fimmtudagur, maí 31, 2007

Hrafnagilsskóli fékk íslensku menntaverðlaunin 2007. Ekki slæmt það. Ég er alveg að rifna af monti yfir honum tvíburabróður mínum. Hann hefur unnið óskaplega mikið og gott starf og á þennan heiður fullkomlega skilinn.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Ég gerði fína ferð til Princeton um síðustu helgi. Kristín var að keppa í Eastern Sprints, eitt af tveimur stóru mótum ársins, og það var svo gaman að horfa á. Báturinn hennar varð númer 3 sem er lakara en í fyrra þegar þær unnu en mun betra en búast var við. Þetta er eins og með kosningarnar heima, það fer allt eftir því við hvað er miðað hvort vel gekk eða illa. Keppnistímabilið hefur verið erfitt og tilfinnangalega flókið svo þetta var hið besta mál. Stundum er þriðja sætið bara stórgott! Nú fer að styttast í sumardvöl þeirra skötuhjúa í Eyjafirðinum, þau eru voða spent og geta ekki beðið eftir að komast til Íslands. Það á að hlaupa og hjóla og ganga og láta öllum illum látum til að vera í fínu formi í Reykjavíkurmaraþoninu. Þá ætlar Halli að koma aftur til Íslands til að hlaupa með þeim. Meiri lætin alltaf í þessu fólki mínu. Það er annað en hún ég!

miðvikudagur, maí 09, 2007

Ég er búin að fara í ræktina tvo daga í röð og verið voða góð og gert lítið, svona miðað við síðustu vikur og mánuði. Í dag er óskapleg blíða og við Karólína keyptum sumarblóm í gær og í dag ætla ég að pota þeim niður og hreinsa til framan við hús. Það er víst eins gott að drekka nóg, mikill hiti og ég höfum aldrei verið góðir vinir, en nú verð ég víst að læra af reynslunni. Annað gengur víst ekki. Ég fór til læknis í gær í eftirlit og honum fannst þetta allt fremur fyndið, sérstaklega þar sem hann hleypur mikið og vildi læra sem mest af þessari reynslu minni. Það er bara allt í lagi með mig. Ég fæ enn smá ógleðisköst en ekkert meiriháttar og ég á fara mér hægt í ræktinni til að byrja með. Þetta "til að byrja með" er nú líklegast búið og ég get farið á fullt aftur....held ég.

mánudagur, maí 07, 2007

Það er voðalega gott að vera komin með eitt barn í hús aftur. Karólína mín er óskaplega dugleg en það kom sýking í sárið enda það innilokað í plasti stóran hluta sólarhringsins og hún á fleygiferð og svitnar og dregur eflaust allt mögulegt innað sári. Annars gengur þetta mjög vel, hún lék við hann Jóhannes úti í gær og það var handagangur í öskjunni eins og venjulega þegar þau tvö koma saman. Það virðist vera sem batinn verði skemmri en fyrst var haldið, hún fær allavega að losna við gifsið eftir þrjár vikur og svo má hún ekki byrja að hlaupa fyrr en í ágúst en við mæðgurnar förum haltrandi í ræktina í dag og verðum voða góðar og gerum lítið...

sunnudagur, maí 06, 2007

Afleiðingar heilahristingsins eru enn að hrjá mig. Ég fæ höfðuverk og ógleðisköst öðru hverju, en þeim fer fækkandi sem betur fer. Annars er þetta allt að koma marblettirnir eru smám saman að hverfa og ég er að ná fyrri afköstum. Þetta var annars bölvans vesen og ekki til eftirbreytni. Það mætti halda að konan vissi ekki hvernig ætti að æfa og hvaða afleiðingar vökvatap getur haft. Mér var litið uppí einn af eldhússkápunum mínum í dag og þar blasti við mér röð af vatnsbrúsum, mér taldist til að þeir væru 17, svo ekki hef ég afsökun fyrir að eiga ekki vatnsbrúsa til að grípa með mér í ræktina!

föstudagur, maí 04, 2007

Sumir dagar eru betri en aðrir dagar. Mánudagseftirmiðdagurinn var einn af þessum verri. Ég fór í ræktina mína eftir vinnu eins og ég sagði í síðustu skrifum. Ég gerði mínar venjulegu 50 mínútur á eliptical (cardio) og svo bætti ég við 30 mínútum á hjóli. Þetta er svona með því meira sem eg geri í cardio en ekkert mjög óvanalegt. Ég svitna alltaf mikið en þennan daginn var það óvenju slæmt. Ég fékk mér vatn að drekka á milli æfinga og fór svo strax að lyfta. Á þriðja tæki er magaæfing sem er gerð uppistandanadi með bönd yfir axlirnar sem síðan eru tengd í lóð í. Fór mér allt í einu að svima og varð afar óglatt og ég hætti og það síðasta sem ég man að ég hugsaði var að ég yrði að setjast. Ég náði því ekki, það steinleið yfir mig, ég datt fram fyrir mig með höfuðið fyrst í gólfið og datt svo illa að ég rotaðist. Það sá mig enginn nákvæmlega detta en það heyrðu það víst allir því ég datt á járnfestingar í gólfinu. Eitthvað hef ég rekist illa í á leiðinni niður því ég er marin og blá hægra- og vinstramegin, frá höfði að hnjám. það kom náttúrulega sjúkrabíll og lögga og því get ég lofað að ég hef ekki skammast mín svona mikið í fjölda mörg ár. Þetta var voðalega slæmt því þegar ég raknaði úr rotinu var fjöldi fólks í kringum mig, allir að spyrja mig spurninga sem ég náttúrulega gat ekki svarað. Ég fór á ER og ekki tók betra við því þar var hann Bo okkar á vakt (við erum svona foreldrar hér á staðnum, hann er giftur íslenskri konu og pabbi Jóhannesar og Haraldar) og svo annar íslensku læknanna sem hefur búið hjá okkur. Það hefði ekki verið leiðinlegt að hafa myndavél til að ná svipnum á þeim þegar mér var rúllað inn í hjólastól! Ég var send í allra handa tæki og tól til að skoða hausinn á mér, hann er hvorki betri né verri en áður, en svo var farið að velta fyrir sér ástæðum fallsins og þá byrjaði ballið því ég þurfti að vera inni á spítalanum yfir nótt til eftirlits og rannsókna. Þetta var nú ekki flóknara en svo að ég hafði ekki drukkið nóg og þegar ég byrjaði að hamast með magaæfingar uppistandandi þá tókst mér að stoppa allt blóðflæði til heilans og þar með steinleið yfir mig með þessum líka skemmtilegu afleiðingum. Það eina sem er sýnilegt er glóðarauga annað er falið hingað og þangað. Núna er ég í North-Carolina að hjálpa Karólínu að flytja heim aftur. Hún var skorið upp fyrir tveimur vikum (brotð bein í fæti...hún var úrbeinuð!) svo við erum hvor sem önnur, hún hökktandi í plastgifsi og ég eins og ég er.