föstudagur, júní 30, 2006

Klípupróf í gær. Það gekk vel, eða þannig. Ég hef ekki minnkað mikið síðan síðast, bara voðalega lítið, en stækkað hef ég ekki, og það er hið besta mál. Þegar ferðalögum linnir og rútína hversdagsins tekur við síðsumars þá tek ég mér tak aftur og tíni af þessu síðustu 10 kíló eða svo. Það er reyndar miklu skemmtilgra að mæla vigt í pundum því einingin er miklu minni en kíló en aftur á móti er miklu skemmtilegra að fá niðurstöður klípuprófs í sentimetrum en tommum, af sömu ástæðu. Reyndar skiptir það ekki máli hvað tölurnar sýna allt er þetta víst einn og sami líkaminn og hann er mín eign og það er víst enginn annar en ég sem um hann á að hugsa og bera ábyrgð á.

Til Íslands á morgun!!!!!!!!!

þriðjudagur, júní 27, 2006

Þar sem ég hef skrifað um fegurðina hérna hjá mér þá gekk ég hér útfyrir mínar dyr og tók myndir af húsinu og vesturhluta lóðarinnar í eftirmiðdagssólinni í dag.

Heima á Westwood Court


Heima á Westwood Court, originally uploaded by Kata hugsar.

heima


heima, originally uploaded by Kata hugsar.

mánudagur, júní 26, 2006

Þessa vikuna þarf ég að undirbúa brottför til Íslands. Ekki að það sé svo mikið verk, við höfum áður farið til Íslands :o ! og það í lengri ferð en þessar litlu tvær vikur sem ég verð í burtu í þetta skiptið. Halli er í Portúgal og við hittumst á Íslandi á sunnudaginn en Karólína og Becky vinkona hennar ferðast til Íslands með mér. Ég er farin að hlakka mikið til Íslandsferðarinnar, það er einhver Íslandslöngun í mér núna, ekki heimþrá en löngun eftir Lönguklöpp og fjölskyldunni. Sumarið hefur verið yndislegt fram að þessu og garðurinn minn í blóma og allt svo fallegt úti. Við Karólína vorum að tala um það í gærkveldi þegar við vorum að keyra hingað heim, innan hverfisins, að okkur þætti svo gaman að keyra hingað, og ekki er það síðra að ganga, það er svo falleg leiðin hingað heim; upp krókóttan, skógi vaxinn veg, kvöldsólin sendi geisla sína í gegnum trjágreinarnar og myndar röndótta, gulgræna birtu með rauðu ívafi, fuglarnir á fleygiferð; eldrauðir kardínálar, fagurbláir blue jays, skærgular finkur, appelsínugulir oreoles, og svo voru dádýrin og villtir kalkúnar á vappi og náttúrulega allir íkornarnir. Þetta er svo fallegt, og svo komum við á Lönguklöpp í næstu viku og sjáum fegurð sem er engu lík en af allt annarri ætt en fegurðin hér.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Voðalega verður tómlegt þegar svona margir hafa verið í húsinu og svo bara halda þeir til síns heima eins og ekkert sé. Ég sakna þess all verulega að hafa ekki fjölskylduna, og vinina, oftar hérna hjá mér. Það er svo gaman að hafa gott fólk í kringum sig. Hreint mannbætandi. Vonandi koma þau fljótt aftur, kannski í haust, hver veit.

miðvikudagur, júní 21, 2006

Mér finnst gaman að lifa. Það er svo ótalmargt áhugavert sem gerist í lífinu, skemmtilegt og leiðinlegt, fyndið og sorglegt, spennandi og dapurt, en áhugavert er það mest allt. Börnin mín eru náttúrulega óendanleg uppspretta allra þessara lýsingarorða, þau eru alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og spennandi mér oftast til gleði en stundum til armæðu og eitthvert orsakasamband er milli þeirra gerða og hnútanna sem myndast í maganum á mér reglulega. Þegar ég lít til baka þá er ég alveg viss um að allar mínar gerðir og ákvarðanir hafi verið skynsamlegar og teknar eftir ígrundun og yfirlegu yfir kostum og göllum, hættum, vandræðum og alltaf var tekið með í reikninginn hvað gæti gerst....................eða þannig. Það verður víst hver að fljúga eins og hann er fiðraður! Það er engin sérstök ástæða fyrir þessum hugleiðingum, ég geng í gegnum þetta ferli reglulega að reyna að taka sem allra minnst þátt í ákvörðunum barna minna, ég skal ræða málin ef þess er óskað og ég skal gefa ráð sé þess óskað en ég reyni að bjóða mína hjálp ekki fram nema eftir því sé sóst en drottinn minn hvað það getur verið erfitt að halda að sér höndunum. Kristín og Halli rifust/deildu/ræddu/töluðu um ákvarðanir og ferlið sem í það fer í gær. Þau voru nefnilega alls ekki sammála um Princeton og umsóknina þangað á sínum tíma. Hann var alfarið á móti því og hún stóð fast á sínu og það var stál í stál eins og oft er á milli þeirra. Hún komst inn og er afar ánægð og hann stoltur af sinni stelpu......en hvort hafði rétt fyrir sér er ekki á hreinu enda tíminn einn sem leiðir það í ljós eins og með svo margt.

mánudagur, júní 19, 2006

Það er heldur hljótt í húsinu núna eftir að hér hafi búið einar níu manneskjur síðustu tvær vikurnar og þá eru ekki taldir með vinir stelpnanna sem halda til hér meira og minna. Það var voðalega gaman að hafa Hranfnagilsfjölskylduna hérna og þetta gekk ótrúlega vel. Ofaná þetta þá héldum við 150 manna útskrifarveislu um síðustu helgi hér heima og ekki var það leiðinlegt að hafa fjölskyldumeðlimi á staðnum. Ég er hálf dösuð eftir þetta og var eins og stungin blaðra í gær, en Jóhannes litli lífgaði uppá tilveruna í gær því hann var hér nánast allan daginn. Veðrið var fyrir það mesta afskaplega gott þessar tvær vikur, nema um síðustu helgi þegar hitinn fór niður undir 15 gráðurnar en annars var þetta svona 25-33 stiga hiti og sól festa daga og nú er yndisleg veðurspá næstu dagana, 30-35 stig og sól og lítill raki, voðalega notalegt í alla staði.

miðvikudagur, júní 07, 2006

Húsið fullt af fólki núna, tvíburabróðir minn og hans fjölskylda í heimsókn og það er voðalega gaman að hafa þau hér. Halli kominn frá Spáni, Kristín komin í sumarfrí og Karólína útskrifuð. Útskriftarveisluna höldum við svo á sunnudaginn þegar stúlkutetrið verður viðlátið. Fyrst þarf hún að keppa á Fylkismeistaramótinu í frjálsum. Þar vann hún sér keppnisrétt í tveimur greinum, langstökki og 200 metra hlaupi og keppir í langstökki og undanrásum í 200m á föstudaginn og ef hún kemst í úrslit í 200m þá eru þau á laugardaginn. Það hefur verið heitt og gott síðustu vikurnar og þá sérstaklega síðustu dagana, þetta svona 27-34 stiga hiti og sól alla daga. Afskaplega notalegt veður og vonandi verður svona gott áfram. Karólína hefur unnið sér rétt að keppa í mótinu fjögur ár í röð og öll árin hefur verið ausandi rigning og kalt en nú lítur út fyrir rjómablíðu. Hún er sú eina af fjölskyldumeðlimunum sem þolir vel hitann og finnst reyndar voðalega gott að vera í miklum hita og því hentar þetta veðurfar þessa dagana henni vel.

laugardagur, júní 03, 2006

Honum leiddist aldrei í kulda og snjó

Þór


Thor, originally uploaded by Kata hugsar.

Það er stutt milli sorgar og gleði. Hann Þór okkar dó í gær, hann er búinn að vera hluti af fjölskyldunni síðan við fengum hann sex vikna gamlan haustið 1993. Stelpurnar muna ekki eftir sér án hans og við varla heldur. Hann er búinn að vera veikur allt síðasta árið og þá sérstaklega síðan um jól. Á fimmtudagskvöldið datt hann á eldhúsgólfið og gat ekki staðið upp í marga klukktíma og var mjög hræddur og leið mjög illa í alla staði bæði andlega og líkamlega. Þetta í viðbót við slæma gigt, hræðsluköst og magasár varð til þess að við létum svæfa hann í gær. Þetta var hræðilega erfitt en þetta gekk mjög fallega fyrir sig og hann sofnaði í fanginu á Kristínu með okkur mæðgurnar og vini Kristínar í kring. Halli er í Philadelphia og Bjarni komst ekki og þetta var erfitt fyrir þá ekki síður en okkur, en við gerðum þetta fyrir Þór, það var hræðilegt að horfa uppá dýrið þjást svona og sem betur fer þá gekk þetta mjög vel og gekk afskaplega fallega fyrir sig.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Okkur leiddist ekki eftir að keppnin var búin!

í gleðirússi


í gleðirússi, originally uploaded by Kata hugsar.