miðvikudagur, desember 31, 2008

Aldrei hef ég strengt áramótaheit. Nákvæmlega hvers vegna veit ég ekki, ég hef ekki fundið neina þörf hjá mér að gera það. Hér þykir það sjálfsagt mál að strengja heit og fólki er oft brugðið þegar ég segist ekki hafa gert neitt slíkt. Ég hef oft tekið ákvarðanir um að breyta einu og öðru og mjög oft hef ég staðið við það en það hefur aldrei verið á ármótum. Þegar ég breytti um lífsstíl fyrir rúmlega þremur árum síðan þá urðu bæði næringarráðgjafinn og þjálfarinn minn hissa á tímasetningunni; byrjun nóvember, rétt fyrir Thanksgiving og jólamánuðinn. Báðar spurðu hvort ég væri viss um að ég vildi byrja á þessu svona rétt fyrir matarhátíðar ársins. Báðar spurðu mig svo seinna meir hvort ég hefði strengt áramótaheit...árið áður. Fyrra svarið var já og hið síðara nei. 

Þjálfarinn velti því oft fyrir sér hvað hafi orðið til þess að ég ákvað að breyta til og þeirri spurningu hef ég líka oft velt fyrir mér en ég hef ekki hugmynd af hverju. Ég hef aldrei á ævinni farið í megrun og ég hafði ekki velt þessu fyrir mér lengi, ég hafði svona leitt að þessu hugann og svo var ég að lesa bókina sem kemur frá Ræktinni og þar var prógram sem mig langaði að prófa og það gerði ég. Það var hvorki flóknara né einfaldara en það. 

Ég hreinlega hef ekki hugmynd hvað það ætti að vera ef ég skildi nú strengja áramótaheit í kvöld en það er af miklu að taka ef ég lít á það sem leið til betrunar.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla. Hittumst heil á nýju ári, árinu sem ég verð fimmtug!

mánudagur, desember 29, 2008

Ég var orðin heldur grönn þegar að vörninni kom en svo fór ég að slappa af og borða aftur, en ég hef hins vegar ekki verið nógu dugleg að fara í ræktina og hef því bætt á mig og það líkar mér ekki. Ég hef bara farið 3-4 sinnum í viku í ræktina, og stundum bara einn klukkutíma í senn, og það er ekki nóg. Ég þarf að fara 6 sinnum í viku til að vel sé og þá 1 1/2 til 2 1/2 í einu. Nú er komið að því að bæta úr þessu og í gær byrjaði ég að æfa almennilega aftur en það virðist ætla að verða einhver bið á minnkandi áti. Það voru að vísu afgangar í kvöldmatinn en það voru náttúrulega kjötafgangar, sósur, kartöflur, og allskonar gúmmulaði sem ekki er gott fyrir mig. Í staðinn fyrir að henda afgöngunum þá lék ég ruslatunnu!

Úfff, það verður átak að venja mig af kjöti og sætindum.

laugardagur, desember 27, 2008

Það sem við höfum haft það gott um hátíðarnar. Því miður þá tekur allt svona sæluástand enda um síðir og hér í landi eins-dags-jóla þá er ekkert til sem heitir romjul eins og í Noregi eða 13 dagar jóla eins og á Íslandi. Nei, einn dagur skal það vera og hann er kominn og farinn. Við höldum uppá á okkar jól að íslenskum sið svona eins og hægt er en Kristín fer til New York í fyrramálið því hún byrjar að vinna á morgun. Karólína verður þó eftir og fer ekki fyrr en þann 4. janúar. Hún á ein jól eftir enn þangað til vinna tekur við hjá henni og þá er nú ekki gott að vita hvert lífið tekur hana í lífsdansinum. 

Það hefur verið ógnar kalt hér, þangað til í gærmorgun þá brá svo við að hiti fór yfir frostmark og það varði í allan gærdag. Við Halli fórum í mat til vina okkar í Minneapolis í gærkveldi og það var mjög erfitt að keyra uppeftir því það var svarta þoka vegna uppgufunar. Við skiptumst á að keyra því við þreyttumst fljótt við að einbeita okkur við það eitt að hnikast áfram. Ég var mest hrædd við dádýr en Halli við bíla sem keyrðu hægar en við, og merkilegt nokk þá gerðist það nokkrum sinnum og lúsuðumst við þó. Heim komum við heilu og höldnu rétt um miðnætti eftir yndislegt kvöld í vinahópi þar sem norska var aðal-tungumálið. 

mánudagur, desember 22, 2008

Ég renndi lauslega yfir niðurstöður samræmdra prófa sem birtar voru í síðustu viku. Það sem mér þykir verðugt athugunarefni er hversu lélegar niðurstöður eru í ritun víða á landinu. Þar er greinilega verðugt verkefni. Útskriftarræðuna hjá mér um daginn hélt prófessor í vélaverkfræði og hann lagði úfrá því hvað sé nauðsynlegt í menntun hvers og eins. Þessi ágæti maður hefur fengið styrki frá ótrúlegustu stöðum heims og kennt og haldið mikið af fyrirlestrum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að það er alveg sama í hvaða fagi meistara- og doktorsnemar útskrifast, ritun sé eitt það miklvægasta úr okkar menntun og sá hluti hennar sem við eigum eftir að nota hvað mest. Það er afar nauðsynlegt að geta átt góð samskipti við fólk og nú á tímum hefur tölvutæknin gert það áríðandi að geta skrifað þannig að aðrir skilji, ritað stutt og hnitmiðað mál sem er rökrétt, málfræðilega rétt, og í samhengi við málefnið. 

Þessi umfjöllun hans á náttúrulega alls ekki bara við um meistara- og doktora. Þetta er kunnátta sem er öllum nauðsynleg, nánast alveg sama hvaða starfi er gegnt.

Með tölvutækni hefur lesskilningur orðið afar mikilvægur en til að geta miðlað hugmyndum og hugsunum, rætt málin, fært rök fyrir máli sínu og velt hlutunum fyrir sér í stóru samfélagi þar sem munnleg samskipti geta ekki alltaf átt sér stað þarf færni í ritun að vera í lagi. 

Eins og fyrrverandi yfirmaður minn sagði: "Writing is the ultimate organization of thought."

fimmtudagur, desember 18, 2008

Það er erfitt að flytja slæmar fréttir, því hef ég fundið fyrir síðustu daga. Ég er að skila af mér úttekt á deild sem á í miklum vandræðum og það kom í ljós að ástæðurnar eru tvískiptar. Annarsvegar eru það lélegir stjórnendur sem nota hræðslupólitík til að halda staffinu í skefjum og á hinn bóginn eru það stjórnendur sem ekki valda starfinu við mjög erfiðar aðstæður. Stjórnendur sem vilja hafa puttana í öllu og segja öllum fyrir verkum, og það í smáatriðum. Engum er treyst og enginn virðist kunna til verka nema stjórnendur, að þeirra eigin áliti. Allir aðrir eiga að skila af sér skýrslum í tíma og ótíma um gang mála, tíma sem væri mun betur varið í að vinna verkin sem þarf að klára. Þessum niðurstöðum er ég að skila af mér til þessara stjórnenda. Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem ég skila svona erfiðum niðurstöðum af mér, en svei mér þá þetta venst aldrei. Kannski sem betur fer því þá væri ég orðin köld inn við hjartarætur. Þetta er ekki vont fólk. Það bara kann ekki til verka og undirmenn blæða fyrir með vanlíðan og stressi. Erfiðasta viðtalið er eftir, það er stjórnandi sem notar eineltisaðferðir. Það viðtal er í fyrramálið.

miðvikudagur, desember 17, 2008

Vetrarmorgun


Vetrarmorgun
Originally uploaded by Kata hugsar
Eftir snjókomu gærdagsins þá er óskapleg vetrarfegurð úti. Þessar myndir eru teknar við sólaruppkomuna rétt fyrir 8 í morgun.

Vetrarmorgun


Vetrarmorgun
Originally uploaded by Kata hugsar

mánudagur, desember 15, 2008

Það er 22 stiga frost úti og "rok". Það gerir -37 með vindkælingu. Það er fjandi kalt barasta. Við fórum til Minneapolis í gær á jólabarnaball Íslendingafélagsins. Ég sé alltaf um sönginn og dansinn á þeim ágæta fagnaði. Þegar við lögðum af stað var 6 stiga hiti, nokkuð sem er afar óvenjulegt í desember. Þegar við komum heim í gærkveldi var komið 17 stiga frost...23 stiga munur frá hádegi til 8 að kvöldi. Nú er komið kuldakast og hann gæti farið í -30 í fyrramálið og svo fer að snjóa seinnipartinn á morgun. 

Alvöru vetur hjá okkur á sléttunni miklu.

laugardagur, desember 13, 2008

Útskriftin var í gær og það kom mér verulega á óvart hversu vel ég naut hennar og hvað ég varð eitthvað "tilfinningalega viðkvæm" þegar ég gekk inní salinn. Það var yndislegt að hafa alla grunn fjölskylduna saman, en það vantaði jú Adam og það var leiðinlegt en hann er í miðjum prófum og ef það er einhver sem skilur að nám komi fyrst þá er það ég.

Eftir útskrift fórum við öll á Ruth´s Chris Steakhouse og nutum góðs matar og hvers annars í hvívetna.

Ég átta mig á að vera búin einhverntíma seinna. Það er ekki komið ennþá.

Útskrift frá University of Minnesota


Gömlu hjónin


Gömlu hjónin
Originally uploaded by Kata hugsar

fimmtudagur, desember 11, 2008

Stelpurnar mínar koma heim í dag. Ég hlakka svo til. Miklu meira til þess að fá þær heim en að útskrifast. Það verður samt yndislegt að hafa alla fjölskylduna hjá mér á morgun. 

Það er óskaplega fallegt úti. Sól, logn og snjór yfir öllu. Ég fór út í smá göngutúr í morgun við sólarupprás um klukkan 7:30, og það brakaði svo fallega í snjónum, morgunloftið var svo tært, grenitrén þakin, trjágreinar eikartrjánna alsettar snjó og dádýr á hlaupum.

Ég sakna þess svo oft að kenna ekki á skíði lengur. Þá fór ég út á hverjum morgni, hvernig sem viðraði, og var úti í nokkra klukkutíma. 


þriðjudagur, desember 09, 2008

Athugasemdir prófnefndarinnar minnar fara mér ekki úr huga. Tveir nefndarmanna skildu bara alls ekki íslenskt skólakerfi þar sem skólar eru ekki ábyrgir fyrir námsárangri nemenda. Þeir voru ekkert að tala um meiriháttar ábyrgð sem hefði miklar afleiðingar, eins og t.d. lokun skóla. Ég er þeim að mörgu leiti afskaplega sammála. Skólar ættu t.d. að hafa að markmiði að a.m.k. 60% nemenda í 4., 7. og 10. bekk næðu 5 í einkunn í hverju fagi (þetta eru tölur teknar úr lausu lofti. Ég þyrfti að rýna í tölur frá samræmdum prófum s.l. ár til að fá nothæfar tölur). Ef það tekst ekki þá á skólaskrifstofan að koma í skólann og athuga hvað er að og hjálpa skólanum með úrræði. Ef það tekst ekki þá þarf að fá aðstoð annarsstaðar frá. Börnin eiga ekki að þurfa að taka afleiðingum lélegrar kennslu eða stjórnunar alla ævi. Það verður að grípa inní ferlið. Sjálfsmatið getur verið stór hluti af sjálfsskoðun skólanna, en það er alveg sama hvernig við snúum uppá skólastarfið og gerum það að flóknu fyrirbæri, skólastarf snýst um nemendur og nám þeirra. Það snýst ekki um kennara eða annað starfsfólk. Það eru nemendur sem þurfa að lifa með afleiðingum skólagöngunnar alla ævi. Það er ekki skólinn eða kennarinn sem gera það.

Þetta yrði mesta jöfnun sem hægt væri að gera í samfélaginu. Að sjá til þess að öll börn fái
góða menntun. Ekki bara þau sem eru svo heppin að hafa góða stjórnendur og kennara.

mánudagur, desember 08, 2008

Hér er stórhríð í uppsiglingu. Það á að snjóa og blása í alla nótt og fram eftir degi á morgun. Kannski ekki alveg svona 1975 Akureyrsk vikulöng stórhríð þegar hús fóru á kaf og bílar týndust undir fannferginu en það á að koma allt að 30 sentímetra jafnfallinn, sem svo fýkur í skafla. Karólína er farin að hlakka mikið til heimferðar á fimmtudaginn. Hún hefur ekki séð snjó síðan um síðustu áramót. Það fer nú lítið fyrir snjónum þarna í norður Karólínu. Kristín kemur líka á fimmtudaginn en hún stoppar bara í 36 tíma, svona rétt til að sjá mömmu gömlu útskrifast og þá verður öll fjölskyldan saman komin mér til ómælanlegrar gleði. Kristín er líka farin að hlakka óskapleg mikið til. Það verður gaman hjá okkur, og svo enn meira gaman þegar hún kemur heim yfir jólin.

laugardagur, desember 06, 2008

Vörnin búin og ég stóðst prófið. Það voru engar tilfinningar sem helltust yfir mig í gær þegar þetta var búið. Ég var bara búin. Í dag líður mér reyndar eins og ég sé galtóm. Engin gleði, enginn léttir, bara galtóm. Kannski léttirinn kom seinna. 

Ég þarf að breyta svolitlu í síðasta kaflanum, ég þarf að skýra vel út íslenskt menntalitet. Nefndin átti í hinum mestu erfiðleikum að skilja að það er ekki til neitt á Íslandi sem heitir ábyrgðarskilda með afleiðingum. Það eru afar fáir sem þurfa að taka afleiðingum gerða sinna, sérstakleg innan opinbera geirans. Þetta var gert í því samhengi að þótt svo skólar geri ekki sjálfsmat, jafnvel þótt það sé bundið í lög, þá eru engar afleiðingar, og það eru heldur engar afleiðingar að gera sjálfsmat annað en að þá fylgja þau lögum. Þetta á sumsé að vera bundið því að manni líður svo vel þegar maður gerir það sem á að gera, s.k. "intrinsic value." Ég sagði þeim að orðið "accountability" sé ekki til í íslensku máli. Það hefur verið þýtt sem ábyrgðarskilda en það nær ekki alveg yfir hugtakið. 

Merkilegt fyrirbæri þetta Ísland.

föstudagur, desember 05, 2008

mánudagur, desember 01, 2008

Við öll sjö


Við öll sjö
Originally uploaded by Kata hugsar
Og svona lítum við út, ásamt fjölgun, 33 árum seinna.
33 ár. 

Það er langur tími og eins og við er að búast á löngum tíma þá hafa skifst á skin og skúrir, gleði og sorgir, erfiðleikar og skemmtilegheit og þungir dagar og léttir, vondir og góðir. 

Það fer lítið fyrir lignum sjó hér á íslenska kærleiksheimilinu í Rochester.

sunnudagur, nóvember 30, 2008

Við vöknuðum við hríðarmuggu í morgun. Ósköp notalegt fyrsta sunnudag í aðventu. Morgunmatur með Mogga, kaffi og ristuðu brauði. Handþvoði svo ullarpeysur með Gunna Gunn og Des undir. Fyrstu jólalögin sem ég spila þetta árið. Það er vel við hæfi, þessi diskur er einn af mínum uppáhalds frá Íslandi. Ég er lítið gefin fyrir poppuð jól. Frekar vil ég norsk jólalög, t.d. Alf Prøysen, eða í raun alla vel flutta og óýkta jólatónlist. 

föstudagur, nóvember 28, 2008

Mikið voðalega var ég stolt af mági mínum í kvöld. Hann stóð sig eins og hetja í Útsvarinu. Ég átti alls ekki von á öðru því hann er vel lesinn og afskaplega minnugur svo ekki sé talað um fróðleiksfús. Svo komu leikhæfileikar hans mér á óvart. Hann hefur tekið þátt í starfi leikfélagsins í bænum í nokkur ár og leikið aðalhlutverk með meiru en ég hef aldrei séð hann á sviði...nema þessu á Lönguklöpp í sumar.

Veislustjórinn


Veislustjórinn
Originally uploaded by Kata hugsar

fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Í dag er Thanksgiving. Í fyrsta sinn er ekkert barnanna hjá okkur. Bjarni og Nicole eru hjá vinum sínum í Chicago og Kristín og Karólína eru saman í New York. Kristín þurfti að vinna og vegna þess að Adam fór heim þá hefði Kristín verið ein ef Karólína hefði ekki farið til hennar. Það gat litla systir ekki hugsað sér, og við ekki heldur, og því var ákveðið að Karólína væri hjá systur sinni og við hér heima. Við eigum ekki heimangengt vegna anna...er það ekki svona sem sagt er þegar fólk er upptekið. Við förum svo til vina okkar í kalkúninn í kvöld. Þetta er alltaf jafn notalegur dagur, engar gjafir, og ekkert tilstand annað en góður matur, bara samvera með vinum og vandamönnum. 

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Mikið óskaplega er ég heppin að vera gift mínum besta vini.

Ef hann læsi þetta þá myndi hann reyndar vera mér algerlega sammála en hann er nú svo voðalega varkár að hann samþykkti aldrei svona skrif. Hann segist náttúrulega alls ekki vera örlaga trúar en honum finnst nú samt að með því að segja svona upphátt þá sé hætta á að illa fari og að ég eyðileggi allt með því að segja og skrifa svona svo aðrir sjái.

Hvað um það, ég er samt afskaplega heppin að vera gift mínum besta vini.

laugardagur, nóvember 22, 2008

Tuttugasti og sjötti brúðkaupsdagurinn okkar kom og fór án þess að við tækjum eftir því. Fimmtudagurinn var ein kaos frá upphafi til enda. Murphy´s law gilti allan daginn, það var alveg sama hvað ég gerði, það gekk ekkert upp og allt fór úrskeiðis sem hugsast gat. Það eina sem gerðist sem þurfti að gerast var að ég sendi ritgerðina inn til nefndarmanna. Allar 250 blaðsíðurnar. Aumingja þeir að þurfa að lesa þetta. Ég get nú ekki sagt að þetta sé skemmti lesning sem hentar vel til afþreyingar. 

Ég komst á flugvöllin, nokkurnveginn á réttum tíma, því ekki missti ég af vélinni, en mikið hefði ég gefið fyrir að vita fyrir fram að hálftíma seinkun yrði því þá hefði ég getað hagað síðustu mínútunum aðeins öðruvísi. En það vissi ég ekki og náði næstum því að draga andann djúpt á flugvellinum. Til New York var ég komin um klukkan eitt um nóttina, og þegar ég reyndi að sofna þá var ég nálægt því að fá taugaáfall, ég nötraði öll og skalf af taugatitringi. 

Í gær var samt hálfgerður dekurdagur hér í NYC. Ég labbaði um borgina í fjóra tíma á leið minni til og frá vinnustaðnum hennar Kristínar og að hitta Halla á milli fyrirlestra hjá honum. Á Equinox, vinnustaðnum hennar Kirstínar, fór ég svo og æfði í einn tíma áður en ég fór í nudd. En hún Kristín mín, þessi elska hafði pantað tíma fyrir mömmu gömlu hjá nuddara. Akkúrat það sem ég þurfti. Þetta var ótrúlega góður nuddari og ég meira að segja náði að slappa af, nokkuð sem ég hélt að myndi ekki takast fyrr en undir jól. Við enduðum svo daginn á Haru, dásamlegum sushi stað.

Í dag er hrikalega kalt, 5 stiga frost og vindur, og því verðum við eins lítið utandyra eins og hægt er. Sem er samt mikið því við göngum allt sem við þurfum og viljum komast.

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

Ég er að drukkna í vinnu þessa dagana. Ekki bara að ég sé að klára síðustu innansleikjurnar í ritgerðinni heldur er ég með tvö verkefni í gangi á Mayo. Verkefnin áttu ekki að byrja fyrr en í næstu viku en vegna skipulagsvandræða þá byrjaði ég á mánudaginn og nú vinn ég 8 tíma á dag niður á Clinic og svo tekur vinna við hérna heima fram á nótt. Mikið voðalega verður gott að hoppa uppí flugvél annað kvöld á leið í helgarferð í New York. Það lítur reyndar út fyrir að ég verði mikið að vinna þar, þökk sé tölvu- og netöld. Það er hvergi friður nú orðið, alveg sama hvar maður er niður kominn það er alls staðar hægt að vinna.

föstudagur, nóvember 14, 2008

Ég viðurkenni að ég er mjög tvístígandi þegar kemur að aðstoð hins opinbera við einkafyrirtæki. Ég skil jú að íslenska ríkið er skuldbundið til að borga eigendum bankareikninga alla eða hluta upphæðarinnar sem á reikningum voru. Aftur á móti þá voru þessir bankar í einkaeigu og eigendurnir eiga að taka afleiðingum gerða sinna. Víst misstu þeir allt fé sem þeir áttu í bönkunum en þeir þurfa eftir sem áður ekki að taka afleiðingunum með því að borga út innistæðurnar. Mér finnst að eigendur reikninganna, hinn almenni jón og ég, eigi rétt á að fá útborgaða sína aura, en mér finnst ekki að skattgreiðendur eigi að borga brúsann...oft þeir hinir sömu og eiga reikningana.

Að sama skapi er ég mjög tvístíga gagnvart bílaframleiðendum hér í landi. Undir þeirra hatti eru 10% starfa í landinu og ef þeir fara á hausinn þá hefur það ótrúleg neikvæð áhrif á marga, sérstaklega þá eldri sem unnið hafa hjá þessum fyrirtækjum í áratugi. Þeir missa öll sín eftirlaun og tryggingar. Aftur á móti þá finnst mér fjandi hart að þessi fyrirtæki fái hjálp vegna þess að þau hafa hannað skelfilega bíla í áratugi sem enginn vill kaupa. Allavega ekki nógu margir, það er jú ástæðan fyrir því að þau eru á hausnum. Þau hafa verið illa rekin og framleitt vöru sem ekki selst. Af hverju á svo að verðlauna þessi fyrirtæki fyrir lélegan rekstur og skelfilega vöru. Þeir þurfa fyrst að sýna að þeir geti hannað og framleitt bíla sem kaupendur vilja eignast áður en þeir fá einhverjar trilljónir til þess eins að halda áfram að hjakka í sömu sporunum. 

En þá eru það hinn almenni starfsmaður sem situr í súpunni, rétt eins og á Íslandi þar sem hinn almenni kaupandi þjónustu bankanna situr í súpunni. 

Það hlýtur að vera til einhver millivegur þar sem tryggt verði að eldri starfsmenn og eftirlaunþegar fái það sem þeim ber en eigendur hvattir/þvingaðir til að taka afleiðingum gerða sinna og ákvarðana.

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Eftir nákvæmlega eina viku sendi ég nefndinni riterðina mína til yfirlesturs. 

Þá verð ég líka búin í bili...eða þangað til ég fæ athugasemdir frá nefndarmönnum og konum.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Klukkan er rúmlega sex að morgni, Halli er löngu farinn í vinnuna og ég sit hér yfir Moggalestri dagsins. Úti er rétt um frostmark en þoka og hált á götum. Ég er á leið til Minneapolis í dag á fyrirlestur og fund með leiðbeinandanum mínum. Ef allt gengur upp þá verður þetta einn af okkar síðustu fundum fyrir vörn. Hún sendi mér reyndar tölvupóst í gær og vildi fresta fundi fram í næstu viku því hún hefur ekki litið á síðasta kaflann ennþá sem ég sendi henni í síðustu viku. Ég sagði henni að ég væri að fara á fyrirlestur og því yrði ég í bænum svo við sjáum til hvað setur. Vonandi er þetta ekki merki um að ég verði að fresta vörninni. Ég get ekki sent ritgerðina til nefndarinnar fyrr en Jean er búin að leggja blessun sína yfir hana og ritgerðina verða nefndarmenn að fá í hendurnar tveim vikum fyrir vörn. 

Lokaspretturinn.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Helgin var yndisleg með góða gesti í heimsókn. Við bruggðum okkur í Amish byggðir á laugardaginn. Keyrðum um sveitirnar og horfðum á þau vinna haustverkin. Undirbúa akrana fyrir veturinn með uxa fyrir plógnum. Gera við girðingar án véla, og keyra um í vögnunum með hesta til reiðar. Öll klædd í svart eða blátt. Konurnar í skósíðum svörtum kjólum, með bláa svuntu og með svart höfuðfat og karlmenn í bláum vinnufötum með annaðhvort svartan eða ljósan hatt á höfði. Svo fórum við í verslun í þorpinu sem selur bútasaumsteppi, dúkkur og körfur handgert af Amish fólkinu. Mér finnst alltaf jafn gaman að fara þangað niðureftir, en þetta er svolítið eins og að horfa á dýr á sýningu. En Amish heillar mig, sagan þeirra og lifnaðarhættir. Mismundandi trúfélög innan Amish og rökin sem færð eru fyrir lífsstílnum. Ekki það, þau þurfa ekkert að réttlæta eitt eða neitt. Svona lifa þau sínu lífi og ekkert við það að athuga og kemur mér og öðrum samborgurum akkúrat ekkert við.

Einfaldleikinn heillar mig, en ekki líf án rafmagns eða annarra nútíma þæginda. 

Nægjusemin er til eftirbreytni.

föstudagur, nóvember 07, 2008

Fyrsti snjór haustsins féll í morgun. Við höfum fengið fjúk fyrr í haust en ekkert sem hefur sést á jörðunni, en nú er sumsé komin smá föl. Meira en grátt í rót. Snjórinn er samt ekki kominn til að vera því það á að hlýna eftir helgina.

Prestshjónin í Akureyrarkirkju eru að koma til okkar í dag. Þau ætluðu að eyða vetrinum við rannsóknir í Winnipeg og hafa verið þar í góðu yfirlæti síðan í sumar en vegna hruns krónunnar þá er eitthvað óljóst með framhaldið. Prestsfrúin og Halli eru náskyld, mamma hennar og Halli eru systkinabörn í gegnum Brún. Þau eru með tvö lítil börn og það verður gaman að fá líf í húsið. Það gæti reyndar verið erfið keyrsla framundan hjá þeim því það er slæmt veður í Norður Dakóta, stórhríð að mér skilst. En þau eru ýmsu vön eftir nokkur ár í Ólafsvík, vetrarpart á Lönguklöpp, og nokkur ár á Akureyri. Ég ætla því að baka í dag. Ég sendi síðasta kaflann til leiðbeinandans í gær svo ég verð í fríi frá skrifum um helgina og ætla að njóta þess að hafa fólk í heimsókn.

Fyrsti snjórinn


Fyrsti snjórinn
Originally uploaded by Kata hugsar

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Hún mamma mín blessunin er 77 ára í dag. Henni hefur farið mikið aftur á  síðustu árum. Þessi glæsilega kona sem spilaði golf uppá hvern dag sem mögulega hægt var, fór á skíði eins og oft og tækifæri var, og oftast meira en það, skálmaði um bæinn þveran og endilangan og stundaði svo jóga þess í milli er ekki svipur hjá sjón, hvorki andlega né líkamlega. Þrátt fyrir veika líkamlega burði þá er hún enn oftast glæsileg og vel til fara. Ég er að reyna að læra af hennar mistökum í lífinu. Við erum afskaplega líkar líkamlega og ég vona að ég hafi unnið heimavinnuna mína nógu vel til að lenda ekki í sömu kröm og hún. Bakið, mjaðmirnar, og nú hnén, er allt öfugt og snúið, bogið og brotið. En alltaf er hún jafn dugleg við handavinnuna sína. Það eru ófá listaverkin sem komið hafa úr hennar höndum og enn er hún að. Hún var að klára rúmteppi fyrir Kristínu. Hún hefur heklað líklega hátt á anna tug teppa en þetta slær öllum við. Það er með ólíkindum hvað hún er dugleg að sitja við að hekla og prjóna, og allt er þetta listavel gert. Það hefur ekki breyst.

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Nú byrjar nýr kafli í sögu þessa ágæta lands sem við búum í. Allir sem ég hef talað við í morgun voru enn með gæsahúð af gleði yfir sigri Obama. Ein af bestu vinkonum Karólínu er svört og mamma hennar hágrét í allt gærkvöld. Kristín sagði mér af fólksmergð í New York borg sem hrópaði og kallaði af gleði. Fjöldinn allur með streymandi tár niður vangana. Þetta breytir öllu hér í landinu og verður vonandi til þess að svartir sem og aðrir minnihlutahópar fái það sjálfstraust og sjálfsvirðingu sem þarf til að ná árangri.  

mánudagur, nóvember 03, 2008

Kosningar á morgun, loksins, loksins. Þá hættir vonandi skítkastið. Tvennar kosningar hérna í Minnesota eru afar ljótar. Ekki um forsetann því Obama hefur mikið forskot. Ekki það að við séum laus við skítkast McCain, en það er allavega ekki eins yfirþyrmandi eins og mér skilst að það sé í, t.d. North-Carolina. Hér eru það kosningar fyrir US Senate sem eru ljót. Sérstaklega á milli Norm Coleman og Al Franken. Coleman hefur notað allar þær ljóstustu aðferðir sem til eru í bókinni. Hin kosningin er á milli Michelle Bachman og Al Tinklenberg. Bachman er bókstafstrúar áhangandi Bush númer eitt (Coleman er númer tvö) hefur verið svo arfaléleg í kosningabaráttunni að það hefur verið allt að því pínlegt að fylgjast með henni. Hún hélt því fram að fall peningamarkaða væri vegna of mikils eftirlits og of þröngrar löggjafar. Jamm, enda hlógu allir sem á horfðu. Hún hélt því líka fram að Obama væri "anti-american" og það ætti í raun að fara fram rannsókn á því hverjir þingmanna væru "anti-american" því það væri til skammar að hafa þingmenn sem væru "anti-american" skv. hennar skilgreiningu. McCarthy-ismi endufæddur. Það á sumsé að koma upp svörtum lista yfir þá sem eru óvinir ríkisins. 

Þetta skítkast endurspeglar náttúrulega það fyrirbæri að þeir sem eiga undir högg að sækja nota öll brögð til að ná sér upp, ljót sem önnur. Lygar og hálfur sannleikur og allt sem þeim fylgir. 

sunnudagur, nóvember 02, 2008

Klukkunni var breytt í nótt. Við græddum einn klukkutíma. Það er allt eitthvað svo öfugsnúið dagana á eftir klukkubreytingum. Klukkan er rétt rúmlega fjögur og sólin er að hverfa bakvið trén og mér finnst eins og ég eigi að fara að huga að kvöldmat en það er enn langt í hann. Annars var 22 stiga hiti í dag og við fórum í langan göngutúr og svo fór ég út og þvoði gluggana á neðri hæðinni að utan. Við vöfðum eplatrén og hlyninn með striga til að verja fyrir kali og svo blessuðum dádýrunum. 

Svona á veðrið að vera fram eftir vikunni en svo koma skörp kuldaskil í miðri viku og kannski snjóar á fimmtudaginn.  

Annika litla var hjá okkur í nótt því mamma hennar og pabbi fóru á tónleika í Minneapolis. Það er svo gaman að hafa svona lítið stýri í heimsókn. Hún er geðgóð og ljúf í umgengni og hún lyftir upp lífinu hérna hjá okkur. Hún var hérna fram eftir morgni þegar Halli fór að fljúga og við vorum hér í góðu yfirlæti. Nú er læknisvottorðið hans Halla loksins komið í gengum kerfið hjá FAA og hann fer að fljúga aleinn í næstu viku. 

Lífið mjakast því áfram sinn vanagang með smá skrefum framávið. 

Fimm vikur í vörn


föstudagur, október 31, 2008

Halloween í dag. Það er af sem áður var þegar þetta var uppáhalds dagur barnanna minna. Þá var allt undirlagt í nokkrar vikur því undirbúningurinn var skemmtilegastur af öllu. Ég saumaði alla búninga og það var mikið sport að ákveða hvað átti að vera, finna efni sem pössuðu, skó, hárkollur eða hvað annað sem þurfti. Þegar við áttum heima í Minneapolis þá fengum við tugi barna í heimsókn en núna fáum við bara örfá því við búum í hverfi þar sem hver lóð er hálfur til einn hektari og því langt á milli húsa. Það er því ekki mjög mikill afrakstur af mikilli göngu. Enda fór Karólína í annað hverfi fyrstu árin því það er mun gjöfulla að ganga um með nammipokann þar sem húsin standa kinn við kinn. 

Það er hitakafli í veðrinu. Í gær var 20 stiga hiti og í dag á að verða 17 stig og það sama um helgina. Svo á víst að kólna og ekkert um það að segja annað en að svona eru víst áhrif gangs jarðar um sólu.

fimmtudagur, október 30, 2008

Það er aftur búið að færa myndavélina í Barnaskólanum. Núna sé ég nyrðri hluta Svalbarðsstrandar, og stóran hluta himinsins yfir Eyjafirði. Hann er alltaf jafn fallegur. Kannski sé ég norðurljósin eitthvert kvöldið?
Það er eitt og annað sem ég ekki skil í íslensku samfélagi. Hvorki fyrir né eftir hrun. Hvers vegna í veröldinni hækkaði Seðlabankinn stýrivexti? Ég skildi þetta svona nokkurnvegin fyrir hrun, því þá var verið að reyna að stoppa neysluna, en við núverandi aðstæður skil ég þetta bara alls ekki. Ég held að svarið sé til þess að halda gjaldeyri innanlands. Sú rök halda bara ekki vatni við núverandi aðstæður þar sem fólk í hundraðatali missir vinnuna á hverjum degi og margir af þeim sem hafa vinnu hafa lækkað all verulega í launum. Það eru engir peningar til að eyða. Ef það á að ná þjóðarbatteríinu af stað aftur þá þarf að lækka vext. Það getur enginn sem stendur í framkvæmdum tekið lán undir þessum kringumstæðum og þar með stoppast allt. Þetta kyrkir allt athafnalíf, þ.e. þá sem standa í framkvæmdum. Jú, það þarf að viða að sér erlendis frá en það verður líka að halda atvinnu fólks gangandi. Öðruvísi kemst ekki skútan af strandstað. Það verður því að gera greinarmun á neyslulánum, atvinnulánum, og svo aðstoð til þeirra sem ekki geta staðið í skilum. Þetta er einhver alvitlausasta ákvörðun sem ég hef heyrt um lengi.

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hver á að sjá um rannsókn á ferlinu sem leiddi til hrunsins. Bogi og Valtýr eiga syni sem voru á fullu í útrásinni. Svona er þetta litla íslenska samfélag. Það þekkja allir alla. Meira að segja ég er málkunnug Sigga Valtýs og ég þekki mömmu hans og stjúpa vel. Ég get því ekki séð að íslenskt fyrirtæki, eða íslenska ríkið í þessu tilfelli, hafi það traust sem þarf til að fá niðurstöður sem einhverju fá breytt. Þetta þekki ég afskaplega vel, það hefur ekkert uppá sig fyrir mig að kynna niðurstöður úttekta ef ég er rúin trausti. Ég byggi allt mitt á trausti viðskiptavinanna. Það traust byggi ég upp frá fyrstu mínútu og því held ég áfram löngu eftir að verkefninu er lokið. Ef niðurstöðunum er ekki treystandi þá er betur heima setið en af stað farið. Þetta er eitt af grundvallaratriðum mats og úttekta.

Það er best að hætta hérna og snúa sér að doktorsritgerð í matsfræðum.

miðvikudagur, október 29, 2008

Ég kíki á hverjum degi á beina útsendingu frá Akureyri. Ein heimasíðan er frá Fjallinu mínu. Þar eru fjórar vélar....það lítur mjög vel út, mig langar á skíði!  Ein myndavél er í gamla barnaskólanum og vísar hún að öllu jöfnu til norð-austurs. Um helgina hefur einhver annað hvort rekið sig í vélina eða þá að einhverjum hefur fundist sjónarhornið ekki nógu gott því nú vísar vélin beint niður í Gilið og á Myndlistaskólann. Mér er svo sem slétt sama hvort sjónarhornið er, ég fylgist aðallega með veðrinu, en fyrst þeir eru að færa vélina til, hvernig væri þá að vísa henni aðeins meira til austurs og yfir í Heiði svo ég sjái í Lönguklöpp? 

þriðjudagur, október 28, 2008

Ég á ekki vona á að vaðlaheiðargöng verði byggð á næstu 5-10 árum. Langaklöpp er væntanlega óhult í bili.

sunnudagur, október 26, 2008

Nánast síðan við fluttum til útlanda fyrir rúmu 21 ári síðan höfum við tekið að okkur það hlutverk að vera fulltrúar Íslands sem kunna söguna, Íslendingasögurnar, og allt annað sem að Íslandi kemur. Þetta er rétt eins og aðrir Íslendingar sem erlendis hafa búið. 

Síðustu vikurnar hafa spurningarnar breyst, fólk okkur nákomið kann mikið um ófarir Íslands og hringja í okkur og senda tölvupóst í tíma og ótíma, til að ræða málin og spyrja okkur spjörunum úr hvað hafi gerst. Við erum stoppuð á götu, í ræktinni, og vinnunni af lítt kunnugu eða algerlega ókunnugu fólki sem veit að við erum Íslendingar. Börnin okkar eru spurð við ólíklegustu tækifæri. Allir eru umhyggjusamir og spyrja um fjölskylduna heima og svo okkar eigin mál. 

Það hefur verið erfitt að svara öllum þessum spurningum og ekki verður hjá því litið að ég reyni að verja landið eins og ég get. Kannski fegra ég ástandið, ég veit það ekki, en ég reyni að skýra út ferlið, hvernig landið var fyrir og eftir EES, hvað breyttist og hvað ekki, hvernig litla íslenska krónan var ekki nógu stór fyrir stóru viðskiptin á alþjóðamarkaði, og hvernig Seðlabankanum tókst ekki að stjórna óstýrilátum Íslendingum í blússandi útrás. Þar sem ég er matsfræðingur þá tek ég oft þann pólinn í hæðina að skýra þetta útfrá forsendum mats, úttekta og eftirlits, þannig finnst mér ég komast að kjarna málsins. En ég bara veit ekki nóg um fjármál og efnahag þjóðarinnar til að gefa haldgóða lýsingu á atburðarásinni eða orsakasamhengi. 

Eitt er alveg öruggt, það er alveg nauðsynlegt að fylgjast vel með, hversu mikið sem það tekur annars á sálartetrið.

laugardagur, október 25, 2008

Karólína fékk tölvupóst frá öðrum nemanda í Duke í haust sem er náttúrulega ekki í frásögu færandi nema að stelpan er íslensk. Loksins náðu þær að hittast í síðustu viku og þá kemur í ljós að Tatiana er hálf íslensk og pabbi hennar er læknir á Akureyri, m.a. á Læknastofum Akureyrar. Afi hennar kenndi okkur efnafræði hér í den að mig minnir í þriðja bekk. Þetta var ekki hans aðalstarf, hann er verkfræðingur ef ég man rétt, en það var augljóst að honum þótti gaman af kennslunni. Tatiana hefur unnið á Akureyri á sumrin, en bjó í Noregi í nokkur ár. Það er með ólíkindum hversu margt þær eiga sameiginlegt stelpurnar. Ég spurði hvaða tungumál þær hefðu talað og það var íslenska, enska og spænska sem þær notuðu. Dóttur minni fannst þetta mjög skemmtilegt og þær eiga eflaust eftir að hittast aftur.

föstudagur, október 24, 2008

Það er kalt og haustlegt úti, svona raki eins og kemur rétt áður en hann snjóar. Það er samt ekki að koma snjór, það er bara köld þoka úti. Kannski kemur smá slydda aðfaranótt mánudags en það á að vera um 10 stigin í næstu viku. Svo smá kólnar, og einhverntíma eftir mánuð eða svo, kannski einn og hálfan, þá fer að kólna og líklega snjóa. Ég er að fara á fund í vinnunni og svo er það bara heim aftur og koma mér fyrir í skrfstofustólnum mínum.

fimmtudagur, október 23, 2008

Ég fylgist vel með því sem er að gerast á Íslandinu, eiginlega of vel því mér verður lítið úr verki þegar ég fer að lesa um vandamál landans. Svo ég tali ekki um reiðina. Þá hreinlega get ég ekki einbeitt mér að ritgerðinni. Ég tel mig þó vera heppna að vera aðskilda frá umræðunni. Ég get kveikt á sjónvarpi og útvarpi og heyri annarskonar fréttaflutning en á Íslandi. Ég er reyndar hætt að kveikja á útvarpi í bili, ég er alveg komin með forsetakostningarnar uppí kok. 13 dagar eftir. 

Í gær horfði ég á fréttir bæði á Stöð 2 og RÚV og þar með var dagurinn horfinn fyrir mér. Ég fór að fyllast samskonar reiði og ég les um í bloggheimum. Svindl og prettir Glitnis í Noregi fóru alveg með mig. Flest allir sem ég þekki heima mega ekki vamm sitt vita, mæta til vinnu og borga sína skatta og standa sína plikt við menn og málefni. Það eru ekki þeir sem voru í útrás eða að misnota banka og aðgengi að peningum. Það að hafa óheft aðgengi þýðir ekki það að það eigi að gera. Viðskiptasiðferði er ekki hægt að lögbinda og orð Vilmundar Gylfasonar koma oft uppí hugann þessa dagana "löglegt en siðlaust." Það var reyndar margt sem var gjörsamlega ólöglegt en margt virðist hafa verið löglegt en gjörsamlega siðlaust. Þetta siðleysi kom þjóðarbúinu á kaldan klaka. Það er svo annað mál að það þurfti greinilega þrengri löggjöf fyrir svona viðskiptasiðleysingja sem fóru eins langt, og lengra, en lög leyfa. Það þurfti líka eftirlit, og það er greinilegt að enginn Íslandingur hefur kunnáttu eða þekkingu til að viðhafa svoleiðis eftirlit.

Ég var ánægð með Geir Haarde í gærkveldi í Kastljósi. Hann svaraði betur en ég bjóst við og sagði meira en ég hélt hann gæti. Sem betur fer fáum við ekki að vita allt sem rætt er, til þess eru lokaðir trúnaðarfundir með sérfræðingum og fólki sem kann til verka. Ekki vil ég þurfa að taka afstöðu til margs sem rætt er, enda hef ég engar forsendur til. Ég er ekkert endilega sammála öllu sem sagt er og gert en ég held að allir viðkomandi séu að gera eins vel og hægt er og með hagsmuni venjulegra Íslendinga að leiðarljósi. Þeir virðast hafa áttað sig á eigin takmörkunum og hafa kallað eftir hjálp utanaðkomandi fólks. Það virði ég.

miðvikudagur, október 22, 2008

Þá er húsið aftur orðið tómlegt. Mæðgur farnar heim og Anna til Las Vegas. Það er leiðinlegt þegar gestir fara. Ekki það, mér líður vel einni og þarf á öllum þeim tíma að halda sem ég get náð í næsta mánuðinn eða svo. Ég þarf víst að klára verkefni sem ég er með! En það er samt leiðinlegt þegar góðir gestir fara. 

mánudagur, október 20, 2008

Hér eru nokkrar myndir úr haustlitagöngutúr um hverfið okkar.

DSC00214
Originally uploaded by Kata hugsar


DSC00220
Originally uploaded by Kata hugsar

Sykurhlynur


DSC00223
Originally uploaded by Kata hugsar

Gömul vinkona frá Íslandi kom í heimsókn um helgina. Hún var á leið til Las Vegas á ráðstefnu og hafði, mér til mikillar gleði, samband fyrir nokkrum vikum og ákvað að eyða einum sólarhring með okkur. Það var svo gaman og mér þótti óskaplega vænt um það. Helgin var afskaplega falleg, sól og blíða og haustlitir allsstaðar. Hitinn um 15 stig og mikil dómadags haust blíða. Bjarni og Nicole komu niðureftir í gær og eyddu með okkur deginum. Við elduðum saman, þ.e. Bjarni eldaði og ég horfði að mestu á, svínarif a la Bjarni með hvítlaukskartöflumús og salati...það verður nú að hafa smá heilsusamlegt með, og íslenskt Nóa konfekt í eftirrétt. Rifin voru sett í pott og svo potturinn í ofn í fjóra klukkutíma, þá voru þau marineruð í tvo tíma og svo grilluð með BBQ sósu sem hann breytti og bætti smá. Svona verða rifin svo meyr að þau detta af beinunum en halda bragðinu. 

Hin allra besta helgi með gönguferðum, góðum mat, fjölskyldu og vinum.

föstudagur, október 17, 2008

Systir mín og systurdóttir eru hjá okkur í heimsókn þessa vikuna. Þær ákváðu þessa ferð fyrir nærri ári síðan og hafa skipulagt öll frí samkvæmt því. Þær ákváðu að skella sér þrátt fyrir kreppuna. Þær fóru í bankann áður en þær lögðu í hann og hvor um sig fékk heila $220. Það dugir nú skammt. Kunningi þeirra fór svo í bankann og hann fékk $1000 fyrir þær. Hann fékk svona mikið v.þ.a. hann þekkti fólkið í bankanum. Þetta fer að hljóma eins og í kringum 1975 þegar gjaldeyrir var skammtaður en ef maður var svo heppinn að þekkja mann sem þekkti annan þá fékk maður gjaldeyri á svörtum. Svo var líka gott að fara að tala við Skúla í bankanum vegna þess að hann var að byrja með lítið fyrirtæki sem leigði bíla og margir viðskiptavinanna voru útlendingar og hann átti oft dollara. Ótrúlegt að vera að ganga í gegnum þetta aftur. Þær þora náttúrulega ekki fyrir sitt litla líf að nota kreditkort því það er ekki á vísan að róa með stöðu gjaldeyris hjá þeim.

Undarleg staða að geta ekki notað kort árið 2008. Það er ekki svo langt síðan verið var að ræða hvenær peningar yrðu sjaldséðir. Núna eru þeir það eina sem nothæft er í viðskipum. Beinharðir og gamaldags peningar.

þriðjudagur, október 14, 2008

Systur


Systur
Originally uploaded by Kata hugsar

Sólsetur á Manhattan


Sólsetur á Manhattan
Originally uploaded by Kata hugsar

Mæðgur í New York


Mæðgur í New York
Originally uploaded by Kata hugsar

New York skartaði sínu fegursta um helgina. Við höfðum það afburða gott saman mæðgurnar og Adam, en ég var gengin uppað hnjám í lok laugardags og sunnudags. 



föstudagur, október 10, 2008

Ég var að lesa grein á visir.is um afstöðu Geirs Haarde til IMF. Ég var að skýra ástand mála út fyrir Karólínu í gær og minnstist á aðkomu IMF og hún saup kveljur. Hún er í námi í alþjóðaviðskiptum og hefur lesið og skrifað þó nokkuð um IMF og er ekki hrifin af sögu þeirra og hvernig þeir hafa komið fram við þau lönd þar sem þeir hafa tekið yfir. Þetta á sérstaklega við um S-Ameríku enda eru engin fordæmi fyrir því að þeir komi að hagkerfi sjálfstæðs ríkis á vesturlöndum. Mér þóttu viðbrögð dóttur minnar lýsandi, því eins og húns sagði "litla Íslandið mitt má ekki verða IMF að bráð."
Ég fer til New York í kvöld á fund við dætur mínar. Það verður svo gott, aðallega að komast í burtu frá skrifstofunni minni. Annars ganga skrif þokkalega. Ég er búin að "skrifa" alla ritgerðina en ég er að breyta og vonandi bæta þetta. Ég er ósátt við uppbygginguna á loka niðurstöðunum, argumentið er of veikt eins og það er og heilinn á mér var í hnút fyrri hluta dagsins í gær en svo raknaði eitthvað úr. Ekki nóg samt því ég er enn ósátt. Ég vil ekki enda ritgerðina á veikum nótum. Ég er að hugsa um að byrja að setja saman power point kynninguna. Það hefur svo oft hjálpað mér að komast að kjarna málsins svo ég er að hugsa um að nota þá aðferð sem gefist hefur vel þegar ég hef verið að kynna niðurstöður úr verkefnum. Þetta er mun stærra en öll önnur verkefni sem ég hef gert, og hérna þarf ég jú að tengja allt saman við literatúrinn í lokin svo þetta er annars eðlis. 

þriðjudagur, október 07, 2008

Ég var að hlusta á Minnesota Public Radio áðan á ferð minni um bæinn. Besta útvarpsstöð sem til er. Í fréttunum var verið að tala um Mall of America og góðu áhrifin sem sem lár dollar hefur haft á verslun þar. Útlendingarnir þyrpast í megamollið. Hæstu tekjurnar koma frá Kanadamönnum. Þær næst hæstu frá Bretlandi. Þær þriðju hæstu frá ... stórasta Íslandi. Það er margur landinn sem hefur sleppt sér í MoA, en að 300000 manna samfélag geti haft meiriháttar áhrif á tekjur megamolls í Ameríku er með ólíkindum.
Það er komin dagsetning. Ég ver 5. desember. EF....leiðbeinandinn verður búinn með sína vinnu, hann er ekki viss. Það er mikið að gera hjá henni Jean, en eins og Halli sagði, nú er komin pressa á hana að klára sitt. Ef þetta gengur eftir, og ef ég næ, þá útskrifast ég með pompi og prakt, húfu, hettu, silkikápu og alles, 12. desember.

Það eru allt of mörg EF í þessu öllu.

sunnudagur, október 05, 2008

Ég er ein í kotinu, kall minn er á Spáni að kenna alla vikuna. Ég fer svo til New York til Kristínar og Adam á föstudaginn og svo kemur Karólína þangað á laugardagsmorguninn og við ætlum að njóta lífsins í stórborginni yfir helgina. Okkur finnst ekkert leiðinlegt að vera saman mæðgunum og Adam verður að þola okkur þessa helgina. Við ætlum að búa hjá Kristínu og Adam á öllum 40 fermetrunum, svo það er eins gott að okkur komi öllum vel saman. Hann verður bara að þola það að vera eini karlmaðurinn. Ég á alls ekki von á að þetta verði vandamál, hann er fádæma ljúflingur í umgengni og á mjög auðvelt með að fljóta með og er ekki upptekinn af því að þurfa að stjórna eða vera með í ráðum. Hmm, kannski eins gott, við mæðgurnar sjáum ágætlega um þá deildina. Kristín verður við stjórnvölinn, ég geri bara eins og mér verður sagt, verð voða hlýðin, hljóð og eftirlát. 

föstudagur, október 03, 2008

Ég var í Minneapolis í fyrradag með leiðbeinandanum mínum. Hún er enn svona líka ánægð með mig. Ég er að leita að dagsetningu sem passar okkur öllum um miðjan desember. Ég ver rannsóknina á þessu ári ef allir geta komið saman á einn stað í tvo tíma.

þriðjudagur, september 30, 2008

Það var mikið sem gekk á í gær. Ekki bara í fjármálaheiminum heldur allsstaðar í kringum okkur. Veitingastaðnum sem Bjarni hefur unnið á í fjögur ár var lokað, bara svona uppúr þurru. Það var allt slökkt þegar kokkarnir kom til vinnu í gær. Hann var í skólanum og fékk símtal frá samstarfsmönnum. Vinir okkar eru að skilja, og svo annað smávægilegt eins og tognanir, veikindi, og annað þar fram eftir götunum. Allt kom þetta uppá yfirborðið í gær. 

Við Halli siglum þetta á okkar tiltölulega ligna sjó meðan aðrir berjast í stórsjó lífsins... sjö-níu-þrettán. 

Það er eins gott að passa uppá sitt og sína, alla daga, allan daginn. 

Það kemur ekkert af sjálfu sér.

laugardagur, september 27, 2008

Það var óskaplega heitt í gær. Það fór yfir 30 gráður, og það er of mikið í lok september. Ég slökkti nefnilega á loftkælingunni fyrir tveimur vikum síðan og ætla mér ekki að kveikja á henni aftur fyrr en næsta vor. Það hefur ekki komið kaldur dagur enn sem komið er þetta haustið. Ég var því óþolinmóð og gerði kjötsúpu í gær. Nokkuð sem ég geri ekki nema það sé frekar kalt og hráslagalegt úti. Mig langaði bara svo voðaleg í góða kjötsúpu. Og svo var annar í kjötsúpu í dag, þriðji á morgun. Hið allra besta mál. Ekki get ég sagt að þetta hafi verið íslensk kjötsúpa því ekkert íslenskt var í henni. En hefðin og uppskriftin er íslensk. Lambakjöt soðið í marga tíma, ferskur laukur, gulrætur, kartöflur, rófur, cellerí og hvítkál, og svo smá lambakraftur. Ég átti ekki meira en þetta var alveg nóg. Súpan var himnesk.

Svo fóru kuldaskil yfir í nótt og í dag voru ekki nema ein 18 stig og það er nú alveg viðráðanlegt. Ég tók mig því til og bakaði rúgbrauð í fyrsta sinn þetta haustið. Ég elda og baka  sumsé sem minnst hérna innanhúss þegar heitt er því nóg er nú heitt samt hér í eldhúsinu hjá mér þótt fari ekki að bæta við hitanum frá eldavél og ofni. Svo verður alvöru brauðbakstur á morgun ef öll plön ganga eftir. Gróft og gott heimabakað brauð. Mmmmmm. Ég hlakka til að fá lyktina í húsið.

föstudagur, september 26, 2008

Svei mér þá. Vísir segir að afbrotafólkið sé nú komið aftur á götuna en verði í farbanni til 17. október. Ekki hefur það húsnæði til að sofa í. Ekki komast þau á Lönguklöpp aftur. Vonandi komast þau ekki í hús gamla fólksins sem var á spítala þegar þau tóku húsið þeirra trausta taki. Hvert skildu þau fara næst?
Fréttin í Mogganum af innbrotsþjófunum í gær var ekki vel skrifuð. Allavega tókst mér að lesa hana þrisvar, skilja hana mismunandi í fyrstu tvö skiptin og skildi hana svo alls ekki í það þriðja. Ég var greinilega ekki sú eina því í prentaða Mogga í dag var hún skrifuð öðruvísi og mun skýrar. Þar kemur fram að parinu verður haldið inni þangað til málið er upplýst og ástæðan er sú að hætta er talin á að þau komi sér úr landi ef þeim verður sleppt. Þau búa sumsé áfram nyrst í Þórunnarstrætinu á kostnað Akureyrabæjar. Áfram í fríu fæði og húsnæði.

fimmtudagur, september 25, 2008

Innbrotsþjófarnir verða bak við lás og slá eitthvað áfram. Ég vona að Mogginn ljúgi ekki frekar en fyrri daginn. Gunni Jóhanns stendur sig í stykkinu. Þegar hann koma á Lönguklöpp sá hann náttúrulega mynd af sér uppá vegg. Útskriftarmyndin er þar í hásæti. 

miðvikudagur, september 24, 2008

Veðrið hefur verið eindæmum gott síðustu vikuna. Alla daga er 20-25 stiga hiti og sól. Það var reyndar mjög hvasst í gær og brjálað þrumuveður í gærkveldi og nótt en svo kom enn einn dásemdar dagurinn. Haustlitirnir eru allsráðandi, og veröldin því afskaplega falleg í gulum, appelsínugulum, rauðum, brúnum og grænum litum. Jörðin að verða þakin í laufum. Það skráfar í þeim þegar gengið er, hvort sem það eru dýr eða menn á ferð. Það sést í hús sem ekki hafa sést síðan í vor núna þegar laufin falla og trén gisna. Haustlyktin er komin þótt hitastigið sé enn hátt. Lykt af þurrum laufum og rotnandi jörð. Þrátt fyrir að jafndægur á hausti hafa verið á mánudaginn sést ekkert í kuldann. 
Hann kemur. 
Það er öruggt. 
Ég þarf ekkert að vera óþolinmóð.

Allt gekk þetta vel í mælingunum í gær. Ég er í súper formi. Það eru reyndar nokkur atriði sem þarf að bæta, t.d. að komast uppí "superb" í þoli. Ég er bara í "excellent" þar. Ég á líka að létta mig enn meira, þar er ég bara í "moderately lean" en vildi gjarnan komast í "lean" flokkinn. Til þess þarf ég að léttast um 3 kg. 

Það sem ég get velt mér uppúr þessu öllu saman! Það er reyndar svolítið gaman að hugsa um þennan blessaða líkama og komast að því hvernig minn, þessi eini sem ég á, vinnur. Hvað það er sem lætur mér líða vel, eða illa, og hvað ég get boðið honum án þess að skaða hann. Það er reyndar með ólíkindum hvað margar rannsóknir eru túlkaðar undarlega þegar kemur að svona mælingum. Það var t.d. mælt hlutfall mjaðma og mittis. Skv. rannóknum þá gefur þetta hlutfall hugmynd um hvort ég sé í áhættuhópi fyrir hjartasjúkdóma og sykursýki. Því hærra tölugildi þvi meiri áhætta. Þar sem ég hef engar mjaðmir og afar lítið mitti þá er þetta hlutfall hátt, eða 0.8, ég er sumsé næstum því bein í langinu! Þá er ég víst í áhættuhópi vegna þess að ég hef svo mikla magafitu. En.....ég hef enga magafitu! Ég er bara ekki laginu eins og rannsóknin gerði ráð fyrir. Aumingja konan sem mældi mig hafði ekki mikinn áhuga á að taka þessa umræðu með mér. Ég held ég hafi verið aðeins of ágeng í spurningunum mínum. 

OOOPS! ekki í fyrsta sinn.

þriðjudagur, september 23, 2008

Tilfinningalegur skaði innbrotsins verður sá allra versti. Allt annað eru smáatriði. En ég ætla ekki að láta þetta hyski ráða yfir tilfinningum mínum. Þau vinna ef ég læt þetta hafa varanleg áhrif á mig. Þetta tekur bara tíma.

Annars er ég að fara í klukkutíma heilsufarsmat í dag. Þar verður farið yfir
Heilsufarssögu
Líkamlegt ástand verður mælt og metið:
hvíldarpúls, blóðþrýstingur, líkamsþyngd, BMI, samsetning líkamans, ummál, "aerobic capacity" (hvað er það á því ylhýra?), styrkur, liðleiki, og jafnvægi.
Markmið sett fyrir viðhald og bætingu
Umræða um heilsu, heilsurækt og mataræði.

Það eru tæp þrjú ár síðan þetta var gert síðast. Það verður fróðlegt að sjá breytingarnar á hvorn veginn sem þær eru.

mánudagur, september 22, 2008

Þá er búið að finna innbrotsþjófana. Við fréttum af þessu á föstudaginn en hér er fréttin í Mogganum Þau höfðu sturtað fötum niður í klósettið og svo haldið áfram að nota það þangað til úrgangurinn flæddi uppúr og afleiðingin varð sú að gólfin í húsinu eru ónýt. Það á svo eftir að sjá hversu auðvelt verður að ná lyktinni úr húsinu.

Þetta er svo sorglegt. "Lönguklapparlyktin" sem er af öllu þarna inni var hlý lykt sem var blanda af furu, sítrónu og lavender. Lykt sem verið hefur í húsinu frá upphafi og það fyrsta sem ég geri þegar ég kem inn eftir langa fjarveru er að draga djúpt að mér andann.  

Hvernig verður að koma þangað aftur?

fimmtudagur, september 18, 2008

Það var brotist inn á Lönguklöppina okkar. Líklegast í síðustu viku. Þetta var mjög einkennilegt því þetta var ekki innbrot þar sem ætlunin var að stela eða eyðileggja. Einhverjir höfðu brotið glugga í innri hurðinni og komið sér fyrir í stofunni. Drukkið allt vín (það var lítið til eftir afmælið), keypt sér fullt af mat sem geymdur var í ísskápnum, ælt í sófann, og jafnvel eitthvað meira, og svo stíflað niðurfallið á baðinu. Það er það versta því gólfið í forstofunni, svefnherberginu, og hluta stofunnar er ónýtt. Ekki hafði verið farið inní svefnherbergin. Löggunni finnst þetta hið undarlegasta mál.

Það verður erfitt að vera ein á Lönguklöpp næst þegar þess er þörf.

Ég var svo reið í gærkveldi að ég átti í mestu vandræðum með að sofna, ég hreinlega nötraði og skalf af reiði. Ég get svo sem alveg þakkað fyrir að ekki fór verr, en ég bara get það ekki. Þetta var alveg nógu slæmt fyrir mig.

Ég skil ekki það fólk sem gerir svona. 

þriðjudagur, september 16, 2008

Svei mér þá, það er svo lítið sem gerist hjá mér núna að það er með ólíkindum. Hausinn á mér er reyndar svo stappfullur af matsfræðum að ég held að sá hluti af minninu, sem frátekinn var fyrir allt annað, sé hreinlega að verða yfirtekinn af þessum óskunda. Ég vakna, fæ mér morgunmat, les Moggann, sest niður við skrifborðið klukkan 8, stend upp fyrir hádegismat klukkan 12, sest aftur hálftíma seinna, og stend svo upp aftur einhversstaðar á milli 4 og 7 fyrir kvöldmat eða ræktina. Og svo sum kvöld sest ég aftur til klukkan 10. Ég sé ekki nokkra hræðu allan liðlangan daginn. Ég er samt svo heppin að börnin mín og maki hringja í mig mörgum sinnum á dag. Það er það eina sem brýtur upp mynstur dagsins.

Og svona verður þetta eitthvað áfram. GGGGAAAAARRRRRGGGGHHHHH

laugardagur, september 13, 2008

Ég fer til hennar Karólínu minnar á föstudaginn. Ég verð fram á sunnudagskvöld. Pabbi hennar er á vakt þess helgi svo við verðum tvær mæðgurnar á vappi. Ég er komin með all verulega þörf á að komast í burtu svo þetta verður hið besta mál. Ég kemst ekki til Íslands fyrr en eftir vörn, hvenær sem hún verður nú, og einu ferðalögin sem ég leyfi mér fram að þeim tíma eru til barnanna. Ég ætla að reyna að fara til New York um miðjan október þegar kall minn verður á Spáni og svo förum við hjónin þangað um miðjan nóvember svo eitthvað verður nú af ferðalögum þótt ég vildi nú gjarnan hafa þau fleiri. Ég get bara ekki rótað of mikið til í rútínunni því þá verður mér ekki eins mikið úr verki. Það gengur nú víst ekki núna þegar endaspretturinn er hafinn.

fimmtudagur, september 11, 2008

Það gekk ljómandi vel á fundinum með leiðbeinandanum mínum í gær. Hún var bara svona líka ánægð með mig. Ég kem til með að verja fyrir lok árs, kannski í nóvember, hver veit. Dagsetningin verður ákveðin....seinna.

þriðjudagur, september 09, 2008

Hvað er eiginlega að honum Árna Johnsen? Hann er hreinlega allsstaðar. Ekki hef ég tölu á hversu margar minningargreinar hann hefur skrifað á árinu, en þær eru ófáar, og núna síðast um Sigurbjörn biskup, og svo þetta bréf hans til Agnesar Braga. Það sannast enn einu sinni að svona tal/skrif eins og þau sem hann skrifaði um Agnesi segja meira um manninn sjálfan en þann sem skrifað er um.

mánudagur, september 08, 2008

Ég er að hugsa um, í tilefni dagsins, að gefa sjálfri mér þriggja tíma veru í Ræktinni í dag. Kannski pílates, eða jóga, eða nudd með. Ég sé til hvernig gengur að skrifa.

sunnudagur, september 07, 2008

Nú er ég búin að fara í nýju Ræktina tvisvar. Í gær var ég í tvo klukkutíma, einn í þoli og einn í pilates og það var alveg æðislegt. Gat ekki verið betra. Í dag var ég nú bara í einn tíma. Halli var með mér í dag og þar sem hann er með disk í bakinu sem tók uppá þeim óskunda að renna til hliðar og þrýsta á taug þá er hann svo sem ekki til stórræðanna. Hann finnur reyndar ekki til þegar hann hleypur og lítið þegar hann lyftir en hann sefur afar illa og er því ósköp þreyttur. Hann var á vakt um helgina og er því ekki alveg uppá 10. Hann er samt hetja eins og fyrri daginn, kvartar aldrei, gerir allt sem þarf og meira til og vinnur mikið. Hann gat því ekki verið meira en í klukkutíma í Ræktinni en það var voðalega gott að hreyfa sig smá. Ég á enn eftir að reka mig á eitthvað sem mér ekki líkar, ekki það að ég sé að leita, en þetta er svo fínt allt saman að ég er alveg bit. 

Ég er að byrja fyrstu skrefin í nýrri rútínu. 

Þetta kemur allt saman.

laugardagur, september 06, 2008

Ég er að velta fyrir mér að skipta um heilsuræktarstöð. Ég hef stundað mína, þessa yndislegu, síðan við fluttum hingað til Rochester fyrir átta árum síðan. Síðustu þrjú árin hef ég farið þarna a.m.k. þrisvar í viku, oft fimm til sjö sinnum. Þar áður eitthvað sjaldnar en oftast tvisvar til þrisvar. 

Mayo Clinic opnaði heilsurækt fyrir starfsmenn sína fyrir ári síðan. Þetta er rækt af allra flottustu gerð, kostar okkur $25 á mann á mánuði, en lækkar í $20 ef við förum að meðaltali þrisvar í viku, og í $15 ef við förum að meðaltali fjórum sinnum í viku. Þetta er reiknað yfir þriggja mánaða tímabil. 

Þar kostar ekkert að hafa einkaþjálfara, ekkert fyrir jóga og pílates, eða alla aðra sprikkl bekki sem þeir bjóða uppá. Það kostar ekkert að fara í mat á líkamsástandi, mat sem tekur hátt í tvo klukkutíma að gera. Tvær fínar sundlaugar, heitir pottar, gufuböð, "afslöppunar stólar,"  hlaupabretti og öll önnur þol þjálfunar tæki sem hægt er að hugsa sér, svo og fleiri lyftingatæki en komist er yfir. Veitingastaður, banki og barnapössun. 

Þetta er ótrúlega flott en það er erfitt að skipta um Rækt. Þetta er eins og að skipta um vinnustað, það þarf að læra allt uppá nýtt, og ég er svo ótrúlega vanaföst að svona breytingar eru stórhættulegar. Ég bara get ekki hugsað mér að fækka ferðum mínum í Ræktina og því ætlum við að vera meðlimir í gömlu Ræktinni eitthvað lengur á meðan ég er að venjast þessari nýju. Ég þarf að vera alveg viss að mér líki staðurinn áður en ég gef frá mér þennan gamla.

Það er stundum erfitt að vera vanaföst. 

föstudagur, september 05, 2008

Ég er með dúndrandi hausverk og er óglatt eftir alltof mikið tölvugláp, lestur og skrif. En þetta er sko ekki búið enn, og líklega bara þó nokkuð eftir. Ég fer á fund með leiðbeinandanum mínum á miðvikudaginn og þá fæ ég betri tilfinningu fyrir stöðunni.

þriðjudagur, september 02, 2008

Mótorhjólaferð

Maðurinn minn elskulegur á þrjú mótorhjól. Tvö risastór BMW hjól og svo eina litla vespu. Ég er afskaplega lítil áhugamanneskja um mótorhjól og finnst reyndar maður minn hafa of mörg áhugamál sem teljast til áhættu athafna. Hann flýgur litlum flugvélum, keyrir um á mótorhjólum, hjólar á reiðhjóli í umferðinni og hleypur um bæinn í myrkri. Ég hef því tekið þá ákvörðun að læra ekki að keyra mótorhjól, mér finnst það ekkert spennandi og að auki of hættulegt. Ég hef líka neitað að sitja aftan á hjá kalli mínum. Sérstaklega var ég hörð á þessu þegar krakkarnir voru yngri. Ég vildi ekki taka áhættuna ef eitthvað skildi nú koma fyrir. 

En svo brotna krosstré sem önnur tré. 

Við fórum í rauðvín og osta partý til vina okkar um s.l. helgi. Þau búa á hinum enda bæjarins og því þurftum við að keyra til þeirra. Við vorum rétt komin heim frá því að keyra frá Minneapolis og vorum ekkert áfjáð í að setjast inní bílinn aftur og Halli náði að sannfæra mig um að það yrði ekkrt mál að fara saman á mótorhjólinu, því stærsta. Hann skildi nú sko keyra afskaplega rólega og varlega, enda með dýrmætan farm. Og hún ég gaf eftir og settist á þetta ágæta tryllitæki. Allt gekk þetta nú svo sem slysalaust en þetta með rólegheitin var nú ekki alveg eftir bókinni. Heimferðin var öllu hraðari en sú fyrri og eitt sinn leit ég á hraðamælinn og hann lá í 120, jamm 120. Það var ekki mikið yfir leyfilegum hraða en yfir honum samt, og henni mér var ekki skemmt. Það var nú svo sem ekki mikið sem hægt var að gera til að láta vita um ónánægju mína á 120 km hraða og með þéttan hjálm á höfðinu annað en að klípa og kreista og það gerði ég. Varlega samt því ekki gat ég truflað ökumanninn, það er of hættulegt á stóru mótorhjóli.

Það virkaði, hann hægði á sér um stund, þangað til við komum á svæði með lágum hámarkshraða. Þá fór hann að keyra af skynsemi. 

Ég lifði þetta af en ekki er ég viss um að ég fari í aðra ferð með honum í bráð enda lítið um þægindi á hörðu sæti mótorhjólsins.

mánudagur, september 01, 2008

Mér finnst það móðgun við gáfur kvenna að McCain skuli velja Söru Palin sem var varaforsetaefni sitt, eingöngu vegna þess að hún er kona. Að halda það við kjósum konur eingöngu vegna kyns en ekki vegna hæfileika, reynslu og/eða skoðana er ákaflega sorglegur vitnisburður um skilning McCain á konum. Palin hefur tveggja ára reynslu í stjórnmálum, jamm, tveggja ára reynslu! Hann er 72 ára gamall og sýnir aldur sinn oftar og greinilegar en hann gerði fyrr í sumar. Ef hann verður kosinn forseti og eitthvað kemur fyrir hann í starfi þá tekur við af honum kona sem hefur tveggja ára reynslu af því að stjórna einu af fámennustu fylkjum landsins og á þá að stjórna stærsta efnahagskerfi heimsins. Það er ekki góðs viti. Kannski ekki eins slæmt og Bush, en gott er það ekki. Það er ekki mjög gott að gera mistök í svona starfi. Það lítur út fyrir að hún hafi gert ágæta hluti þarna í Alaska en hún hefur verið í pólitísku stjórnunarstarfi í tvö ár. McCain hafði úr fjölda kvenna að velja sem hafa langa reynslu af stjórnmálum en nei, hann valdi þá fallegustu sem hann fann! Sorrí, afskaplega lítið trausvekjandi.

föstudagur, ágúst 29, 2008

Mikið óskaplega var ræða Obama í gærkveldi flott. Ég á ekki til orð. Hann er mikill ræðumaður og það var svo margt gott í ræðunni. Hann var ekki bara að segja flott og innihaldslítil orð heldur sagði hann í smáatriðum frá áætlunum og hvernig hann ætlar sér að fjármagna þær. Ég var alveg heilluð. Mér fannst reyndar Hillary vera rosalega góð í fyrrakvöld og þau eru bæði góðir kostir í forsetann, en það er víst bara einn forseti í einu, allavega í þessu landi.

Annars er óskaveður úti. Það er ekki skýhnoðra að já, enginn raki, 11 stiga hiti núna klukkan 8:30 að morgni, og seinna í dag fer í 30 stig. Gerist ekki öllu betra á þessum tíma árs. Framundan er Labor Weekend, n.k. verslunarmannahelgi án hátíðahalda. Við förum til Minneapolis á morgun í veislu, gistum á Lake Minnetonka aðfaranótt sunnudagsins, og njótum svo bátalífs á sunnudaginn með vinum. Frí á mánudaginn og svo byrja skólarnir og þá finnst mér haustið fara að banka.

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Það er að koma brjálað þrumuveður og ég á von á rigningu mestn hluta dagsins. Það er hið besta mál, hér er allt skraufþurrt og náttúran þarf á bleytunni að halda. Klukkan er rúmlega átta að morgni og það er myrkur úti eins og um nótt væri. Það verður skrautlegt hér næsta klukkutímann eða svo. Ég sit innivið og skrifa og leiðrétti, leiðrétti og skrifa...og les Moggann.

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Ég var með kynningu á niðurstöðum úr verkefninu á Mayo sem ég hef verið að vinna að. Það gekk alveg ljómandi vel og nú er verið að undirbúa næstu kynningu sem verður 2. október. Það er fyrir stærri hóp en ég hafði í morgun.

Ég sit annars við að laga til Ritgerðina einu og sönnu. Eftir eins og hálfs mánaðar bið eftir ritgerðinni frá leiðbeinandanum mínum þá beið hún eftir mér þegar ég kom frá Íslandi í síðustu viku. Leiðbeinandinn getur bara unnið á prentað mál, ekkert tölvuvesen fyrir hana, og því þarf að senda ritgerðina fram og til baka. Ég hélt að þetta yrði miklu verra, það er þó nokkur vinna eftir en ekkert stórkostlegt að ég held.

Kannski ég klári þetta einhverntíma!

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Þá erum við Halli orðin ein í kotinu eina ferðina enn. Karólína er komin frá Ecuador og farin til Durham í skólann og Kristín og Adam flutt til New York. Það verður eitthvað um heimsóknir til okkar í haust en alls ekki nóg, við viljum gjarnan fá mikið af heimsóknum. Okkur finnst það ekki leiðinlegt. Við hjónin notuðum helgina til að róa okkur niður eftir annasamar vikur og fórum í ræktina saman í dag og í gær fór ég í ræktina og æfði í rúma tvo tíma og fór svo á sundlaugarbarm á eftir í klukkutíma. Halli fór út að hlaupa og svo í flugtíma seinnipartinn í fegurðinni sem hér er. Við vöknuðum náttúrulega klukkan 2:45 í morgun til þess að horfa á leikinn eina og sanna og það voru blendnar tilfinningar sem fylgdu úrslitunum. Mikið vill meira og að sjálfsögðu var sigur það eina sem kom til greina en þeir voru aldrei inní leiknum, Frakkarnir voru svo miklu betri í dag, en silfrið er ótrúlega góður árangur og ekkert nema gott um það að segja. Svona árangur skerpir all verulega á þjóðarstoltinu, það er svo miklu skemmtilega að vera Íslendingur þegar handboltalandsliðið fær silfur en Bandaríkjamaður þegar Michael Phelps vinnur átta gull, landslið kvenna í fótbolta vinnur gull, átta manna róðrarbáturinnn vinnur gull....

föstudagur, ágúst 22, 2008

Ég held svei mér þá að ég vakni klukkan 2:30 á sunnudagsmorguninn til þess að horfa á LEIKINN. Nú væri gaman að vera gamla góða Fróni!

laugardagur, ágúst 09, 2008

Kristín og Adam fluttu til New York í morgun. Þau eru keyrandi og það tekur þau um 20 tíma að ná áfangastað. Þau ætla að gista í Cleveland Ohio í nótt en þangað eru um 13 tímar og því verður morgundagurinn tiltölulega léttur. Karólína hefur það gott í Ecuador. Hún er komin til baka frá Amazon þar sem hún fór í langar gönguferðið mað leiðsögn. Fyrst að degi til og svo að kvöldi til að sjá allar pöddurnar sem koma út á nóttunni. Ég hlakka til að heyra allt um ferðina og sjá myndirnar. Þar sá hún tarantúlur á vappi og fannst það nú svona heldur óhugnanlegt. Þau fljúga svo til Galapagos í fyrramálið en gista svo á bát og fara frá eyju til eyju. Þetta verður æðislegt þegar hún er komin heim en hænumamman í mér er óróleg. Við mæðgunrar hittumst svo á flugvellinum í Minneapolis þegar ég kem frá Íslandi og hún frá Ecuador. Þá verður mín kona heima í tvo daga áður en haldið verður til Duke og þriðja árið þar.

sunnudagur, ágúst 03, 2008

laugardagur, ágúst 02, 2008

Það er hljótt í húsinu. Karólína er í Ecuador á þriggja vikna ferðalagi með Ed. Þau fara til Amazon á morgun og svo Galapagos eftir tvær vikur og svo ferðast þau um landið. Kristín er í vinnunni en hún og Adam flytja til New York eftir eina viku. Halli hefur verið á vakt síðan hann kom heim og sefur í sófanum hérna við hliðina á mér. Vaktin var mjög erfið og í viðbót við jet lag þá er hann útkeyrður. Hann ætlaði að fljúga núna seinni partinn en vélin var biluð og engin önnur var á jörðu niðri svo hann sofnaði á sófanum, og sefur enn tveimur tímum seinna. Það hefur verið frekar heitt síðan við komum heim, 30-35 gráður alla dagana og verður svona áfram. Þetta er ekkert voðalegt og mér finnst þetta bara tilheyra sumrinu. Mig er farið að langa í bátsferð og kannski komumst við í eina svoleiðis áður en Halli fer aftur til Íslands eftir tvær vikur. Eða þegar hann kemur aftur til baka og áður en við förum til New York. Hver veit.

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Hjartans þakkir til allra sem heiðruðu hann Halla minn á fimmtugsafmælinu. Þið voruð yndisleg og hann er enn í skýjunum. Nú líður tíminn ekki nógu hratt fyrir hann þannig að tíminn styttist í flutning heim. Það er að sjálfsögðu ekkert ef, við flytjum heim innan örfárra ára.

Mikið hefur gengið á í fjölskyldunni síðasta mánuðinn. Fimmtugsafmæli Halla var haldið með pompi og prakt og komu 90 manns í óformlega veislu á Lönguklöpp í afar fallegu veðri. Við skemmtum okkur ofsalega vel í faðmi fjölskyldu og vina. Það versta er að það er lítið hægt að tala við alla, það er svona smá spjall hér og þar en gaman var þetta.

Við Halli og Karólína skelltum okkur svo í helgarferð til Noregs. Það sem kom mér mest á óvart í þeirri ferð var hversu mikið ég sakna Noregs. Á því átti ég ekki von.

Nú erum við komin heim á Westwood Court og hversdagurinn tekinn við með vinnu, rútínu og öðru sem tilheyrir. Það er afskaplega notalegt líka. 

Fallegur dagur í Eyjafirði


Þessi á heima í tímariti


Halli og stelpurnar hans


Afmælisbarnið


Afmælisbarnið
Originally uploaded by Kata hugsar

Þrír vinir við gróðursetningu á askinum


Eitthvað hefur Shree haft um grísinn að segja


sunnudagur, júlí 06, 2008

Ég sit hér ein á Kvisthaganum mínum og hlusta á gamla íslenska tónlist: Litla, sæta ljúfan góða; Fröken Reykjavík með Rói Tríóninu; Vor í Vaglaskógi; Þína innstu þrá, os.frv. Oh, mér finnst þetta svo gaman svona af og til. Ég sakna kallsins míns reyndar þegar ég hlusta á svona tónlist en hann er á leiðinni að norðan á leið frá ættarmóti. Ég varð eftir í Borginni hjá Karólínu sem vinnur alla daga á Landakoti. Við sjáumst svo sjaldan orðið að okkur fannt svo leiðinlegt að skilja hana eftir aleina. Hún er nú svo sem eins og móðir hennar, okkur líður ekki illa einum, öfugt við Kristínu og Halla sem erfitt eiga með að vera ein. En það hefur verið gott að vera saman, við förum í ræktina, göngum í vinnuna hennar, göngum í bæinn, og slöppum af hérna heimavið og tölum saman...stanslaust! 

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Vá, ég sendi ritgerðina til leiðbeinandans míns í gær. Hún er búin að samþykkja fyrstu tvo kaflana og því fóru kaflar 3-6 í gær. Mér finnst ég vera búin en hún er örugglega ekki sammála mér, ég á eftir að fá þetta í hausinn aftur. Ég kófsvitnaði og hjartslátturinn fór uppúr öllu valdi þegar ég ýtti á "send" takkann í gær því ég er dauðhrædd um að hún verði mjög óhress og hendi vinnu síðustu mánaða út á hafsauga. Það er aldrei að vita hvað henni dettur í hug blessaðri. Ég er tiltölulega sátt við það sem ég hef gert, ég er aldrei ánægð með eigin skrif, en þetta er ekki vont, en við sjáum til. Ég fékk svo tölvupóst í gærkveldi þar sem hún bað mig um að senda ritgerðina í sniglapósti því hún á víst ekki að prenta ritgerðir nemenda út sjálf og hún getur víst ekki lesið á skjá, svo í póst fer hún í dag. Þetta eru 110 bls og þegar allt verður komið á einn stað verður ritgerðin um 250 bls. 

Annars hefur húsið verið fullt af fólki að undanförnu. Björg okkar og Bo og Jóhannes og Haraldur strákarnir þeirra eru búin að vera hjá okkur síðan á fimmtudaginn. Karólína kom heim sama dag, og svo komu Bjarni og Nicole þann dag líka svo hér sváfu 11 manns aðfaranótt föstudagsins. En nóg er plássið og allir höfðu sér herbergi. Karólína fór svo til Íslands á sunnudaginn og byrjaði að vinna á Landakoti í gær. Við Halli förum svo af stað í frí á morgun og lendum á Íslandi á föstudagsmorguninn. Það verður kærkomið "frí"!

þriðjudagur, júní 24, 2008

Ég er að vinna við verkefni hjá Mayo Clinic sem fjallar um fjölmenningu. Eins og venjulega nota ég eingöngu qualitativar aðferðir og í þetta skiptið eingöngu einstaklings viðtöl. Ég tala við 30 MD´s, PhD´s, og fólk í stjórnun. Ég átti ekki vona á miklu, ég hélt að þetta yrði ekki mjög spennandi en annað hefur komið á daginn. Ég tala við óskaplega skynsamt og rökfast fólk sem hugsað hefur þetta til enda. Það verður flókið að greina viðtölin vegna þess að ég verð að forðast alhæfingar eins og heitan eldinn því þetta er einstaklingsbundið og að auki eru vandamálin tengd einstaklingum sem ekki eru gott fólk og því er minnihluta status kannski ekki það sem málið snýst um heldur snýst þetta um gæði og vinsamlegheit þess sem andstyggilegur er. Ég fer um viðan völl í umræðunni um fjölmenningu og hvaða áhrif hún hefur á stofnun eins og Mayo Clinic sem byggir allar rannsóknir á mismunandi nálgun og "problem solving skills" rétt eins og allar grunnrannsóknir gera. Það er jú hlutverk grunnrannsókna að "challenge underlying assumptions" og því skiptir mismunandi bakgrunnur þátttakenda miklu máli. Ég er búin með 17 viðtöl og á 13 eftir áður en ég held til Íslands þar sem ég verð að vinna að greiningu viðtalanna. Þökk sé nettengingum þa´get ég unnið þetta hvar sem er!

mánudagur, júní 23, 2008

Einhvernvegin líður tíminn og það voðalega hratt. Júlí eftir viku og Íslandsferð þann 3. Ég sit við og skrifa og skrifa alla daga og skila af mér fyrsta uppkasti 30. júní til leiðbeinandans míns. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig hún bregst við, hún hefur nú ekki verið alltof uppörfandi fram að þessu. 

Eftir að hann hætti að rigna fyrir viku síðan þá hefur skinið sól allan daginn alla daga. Það er kalt í lofti á nóttunni því það er enginn raki en það fer í svona 28-30 á daginn sem er afskaplega þægilegt hitastig

þriðjudagur, júní 10, 2008

Loksins er hætt að rigna. Það var kolvitlaust þrumuveður og það rigndi þessi lifandis ósköp um helgina en við sluppum samt við flóð nokkuð sem nágrannabæirnir til suðurs gerðu ekki. Þar eru fleiri tugir húsa á kafi og miklar skemmdir urðu á ökrunum. Það er enn ókyrrt loft yfir okkur og það er spáð hættu á þrumuveðri flesta daga fram að helgi. Vorið hefur verið kalt og einungis tvisvar hefur hitinn farið yfir 25 stig og er það mjög óvenjulegt. Á þessum tíma höfum við oftast haft um 15 daga af 25-30 stiga hita. Vonandi fer hann að hlýna, okkur er svo sem engin vorkunn, það er 19 stiga hiti núna fyrir klukkan 10 að morgni og það á að fara í 25 stig, en þetta á að vera hlýjasti dagur vikunnar

sunnudagur, júní 08, 2008

The graduate


The graduate
Originally uploaded by Kata hugsar

Við öll sjö


Við öll sjö
Originally uploaded by Kata hugsar

Bjarni, Kristín og Karólína


Adam byrjaði að ganga í gær og fer heim á morgun. Hann gengur svona 10-20 mínútur í einu, getur setið í stól í hálftíma en þreytist fljótt. Hann er rétt að byrja að borða svo allt lítur þetta ótrúlega vel út. Ég skil ekki ennþá hvernig mænan komst útúr þessu ósködduð og hversu hratt batinn gerist. Sumarið verður náttúrulega undirlagt af sjúkraþjálfun og hann þarf þolinmæði í stórum skömmtum en þetta lítur ótrúlega vel út. Vonandi rætast allar vonir og hann verður orðinn eins og nýr þegar skólinn byrjar hjá honum í haust.

laugardagur, júní 07, 2008

Það hefur ýmislegt gengið á frá því ég settist niður síðast til að skrifa línur á bloggið mitt. Háskólameistaramótið gekk ekki vel en það er nú allt í lagi, fyrir það mesta. Kristín útskrifaðist með pompi og prakt frá Princeton University og var útskriftin falleg en óskaplega löng og var útskriftarræða forseta skólans afar léleg, ég er meira að segja að hugsa um að skrifa bréf til skólastjórnar.

Það sem sett hefur þó mestan svip á líf okkar s.l. daga er slys sem Adam kærasti Kristínar lenti í nóttina fyrir útskrift. Hann datt niður af c.a. 5 metra háu þaki niður á stétt og braut á sér bakið. Hann mölbraut einn hryggjarlið og skaddaði alla vöðva, sinar og taugar í kring en kraftaverkið við það allt saman var að mænan er ósködduð. Það stakkst beinflís inní mænuna en sem betur fer þá fór breiðari endinn inn og náði ekki að skera mænuna. Hann var fluttur með sjúkraflugi hingað heim til Rochester og fór í uppskurð í gærkveldi sem gekk afar vel. Hann á að fá að standa í fæturna í dag. Hann vaknaði í morgun um klukkan 5 og byrjaði æfingar með því að leika sér með rúmið og lét það færa bakið upp og niður til að koma hreyfingu á það. 

Í dag er fyrsti dagurinn síðan slysið varð sem hér heyrist hlátur í húsi og það er hlegið oft og vel og læknavísindunum og þar með menntun og rannsóknum þakkaðar framfarir og fórnir margra.

Þetta slys breytti plönum okkar allra en vegna þess hversu góða vini Kristín á í Princeton þá gekk allt upp og fjöldi vina kom og hjálpaði við allt sem þurfti að gera svo Kristín og Adam gætu einbeitt sér að því að komast heim og í góðar hendur hér á Mayo Clinic.

miðvikudagur, maí 28, 2008

Þá er loksins komið á hreint að við verðum öll við útskriftina hennar Kristínar. Karólína fékk svar í morgun að hún kemst í burtu frá Duke í tvo daga í næstu viku. Útskriftin verður 3. júní og þar verðum við sumsé öll, Við Halli, Bjarni og Karólína, Nicole og Adam. Ég hlakka svo mikið til, þetta verður stórviðburður fjölskyldunnar í sumar...eða þangað til sá gamli heldur uppá öll 50 árin sín.

þriðjudagur, maí 27, 2008

Ég potaði sumarblómunum mínum niður í gær og brann all verulega á bakinu við það. Ég átti alls ekki von á að brenna, enda hefði ég borið á mig ef svo hefði verið, en það er enginn raki í loftinu og því sólin sterk og miskunnarlaus. Í dag var kalt, ekki nema 15 stiga hiti svo ekki freistaði sólbekkurinn mín í hádeginu, enda eins gott því sólin má ekki skína á mig næstu daga. Ég er að fara til Kaliforníu á fimmtudaginn og nú er veðurspáin voðalega girnileg ekki nema 25-30 stiga hiti og sól og ég verð útivið stóran hluta dagsins og þá er víst eins gott að ég maki á mig sólvörn. Annars þarf ég voðalega lítið af sólvörn til þess að hún virki. SPF 4 er mjög góð vörn og ég fæ ekki einu sinni lit ef ég nota SPF 8, það er bara slæmt ef ég ber ekkert á mig. Þá fyrst brennur mín ljósa húð. 

Ég þarf að bæta við sumarkjóla kostinn minn því ég þarf a.m.k. tvo kjóla fyrir útskriftina því það er veisla daginn áður, svo er útskrift og veisla um kvöldið og það væri nú þvílíkt hneyksli ef ég mætti í sama kjólnum oftar en einu sinni!!! Ég á voðalega lítið af fínum sumarkjólum því allir þeir eldri eru alltof stórir og ég hef bara keypt einn þetta vorið og engan í fyrra. Ég þarf því að fara í innkaupaleiðangur á morgun, eitthvað sem mér finnst ekki skemmtilegt. 

mánudagur, maí 26, 2008

Kristín og kjóllinn


Kristín og kjóllinn
Originally uploaded by Kata hugsar
Mér finnst kjóllinn alveg æðislegur! Hann klæðir hana svo vel.

Kristín og kjóllinn


Kristín og kjóllinn
Originally uploaded by Kata hugsar
Kristín keypti sér útskriftarkjól í gær, mér til mikilar gleði því þá er það búið, nóg er nú samt sem þarf að gera.
Ég hef litla, iðna, skemmtilega, og eins árs "dömu" hjá mér í heimsókn. Hún spjallar útí eitt og ég skil ekki orð enda svo sem engin orð að skilja, það koma bara hljóð eins og heilar setningar. Svo er greinilegt að það eru lesnar fyrir hana dýrabækur því ef hún sér bók þá fer hún að herma eftir dýrahljóðum. Það verður reyndar seint um hana sagt að hún sé dömuleg. Pabbi hennar sér að mestu um uppeldið á meðan mamma hennar er að læra að verða heila-skurðlæknir og hann er ekki mjög penn og sér lítinn tilgang í punti og prjáli. Sú stutta, Annika, er oft hálf nakin því hann nennir ekki að skipta alltaf um föt á slefandi barni, það er svo miklu einfaldara að bara þurrka bringuna. Það er yndislegt að hafa svona lítið mannfólk í húsinu, við tvö þessi gömlu dinglum hér innanhús annars en núna er kall minn að hlaupa með pabbanum og við kvenfólkið njótum morgunsins hér innivið.

miðvikudagur, maí 21, 2008

Ég er að velta fyrir mér að hætta að borða kjöt, allavega rautt kjöt. Svo langar mig að prófa að fara í gegnum þriggja vikna hreinsun, nei ekki með stólpípuaðferðinni, heldur með því að borða eingöngu fábreytta fæðu sem ekki inniheldur kjöt, hvítt brauð eða mjólkurmat, ekki kaffi eða gos, ekki súkkulaði eða annað sætt, bara voða eitthvað heilbrigt og einfalt. 

Ég er enn að velta þessu fyrir mér.

þriðjudagur, maí 20, 2008

Við komum heim klukkan 2 s.l. nótt gersamlega útkeyrð. Við vorum á útopnu frá morgni til kvölds frá föstudagsmorgni klukkan 3 þegar við vöknuðum þangað til við komum heim í nótt. Það var vaknað klukkan 5-6 alla morgna og ekki komið á hótel aftur fyrr en seint á kvöldin. Það var ofsalega gaman. 

Karólínu gekk ágætlega, hún bætti sig í það heila en var ekkert voðalega ánægð með nokkrar greinar en það verður að hafa í huga að það er ekki nema eitt ár síðan hún var skorin upp á fæti og endurhæfingin gekk mun hægar en vonast hafði verið til. Þjálfararnir voru mjög ánægðir svo hún ætti að vera það. Keppnisskapið í henni krefst meiri árangurs.

Kristín var mjög óhress því þær urðu í 3ja sæti henni til mikilla vonbrigða. Svona er líf íþróttamannsins, ekki alltaf dans á rósum og eingöngu þegar liðin eru alger undantekning eins og fyrir tveim árum þegar allt vannst er ekkert um lægðir, alltaf allt á háum tindi sigurvímunnar.

miðvikudagur, maí 14, 2008

Duke Chapel


Duke Chapel
Originally uploaded by Kata hugsar
Þessar myndir voru teknar í Duke um daginn í fallega veðrinu. Það var fátt á campus enda vorönnin búin og sumarönnin ekki byrjuð.

Duke 5. maí 2008


Duke 5. maí 2008
Originally uploaded by Kata hugsar

Lífið er eitthvað voðalega litlaust þessa dagana, þ.e.a.s. ég og minn heili. Ég les og skrifa 8-3 og stundum til 4 ef vel gengur eins og í gær. Svo er það ræktin, kvöldmatur, og kannski heimsóknir ef vel vill annars erum við hérna heimavið. Við fáum smá lit í lífið um helgina þá förum við til Princeton að horfa á báðar stelpurnar. Karólína keppir í sinni sjöþraut á föstudag og laugardag og Kristín í róðri á sunnudag. Svo ætlum við að njóta New York borgar á mánudaginn áður en við leggjum í hann heim á kornakrana í mið-vestrinu. Kristín er voðalega hljóð með hvers hún væntir á sunnudaginn en hún segir allavega að þetta verði mjög spennandi. Þær eru búnar að tapa einni keppni í vor, á móti Yale, en Yale tapaði fyrir Brown, sem Princeton vann auðveldlega, svo það er aldrei að vita hvað gerist segir hún. Þegar hún leggur í hann á hótelið á föstudagskvöldið verður hún búin með Princeton, síðasta prófið er þá um kvöldið. 

Ja hérna hér.

laugardagur, maí 10, 2008

Það er kalt núna í morgunsárið, ekki nema 10 stiga hiti og það fer kannski í 15 í dag ef vel gengur en það  á að rigna. Ég ætlaði að eyða helginni í að hreinsa til í garðinum mínum því hér bíður allt draslið eftir mér, en kannski fer ég eftir hádegi ef hann rignir ekki alltof mikið, eða kannski bíð ég til morguns þegar hann á að stytta upp og hlýna. Ég klára þetta náttúrulega ekki á einum degi, ég þarf nokkra daga til að hreinsa enda lóðin hátt í einn hektari, sem betur fer er stærsti hlutinn skógi vaxinn en stórt er samt svæðið sem þarf að hreinsa, sérstaklega þegar ég horfi út!

fimmtudagur, maí 08, 2008

Tvítug blómarós


Tvítug blómarós
Originally uploaded by Kata hugsar
Það þurfti náttúrulega að taka við afmælisóskum frá vinum nær og fjær. Abby Buchhalter var á línunni þegar þessi mynd var tekin.

Með mömmu og pabba í afmælisboði


Mikið lifandi skelfing sem það er gott að heimsækja börnin. Við vorum í Norður-Karólínu um helgina og þar var sól, 28 stiga hiti og enginn raki alla dagana. Himnaríki á jörð. Það er svo óskaplega fallegt þarna og við skemmtum okkur vel í faðmi dótturinnar og héldum uppá tvítugs afmæli örverpisins. Við upplífðum reyndar að vera hóteli sem ekki er með þráðlausa nettengingu og á fyrsta herberginu sem við vorum í var ekki einu sinni línutenging og að auki var ekkert farsímasamband. Við höfum verið þarna áður en þá hljótum við að hafa verið heppin því allavega þá minnist ég þess ekki að vandræði hafi verið með farsímasamband. Eftir fyrstu nóttina fengum við nýtt herbergi og þar var línutenging og örlítið skárra farsímasamband en ekki var það gott. Starfsfólkið sagði okkur að það væru vandræði með farsímasamband í hverfinu, ég á erfitt með trúa því, það er ekkert að sambandinu á Duke kampusnum sem er innan við einn kílómetra frá hótelinu. Við erum orðin svo háð farsímum og nettengingum að það er hið versta mál að geta ekki haft samband við umheiminn þegar þarf. Karólína fær öll sín skilaboð frá skólanum og kennurum í gegnum tölvupóst og allir vinirnir hringja í farsímann svo þetta var hálfgert brölt að skipuleggja fundi og annað. Við verðum væntanlega ekki þarna aftur!

föstudagur, maí 02, 2008

Það er eins og venjulega þegar börnin eru fyrirliðar þá þýðir það að foreldrarnir eru það líka. Princeton keppir á tveimur stórum mótum á vorin; Eastern Sprints og svo háskólameistaramótinu. Sprints eru á Cooper River í  Camden New Jersey rétt hinu megin við ána frá Philadelphia og það er stutt að fara frá campus sem er eins gott því venjan er, og það er venja sem er tugi eða jafnvel hundruð ára gömul, að liðið er með tjald allt merkt Princeton crew í bak og fyrir og svo er matur fyrir alla, allan daginn. Þetta er ég að skipuleggja þessa dagana og það fyrir fólk sem er ofurskipulagt sjálft og því er mikil pressa að gera þetta FULLKOMIÐ. Það hefur verið það hingað til svo  það er eins gott að standardinn lækki ekki á minni vakt. Karólína er að keppa í Princeton þessa sömu helgi svo við höfum ekki tíma til að gera mikið á laugardeginum svo allt verður að vera skipulagt í smáatriðum áður en að helginni kemur. Það hefst. Annars förum við til North Carolina á morgun og þar er spáð sól og 28 stiga hita, ahhhh það verður gott.

fimmtudagur, maí 01, 2008

Voðalega sem þessi tími líður hratt. Karólína var að klára vorönnina í Duke í gær og er þá hálfnuð með BA námið og Kristín er í síðasta tímanum sínum í Princeton því hún klárar BA í júní. Bjarni er kominn í háskóla aftur og er núna í University of Minnesota, skóli mömmu hans og pabba og okkur til mikillar gleði, og ætlar að klára þetta eina og hálfa ár sem hann á eftir. Ekki það að mér finnist ég vera gömul, ó nei, nei, nei, ég tók t.d. real-age prófið og það segir mér að líkaminn sé 38 ára. Ég er náttúrulega ánægð með það því það er tekið inní allt milli himins og jarðar svo sem, hreyfing, þyngd, mataræði, ættarsaga, heilsa, vinskapur, o.s.frv. Ekki það að ég vilji verða ung aftur, ég er afskaplega ánægð með lífið eins og það er og þar sem ég er en það er á svona stundum þegar börnin ná mikilvægum áföngum að ég lít til baka. Mér finnst afskaplega gaman að lifa og reyni að halda góðu sambandi við allt og alla, það hefur ekkert farið fram hjá mér hvað það er mannskemmandi að vera langrækinn og "hata" einhvern. Það sama gildir um fýluna, það er voðalega leiðinlegt að fara í fýlu því það er svo mikil vanlíðan sem fylgir henni. Hún er langverst fyrir mann sjálfan og étur mann upp til agna. Er ekki Pollýönnu leiðin svo miklu betri og skemmtilegri?

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Lítið að frétta af vesturvígstöðunum. Ég sit við að skrifa og það gengur furðu vel og Halli vinnu mikið eins og svo oft áður, það eru alltaf 11-15 tíma vinnudagar hjá honum. Ég nenni nú ekki að vinna svona mikið og finnst skrif í 7 tíma á dag vera alveg nóg. Og það eru reyndar ekki samfelld skrif, ég geri allan fjandann á meðan, en þetta potast sumsé allt saman.

mánudagur, apríl 28, 2008

Það hefur tekið mig óvenju langan tíma að jafna mig á jet laginu. Það var eiginlega ekki fyrr en á fimmtudag sem mér fannst ég vera svona nokkuð "eðlileg", hvað sem það nú er. Mér fannst þetta alltaf alveg vera að koma en ég bara var eins og drusla snemma kvölds og gat varla haldið mér vakandi til 10 á kvöldin og var vöknuð fyrir 5 alla morgna. Nú er þetta komið. Mér tókst að vera voða dugleg að skrifa alla síðustu viku og þá er bara að vona að framhald verði á og að mér takist að ná markinu um skrif lok fyrir lok júní og Íslandsferð í júlí. 

Veðrið er búið að vera allavega, það fór best í 25 stig og sól í nokkra daga en svo kom laugardagurinn með frostmorgni og snjókomu seinnipartinn, svo sem ekkert sem festist en kalt var það. Nú fer hann að hlýna aftur og fer að nálgast 20 stigin seinni hluta vikunnar. Þá förum við Halli til North-Carolina í heimsókn til örverpisins en hún verður tvítug á mánudaginn.  Þar er spáð 30 stigum um helgina!