mánudagur, mars 21, 2005
Jafndægur á vori
Vorkoman er með kaldasta móti þetta árið og jafndægur á vori birtist hér í formi mestu snjókomu sem sést hefur hér í fjölda ára. Þegar hríðinni slotaði á laugardagsmorgun þá höfðu komið hér tæpir 70 sentimetrar af jafnföllnum snjó, það er mikill snjór, enda tók það mig tæpa tvo tíma að moka hér frá með snjóblásaranum okkar sem er afar öflugur og það tekur mig oftast ekki nema svona hálftíma að hreinsa frá með honum. Snjórinn var það djúpur að ég þurfti að fara tvær umferðir yfir allt, efri og svo neðri, því þegar ég reyndi að taka allt í einni ferð þá hvarf blásarinn inní skaflinn. Þetta var betra en hin bestu átök í ræktinni, enda var ekki farið þangað á laugardaginn. Það hefði reyndar verið tilvalið að skreppa þangað í gær en fyrst var það skírn og veisla og svo matarboð um kvöldið og enn og aftur borðaði ég of mikið...og það tvisvar sama daginn, það veit ekki á gott enda er ég á leiðinni í tveggja tíma úthald í ræktinni. Það á að hlýna vel yfir frostmarkið í dag svo hér verða eflaust sundlaugar útum allan bæ seinni partinn því flest niðurföllin eru falin undir mannhæða háum ruðningum. Mér skilst að vorið sé á leiðinni en ekki fyrr en í næstu viku að einhverju viti, við Karólína ætlum að vera í Princeton hjá Kristínu yfir helgina og þar hefur verið hlýtt og það er spáð fínu veðri á laugardaginn þegar fyrsta róðrarkeppni ársins verður háð. Við hlökkum þessi lifandis ósköpin til, það verður gaman að sjá Kristínu og mjög gaman að horfa á róðurinn, þetta er svo falleg íþrótt en voðalega blekkjandi því þegar þessi mjóu, léttu bátar svífa yfir vatnið á flengingsferð þá lítur þetta út fyrir að vera svo átakalítið en þau fáu skipti sem ég hef róið þá hef ég verið nær dauða en lífi á eftir. Á páskadag ætlum við mæðgurnar til New York, spóka okkur í Central Park og njóta þess að vera saman.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli