miðvikudagur, mars 23, 2005

Páskamáltíð

Hér voru 14 manns í mat í gærkveldi. Allt Íslendingar nema einn Dani, hann Bo okkar. Þetta voru svona litlu páskarnir (sbr. litlu jólin), skinka, brúnaðar kartöflur og allt tilheyrandi (samt ekki Ora grænar). Ég verð ekki heima á Páskadag svo kall minn verður að éta sína páskamáltíð annarsstaðar, hjá Björgu og Bo, og þar sem það er þessi líka fjöldi af Löndum í bænum þá var það nú alveg tilvalið að safna þeim saman yfir mat og kaffi og halda uppá Páskana snemma. Við skemmtum okkar ljómandi, þetta var hress og skemmtilegur hópur af ekta Íslendingum úr öllum hliðum mannlífsins. Svoleiðis hópur er alltaf skemmtilegur, það er svo margt hægt að ræða. Það er merkilegt þetta fyrirbæri með Ora grænubaunirnar. Flestir okkar Íslendinga ólust upp við það að grænar baunir eigi að vera ljósgrágrænar, mjúkar, að detta í sundur, og bragðlitlar. Þegar þetta fyribæri er svo borið á borð fyrir þá sem alist hafa upp við ferskar baunir og heimasoðnar þá er alveg ljóst að Ora grænar eru nú kannski ekki toppurinn á grænubauna veröldinni. Flestum þeirra finnst þær vera ofsoðin kássa af sjálfdauðum baunum sem eiga ekkert skilt við ferskar baunir beint af plöntunni. Okkur finnst samt ennþá voðalega gott að fá Ora en við kunnum líka vel að meta hina gerðina, þessa fersku, og ekki eru strengjabaunir verri, en það er bara eitthvað alveg óaðskiljanlegt á milli hangikjöts og Ora, kótelettur í raspi og Ora, hryggur og Ora, og læri og Ora. Steikja kjöt í raspi geri ég orðið mjög sjaldan en það er alltaf jafn vinsælt með Ora grænum, rauðkáli, brúnuðum og rabarbarasultu. Eitt er það sem ég velti oft fyrir mér þegar ég lít yfir áhaldaskúffuna mína, hvað í veröldinni er buffhamar að gera innanum öll mín eldhústól? Þegar ég var að læra að elda þá var það hluti af eldamennsku á skornu kjöti að berja það sundur og saman með buffhamri, væntanlega til að gera það meyrara, en ég er hreint ekki viss. Ég hef ekki notað hamarinn í mörg herrans ár og ég hef ekki saknað þess að fá ekki barið meyrt kjöt, enda hefur kjötið verið ágætlega meyrt án barningsins.

Engin ummæli: