Þá eru það flugvellir, flugvélamatur, bið, svefn í flugvél, og endalausir flugstöðvagangar sem bíða okkar næsta sólarhringinn. Keyra til Minneapolis seinni partinn í dag einn og hálfur tími, tveggja tíma bið á flugvellinum, til Íslands sex tíma flug, stopp þar í klukkutíma eða svo, til Köben tæplega þriggja tíma flug, bíða þar í þrjá tíma, svo til Vínarborgar eins og hálfs tíma flug. Loksins komið á hótelið rétt fyrir kvöldmat á föstudaginn, langt ferðalag. Vonandi gengur allt upp og við lendum ekki í vandræðum vegna bilana, frestana og annars þess háttar. Það er með því leiðinlegra sem ég veit, vitandi það að ég get engu um það ráðið, ekki vil ég fljúga í bilaðri vél eða vitlausu veðri, ég reyni því að taka þess háttar með stóískri ró, það tekst alltaf, enda hinn möguleikinn heldur leiðinlegur. Á leiðinni til baka þá verður þetta allavega brotið upp með tveggja daga stoppi á Íslandinu. Það verður gott að sitja á Kvisthaganum yfir kaffibolla, nýju brauði og Mogga, horfa út yfir Ægissíðuna, njóta þess að vera Heima. Því miður komumst við ekki á Lönguklöppina okkar í þessari ferð, of stutt stopp til að þeytast norður, nema Halli verði viðþolslaus og verði að sjá Klöppina, það væri alveg eftir honum. Ofvirkur maður. Í sumar verðum við Karólína á Íslandi í sex vikur, ég hef ekki verið svo lengi á landinu í einu síðan við fluttum til Noregs fyrir 18 árum síðan. Ég er farin að hlakka ótrúlega mikið til. Ég hlakka líka mikið til að koma til Vínar, þangað hef ég aldrei komið og ekki heldur til Prag, en þangað ætlum við í næstu viku. Það er svo gaman að ferðast, það er bara þetta transport fram og til baka sem er heldur leiðinlegt en hjá því verður víst ekki komist, það hangir víst allt á sömu spýtunni. Jet-lag er líka voðalega leiðinlegt fyrirbæri, annað sem ég fæ engu um breytt og tek því líka eins og öllu öðru sem ég ekki fæ breytt......bý mig undir það versta en vona það besta. Ég hef ferðast óvenju lítið síðan í haust þegar við fórum til Frakklands. Bara stuttar ferðir innanlands, en nú verður breyting á, í viðbót við þessa ferð þá kemst ég væntanlega til Íslands aftur í maí á leið til eða frá Noregi.
Ég veit ekki hvort ég hef aðgang að netinu á ferðalaginu og því er óvíst með blogg næstu tíu dagana.
fimmtudagur, mars 03, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli