miðvikudagur, júní 21, 2006

Mér finnst gaman að lifa. Það er svo ótalmargt áhugavert sem gerist í lífinu, skemmtilegt og leiðinlegt, fyndið og sorglegt, spennandi og dapurt, en áhugavert er það mest allt. Börnin mín eru náttúrulega óendanleg uppspretta allra þessara lýsingarorða, þau eru alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og spennandi mér oftast til gleði en stundum til armæðu og eitthvert orsakasamband er milli þeirra gerða og hnútanna sem myndast í maganum á mér reglulega. Þegar ég lít til baka þá er ég alveg viss um að allar mínar gerðir og ákvarðanir hafi verið skynsamlegar og teknar eftir ígrundun og yfirlegu yfir kostum og göllum, hættum, vandræðum og alltaf var tekið með í reikninginn hvað gæti gerst....................eða þannig. Það verður víst hver að fljúga eins og hann er fiðraður! Það er engin sérstök ástæða fyrir þessum hugleiðingum, ég geng í gegnum þetta ferli reglulega að reyna að taka sem allra minnst þátt í ákvörðunum barna minna, ég skal ræða málin ef þess er óskað og ég skal gefa ráð sé þess óskað en ég reyni að bjóða mína hjálp ekki fram nema eftir því sé sóst en drottinn minn hvað það getur verið erfitt að halda að sér höndunum. Kristín og Halli rifust/deildu/ræddu/töluðu um ákvarðanir og ferlið sem í það fer í gær. Þau voru nefnilega alls ekki sammála um Princeton og umsóknina þangað á sínum tíma. Hann var alfarið á móti því og hún stóð fast á sínu og það var stál í stál eins og oft er á milli þeirra. Hún komst inn og er afar ánægð og hann stoltur af sinni stelpu......en hvort hafði rétt fyrir sér er ekki á hreinu enda tíminn einn sem leiðir það í ljós eins og með svo margt.

Engin ummæli: