föstudagur, ágúst 29, 2008

Mikið óskaplega var ræða Obama í gærkveldi flott. Ég á ekki til orð. Hann er mikill ræðumaður og það var svo margt gott í ræðunni. Hann var ekki bara að segja flott og innihaldslítil orð heldur sagði hann í smáatriðum frá áætlunum og hvernig hann ætlar sér að fjármagna þær. Ég var alveg heilluð. Mér fannst reyndar Hillary vera rosalega góð í fyrrakvöld og þau eru bæði góðir kostir í forsetann, en það er víst bara einn forseti í einu, allavega í þessu landi.

Annars er óskaveður úti. Það er ekki skýhnoðra að já, enginn raki, 11 stiga hiti núna klukkan 8:30 að morgni, og seinna í dag fer í 30 stig. Gerist ekki öllu betra á þessum tíma árs. Framundan er Labor Weekend, n.k. verslunarmannahelgi án hátíðahalda. Við förum til Minneapolis á morgun í veislu, gistum á Lake Minnetonka aðfaranótt sunnudagsins, og njótum svo bátalífs á sunnudaginn með vinum. Frí á mánudaginn og svo byrja skólarnir og þá finnst mér haustið fara að banka.

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Það er að koma brjálað þrumuveður og ég á von á rigningu mestn hluta dagsins. Það er hið besta mál, hér er allt skraufþurrt og náttúran þarf á bleytunni að halda. Klukkan er rúmlega átta að morgni og það er myrkur úti eins og um nótt væri. Það verður skrautlegt hér næsta klukkutímann eða svo. Ég sit innivið og skrifa og leiðrétti, leiðrétti og skrifa...og les Moggann.

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Ég var með kynningu á niðurstöðum úr verkefninu á Mayo sem ég hef verið að vinna að. Það gekk alveg ljómandi vel og nú er verið að undirbúa næstu kynningu sem verður 2. október. Það er fyrir stærri hóp en ég hafði í morgun.

Ég sit annars við að laga til Ritgerðina einu og sönnu. Eftir eins og hálfs mánaðar bið eftir ritgerðinni frá leiðbeinandanum mínum þá beið hún eftir mér þegar ég kom frá Íslandi í síðustu viku. Leiðbeinandinn getur bara unnið á prentað mál, ekkert tölvuvesen fyrir hana, og því þarf að senda ritgerðina fram og til baka. Ég hélt að þetta yrði miklu verra, það er þó nokkur vinna eftir en ekkert stórkostlegt að ég held.

Kannski ég klári þetta einhverntíma!

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Þá erum við Halli orðin ein í kotinu eina ferðina enn. Karólína er komin frá Ecuador og farin til Durham í skólann og Kristín og Adam flutt til New York. Það verður eitthvað um heimsóknir til okkar í haust en alls ekki nóg, við viljum gjarnan fá mikið af heimsóknum. Okkur finnst það ekki leiðinlegt. Við hjónin notuðum helgina til að róa okkur niður eftir annasamar vikur og fórum í ræktina saman í dag og í gær fór ég í ræktina og æfði í rúma tvo tíma og fór svo á sundlaugarbarm á eftir í klukkutíma. Halli fór út að hlaupa og svo í flugtíma seinnipartinn í fegurðinni sem hér er. Við vöknuðum náttúrulega klukkan 2:45 í morgun til þess að horfa á leikinn eina og sanna og það voru blendnar tilfinningar sem fylgdu úrslitunum. Mikið vill meira og að sjálfsögðu var sigur það eina sem kom til greina en þeir voru aldrei inní leiknum, Frakkarnir voru svo miklu betri í dag, en silfrið er ótrúlega góður árangur og ekkert nema gott um það að segja. Svona árangur skerpir all verulega á þjóðarstoltinu, það er svo miklu skemmtilega að vera Íslendingur þegar handboltalandsliðið fær silfur en Bandaríkjamaður þegar Michael Phelps vinnur átta gull, landslið kvenna í fótbolta vinnur gull, átta manna róðrarbáturinnn vinnur gull....

föstudagur, ágúst 22, 2008

Ég held svei mér þá að ég vakni klukkan 2:30 á sunnudagsmorguninn til þess að horfa á LEIKINN. Nú væri gaman að vera gamla góða Fróni!

laugardagur, ágúst 09, 2008

Kristín og Adam fluttu til New York í morgun. Þau eru keyrandi og það tekur þau um 20 tíma að ná áfangastað. Þau ætla að gista í Cleveland Ohio í nótt en þangað eru um 13 tímar og því verður morgundagurinn tiltölulega léttur. Karólína hefur það gott í Ecuador. Hún er komin til baka frá Amazon þar sem hún fór í langar gönguferðið mað leiðsögn. Fyrst að degi til og svo að kvöldi til að sjá allar pöddurnar sem koma út á nóttunni. Ég hlakka til að heyra allt um ferðina og sjá myndirnar. Þar sá hún tarantúlur á vappi og fannst það nú svona heldur óhugnanlegt. Þau fljúga svo til Galapagos í fyrramálið en gista svo á bát og fara frá eyju til eyju. Þetta verður æðislegt þegar hún er komin heim en hænumamman í mér er óróleg. Við mæðgunrar hittumst svo á flugvellinum í Minneapolis þegar ég kem frá Íslandi og hún frá Ecuador. Þá verður mín kona heima í tvo daga áður en haldið verður til Duke og þriðja árið þar.

sunnudagur, ágúst 03, 2008

laugardagur, ágúst 02, 2008

Það er hljótt í húsinu. Karólína er í Ecuador á þriggja vikna ferðalagi með Ed. Þau fara til Amazon á morgun og svo Galapagos eftir tvær vikur og svo ferðast þau um landið. Kristín er í vinnunni en hún og Adam flytja til New York eftir eina viku. Halli hefur verið á vakt síðan hann kom heim og sefur í sófanum hérna við hliðina á mér. Vaktin var mjög erfið og í viðbót við jet lag þá er hann útkeyrður. Hann ætlaði að fljúga núna seinni partinn en vélin var biluð og engin önnur var á jörðu niðri svo hann sofnaði á sófanum, og sefur enn tveimur tímum seinna. Það hefur verið frekar heitt síðan við komum heim, 30-35 gráður alla dagana og verður svona áfram. Þetta er ekkert voðalegt og mér finnst þetta bara tilheyra sumrinu. Mig er farið að langa í bátsferð og kannski komumst við í eina svoleiðis áður en Halli fer aftur til Íslands eftir tvær vikur. Eða þegar hann kemur aftur til baka og áður en við förum til New York. Hver veit.