fimmtudagur, mars 31, 2005

Framhaldssaga (2)

Karólína fór út í gær til að losa um stífluna, hún barðist um á hæl og hnakka í dágóða stund með dyggri hjálp móður sinnar. Náttúran hafði séð um að bræða hluta af klakanum en allt kom fyrir ekki, það var alveg sama hversu langt járnkallinn hvarf inn í ræsið, ekkert gerðist. Um þrjúleytið voru allar varúðartúður bæjarins settar á því það var von á hvirfilbyl. Það varð myrkur um miðjan dag, brjálað þrumuveður í hálftíma eða svo, og svo var allt búið, en enn var ræsið stíflað. Karólína var úti eftir kvöldmat og þá heyrðist kallað "mamma, það er komið flóð!" og viti menn, stíflan brast og tjörnin hvarf og eftir varð rotnunarlykt náttúrunnar.

miðvikudagur, mars 30, 2005

Verkvit

Það háttar þannig til hérna fyrir framan hús að það er ræsi undir innkeyrslunni. Þetta ágæta ræsi þjónar þeim tilgangi, eins og ræsa er siður, að taka afrennslið frá brekkunni hér fyrir ofan og flytja það án vandræða niður að læknum hér fyrir neðan okkur. Þetta ágæta ræsi stíflaðist í stórhríðinni miklu hér um daginn, fraus hreinlega fast, svo nú hefur myndast þessi líka tjörn fyrir sunnan innkeyrsluna. Á meðan ég var í burtu þá fylltist skurðurinn þannig að flæddi yfir innkeyrsluna og steinhleðslan mín og plönnturnar eru í hættu á að skolast í burtu í vorleysingunum mér til mikillar bölvunar. Þetta varð til þess að ég fór út í gær alvopnuð tólum og tækjum til að losa um stífluna. Með mér í för voru járnkall, skóflur, spaðar, sköfur og sjóðandi heitt vatn í könnum því ef vöðvaaflið hefði ekki dugað þá átti að nota eðlisfræðina og bræða klakafjandann í burtu. Við norðanvert ræsið var ennþá metersdjúpur snjór, þ.e. hálfur metri af snjó og hálfsmetra þykk klakahella undir. Ég byrjaði á því að moka snjónum ofan af og svo var þrautin þyngri að reyna að hitta á ræsið á réttum stað þvi allt umhverfis var undir klaka. Mér tókst nú að lokum að finna ræsið og þá var bara að brjóta, merja og lemja klakann þannig að á ynnist og afrennslið opnaðist. Eftir klukkutíma törn með verkfærunum þá var tekið til við bræðsluna en þar sem, eðli málsins samkvæmt, ræsið er háfgrafið og fullt af klaka þá er nú ekki vel gott að komst að klakanum sem innra er. Þá tók ég aftur til við að nota járnkallinn og komst einhverja sentimetra inná við. Ekkert gerðist. Ég lamdi járnkallinum hressilega inn þannig að hann festist og með "lagni" tókst mér að koma honum út aftur en þá læddist að mér sá grunur að ef mér tækist nú að opna fyrir gatið þá myndu allar flóðgáttir opnast og að ég myndi fljóta með niður að læk með klakahraungl sem lítt áreiðanlegan björgunarbát. Ég sá sjálfa mig fyrir mér baðandi út öllum öngum í leit að landföstu björgunartæki. Þetta fór meira og meira að líta út eins og sá sem sagar af trjágrein og situr á ytri endanum við verkið. Ég gekk því frá hálfkláruðu verki mér til mikillar armæðu, með lófana sundur rifna og blöðrur í öllum krikum.

Þegar ég vaknaði í morgun var mitt fyrsta verk að kíkja út til að sjá afraksturinn en ekkert hafði gerst, engar flóðgáttir opnast, og allt stíflað sem fyrr. Ég verð því að gera aðra atlögu í dag því það á vera þrumuveður seinnipartinn með tilheyrandi úrkomu.

þriðjudagur, mars 29, 2005

Roður

Þetta er mynd af róðarliðinu í Princeton rétt áður en þær komu í mark. Kristín er þriðja frá vinstri (í sæti 3). Henni er nánast aldrei kalt og því er hún ein af tveimur í samfestingnum einum fata. Hin stelpan sem það gerir er frá Vancouver í Kanada. Kristín fær að heyra það oft og iðulega að hún sé víst ábyggilega frá Íslandi og þrífist best í kulda. Ef þið viljið sjá fleiri myndir þá eru þær á http://homepage.mac.com/bjarn001/PhotoAlbum11.html

Rowing


Rowing, originally uploaded by Kata hugsar.

Ferð í austurátt

Mikið dásamlega höfðum við mæðgurnar það gott um helgina. New Jersey skartaði sínu fegursta á snemm-vori á laugardaginn og róðrarkeppnin var spennandi og skemmtileg sem endaði með sigri Princeton á erkifjandanum Brown. Þetta var hið mesta mál því Brown varð Ameríkumeistari í fyrra. Kristín var að sjálfsögðu í sjöunda himni með árangurinn og okkur Karólínu fannst voðalega gaman að vera hjá henni á þessum degi. Seinni hluta laugardagsins fórum við til New York í verslunarleiðangur og á sunnudaginn fórum við aftur en ekki til að versla, núna réð mamman ferðinni og hún neitaði að fara í búðir og því var gengið um Central Park, 5th Avenue, svo farið á Lower East Manahattan en þangað vil ég ekki fara nema í björtu, þetta var heldur skuggalegt hverfi. Í gær rigndi þessi lifandis ósköp, það var bara alls ekki hundi út sigandi, en Karólína fór að heimsækja yfirrþjálfarann í frjálsum í Princeton og skoðaði sig um og sá þessi ótrúlegu mannvirki sem þarna eru, mannvirki úti og inni sem eingöngu eru ætluð frjálsum. Eftir að hafa verið í bátahúsinu í Princeton (http://www.princeton.edu/~crew/facilities/index.html) þá er nú reyndar ekkert sem kemur manni á óvart þegar Princeton er annars vegar. Það var sem betur fer ekkert erfitt að kveðja Kristínu í gær og það var gott að koma heim í gærkveldi en nú er óvíst hvort við sjáum hana fyrr en í lok maí en svona er nú lífsins gangur, börn verða fullorðin og lifa sínu eigin lífi óháð því hvar foreldrana er að finna.

fimmtudagur, mars 24, 2005

Vangaveltur

Núna þegar Fischer er kominn til landsins sem íslenskur ríkisborgari og stuðningsmenn hans komnir í nostalgíutrip á Hótel Loftleiðum hvað verður gert næst? Fer maðurinn að vinna fyrir sér?

Páskafrí

Páskafrí er fyrirbæri sem finnst ekki hér. Karólína er í "spring break" í næstu viku og Kristín var það í síðustu viku svo báðar eru þær í skólanum alla þessa viku, Föstudaginn langa og alla hina með. Hér er því allt í sínum venjulega gír þessa vikuna enda þótt Karólína telji niður þangað til vorfríið byrjar, en það er nú bara á morgun svo allt er þetta að bresta á. Við mæðgur keyrum uppí Minneapolis strax eftir skóla á morgun og fljúgum svo til New Jersey rétt fyrir sjö. Halli verður heima með Þór. Halli vinnur alltof mikið, en það er nú ekkert nýtt, sumt breytist ekki og kemur aldrei til með að breytast, ég er fyrir löngu búin að sætta mig við það. Vinnan hans er hans aðal áhugamál, hann er ofvirkur og þetta tvennt saman þýðir náttúrulega bara það að hann vinnur öllum stundum, ýmist hér heima eða á Mayo. Hann ætlar reyndar að vera á Íslandi í þrjár vikur í sumar og það sem meira er, hann ætlar ekki að vinna!!!! Það verður spennandi að sjá hvernig honum líður þegar þær vikurnar eru afstaðnar. Kannski hann sjái að sér og átti sig á því að það er til líf utan spítalans.......það verður í nokkrar vikur en svo fer allt í sama farið aftur, en það er nú svo.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Væntumþykja

Í tilefni af skothríð í high-school hér í norður-Minnesota.

Too often we underestimate
the power of a touch, a smile,
a kind word, a listening ear,
an honest compliment,
or the smallest act of caring,
all of which have
the potential to turn a life around.

Við vanmetum svo oft
mátt þess að snerta, brosa,
hlusta,
segja hlýleg orð,
sýna hin minnstu merki um væntumþykju.
Allt gerðir sem hafa þann möguleika
að snúa lífi til betri vegar.

Páskamáltíð

Hér voru 14 manns í mat í gærkveldi. Allt Íslendingar nema einn Dani, hann Bo okkar. Þetta voru svona litlu páskarnir (sbr. litlu jólin), skinka, brúnaðar kartöflur og allt tilheyrandi (samt ekki Ora grænar). Ég verð ekki heima á Páskadag svo kall minn verður að éta sína páskamáltíð annarsstaðar, hjá Björgu og Bo, og þar sem það er þessi líka fjöldi af Löndum í bænum þá var það nú alveg tilvalið að safna þeim saman yfir mat og kaffi og halda uppá Páskana snemma. Við skemmtum okkar ljómandi, þetta var hress og skemmtilegur hópur af ekta Íslendingum úr öllum hliðum mannlífsins. Svoleiðis hópur er alltaf skemmtilegur, það er svo margt hægt að ræða. Það er merkilegt þetta fyrirbæri með Ora grænubaunirnar. Flestir okkar Íslendinga ólust upp við það að grænar baunir eigi að vera ljósgrágrænar, mjúkar, að detta í sundur, og bragðlitlar. Þegar þetta fyribæri er svo borið á borð fyrir þá sem alist hafa upp við ferskar baunir og heimasoðnar þá er alveg ljóst að Ora grænar eru nú kannski ekki toppurinn á grænubauna veröldinni. Flestum þeirra finnst þær vera ofsoðin kássa af sjálfdauðum baunum sem eiga ekkert skilt við ferskar baunir beint af plöntunni. Okkur finnst samt ennþá voðalega gott að fá Ora en við kunnum líka vel að meta hina gerðina, þessa fersku, og ekki eru strengjabaunir verri, en það er bara eitthvað alveg óaðskiljanlegt á milli hangikjöts og Ora, kótelettur í raspi og Ora, hryggur og Ora, og læri og Ora. Steikja kjöt í raspi geri ég orðið mjög sjaldan en það er alltaf jafn vinsælt með Ora grænum, rauðkáli, brúnuðum og rabarbarasultu. Eitt er það sem ég velti oft fyrir mér þegar ég lít yfir áhaldaskúffuna mína, hvað í veröldinni er buffhamar að gera innanum öll mín eldhústól? Þegar ég var að læra að elda þá var það hluti af eldamennsku á skornu kjöti að berja það sundur og saman með buffhamri, væntanlega til að gera það meyrara, en ég er hreint ekki viss. Ég hef ekki notað hamarinn í mörg herrans ár og ég hef ekki saknað þess að fá ekki barið meyrt kjöt, enda hefur kjötið verið ágætlega meyrt án barningsins.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Valdbeiting

Eitt af því sem angrar mig þessi lifandis ósköp þessa dagana er meðferðin á máli Terri Schiavo, vesalings konunni sem er mjög alvarlega heilasködduð og hefur ekki sýnt merki um meðvitund í fjölda ára. Konan var búin að vera gift í mörg ár þegar þetta gerðist, maðurinn hennar segir að hún hafi sagt það oft að hún myndi aldrei vilja láta halda í sér lífi með slöngum ef ljóst væri að hún yrði aldrei betri og það voru til og með nokkur vitni að þessum orðum hennar. Terri hafði haft tiltölulega lítið samband við fjölskyldu sína í einhver ár áður en hún fékk hjartastopp með þessum afleiðingum en samt sem áður þá fá foreldrar hennar og systkini að fara fyrir dómstóla og hvað eina til að breyta ákvörðun manns hennar og ganga gegn augljósum vilja hennar. Það er margt sem hefur verið alveg með ólíkindum í þessu máli og eitt af því er hversu mikil afskipti stjórnmálamenn hafa haft af þessu máli. Hvað í veröldinni kemur þetta stjórnmálum við? Hvað gefur stjórnmálamönnum siðferðilegt vald til að skipta sér af einkamálum fólks og ganga gegn vilja einstaklinga? Stjórnmálamenn eru kosnir til að vinna að löggjafarvaldinu, og það er jú ljóst að foreldrar og systkini fóru lagalegu leiðina til að halda lífinu í konunni, en það hefði átt að halda þessu innan veggja dómstólanna en alls ekki að fara á vettvang stjórnmála. Það var náttúrulega gert þangað til fylkisstjóri Florida (Jeb Bush) og forsetinn (George Bush) fóru að skipta sér af og misnota vald sitt all verulega. Þetta er eitt af verstu dæmum um misnotkun valds sem ég hef orðið vitni af lengi og er það þó ekki ósjaldan sem við verðum vitna af skrýtnum atriðum í valdboði stjórnmálanna hér vestanhafs. Það er eins og siðferðilegt vald og stjórnmálalegt vald sé óaðskiljanlegt og jafnvel eitt komi með hinu og að þetta tvennt fylgist að. Nú er ég búin að riðja þessu úr mér svo mál er að linni.

mánudagur, mars 21, 2005

Kvörtun!

Ég kvarta hér með upphátt og með hljóðum yfir því að Halur Húfubólguson skuli vera hættur að að blogga.

Jafndægur á vori

Vorkoman er með kaldasta móti þetta árið og jafndægur á vori birtist hér í formi mestu snjókomu sem sést hefur hér í fjölda ára. Þegar hríðinni slotaði á laugardagsmorgun þá höfðu komið hér tæpir 70 sentimetrar af jafnföllnum snjó, það er mikill snjór, enda tók það mig tæpa tvo tíma að moka hér frá með snjóblásaranum okkar sem er afar öflugur og það tekur mig oftast ekki nema svona hálftíma að hreinsa frá með honum. Snjórinn var það djúpur að ég þurfti að fara tvær umferðir yfir allt, efri og svo neðri, því þegar ég reyndi að taka allt í einni ferð þá hvarf blásarinn inní skaflinn. Þetta var betra en hin bestu átök í ræktinni, enda var ekki farið þangað á laugardaginn. Það hefði reyndar verið tilvalið að skreppa þangað í gær en fyrst var það skírn og veisla og svo matarboð um kvöldið og enn og aftur borðaði ég of mikið...og það tvisvar sama daginn, það veit ekki á gott enda er ég á leiðinni í tveggja tíma úthald í ræktinni. Það á að hlýna vel yfir frostmarkið í dag svo hér verða eflaust sundlaugar útum allan bæ seinni partinn því flest niðurföllin eru falin undir mannhæða háum ruðningum. Mér skilst að vorið sé á leiðinni en ekki fyrr en í næstu viku að einhverju viti, við Karólína ætlum að vera í Princeton hjá Kristínu yfir helgina og þar hefur verið hlýtt og það er spáð fínu veðri á laugardaginn þegar fyrsta róðrarkeppni ársins verður háð. Við hlökkum þessi lifandis ósköpin til, það verður gaman að sjá Kristínu og mjög gaman að horfa á róðurinn, þetta er svo falleg íþrótt en voðalega blekkjandi því þegar þessi mjóu, léttu bátar svífa yfir vatnið á flengingsferð þá lítur þetta út fyrir að vera svo átakalítið en þau fáu skipti sem ég hef róið þá hef ég verið nær dauða en lífi á eftir. Á páskadag ætlum við mæðgurnar til New York, spóka okkur í Central Park og njóta þess að vera saman.

vorkoman


vorkoman, originally uploaded by Kata hugsar.

föstudagur, mars 18, 2005

Vorkoma?

Þá hefur vetur kallinn haft yfirhöndina í bili, og ég sem sat úti í gær í þessum stól, las blaðið og naut vorblíðunnar. Nú er þessi árstíð sem ég líki við stríði á milli náttúruaflanna. Vetur konungur og sumarið eru að berjast um það hvor ætlar að ráða, og vegna þess að ég veit hver vinnur að lokum í þetta sinnið þá hef ég bara gaman af að fygjast með baráttunni. Stríðið sveiflast öfganna á milli hvort sem það er dagssveifla hitastigsins eða ástand ofankomunnar, ýmist er hún í fljótandi formi eða í snjókristöllum. Í gærmorgun var 12 stiga frost en 8 stiga hiti yfir daginn, í dag er sumsé kafaldssnjókoma en á að hlýna á sunnudaginn og rigna á mánudaginn. Það snjóaði um 30 sentímetra í nótt og á að snjóa annað eins í dag og kvöld, svo ætlar hann að gefa sig eftir það og áður en ég veit af verður kominn 30 stiga hiti.

Aftur vetur


Aftur vetur, originally uploaded by Kata hugsar.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Leyndarmálið

Það á að skíra hann Jóhannes Agnar Enemark Madsen til kristinnar trúar á sunnudaginn. Hann er stór og kraftmikill norrænn víkingur. Ég ætla að baka rúgbrauð, skinkuhorn og marengs fyrir veisluna, alvöru íslensk veisla skal það vera, nóg af mat og afgangar í viku hjá þeim Björgu og Bo. Það verða einhver ósköpin af Íslendingum í bænum og í veislunni, það gæti kannski farið vel á annan tuginn. Við eigum þessu ekki að venjast. Við þurfum væntanlega að passa okkur hvað við segjum og hvenær þegar við erum á rölti um bæinn. Eftir allan þennan tíma í útlöndum þá hættir manni til að tala íslensku á vitlausum stað og á vitlausum tíma og verða sér ævarandi til skammar. Við þurfum reyndar að vera afar varkár þá sjaldan sem við álpumst inní Mall of America, þar er alltaf fullt af Íslendingum. Þeir þekkjast á pokamagninu sem þeir burðast með. Í hvert sinn sem við förum inní eina af fimm Leyndarmáls búðunum (Victoria´s Secret) þá bregst það ekki að annað hvort eru Íslendingar þar eða að afgreiðslustúlkan þekkir eftirnafnið og segir undantekningalaust "there are a lot of Icelanders here today, they always shop soooooo much!" Ég forðast því Leyndarmálið í MoA. Oft og iðulega sitja nokkrir karlmenn á bekknum fyrir utan nærfatabúðina, hálfsofandi, og hafa greinilega lítinn áhuga á að fylgja spúsum sínum inní draumaveröldina. Þeir njóta þess væntanlega seinna en það er eitthvað svo dásamlega vandræðalegt að sjá karlmenn elta konur í Leyndarmálinu, þeir eru alltaf eitthvað hálfkindarlegir og vita ekki hvert skal líta og horfa því oft á tærnar á sér rjóðir í kinnum og skiptir þá litlu máli á hvaða aldri þeir eru. Ennþá verra er það þegar þeir eru einir að versla, þá er algjört bíó að fylgjast með, vandræðagangurinn er þvílíkur, enda eru þeir ekki þar til að kaupa full-size, hvít bómullarnærföt, heldur eitthvað mun efnisminna og meira spennandi.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Þetta er mynd af henni Karólínu á Listasögusafninu í Vínarborg. Hún var búin að fá nóg en það var ískalt úti, hríðarhraglandi og rok svo hún vildi helst ekki labba heim á hótel, sömuleið og þá sem við komum. Er hérna niðusokkin í kortið til að reyna að finna útúr lestarleiðum heim. Tókst ekki, því lestin í safnahverfið var lokuð, svo þá var bara að labba heim, með því skilyrði að komið yrði við á kaffihúsi á leiðinni í leit að heitu kakói, sem var gert með glöðu geði. Það er gott að hafa með fólk sem þorir að hugsa upphátt, okkur þessum eldri og ráðsettu fannst líka fjandi kalt en létum hana um að ráða ferðinni, vitandi það að kaffihús yrði fundið á leiðinni. Þeir sem vilja sjá fleiri myndir úr ferðinni geta litið á myndasíðuna okkar:
http://homepage.mac.com/bjarn001/PhotoAlbum10.html

Karolina


Karolina, originally uploaded by Kata hugsar.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Ferðalag

Þá erum við komin til baka eftir Evrópuhopp. Ég varð reyndar eftir á Íslandi þegar þau feðgin lögðu í hann. Það var yfirbókuð vélin svo ég bauð mig fram til að taka næstu vél, enda ekki á hraðferð hingað heim því ég þarf ekki að mæta í vinnu fyrr en seinna í vikunni. Fyrir ómakið fékk ég ókeypis flugmiða milli heimsálfa, ekki amalegt þar sem ég er á ferðinni oftar en flestir. Eitt sinn lýsti vinur okkar, góðskáld og skrásetjari frá Reyðarfirði, því þannig að þegar við hjónin ferðuðumst á milli Íslands og Minnesota þá notuðum við skiptimiða hvors annars, ekki fráleit lýsing það. Vínarborg er fín borg, voðalega fín, en mér fannst Prag skemmtilegri. Vín er annsi þung fyrir sextán ára ungling, jafnvel þó unglingurinn sé ljúfur og þægilegur í alla staði. Eftir að hafa gengið Vín þvera og endilanga í þrjá daga, farið á safn (eintala varð það að vera), Óperu (Leðurblökuna) þá vorum við mæðgur eiginlega búnar að fá nóg, kall minn var á fundum alla daga til hádegis svo við mæðgurnar gerðum þetta í bróðerni fram eftir degi og svo kom hann með í leiðangra seinni hluta dags. Við fengum kalt og napurt veður, hríðarhraglanda, rok (sumir kalla þetta golu, ekki við) svo það þurfti að haga seglum efir vindi og skoðunarferðum haldið innan þolanlegra veðurmarka. Við notuðum okkur hin ótalmörgu kaffihús borgarinnar oft og iðulega, eitt af því sem okkur finnst hvað skemmtilegast að gera á ferðalögum, sitja yfir kaffibolla og horfa á mannlífið. Svo keyrðum við til Prag, fyrst í gegnum sveitirnar þar sem eldgamlir Skódar og pólskir Fíatar lifðu enn nothæfu lífi, gegnumriðgaðir bílar heima við hvert hús og á hverjum akri og ekki mikil efni eða metnað að sjá. Þegar við keyrðum inní Prag var eins og við kæmum inní annan heim, vestræn ljósaskilti á fallegum húsum í neo-klassískum stíl, höfðinglegar byggingar og list af öllu tagi hvert sem litið var. Götur iðandi af lífi og athafnasamt fólk við iðju sína, vigerðir allsstaðar, þrifalegt og snyrtilegt allstaðar. Gyðingahverfið fannst mér það áhugaverðasta, bæði ofsóknarsaga gyðinga og svo athafnasaga þeirra. Svo fórum við á mjög athyglisverða sýningu um sögu kommúnismans og áhrifa hans á sögu, þróun, menningu og hugarfar Tjékka. Ísland tók svo við okkur baðað í sól, en þetta var svona gluggaveður þar sem kuldaboli var í öllum krókum og kimum utandyra, hafði lag á að troða sér innundir hvar sem op var að finna. Okkur tókst reyndar að fara á göngutúr á Ægisíðunni í sólsetrinu fyrsta daginn, áður en kuldinn varð allsráðandi, og ekki var það dónalegt. Á sunnudagskvöldið fór ég svo á sérdeilis skemmtilegt leikrit í Borgarleikhúsinu, Híbýli Vindanna. Efnið er mér náttúrulega skilt, en mér fannst svo gaman að sjá hversu vel þeim tekst að segja þessa flóknu sögu á einfaldan og áhrifamikinn hátt. Leikhús er svo óskaplega skemmtilegt þegar svona vel er gert. Nú bíða eftir mér hrúgur af þvotti svo það er eins gott að byrja á þeirri fyrstu og sjá hversu langt ég kemst.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Ferðalag

Þá eru það flugvellir, flugvélamatur, bið, svefn í flugvél, og endalausir flugstöðvagangar sem bíða okkar næsta sólarhringinn. Keyra til Minneapolis seinni partinn í dag einn og hálfur tími, tveggja tíma bið á flugvellinum, til Íslands sex tíma flug, stopp þar í klukkutíma eða svo, til Köben tæplega þriggja tíma flug, bíða þar í þrjá tíma, svo til Vínarborgar eins og hálfs tíma flug. Loksins komið á hótelið rétt fyrir kvöldmat á föstudaginn, langt ferðalag. Vonandi gengur allt upp og við lendum ekki í vandræðum vegna bilana, frestana og annars þess háttar. Það er með því leiðinlegra sem ég veit, vitandi það að ég get engu um það ráðið, ekki vil ég fljúga í bilaðri vél eða vitlausu veðri, ég reyni því að taka þess háttar með stóískri ró, það tekst alltaf, enda hinn möguleikinn heldur leiðinlegur. Á leiðinni til baka þá verður þetta allavega brotið upp með tveggja daga stoppi á Íslandinu. Það verður gott að sitja á Kvisthaganum yfir kaffibolla, nýju brauði og Mogga, horfa út yfir Ægissíðuna, njóta þess að vera Heima. Því miður komumst við ekki á Lönguklöppina okkar í þessari ferð, of stutt stopp til að þeytast norður, nema Halli verði viðþolslaus og verði að sjá Klöppina, það væri alveg eftir honum. Ofvirkur maður. Í sumar verðum við Karólína á Íslandi í sex vikur, ég hef ekki verið svo lengi á landinu í einu síðan við fluttum til Noregs fyrir 18 árum síðan. Ég er farin að hlakka ótrúlega mikið til. Ég hlakka líka mikið til að koma til Vínar, þangað hef ég aldrei komið og ekki heldur til Prag, en þangað ætlum við í næstu viku. Það er svo gaman að ferðast, það er bara þetta transport fram og til baka sem er heldur leiðinlegt en hjá því verður víst ekki komist, það hangir víst allt á sömu spýtunni. Jet-lag er líka voðalega leiðinlegt fyrirbæri, annað sem ég fæ engu um breytt og tek því líka eins og öllu öðru sem ég ekki fæ breytt......bý mig undir það versta en vona það besta. Ég hef ferðast óvenju lítið síðan í haust þegar við fórum til Frakklands. Bara stuttar ferðir innanlands, en nú verður breyting á, í viðbót við þessa ferð þá kemst ég væntanlega til Íslands aftur í maí á leið til eða frá Noregi.

Ég veit ekki hvort ég hef aðgang að netinu á ferðalaginu og því er óvíst með blogg næstu tíu dagana.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Dansiball

Við hjónin fórum á salsa dansleik á laugardagskvöldið var. Það var óskaplega gaman. Þetta var haldið heima hjá vinum okkar sem eru frá Puerto Rico. Þar voru 60 manns og all flestir frá mið- og suður Ameríku og því salsa dans þeim flestum í blóð borinn, enda var dansað og skemmt sér fram á nótt. Þetta var mjög óvenjulegt partý hér í Rochester þar sem öll heimboð og veislur einkennast af tiltölulega rólegum, yfirveguðum samræðum, afar siviliserað og kurteist. Nema þegar við erum á staðnum, þá er mjög oft grínast og strítt, sagðar gamansögur, jafnvel kvartað yfir hávaða á næstu borðum. Sérstaklega þegar Halli er með góðum vinum, þá er allt á útopnu, hávaði og læti og hleigið óskaplega. Í boðskortinu var fólk varað við að þetta yrði ekki afslappað boð, tónlistin yrði á hæsta, það yrði mikið dansað og drukkið. Enda voru þau hjónin með þrjá atvinnu barþjóna sem ekki áttu kyrra stund allt kvöldið. Það gekk eftir, suður-amerísk danstónlist á fullu allt kvöldið og við dönsuðum eins og við ættum lífið að leysa. það er ekki endilega víst að okkar dansaðferð geti flokkast undir salsadans en við reyndum og okkur var kennt, en það þarf meira en nokkurra mínútna kennslustund til að kenna gömlum hundum að sitja svo við reyndum að gera bara eins og hinir. Karólína fór með móður sína að versla fyrr um daginn, því eftir skoðun í fataskápnum þá komst hún að þeirri niðurstöðu að þar var ekkert sem gæti flokkast undir salsadansföt, "not even close", svo ég endaði með svart og hvítt doppótt pils úr þunnu silki, eplagrænan bol og svo háhæla bandaskó í láni úr skápnum hennar.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Þetta er stjörnuspá Moggans fyrir mig og aðrar meyjar í dag :
Fólk ætti að fara að þér með gát í dag. Þú meinar það sem þú segir og segir það sem þú meinar. Skoðanir þínar eru sterkar um þessar mundir. (Eins og það hafi farið framhjá einhverjum.)

Þeir sem mig þekkja vita að þetta gæti verið stjörnuspáin mín alla daga ársins, en þar sem ég trúi ekki á stjörnuspár þá er þetta náttúrulega bara grín! Til vonar og vara þá ætla ég að passa mig í dag, verst að ég er að fara í verslunarleiðangur í outlet mollið í dag, eins gott að fara varlega.