fyrstu flugtökin. Annað ár átaka hjá honum á hlaupavellinum. Ætlar aftur að hlaupa Laugaveginn, núna með Kristínu og nokkrum öðrum vinum hér í bæ. Við Karólína ætlum ekki að hlaupa með en verðum í klappliðinu. Ég ætla mér að fá fasta vinnu núna þegar ég verð í barnlausu húsi. Ég er enn að bíða eftir svari frá Mayo um stöðu sem ég sótti um fyrir löngu síðan "Director of Education at the Simulation Center". Þetta er eitt af fullkomnustu simulation kennslusvæðum í heiminum, þarna á að kenna og æfa heilbrigðisstéttir áður en að sjúklingum kemur. Það er kominn tími til að sjúklingar séu ekki notaðir til æfinga og þjálfunar. Ég er víst ein af tveimur umsækjendum eftir á listanum hjá þeim. Ég er nú samt orðin úrkula vonar, það er orðið svo langt síðan ég sótti um og ég hef ekkert heyrt í tvo mánuði eða svo. Ef það hefst ekki þá er að leita áfram og sinna þeim verkefnum sem ég hef og bíða eftir tækifærum sem birst gætu. Ég get nú svo sem, og náttúrulega ekki, ekki farið í fulla vinnu því þá bind ég mig niður í báða skó og get hvorki heimsótt börnin né Ísland eins oft og ég vil og það væri nú alveg ómögulegt. Það verður víst ekki bæði sleppt og haldið!