þriðjudagur, mars 22, 2005

Valdbeiting

Eitt af því sem angrar mig þessi lifandis ósköp þessa dagana er meðferðin á máli Terri Schiavo, vesalings konunni sem er mjög alvarlega heilasködduð og hefur ekki sýnt merki um meðvitund í fjölda ára. Konan var búin að vera gift í mörg ár þegar þetta gerðist, maðurinn hennar segir að hún hafi sagt það oft að hún myndi aldrei vilja láta halda í sér lífi með slöngum ef ljóst væri að hún yrði aldrei betri og það voru til og með nokkur vitni að þessum orðum hennar. Terri hafði haft tiltölulega lítið samband við fjölskyldu sína í einhver ár áður en hún fékk hjartastopp með þessum afleiðingum en samt sem áður þá fá foreldrar hennar og systkini að fara fyrir dómstóla og hvað eina til að breyta ákvörðun manns hennar og ganga gegn augljósum vilja hennar. Það er margt sem hefur verið alveg með ólíkindum í þessu máli og eitt af því er hversu mikil afskipti stjórnmálamenn hafa haft af þessu máli. Hvað í veröldinni kemur þetta stjórnmálum við? Hvað gefur stjórnmálamönnum siðferðilegt vald til að skipta sér af einkamálum fólks og ganga gegn vilja einstaklinga? Stjórnmálamenn eru kosnir til að vinna að löggjafarvaldinu, og það er jú ljóst að foreldrar og systkini fóru lagalegu leiðina til að halda lífinu í konunni, en það hefði átt að halda þessu innan veggja dómstólanna en alls ekki að fara á vettvang stjórnmála. Það var náttúrulega gert þangað til fylkisstjóri Florida (Jeb Bush) og forsetinn (George Bush) fóru að skipta sér af og misnota vald sitt all verulega. Þetta er eitt af verstu dæmum um misnotkun valds sem ég hef orðið vitni af lengi og er það þó ekki ósjaldan sem við verðum vitna af skrýtnum atriðum í valdboði stjórnmálanna hér vestanhafs. Það er eins og siðferðilegt vald og stjórnmálalegt vald sé óaðskiljanlegt og jafnvel eitt komi með hinu og að þetta tvennt fylgist að. Nú er ég búin að riðja þessu úr mér svo mál er að linni.

Engin ummæli: