þriðjudagur, október 20, 2009

Ég þarf að vera betri í að lifa í núinu. Ég er alltaf að hugsa um það sem ég ætla að gera, ætti að gera, vildi gera eða þyrfti að gera. Fyrir vikið þá gleymi ég núinu og nýt þess alltof sjaldan.

Ég er að reyna að minna sjálfa mig á að njóta fegurðarinnar í náttúrunni þessa daga. Skærir og fallegir haustlitir hvert sem litið er, loftið tært og haustilmur í lofti.

Uppáhaldstími ársins.

Undurfallegt úti.

Yndislegt.

föstudagur, september 25, 2009

Loksins, loksins er farið að rigna. Hér hefur verið óskapleg þurrt og það kom ekki dropi úr lofti í nærri fimm vikur og á þessum tíma var heitt og þurrt loft yfir okkur. Það er slæmt fyrir gróðurinn að vera í stress þurrki þegar veturinn skellur á. Það er reyndar ekkert sem bendir til þess að vetur kallinn sé á næsta leiti en það smá kólnar. Það fer kannski niður fyrir 20 stigin í næstu viku, líklegast 1. október, og er það nú bara eins og búast má við.

Mér líkar vel í vinnunni. Ég er svona smám saman að komast inní verkefnin mín og deildina. Ég er að rannsaka sjúklinga sem velja að láta gera á sér gena greiningu. Af hverju þeir ákveða þetta, hvernig þeim líður á meðan beðið er eftir niðurstöðunum, hvernig þeir taka niðurstöðunum og svo hvað þeir gera við niðurstöðurnar. Mjög áhugavert verkefni.

sunnudagur, september 20, 2009

Þá er Halli minn kominn og farinn. Kom frá Póllandi í gærkveldi og fór til Brasilíu í morgun. Ætlunin var að ég færi með honum í bæði ferðalögin en vegna nýju vinnunnar þá gekk það ekki upp. Ef ég hefði sagt henni að ég gæti byrjað 1. okróber þá hefði þetta gengið en ég hreinlega steingleymdi þessum ferðalögum þegar ég var að ræða við yfirmann minn og mér fannst það bara ekki vera mjög sniðugt að koma með "by the way...." Ég ætla bara að vona að hann geti farið út að hlaupa þegar hann kemur loksins á áfangastað eftir 27 tíma ferðalag. Hann ætlar að hlaupa Twin Cities maraþonið eftir tvær vikur og hann verður víst að halda sér gangandi og í formi þangað til.

föstudagur, september 18, 2009

Mikið voðalega sem mér líður vel því ég var að koma úr ræktinni minni. 90 mínútur í dag. 50 mínútur í cardío, 25 mínútur að lyfta og svo 15 mínútur í teygjur, maga og bakæfingar. Ég hef bara verið nokkuð dugleg að undanförnu. Ég sé á skjánum í ræktinni að af síðustu 12 dögum hef ég farið 10 sinnum og af þessum tveim frídögum fór ég út að hlaupa í Madison. Ekkert langt en út fór ég. Á morgun ætla ég að fara út að hlaupa meðfram Zumbro ánni, ég ætla að gera eina tilraun enn að koma mér í hlaupaform, það verður bara að koma í ljós hvort mjaðmirnar mínar þola þetta núna.

Veðrið hefir verið með ólíkindum gott síðan við komum frá Íslandi. Fyrstu nóttina eftir að við komum var þrumuveður og rigning en síðan þá hefur verið sól og logn uppá hvern einasta dag og svona 25-30 stiga hiti og nánast enginn raki og engar flugur. Gerist ekki betra. Reyndar er þetta ekki gott fyrir gróðurinn því það er allt orðið skraufþurrt en mikið sem þetta er gott veðurfar. Helgin á að vera eins en kannski fer að kólna eftir helgina, svona niður í 22-25 gráður en sól. Það er smá séns á rigningu á mánudaginn, sem væri náttúrulega bara allt í lagi.

miðvikudagur, september 16, 2009

Ég byrjaði í nýju vinnunni í dag og mikið sem það var yndislegt að fara í vinnuna og hitta nýtt fólk. Mér líst vel á þetta, ég sit reyndar við skrifborð allan daginn en ég er að glíma við hluti sem reyna á ýmislegt sem ég hef lært í gegnum tíðina. Mér líst afar vel á rannsóknarverkefnin og þetta á vonandi eftir að verða mjög skemmtilegt og bjóða uppá meira en bara skrifborðsstólsetu allan daginn með tilheyrandi glápi á tölvuskjá.

mánudagur, september 14, 2009

Jæja, þá ætla ég að byrja að blogga aftur. Smá pása er ágæt, svona í hófi. Það er allt gott að frétta héðan af vesturvígstöðvunum, börnin komin í skóla og vinnu og við gömlu enn og aftur orðin ein í kotinu. Helginni eyddum við í Madison Wisconsin að horfa á Ironman og mikið óskaplega var það skemmtilegt. Ég er nú eiginleg bara orðlaus yfir fólki sem leggur þetta á sig. Gamall vinur og æskufélagi Halla úr Borgarnesi tók þátt og stóð sig frábærlega. Hann synti í 75 mínútur, hjólaði í sex og hálfan tíma og hljóp svo maraþon í lokin á fjórum og hálfum tíma. Með öllu þá voru þetta rúmir 12 tímar. Geri aðrir betur, hann sem vinnur langt fram eftir öll kvöld og æfir þegar hann getur en ekki þegar hann þarf.

Ég er að vonast til að byrja í nýrri vinnu á miðvikudaginn. Ég er að flytja mig til innan Mayo og er að fara að vinna á Bioethics deildinni við rannsóknir. Ekki endilega það sem mig langar til að gera, mér finnast úttektir miklu skemmtilegri en rannóknir, en ég tek þessu með þökkum því það er sko ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að atvinnumöguleikum þessa dagana. í Bioethics bíða mín nokkrar rannsóknir, sú fyrsta er um predictive genomics, þ.e. af hverju fólk velur að fá genaupplýsingar og hvað fólk gerir svo við upplýsingarnar þegar þær eru komnar. Önnur rannsókn er um death and dying og almenna umræðu og ráðgjöf þar um. Ég er að bíða eftir að pappírarnir gangi í gegn á Mayo og vonandi byrja ég sem allra fyrst. Halli er að fara til Póllands á morgun og þaðan beint til Brasilíu og ég verð vitlaus ef ég byrja ekki að vinna í þessari viku.

mánudagur, júní 22, 2009

Það er nú búið að vera stanslaust prógram hjá okkur síðan við komum til Íslands. Hver dagur hefur verið skipulagður frá morgni til kvölds. Það hefur sína kosti og galla. Kostirnir eru þeir að við komum miklu í verk en gallarnir eru þeir að við höfum lítinn tíma til að gera það sem okkur langar til þá stundina. Ekki að þetta hafi verið leiðinlegt, ó nei.

Það hefur verið ofsalega gaman. 30 ára júbíleringin var mjög skemmtileg, skírn, 80 ára afmæli tengdamömmu að ógleymdum gærdeginum sem fór í flúðasiglingu í Hvítá. Það var ótrúlega skemmtilegt. Þetta var fimmtugs afmælisgjöf til Halla frá tveimur dásemdarvinum og þvílík gjöf. Ég mæli með þessu.

Okkur varð náttúrulega óbærilega kalt í jökulánni og mér er svona rétt farið að hlýna almennilega núna 17 tímum eftir að við komumst í hús. En fegurðin frá ánni, spennan að róa niður flúðir, hmmm, þetta voru svo sem engar hetju flúðir sko, en hentuðu okkur byrjendunum vel, svo gufan, heit sturtan og heit súpa á eftir var vel til fundið eftir volkið.

Við erum dulítið eftir okkur í dag, það verður að viðurkennast, en ekki svo. Ég ætla að reyna að komast í ræktina, ef það tekst ekki þá ætla ég allavega að fara í góðan göngutúr/hjólatúr um borgina.

miðvikudagur, júní 10, 2009

Tengdaforeldrar mínir kvöddu okkur í gær en það eru nú bara fjórir dagar þangað til við sjáum þau næst. Við komum til Íslands á laugardaginn og reiknum með að keyra norður þann dag. Júbílering byrjar á sunnudaginn með göngu uppá vörðuna en þangað var ófært hið kalda vor 1979 og því ekki gengið við útskrift og ég hvorugt okkar hefur gengið að vörðunni síðan. Við júbíleringar höfum við alltaf verið degi of sein á svæðið en nú ætlum við sumsé að ganga að vörðunni. Ég er farin að hlakka all verulega til Íslandsferðar. Ég hef verið alltof lítið heima síðan í fyrra sumar, bara ein ferð í febrúar, og það er bara ekki nóg. Ég verð að standa mig betur.

fimmtudagur, júní 04, 2009

Veðrið hefur verið óvanalegt síðustu vikuna. Það eru tvær risastórar hæðir yfir norðurhluta landsins og þær hafa orðið þess valdandi að loftið er kyrrt, en hæðinni hérna megin landsins hefur fylgt afar þurrt loft. Í gær sögðu veðurfræðingar að loftið væri "bone dry" eða bara með 24% raka sem er ótrúlega þurrt. Þetta hefur valdið því að það er kalt á nóttunni, það voru 8 stig klukkan 5 í morgun, en svona um 25 stigin og sól yfir daginn. Um leið og sólin sest á kvöldin þá kólnar hratt en hlýnar að sama skapi vel yfir daginn. Það sér ekki fyrir endann á þessu mynstri svo kannski verður þetta svona þangað til við förum heim eftir rúma viku. Vonandi ekki því það þarf að vökva svo mikið með þessari veðráttu, það þornar allt á örskotsstundu.

þriðjudagur, júní 02, 2009

Tengdaforeldrar mínir og mágkona hafa verið hjá okkur í eina viku. Sigga fór svo til Íslands í gær eftir fína viku hérna hjá okkur. Við höfðum það voðalega gott, átum reyndar alltof mikið og hreyfðum okkur ekki nóg, en stundum fer þetta svona. Núna er bara að taka ræktina með krafti næstu tvær vikurnar áður en við förum til Íslands. Gömlu hjónin verða svo hjá okkur eina viku í viðbót. Þau eru tiltölulega spræk, miðað við aldur. Þau eru þrátt fyrir allt 80 og 88 ára gömul og ferðast enn hingað til okkar.

Stelpurnar eru farnar til New York og verða þar saman í sumar. Karólína les á hverjum degi fyrir inntökuprófið í lögfræði og leitar sér að vinnu þess í milli. Það er nú ekki um auðugan garð að gresja í stóra eplinu. Kristín er að taka efnafræði og vinnur fulla vinnu með svo nóg er að gera hjá þeim. Þær systur og Adam búa saman í 30 fermetra íbúð svo það er eins gott að þau eyði ekki alltof miklum tíma í íbúðinni, allavega ekki öll þrjú í einu!

mánudagur, maí 18, 2009

Ég er mikla heimþrá, þ.e. til Íslands. Þetta blessaða heim, hvar sem það nú er. Það skapast náttúrulega aðallega vegna þess að Halli og Bjarni eru heima en líka vegna þess að vorin eru oft svo yndisleg á Íslandi. Eftir langa, dimma og oft kalda og umhleypingasama vetur þá er svo yndislegt að fá bjart og ljúft vorið. Ég ætlaði að segja hlýtt vorið en það er nú allur gangur á blessuðu hlýindunu. Ég veit að það hefir verið hlýtt síðustu daga, allavega fyrir sunnan og eitthvað þar áður fyrir norðan og það er svo gott sérstaklega eftir alla stormana, rigningarnar, stórhríðarnar og hretin sem herjað hafa á Landið mitt kalda í eiginlegri og óeiginlegri merkingu í allan vetur.

Við Halli komum heim 13. júní og svo aftur í ágúst. Ekki svo langt þangað til.

fimmtudagur, maí 14, 2009

Kall minn er á leið til Íslands á morgun ásamt frumburðinum. Þeir feðgar ætla að visitera um landið þvert og endilangt að mér skilst. Svo þarf að setja niður kartöflurnar, þær dýrustu sem fyrir finnast. Ég verð því ein í kotinu fram á miðvikudag en þá koma dæturnar keyrandi frá New York.

Í hvert sinn sem þær keyra þessa 20 tíma keyrslu þá verð ég alltaf jafn hissa á hversu brattar og sprækar þær eru við heimkomuna. Hún ég væri ekki svona hress eftir 20 tíma í bíl. Ekki einu sinni í þeirra góða félagsskap.

þriðjudagur, maí 12, 2009

Ég er ekki alveg viss um að mér takist að taka þátt í þríþraut í sumar því mjaðmirnar mínar hafa svona af og til verið að mótmæla álaginu. Hjólið gengur vel og sundið ljómandi en hlaupin eru að angra mig. Alltaf þegar ég held að ég geti bætt við hlaupaæfingarnar þá bara garga mjaðmirnar og ég verð að taka pásu frá hlaupum. Ég æfi orðið a.m.k tvo klukkutíma á dag, þar af 60-90 mínútur í þoli og svo styrktar- og teygjuæfingar að auki og það er allt í lagi svo fremi sem ég hleyp ekki meira en 20-30 mínútur og ef ég hjóla fyrst í 45-60 mínútur þá verð ég fara afar varlega í að hlaupa á eftir og það er alveg sama hvað ég held púlsinum lágum eða háum, mjaðmirnar eru bara ekki alltaf til í að taka þátt í þessu skaki mínu. Ég hef prófað að halda púlsinum í 145, 155, 160 og 170 og jú það skiptir máli uppá hversu þreytt ég verð en mjöðmunum er eiginlega alveg sama hversu hratt eða hægt hjartað er að pumpa þær bara segja stundum stopp og ég get ekki þjösnað mér í gegnum verkina, það þjónar afar litlum tilgangi þegar komið er á minn aldur.

Vesen að vera með svona slitnar mjaðmir.

mánudagur, maí 11, 2009

Ég les nú alveg ágætan skammt af íslenskum fréttum og að sjálfsögðu les ég af og til um íslensku útrásarvíkingana og hvernig þeir gengu til verka. Allt of oft hætti ég í miðju kafi því ég hreinlega missi söguþráðinn hvað eftir annað og ef ég ekki skrifa hreinlega niður jafnóðum nöfn og fyrirtæki og teikna svo inná hvernig hver tengist hverjum, svona rétt eins og ég gerði sem unglingur þegar ég var að lesa Íslendingasögurnar í fyrsta sinn, þá bara næ ég ekki sambandi við efnið. Af og til koma svo greinar sem skýra þetta svo ég skilji og er grein/pistill Sigrúnar Davíðsdóttur ein af þeim. Svei mér þá ef ég skildi bara ekki um hvað var fjallað og hver atburðarásin var og tengsl aðalleikaranna.

Ég er nú kannski eitthvað treg en þessi krosseignatengsl og tengslanet skil ég bara ekki nema að litlu leiti. Ég skil að þetta snýst um krosseignatengsl og þátttakendur lána og taka lán hjá sjálfum sér með veði í loforðum og væntingum en ég bara veit ekki hver er hvað og hvers er hvurs því ég man aldrei nöfn þátttakendanna.

Kannski var bara þessi lýsing á nógu litlu athæfi til að ég skildi og náði söguþræðinum.

föstudagur, maí 08, 2009

Ég hef mikið velt fyrir mér Íslandi og ESB og hvort gott eða vont sé fyrir landið að sækja um aðild. Ég sé mikla hliðstæðu við Noreg að því leytinu til að olían þeirra er okkar fiskur. Ef Norðmenn gengju í ESB yrði olíueign þeirra stjórnað af ESB og á sama hátt yrði fiskveiðum Íslendinga stjórnað að ESB ef Íslendingar gengju í ESB? Er sumsé öllum auðlindum þjóða stjórnað frá ESB?

Ég er bara ekki alveg viss um hvernig þetta er og hvernig auðlindastýringu yrði háttað í raun.

Ekki þar fyrir að ég get ómögulega skilið hvernig ESB getur bjargað einu né neinu svona á næstu 2-3 árum þar sem innganga er langt ferli, fyrst á Íslandi og svo hjá ESB. Svo held ég að íslensk stjórnvöld verði að glíma við innanlandsmál og koma þeim á hreint áður en sótt er um inngöngu. Það verður víst að taka til hjá sér og skúra, skrúbba og bóna áður en sýnt er og söluferlið hefst.

Ég er ekkert viss um að innganga sé endilega vond en það þarf að taka til innanbúðar án ytri áhrifa áður en hægt er að velta fyrir sér kostum og göllum inngöngu.

fimmtudagur, maí 07, 2009

Þegar ég var í ræktinni í fyrradag þá horfði ég á Dr. Phil í sjónvarpinu. Hann var í Detroit að tala við og um fólkið í borginni þar sem atvinnuleysi er gífurlegt, bílaverksmiðjurnar loka hver á fætur annarri og þeir sem hafa vinnu lifa í ótta að missa vinnuna. Hann talaði mikið um árhifamátt hugarfarsins, jú það er erfitt að missa vinnuna og það er skelfilegt að geta ekki borgað reikningana en hann benti líka á að þótt börnin hafi ekki Wii og hætta verður með kapalsjónvarp þá er eftir sem áður hægt að tala saman, fara út úr húsi, leika sér og spila leiki sem ekkert kosta. Hann talaði líka um áhrif þess að sífellt að tala um hversu ömurlegt ástandið sé og hve allt sé breytt og á niðurleið. Hann sagði eitthvað sem svo að það er hægt að tala sig inn í eymdina og það er líka hægt að tala sig útúr henni.

Ég veit að ég lifi við forréttindi og að okkur líður vel og því er erfitt að setja sig inní spor þeirra sem erfitt eiga en það hefur ekki alltaf verið auðvelt hjá okkur og við höfum ekki alltaf átt fyrir mat, hvað þá leikföngum fyrir börnin og ég veit hversu hugaraflið getur verið sterkt. Það hef ég reynt oft og mörgum sinnum.

þriðjudagur, maí 05, 2009

Til hamingju með daginn Karólína mín!

Karólína 5ára


Karólína 5ára
Originally uploaded by Kata hugsar
Fimm ára falleg stelpa

Karólína


Karólína
Originally uploaded by Kata hugsar
Eins og hálfs árs dúkkukerling.

Karólína og Kristín á hjóli

Systrunum hefur aldrei leiðst saman.

Karólína Kindergarten


Karólína Kindergarten
Originally uploaded by Kata hugsar
Fyrsti skóladagurinn 7. september 1993

Nýfædd Karólína á Aker Sykehus í Osló

"Litla" örverpið mitt er 21 árs í dag.

föstudagur, maí 01, 2009

Mikið sem það er nú gott að vera komin heim. Nú eru engin ferðalög á dagskrá fyrr en í júní þegar við förum til Íslands. Það verður reyndar nóg að gera í vinnunni næstu vikurnar svo þetta er hið besta mál allt saman. Vorið er komið á fleygiferð og allt gras orðið grænt og komin græn slikja á skóginn. Sum berjatrjánna í bænum eru rétt um það bil að springa út og eftir viku til tvær verður bærinn bleikur og hvítur þegar öll berjatrén eru í blóma. Það er spáð 20-25 stiga hita og sól næstu vikuna svo kannski blómstra trén fyrr en seinna. Það hefur nefnilega rignt ágætlega að undanförnu og það er víst forsenda þess að allt blómstri og grænki. Kirsuberjatréð mitt er að gera sig tilbúið fyrir vorfegurðina en eplatrén eru eitthvað hálf döpur. Við þurfum að huga betur að þeim og athuga hvað um er að vera. Ég ætla að byrja tiltekt í garðinum á sunnudaginn og reikna með að setja niður sumarblómin innan tveggja vikna.

þriðjudagur, apríl 28, 2009

Þetta fann ég á you tube um Carlota

Carlota veitingastaðurinn


Við erum komin heim algerlega ósködduð eftir fína ferð til Brasilíu. Ekki komumst við til Rio í þessari ferð en eihverntíma fer ég þangað. Braislíumenn segja að fólk fari til Sao Paulo til að sinna viðskiptum en til Rio De Janeiro til að skemmta sér og ég get alveg tekið undir það að Sao Paulo er ekki skemmtiborg. Flestir Brasilíumenn sem við töluðum við spurðu hvort við ætluðum ekki örugglega að fara til Rio því þangað væri virkilega gaman að koma. Halla var svo boðið að koma að halda fyrirlestur í norð-austur Brasilíu í september og hann þáði það og því förum við væntanlega til Maceió í haust. Við sjáum svo til hvernig haustið púslast saman hversu miklum tíma við getum eytt í ferðina.

Síðasta kvöldið fórum við á æðislegan veitingastað Carlota sem brasilískur vinur okkar bauð okkur á. Maturinn var himneskur og staðurinn lítill og hlýlegur. Algerlega punkturinn yfir i-ið í ferðinni. Carla hefur gefið út matreiðslubækur en mér hefur ekki tekist að finna þær á ensku en ég ætla að halda áfram að leita. Eftirréttirnir eru bara "out of this world" og mig langar mikið að prófa eitthvað af þeim. Sérstaklega "Guava Suffle", oh my, oh my.

laugardagur, apríl 25, 2009

Þá er komið að síðasta deginum okkar hérna í Sao Paulo í Brasilíu. Það er afar margt sem komið hefur okkur á óvart hérna, ekki hvað síst hvað þjóðin er afskaplega blönduð. Hér er fólk af öllum kynþáttum og enginn einn virðist vera fjölmennari en annar. Við áttum vona á blöndun svona rétt eins og við höfum séð í Mexikó en hér er mun meiri blöndun en þar. Það skýrist af m.a. því að þegar Portúgalir réðust hingað inn þá drápu þeir nánast alla Indíánana og það eru því mjög fáir af upprunalegum kynstofni landsins. Hingað flutti svo fólk frá ölum heiminum og hér eru því flestir Japanir utan Japan, flestir Þjóðverjar utan Þýskalands, flestir Portúgalir utan Portúgal og svona mætti lengi telja. Það er því mjög lítið kynþáttahatur en aftur á móti er mikill munur á ríkum og fátækum og þar liggur aðal munurinn. Fólk af lágum stigum á sér ekki viðreisnar von en það er ekki byggt á húðlit eins og svo víða annarsstaðar.

Við höfum gengið þó nokkuð um borgina en við þar sem lítið sem ekkert er að sjá hérna í kringum hótelið þá höfum við tekið leigubíla þangað sem við viljum fara og gengið svo þar. Við fórum t.d. í gamla miðbæinn og svo gengum við eftir Paulista Ave. í gær og í hverfið allt þar í kring og það var afar gaman. Við fórum á kaffihús, listasafn, gallerí og veitingahús en þar sem við tölum ekki portúgölsku þá er þetta dulítið vandamál því mjög fáir tala ensku hér um slóðir en einhvernveginn gengur þetta samt.

Við fórum á listasýningu í gær með verkum eftir Vik Muniz og það var mjög skemmtilegt. Hvorugt okkar þekkti til hans fyrir sýninguna en þetta var áhugaverð sýning. Medusa Marinara fannst mér yndisleg svo og er þessi ekki slæm (Það er víst ekki beinn linkur á myndina en hún er í Pictures of Garbage seríunni og heitir Atlas). Svo fórum við í gallerí Romero Britto en hann er poplistamður sem býr í Miami Beach. Áhugavert en ekki mín deild í líst.

Í dag erum við svona ekki alveg búin að ákveða dagskrána en Brasilískt steikarhús er á dagskrá í kvöld. Og svo heim á morgun, 18 tíma ferð þar af 9 tíma flug frá Sao Paulo til Miami.

mánudagur, apríl 20, 2009

ACC í Miami 2009


ACC í Miami 2009
Originally uploaded by Kata hugsar
Þessi mynd gæti heitið "The story of ACC in Miami" það vantar bara mynd af hækjunum sem aldrei voru langt undan.
Ég er komin heim frá Miami. Karólínu gekk ekki vel. Fyrsta greinin í sjöþrautinni er 100m grind. Hún komst yfir tvær grindur og sleit þá endanlega plantar fascia. Hún engdist af sársauka blessunin og því var keppnistímabilið búið hjá henni. Hún fer væntanlega í MRI í dag til að sjá hvort þetta er alveg slitið eða hvort eitthvað er eftir.


Þegar ég var í ræktinni í gær þá horfði ég m.a. á fréttir og þá kom þessi frétt Ég er svo sem ekki mikið gefin fyrir að vinna á stöðum þar sem eingöngu eru konur og er ég algerlega sammála Höllu Tómasdóttur að kynblandaðir vinnustaðir eru betri en "einkynja" vinnustaðir.

fimmtudagur, apríl 16, 2009

Ég fór í ræktina hérna á hótelinu í Miami í morgun og æfði í tæpa tvo tíma. Svo fór ég á sundlaugarbarm og ætlaði að vera þar þangað til ég fer til University of Miami að horfa á örverpið mitt en ég entist ekki nema í rúman hálftíma. Það er ekkert heitt hérna, sem betur fer. Það var víst 35 gráður fyrr í vikunni en nú er "bara" 24 stiga hiti og á að fara í 27 seinna í dag en líkaminn minn er ennþá í apríl skapi og ég svitnaði hrikalega við að liggja grafkyrr í sólinni. Eftir svitabað morgunleikfiminnar þá var mér ekki setunnar boðið og dreif mig inn því ég ætla ekki að láta líða yfir mig seinna í dag. Það yrði ekki lítið neyðarlegt.

Ég sit því inni á loftkældu herberginu mínu smá stund áður en ég dríf mig af stað á íþróttavöllinn.

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Kristín sendi mér djúserinn hennar í síðustu viku og nú bý ég til ferskan djús öllum stundum. Halli var nú hálf skeptískur á þetta uppátæki eiginkonunnar því ég hótaði honum því að það yrði djús í matinn marga daga vikunnar í sumar en honum finnst það sem ég hef gert hingað til alveg afbragsgott. Ég keypti litla bók með uppskriftum og hana las ég til þess að fá hugmyndir en ég hef nú aðallega verið í tilraunastarfsemi. Hádegismaturinn í dag var heimagerður djús sem í voru epli, appelsína, mango, sítróna, gulrót og vínber borið fram á klaka og þetta var nú með allra bestu hádegisverðum. 

Nú er vorið komið með dásamlegu blíðuveðri og því verður heimagerður djús drykkur vorsins hér á bæ.

Annars fer ég til Miami í fyrramálið að horfa á Karólínu keppa í ACC. Ég býst við litlu því hún hefur verið meidd en það er aldrei hægt að afskrifa hana blessaða.

miðvikudagur, apríl 08, 2009

Við höfum tvö norsk ungmenni í heimsókn. Hann er náskyldur Halla, mamma hans og Halli eru systra börn, og svo er vinkona hans með í ferð. Í dag fórum við í Amish byggðir. Venjulega á þessum ferðum mínum þarna niðureftir er margt að sjá þar sem Amish fólkið er úti við að vinna og sinna sínum daglegu störfum, en í dag brá svo við að það voru afar fáir á ferli. Hver ástæðan er veit ég ekki, ég hef ekki minnstu hugmynd um hvort þau halda uppá páska eða hvort þetta var bara svona tilfallandi í dag. En allavegana þá var ekki margt að sjá. 

Hér er frekar kalt í veðri en glaða sólskin og því bjart og fallegt. Um hádaginn er svona 8-10 stiga hiti en vindurinn er kaldur en eitthvað dulítið ætlar hann að hlýna næstu dagana, svona kannski að 15 stigum. Vorið er komið, það er bara frekar kalt ennþá. 

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Þá er að búa sig undir North-Carolina ferð á morgun. Það er nú svei mér gott að við verðum hjá Karólínu minni um helgina því lánið hefur ekki leikið við hana að undanförnu. Í síðustu viku kom í ljós að hægri sköflungurinn á henni var rétt við það að brotna undan álagi, hann er "bara" bólginn og helaumur og hún hefur gengið um í spelku síðan. Í gær þegar hún var að hlaupa 800m slitnaði svo hluti af "plantar fascia" á vinstri fæti og á hún all verulega erfitt með að stíga í fótinn og þar með eru báðir fætur úr kommisjón. Blessuð kellingin það á ekki af henni að ganga. Inni seasonin gekk svo óskaplega vel og útivertíðin leit afar vel út í síðustu viku og svo kom allt þetta. Ég spurði hana hvort hún hefði velt fyrir sér að hætta í fjölþrautinni og einbeita sér að tveimur greinum, en í nei, hún hélt nú ekki. Þetta myndi lagast.

þriðjudagur, mars 31, 2009

Lífið er í einhverjum hlutlausum gír þessa dagana. Kannski er þetta lognið á undan storminum, en ég veit ekki um neinn storm í kortunum svo það verður þá eitthvað óvænt ef allt fer á fleygiferð. Það eru jú fullt af ferðalögum framundan en það er nú enginn stormur svona að öllu jöfnu að vera að ferðast. Vinnan mín er afskaplega róleg þessa dagana, Halli vinnur óvenju mikið, það er alger undantekning ef hann kemur heim fyrir klukkan 7 og hann er farinn út fyrir 6 alla daga. Ég sótti um post doc stöðu í "bioethics" deildinni og fer í viðtal einvherntíma bráðlega. Svo er bara að sjá til, enn er allt stopp og enginn ráðinn og engar stöður fylltar. Það er varla að námsstöður séu fylltar hvað þá venjulegar starfsmannastöður. 

mánudagur, mars 30, 2009

Æfingar fyrir þríþrautina ganga þokkalega. Mér gengur mjög vel að synda og hjóla en hlaupin síður. Ég tognaði í hægri kálfa á miðvikudaginn og það var ekki gott fyrir hlaupaæfingar. Ég veit ekki af hverju kálfarnir á mér eru svona leiðinlegir við mig en ég togna mjög oft þegar ég byrja að hlaupa. Ég byrjaði svo varlega, og gerði þetta allt svo óskaplega hægt og bítandi, en það fór ekki betur en svona. Það sem verra er þá er þetta ekki bara í vöðvanum heldur nær þetta uppeftir lærinu aftanverðu og utanverðu og þá ekki í vöðva. Ég er að reyna að ganga og ná þannig upp hreyfingu í þessum vöðvum því það verður að segjast eins og er að ég sit alltof mikið fyrir framan tölvu og geng afskaplega lítið svona dagsdaglega. Þetta er svo fúlt því ég var farin að hlaupa 5-7 km án nokkurra vandræða í mjöðmunum eða bakinu. Ég hljóp að vísu afskaplega hægt og náði hjartslættinum svona rétt yfir "aerobic base," 145 en ég var að auka við hraðann og það var ekkert mál ... en nú reynir á þolinmæðina mína eina ferðina enn. Fj.....

föstudagur, mars 27, 2009

Vorið er að taka hænuskref í átt að hlýindum en voðalega finnst mér þau lítil þessi hænuskrefin. En það er víst bara mars og ég verð að vera þolinmóð allavega fram í apríl því þá ætti vorið að fara að ná yfirhöndinni í stríðinu við veturinn. 

þriðjudagur, mars 24, 2009

Ég hef ákveðið að ögra sjálfri mér svolítið. Ég ætla að taka þátt í þríþraut í sumar...jæja, þá er ég búin að segja það upphátt. Þetta er svo sem ekkert stórt fyrir marga en fyrir mér er þetta heilmikið mál. Ég er ekki að fara að keppa í þríþraut heldur taka þátt í þríþraut og það er mikill munur þar á. Ég keppti oft og mikið þegar ég var ung og hef fylgst með börnum mínum í gegnum árin og enn eru þau að keppa og koma móður sinni í taugaveiklunarástand. Ég fæ mitt adrenalín kikk og þörf fyrir keppni í gegnum Karólínu núna þegar Kristín er hætt að róa og það er mér alveg nóg. 

En mig langar að taka þátt í þríþraut, aðallega vegna þess að mig vantar fjölbreytni í æfingarnar mínar og það hefur gengið eftir s.l. tvær vikurnar síðan ég ákvað að reyna að æfa þrjár greinar. Ég hef fengið smá spark í rassinn og það er svolítið gaman, ég neita því ekki. Nú hjóla ég tvisvar í viku, syndi tvisvar og hleyp tvisvar og svo geri ég allt mögulegt annað; jóga, pilates, lyftingar, teygjur, eliptical, o.s.frv. Það eina sem gæti komið í veg fyrir að mér takist þetta eru meiðsl og slit á líkamanum. Mjaðmirnar mínar eru ekkert skemmtilegar að glíma við og bakið mitt eins og þa er en ég ætla að reyna og ef þetta gengur ekki þá það, ég hef þá allavega reynt.

11. júlí er dagurinn sem ég stefni á.

mánudagur, mars 23, 2009

Það er grár vordagur. Rigning og svona gjóla, allavega á minn mælikvarða. Kannski kemur þrumuveður í kvöld eða á morgun. Það eru snjókorn í veðurspánni svona eins og við er að búast. Það væri skrýtinn mars og apríl sem engin snjókornin hefði í loftinu. Mig langaði svo mikið að fara útí garð að taka til um helgina. Það var svo hlýtt og yndislegt. En það er eins gott að bíða með að hreinsa frá í nokkrar vikur svo frostnætur skemmi ekki fjölæru plönturnr mínar. 

Við erum farin að lesa okkur til um Brasilíu en þangað förum við eftir fjórar vikur. Við verðum í Sao Paulo svo það er ekki víst að okkur takist að komast til Rio De Janeiro til að sjá Copacabana og Ipanema. Við sjáum til og reynum eins og við getum að komast út fyrir borgarmörk þriðju stærstu borgar í heimi.

fimmtudagur, mars 19, 2009

Á ferð minni um bæinn í vorblíðunni í gær var margt fólk úti á göngutúr. Þar á meðal voru tveir karlmenn, hvor í sínu lagi og langt frá hver öðrum í tíma og rúmi. Sá fyrri var í ljósbrúnum frakka, með hatt og pípu. Nokkuð sem ég hef ekki séð í fjöldamörg ár. Hann minnti mig á "gömlu" kallana heima á Akureyri þegar ég var ung þegar þeir voru á stjái snemma á morgnana í Hafnarstrætinu á leið á pósthúsið eða bankann. Þeir tóku ofan þegar þeir heilsuðu, að ég held bara fyrir kvenfólki, en er þó ekki viss. Þetta voru t.d. Jón Sólnes, Jón Gúmm, Kobbi komm, og Jabob Frímanns. Afar virðulegir menn. Þetta með aldurinn er afstætt. Ef ég reyni nú að reikna út aldurinn þá voru þessi menn kannski hámark um sextugt þegar ég man fyrst eftir þeim. 

Hinn maðurinn sem ég sá og er mér afskaplega minnisstæður var svona Kjarval, með samskonar flókahatt, pípu og stóra möppu sem gæti svo sannarlega hafa innihaldið málningatrönur. Þessi var greinilega utan við sig því hann gekk fram og til baka yfir götuna og var alls ekki viss um hvert hann var að fara. Ég var að hugsa um að stoppa og hjálpa manninum en hætti við. Ég kunni ekki við það. Kannski vissi hann hvað hann var að gera og hvert að fara en þurfti að skoða þetta allt eftir kúnstarinnar reglum. Kannski er hann hjátrúarfullur og þurfti að ganga þarna eftir götunni í réttri röð hlutanna. Gott hjá honum ef svo er, mér líkar sérkennilegir fuglar mannlífsins. Þeir gefa lífinu svo mikinn og fallegan lit. Rétt eins og vorið sem er svo sannarlega að láta sjá sig þessa dagana.

mánudagur, mars 16, 2009

Það er ekkert útlit fyrir að ég komist til Íslands yfir páskana, því miður. Þegar ég var búin að púsla saman öllum ferðaplönum vorsins og kom dimbilvikunni inná planið sem Íslandsdvöl þá mundi ég eftir því að frændi Halla frá Noregi kemur í heimsókn þá viku. Það verður mjög gaman að hafa hann en ég var bara svoddan álfur að gleyma þessu og var orðin svo óskaplega ánægð með að vera á Íslandi þessa vikuna þegar ég þurfti að ná mér niður á jörðina. Það var eins gott að ég var ekki búin að kaupa miðann, það munaði reyndar ekki miklu, kannski hálfum degi eða svo. Við erum svo að fara til Brasilíu 21. apríl svo þetta hefði passað flott inní púslið en svona er það. Það er nú engin ástæða til að syrgja það svo sem, en......

fimmtudagur, mars 12, 2009

Ég er sest niður til vinnu. Fannst eitthvað hljótt hjá mér og setti itunes shuffle á. Fyrst kom Gunni Gunn með Stúlkuna mína hans Jóns Múla en svo kom Thank you for the music. Gamla góða ABBA. Alltaf jafn notaleg. Karólínu hefur gengið mjög vel í vor og fyrir hverja keppni horfir hún á Mamma Mia og svo er hún með Mamma Mia á ipoddinum sem hún hlustar á á milli átaka. Kastþjálfarinn hennar skildi ekkert í þessari vellíðan sem kemur yfir mína konu þegar hún hlustar á ABBA þangað til við skýrðum út fyrir henni að ABBA var spilað heima þegar fjölskyldan dansaði saman á eldhúsgólfinu. Karólína dansaði á tám pabba síns við Honey Honey, Dancing Queen og öll hin. Vellíðan er góð leið fyrir hana til að ná árangri, sérstaklega í tæknigreinum eins og hástökki og langstökki. Hún reyndar segir að ABBA geri lítið gagn fyrir kúluvarpið en það er nú önnur saga. 

þriðjudagur, mars 10, 2009

Það er rigning í dag og grátt úti. Eftir klukkubreytinguna á sunnudaginn hef ég ekki nógu góða skynjun fyrir tíma dagsins og sérstaklega ekki þegar grátt er úti. Mér brá þegar ég leit á klukkuna áðan og sá að hún var korter yfir átta, mér leið eins og hún væri ekki nema rétt um sjö. Annars er spáð kuldakasti næstu tvo dagana, það á víst að verða tíu stiga frost á morgun en svo fer hlýnandi og verður gott um helgina. 

Það er ekki spurning, það er vor í lofti. Það á bara eftir að koma í ljós hversu hart vetur kallinn ætlar að berjast fyrir tilveru sinni.

sunnudagur, mars 08, 2009

Ég hef smám saman minnkað lestur minn á bloggsíðum að undanförnu. Þetta er meðvitað gert því ég var búin að fá yfir mig nóg að lestri um efnahagshrunið á Íslandi og fann að þetta hafði slæm árhif á mig. Þetta voru samskonar áhrif og of mikið fréttahorf/hlustun eftir 11. september og mér fannst ég vera að drukkna og missa stjórn á eigin lífi. Ég er ekkert að stinga hausnum í sandinn og þykjast að allt sé í himna lagi, ég þarf bara ekki að vita hvert smátriði af því sem gerist og hver gerði hvað, hvenær, tapaði miklu eða stal. Það fer alveg botnlaust í taugarnar á mér að þessir gæjar stálu til hægri og vinstri og koma svo í fjölmiðla með reglulegu millibili og réttlæta allt saman með því að þetta hafi verið gert í nokkur ár og þess vegna er ekkert athugavert við meiriháttar þjófnað korteri fyrir fall. Bara vegna þess að þetta hafi verið gert í nokkur ár réttlætir sumsé að það hafi verið gert áfram...úff nú er ég komin í sama farið, búin að æsa mig upp og spæna mig uppí allrahanda rifrildi við ósýnilegt fólk. Þetta er mér ekki hollt, það er alveg á hreinu og þess vegna les ég bara nokkur blogg og oftar en ekki sleppi ég að lesa kommentakerfið því þar er oft mikill sóðaskapur í gangi og fólk lætur ótrúlegasta orðbragð flakka. 

Ég gerði fína ferð til Boston um helgina. Karólína stóð sig afar vel, sló engin met en ég hef ekki séð hana svona ánægða með árangur í frjálsum í ... líklegast fjögur ár og það er langur tími í lífi tvítugrar stelpu. Samvera með börnunum mínum gefur mér ótrúlega mikið og nú hef ég séð þau öll á örstuttum tíma og það er yndislegt. Halli er enn að sóla sig í Kaliforníunni, nei hann fer nú víst ekki mikið í sólina nema til að hlaupa úti við, en hann er allavega í suðurhluta álfunnar úti við sjóinn, en á fundi.

fimmtudagur, mars 05, 2009

Það er vor í lofti hjá mér. Hitinn fór í 6 stig í gær og það var sól og smá vindur og snjórinn bráðnaði hratt. Í dag á að vera ennþá hlýrra, en skýjað. Þetta þýðir að nú eru árstíðarnar farnar að berjast um yfirráðin. Vetur konungur er að missa völdin en heldur fast í sitt enda afar sterkur karlinn, ekki sterkari en sólin samt, hún vinnur að lokum. Hún er komin upp uppúr hálfsjö og sest ekki aftur fyrr en um sex leytið. Alveg að ná tólf tímunum á vorjafndægrum. Á sunnudaginn verður klukkunni breytt í "daylight savings time" en þá verð ég í Boston ásamt stelpunum mínum og Adam. Karólína er að keppa, ég kem frá Minnesota, Kristín og Adam frá New York, en Halli verður í Kaliforníu og Bjarni og Nicole verða kyrr í Minnesota. Karólína er tæpum 200 stigum frá Íslandsmetinu í fimmþraut innanhúss. Hún náði næst besta árangri íslenkrar konu um síðustu helgi en á ekki von á að ná Íslandsmetinu á laugardaginn. Hún segist ekki eiga nóg inni. Ég sem mamma með óbilandi trú á barninu mínu held að sjálfsögðu að henni takist það. Hún er í miðannarprófum þessa vikuna og þarf að skila allskonar verkefnum og sefur því minna en lítið og segist verða of þreytt til að gera góða hluti, en af því að ég er mamma hennar Karólínu þá segi ég að það er aldrei að vita

mánudagur, mars 02, 2009

Gaman hjá okkur


Gaman hjá okkur
Originally uploaded by Kata hugsar
Við vorum alsæl og lékum okkur eins og smákrakkar allan daginn.

Mæðgur á skíðum


Mæðgur á skíðum
Originally uploaded by Kata hugsar
Þetta var ekki leiðinlegt ferðalag!

DSC00473
Originally uploaded by Kata hugsar
Þessi mynd er tekin þegar létti til eftir stórhríð morgunsins. Skíðafærið var alveg himneskt, fislétt púður og fáir í brekkunum.

Á leið í ævintýraferð

Við mægurnar eum hér á leið í kvöldmat á veitingastað sem er í miðri skíðabrekku og því þurfti gondóla og snjótroðara til að koma okkur á áfangastað. Það borðaði ég elg sem er mitt uppáhaldskjöt.

þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Ég hlakka lifandis ósköp til morgundagsins þegar við leggjum í hann til Vail. Það lítur út fyrir góðan snjó og ágætis veður. Í fyrra var ógnarkalt ef ég man rétt þá var 10-15 stiga frost alla dagana en nú er spáð um frostmark og sól allavega í einn dag, kannski fleiri.

Jibbýýý 

mánudagur, febrúar 23, 2009

Hvers vegna í veröldinni hefur enginn af útrásarvíkingunum verið svo mikið sem kallaður fyrir dómara? Enginn þeirra hefur verið sóttur til saka, enginn hefur verið kallaður til ábyrgðar og það sem verra er að það lítur út fyrir að enginn þeirra verði sóttur til saka. Lítið fréttist af rannsókninni, enda kannski of stuttur tími liðinn en þeim mun meiri tími sem líður þeim mun meira svigrúm er til að koma eignum undan. Svo koma allar þessar fréttir af fjölda eigna og fjármunum Íslendinga í skattaparadísum heimsins.

Ég er eiginlega hætt að reyna að skilja hvernig íslenska réttarkerfið virkar. Það virðist vera illa undir það búið að taka á hvítflibbaglæpum og annaðhvort eru lög og reglur svo illa skrifaðar að það er auðvelt að komast undan eða að það fólk sem vinnur í þessu er ekki vel að sér eða hefur enga reynslu af svona vinnu. Æ, æ, þetta er ekki gott ef á að nást í þessar eignir allar því það er á hreinu að ógnarmagn af fjármunum, sem með réttu tilheyrir Íslendingum, er falið hingað og þangað um heiminn.

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Það snjóar úti. Í fyrsta sinn síðan einhverntíma í janúar. Það er svo ósköp notalegt. Hljóðin allt öðruvísi, eins og veröldin sé vafin í bómull. Það á að snjóa fram eftir degi. Annars fylgist ég aðallega með snjóalögum í Vail því þangað fer ég á skíði í næstu viku. Annars lítur Fjallið mitt eina og sanna ekkert illa út þessa dagana og þar þekki ég náttúrulega mun fleiri en í Vail en það er nú allt í lagi því ég verð með mínum besta vini svo og henni Kristínu okkar. Hún er afskaplega skemmtilegur félagsskapur svo þetta verða ekki leiðinlegir dagar, það er ég alveg viss um.

föstudagur, febrúar 13, 2009

Ég sit hér í fallega Phoenix og bíð eftir að kall minn verði búinn á fundi því við ætlum í fjallgöngu seinnipartinn. Eftir það ætlum við á Chihuly sýningu. Chihuly er einn af okkar uppáhaldslistamönnum, þó sérstaklega Halla. Hann veit fátt skemmtilegra en að skoða glerlist.

miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Ég hef mikið velt því fyrir mér af hverju stjórnmálamenn gerðu ekki neitt í málunum þegar ljóst var að allt var að hrynja. Lýsingar af viðtalinu við forsetahjónin eru ótrúleg því samskipti hjónanna á Bessastöðum virðist sýna dæmigerð viðbrögð stjórnmálamanns við athugasemdum manneskju með einhvern vott af skynsemi. Dorrit gerði athugasemdir við þróunina en Óli þaggaði niður í henni af því hún mátti ekki segja svona ljótt. 

Viðvörunarbjöllurnar voru búnar að glymja í a.m.k. þrjú ár og það virðist vera að stjórnmálamenn hafi haft undir höndum alls konar upplýsingar sem hefðu átt að nægja til að mótmæla bankaþróuninni en enginn hafði döngun í sér til að gera eitthvað í málinu. Elsti bróðir minn kom með skýringu sem mér finnst vera afar líkleg. Hann sagði sem svo að þegar stjórnmálamönnum og peningamönnunum lenti saman útaf REI málinu og stjórnmálamönnunum tókst að stoppa útrásina þá hafi það sent skilaboð til allra stjórnmálamanna hvað gerðist þegar reynt var að stoppa liðið. Það fór allt í háaloft í Reykjavík og hausar fuku til hægri og vinstri og allra handa leynimakk komst uppá yfirborðið, óháð hvar í flokki menn og konur stóðu. Þetta varð til þess að stjórnmálamenn hreinlega þorðu ekki að fara í slag við útrásarliðið. Vald útrásarmanna kom svo greinilega í ljós og hvaða tögl og hagldir þeir höfðu á stjórnmálamönnum og ekki hvað síst hversu vel þeir voru búnir að koma sér fyrir innan allra flokka. 

Þetta vald var hvergi skráð og var eins óformlegt og hægt er að hugsa sér nokkurt vald vera, en það var óhugnanlega mikið eftir sem áður. Þetta óformlega og óskráða vald sem útrásarliðið hafði finnst mér vanta í skýringar Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega á efnhagshruninu. Skýringar sem eru að öðru leyti mjög greinargóðar... að ég held, en hvað veit ég, fávís konan.

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Þá er ég loksins að komast yfir jet-lag. Það tók fjóra daga í þetta skiptið. Mér finnst þetta svo óþægilegir dagar, eiginlega finnst mér ég lifa svona við hliðina á sjálfri mér og næ alls ekki að gera allt sem þarf. Ég er á einhverjum leiðinda hálfum dampi. Nú er þetta allt að koma og ég komin með tvö ný verkefni á Mayo og kannski eitt á Íslandi. 

mánudagur, febrúar 09, 2009

Ég gerði góða ferð til Íslands og eftir tíu daga þar var ég í þrjá daga í New York hjá Kristínu og Adam og svo sá ég Karólínu líka því hún var að keppa þar. Það var ískyggilega kalt á fimmtudaginn þegar ég lenti en svo snögg hlýnaði og í gær var 15 stiga hiti og sól og alveg óskaplega fallegt.  Vor í lofti og göturnar fullar af fólki. Ég hafði pakkað fyrir Íslandsferð og vetrarkulda og var því bara með loðfóðraða kuldaskó og dúnúlpu og var ekki vel undir vorloftið búin. Fæturnir voru soðnir eftir daginn og svitinn bogaði af hinni heitfengu mér.

Það er ekkert eins notalegt og hlýr og fallegur dagur eftir langa kuldatíð. Hér heima í Rochester er hlýtt en þokuloft og á morgun verður aftur hlýtt en sólin á að skína allan daginn. 

Það verður vetur næsta mánuðinn eða svo en þá fer líka að vora.

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Þá er ég lent, búin að sofa og held að ég sé komin með rænu aftur. Ferðin gekk ljómandi vel nema að leigubílastjóri í New York reyndi að snuða mig um $200, ég komst að því þegar ég kíkti á bankareikninginn minn í morgun. Vonandi tekst mér að afturkalla þessar færslur. 

Það var éljagangur þegar við áttum að lenda og vélin stefndi í austurátt lengi vel og við flugum yfir Reykjavík og svifum yfir Esjunni en þá var snúið við og lent í Keflavík háftíma á undan áætlun. Annars þykir mér anda köldu á landinu bláa, ekki í veðurfræðilegum skilningi.

föstudagur, janúar 23, 2009

Ég er farin að hlakka mikið til Íslandsferðarinnar á mánudaginn. Ég sé á veðurspánni að á þriðjudagsmorguninn gæti verið éljagangur. Á meðan það er ekki SV 30 þá held ég að þetta verði allt í lagi. Ég nenni ómögulega að lenda einhversstaðar í Evrópu. 

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Ég var að velta fyrir mér hvort hópurinn sem sýnt hefur ofbeldi innan um heiðarlega mótmælendur undanfarna daga sé rekinn áfram af samskonar hvötum og útrásarliðið: lítilsvirðing fyrir lögum, reglum og siðferði og alger skortur á umburðarlyndi gagnvart heiðarleika. Þeir hafa engan áhuga á að taka þátt í samfélagi siðaðrar þjóðar sem er búin að fá sig fullsadda af nákvæmlega svona heðgun.

miðvikudagur, janúar 21, 2009

Dádýr í heimsókn


Dádýr í heimsókn
Originally uploaded by Kata hugsar
Þssa mynd tók ég útum framdyrnar hérna hjá mér.
Ekki skil ég hvað íslenska ríkisstjórnin er að hugsa. Samskipti við almenning er greinilega ekki þeirra sterka hlið, stjórnmálamenn tala sjaldan til og við almenning og þegar það er gert þá hef ég á tilfinningunni að bara lítill hluti sé sagður. Það er eins og almenningi sé ekki treystandi fyrir sannleikanum. Þaðan kemur öll óvissan. Hér í landi er ekki síður óvissa en mér finnst samskipti vera mun betri, fjölmiðlar standa sig afar vel við að upplýsa almenning, fréttamenn spyrja af þekkingu og tala við fólk með virðingu og það er notað kurteislegt orðbragð og rétt mál. Stjórnmálamenn tala af þekkingu um málefni, og koma fram með upplýsingar sem skipta máli. Obama er alveg sér á báti hvað þetta varðar, hann virðist vera afar duglegur að setja sig inní mál og ef hann ekki hefur þekkingu þá fær hann fólk til sín sem hefur hana. Hann hefur heldur ekkert verið að fegra ástandið, ekki einu sinni í embættisræðunni í gær. Ég var mjög hissa hvað hann var hvass og var með lítið froðusnakk, falið í orðaflaumi og orðum sem fáir skilja. Hann talaði venjulegt en afar gott mál. Það var ekki erfitt að heimfæra margt af því sem hann sagði uppá íslenskar aðstæður:

 "Our economy is badly weakened, a consequence of greed and irresponsibility of some, but also a collective failure to make hard choices and prepare the nation for a new age."

 "Nor is the question before us whether the market is a force for good or ill. Its power to generate wealth and expand freedom is unmatched, but this crisis has reminded us that without a watchful eye, the market can spin out of control-and that a nation cannot prosper long when it favors only the prosperous..."

Ekki það, hér eru ótal mörg óhugnanlega ljót mál í gangi en eftir því sem ég best fæ séð taka afar fáir stjórnmálamenn þátt í þeim. Þeir eru ekki einu sinni í klappliðinu, nema í Chicago!

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Ég hefði betur látið vera að halda að dádýrin kæmu ekki í fæðuleit í garðinn minn fyrr en hlýnaði. Ég opnaði framdyrnar áðan og sá þá dádýraspor á stéttinni. Dýrið hafði gengið á stéttinni, sem er bogadregin fyrir framan húsið, að tröppunum og nagað runna og reynt að grafa upp fjölærar plöntur. Það er líklegast lítið um æti í náttúrunni þessa dagana fyrst þau eru svo ágeng að koma alla leið heim að dyrum.

Dádýraslóð


Dádýraslóð
Originally uploaded by Kata hugsar
Dádýrin fylgja mjög föstum stígum og þeir eru alltaf þeir sömu frá ári til árs. Einu skiptin sem þau fara útaf sporinu er þegar einhverja næringu er að hafa fyrir utan slóðina. Núna eru flestar plönturnar mínar vel faldar undir snjónum en það er bara spurning hvenær dýrin ráðast á sírenurnar sem eru tæpir þrír metrar á hæð. Dádýrin sækja mjög í þær svo og hlynina. Það er önnur slóð fyrir ofan húsið sem er mun nær þessum plöntum, svo það er bara að sjá hvað verður þegar fer að hlýna.

Dádýraslóð


Dádýraslóð
Originally uploaded by Kata hugsar

Í dag er mikill ánægju- og merkisdagur því við fáum nýjan forseta. Og þvílíkur sómamaður. Mér virðist hann vera enn betri en mér nokkurntíma fannst á meðan á kosningabaráttunni stóð og fannst mér hann þó góður þá. Loksins fer kalluglan hann Bush og vonandi lætur hann sig hverfa í Texas. Væntingar til handa Obama er ógnarháar og það er ekki nokkur leið að maðurinn geti uppfyllt alla þá drauma sem fólk virðist hafa en ég er ekki í vafa um að landið, og heimurinn, sé mun betur komið með hann við stjórnvölinn en forvera hans í starfi.

mánudagur, janúar 19, 2009

Lífið gengur sinn vanagang hérna á sléttunni og allt í sínum föstu skorðum. Það er nú ekki margt spennandi sem gerist hér í sveit í kaldasta mánuði ársins. Ég er farin að hlakka mikið til Íslands fararinnar eftir rétta viku og svo fæ ég að sjá Kristínu í nokkra klukkutíma þann daginn því ég þarf að fljúga í gegnum New York og svo stoppa ég hjá henni í þrjá daga á leiðinni til baka. Vonandi verður Karólína að keppa í New York þá dagana en það er reyndar allt í óvissu því það var verið að bæta á hana tveim mótum um næstu og þarnæstu helgi. Reyndar á ég frekar vona á að þjálfarinn gefi henni frí frá New York ferð því annars keppir hún þrjár helgar í röð.

Hún Annika litla fósturbarnabarn var hjá okkur um helgina þegar pabbi hennar var að keppa á gönguskíðamóti og mamma hennar var á vakt. Hún er alltaf jafn yndisleg og það lífgar svo mikið uppá á tilveruna að fá að hafa hana.

laugardagur, janúar 17, 2009

Það hefur loksins hlýnað og nú er ekki nema 6 stiga frost. En það snjóar og snjóar.

föstudagur, janúar 16, 2009

Enn er brunagaddur og allir skólar lokaðir. Ég var að vinna niður á Mayo Clinic í gær og skildi íþróttatöskuna eftir í bílnum með símanum mínum í. Þegar ég kom aftur 4 klst seinna var síminn beinfrosinn. Allir takkarnir óvirkir og batteríið í pásu. Þegar ég kom í ræktina voru íþróttafötin svo köld að ég þurfti að hita þau með hárblásara áður en ég vogaði mér að fara í þau. Skórnir voru beingaddaðir og ég gat ekki beygt þá. í dag er veðrið alveg eins ig í gær en það á að hlýna í -14 í dag og svo smám saman næstu daga þangað til hann gæti jafnvel tekið uppá því að fara upp fyrir frostmark í byrjun næstu viku. 

Ég trúi því þegar ég sé það.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Ég er farin að hlakka til Íslandsferðar eftir tvær vikur. Ég hef ekki verið á Íslandi síðan í ágúst og það er langur tími, alltof langur. Nú stendur þetta sumsé til bóta. 

Klukkan er rétt að verða 10 að morgni og það hefur hlýnað í -30 en með vindkælingu er -47 og það nálgast óðum að ég verði að fara út.

Jibbý
Í dag er hrikalega kalt, öðruvísi er ekki hægt að lýsa 34 stiga frosti. Öllum skólum er lokað í dag því börn mega ekki bíða autandyra eftir skólastrætónum í þessum kulda. Nýi hitamælirinn er sprunginn/frostinn og getur ekki sýnt svona mikinn kulda. Á hann þó að geta þolað -50 skv. leiðbeiningum. 

Halli ætlar ekki að hlaupa í vinnuna í dag. Í gær var hann svo dofinn á höndunum þegar hann kom í vinnuna að hann gat ekkert gert í dágóða stund. Ekki gott fyrir mann í hans vinnu. Sem betur fer hafði hann ekki aðgerð fyrr en seinna um daginn. Bara fundahöld til að byrja með. Í gær var þó bara -24 um morguninn.

Ég held mig heimavið þangað til ég þarf að fara niður á Mayo um hádegið.

miðvikudagur, janúar 14, 2009

Ég ætti nú að nota hádegismatartímann í að moka frá húsinu mínu en ég er með einhverja lumpu í dag, hálsbólga og beinverkir, og langar voðalega lítið til að fara út í 22 stiga frostið til að moka frá. En það verður víst að gera það svo ætli ég hundskist ekki út á eftir vafin inní allt það hlýjasta sem ég á af fötum, sem er nú talsvert. Ég verð líklegast eins og "overstuffed teddybear" sem varla getur sig hreyft.

þriðjudagur, janúar 13, 2009

Nú fer miður janúar að nálgast og þá má alltaf búast við köldustu dögum ársins og það stendur heima. Hér var stórhríð í gær og þegar hætti að snjóa þá kom kuldinn og hér var -29 stig í morgun, og -43 með vindkælingu, og hann fer kólnandi. Það gæti farið niður í -35 á morgun og hinn og einhver vindur verður líka með. Ég ætla ekki á skíði næstu daga. 

Það er óskaplega fallegt úti, það vantar ekkert uppá það. En mikið voðalega er ég þakklát fyrir að miðstöðin í húsinu er í góðu lagi...7-9-13

mánudagur, janúar 12, 2009

Það er svolítið merkilegt að fylgjast með umræðunni um mótmæli á Íslandi og er ég þá aðallega að hugsa um það sem gerðist á gamlársdag hjá Hótel Borg þegar bræður lentu í samstuði við mótmælendur. Eða kannski þegar mótmælendum var mótmælt. Uppákoman í morgun þar sem uppsögn þeirra bræðra var lögð fram, af grímuklæddum einstaklingum og væntanlega ekki þeim sjálfum, er merkileg uppákoma því hún sýnir svo vel að það eru bara þeir sem mótmæla "rétt" og á "réttan" hátt og fyrir "réttan" málstað sem eiga rétt á því að vera reiðir og þá að mótmæla eða að láta aðra vita á táknrænan hátt að þeir séu ósáttir. 

Fólk er hvatt til að taka þátt í mótmælum og ef það er ósátt við aðferðir, frummælendur eða málstaðinn og situr heima þá er það úthrópað sem fólk sem ekki er með samfélagslega ábyrgð.

Ég tek það fram að ég er ekki að verja þá bræður né þá sem mótmæltu á Borginni, því hvorutveggja finnst mér rangt. En þetta er merkilegt fyrirbæri þegar fólk mótmælir fyrir hönd "allrar" þjóðarinnar á þann hátt að "allir" eru sammála aðferðunum en samt þegar mótmæt er á annan hátt þá er það "rangt" vegna þess að málstaðurinn var rangur.

fimmtudagur, janúar 08, 2009

6. bekkur 7. stofa Barnaskóla Akureyrar 1972

Þessi er tekin af sigurliði skólans í sundi. Efst frá vinstri: Alli Gísla, Anna Sæm, Kalli, Fríða Trausta, ég, Elva Aðalsteins, Stebbi Trausta og Einar Kristjáns.
Jólaskrautið er smám saman að hverfa ofaní jólakassana sem svo fara úr augsýn næstu ellefu mánuðina á hilluna í geymslunni. Halli vill ekki láta jólatréð hverfa alveg strax svo það stendur fram að helgi. 

Ég held áfram að leita mér að vinnu. Það gengur hægt því á Mayo eru engar nýjar stöður auglýstar og ef staða losnar þá verður ekki fyllt í hana nema að það losni tvær. Sumsé ein ráðning fyrir hverjar tvær lausar stöður. Það er samt ekki alveg kolsvart, ég hef nokkrar stöður á radarnum og það var haft samband við mig að fyrrabragði vegna verkefnis sem Mayo er að fara útí með Obama stjórninni. 

Allt samt afar óljóst en ég hef grun um að ég þurfi góðan skerf af þolinmæði næstu vikurnar og kannski mánuði.

miðvikudagur, janúar 07, 2009

Ég viðurkenni það að ég hef verið vantrúuð á að aðild að ESB yrði góð fyrir Ísland en eftir ófarir haustsins þá fór ég að skoða málið með opnari huga. Aðalástæða vantrúar minnar er kostnaður við alríkisstjórnina hér í landi og það peningabruðl sem viðgengst þar. Víst fær Minnesota stuðning í allskonar málum frá alríkistjórninni, t.d. NIH og menntun en mér finnst svo lítil virðing borin fyrir þeim peningum sem alríkisstjórnin hefur til umráða. Þeir peningar koma frá fylkjunum og okkur skattborgurunum en stjórnmálamennirnir í Washington hafa notað þá í ríkum mæli til að styðja vini og vandamenn og pólitíska stuðningsmenn í gegnum allrahanda bitlinga. Við borgum nefnileg 17% skatt af heildarlaunum til ríkisins og það eru miklar upphæðir. Ef þetta yrði þróunin á Íslandi þá yrði þetta viðbót við núverandi skatta, kannski ekki 17% en allavega 10% get ég ímyndað mér. Ég held að þetta sé vegna fjarlægðar, andlegrar og líkamlegrar, frá skattborgurunum og peningarnir verða þannig ekki tengdir fólki og vinnu þess heldur einhverju óskyldu og ótengdu.

Í Mogga í dag er tvennt sem ég rak augun í og er grundvallar atriði í hugmyndafræðinni að mér finnst. Í fyrsta lagi segir Jurgen Stark: "Þegar allt kemur til alls, þá er gjaldmiðill grunnþáttur fullveldis. Að deila sameiginlegum gjaldmiðli felur í sér að deila sameiginlegri pólitískri framtíð." Sumsé erum við til í að deila okkar pólitísku framtíð með hinum einstöku ríkjum ESB. Ég las reyndar grein um helgina eftir lagaprófessor sem ég man ekki hvað heitir þar sem hann ræðir muninn á fullveldi og sjálfstæði og hvað hvert hugtak þýðir og ég hef á tilfinningunni að við séum að gefa frá okkur stóran hluta sjálfstæðisins.

Hitt atriðið er : "Og þar sem ákvarðanir í myntbandalaginu væru teknar út frá hagsmunum svæðisins í heild, en ekki staðbundnum hagsmunum, þá þyrfti að tryggja að efnahagur hvers ríkis væri nógu traustur fyrir myntbandalagið." Væri þá ekkert tillit tekið til sérstöðu Íslands? Samkvæmt þessu þá skipti sérstaðan litlu máli því hagsmunir allra koma á undan sérhagsmunum landa. Og pínkulitla Ísland með 0.012% meðlima fjölda væri í hættu að verða kaffært. 

Svo er náttúrulega stóra spurningin hvort við hreinlega verðum að vera aðilar einmitt vegna smæðarinnar og því verður að láta tilfinningamál lönd og leið því við hreinlega getum ekki staðið utan ESB, þannig yrðum enn meira kaffærð.

Og áfram les ég!

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Við (lesist ég) vorum svo heppin að fá mynd- og hljóð diskinn frá tónleikum Vilhjálms Vilhjálmssonar í jólagjöf mér til mikillar ánægju. Við systurnar fórum á minningartónleika sem haldnir voru í Salnum í fyrravetur og það var óskaplega gaman. Þetta var allt öðruvísi, mun unfangsminna, en óskaplega skemmtilegt. Ég er nú ekki hrifin af öllum flytjendunum en það er bara vegna þess að ég er gamaldags og fer fram á að flytjendur haldi lagi og svoleiðis. Ég hef mun meira gaman af mynddisknum en hinum aðallega vegna þess að ég á nánast allt sem gefið hefur verið út af þessum lögum og á ég mér að sjálfsögðu uppáhaldsútsetningar og flytjendur. Ég verð að segja að þegar Jóhann Vilhjálmsson byrjaði að syngja Lítill drengur þá fékk ég hroll eftir bakinu því hann hefur óskaplega fallega rödd og ótrúlega líka föður hans. Eins finnst mér Diddú gera Frostrósum falleg skil svo ekki sé talað um Íslenskt ástarljóð í flutningi Þuríðar en einhverra hluta vegna er hvorugt þessara laga á hljóðdisknum.

mánudagur, janúar 05, 2009

2. bekkur 9. stofa 1967


2. bekkur 9. stofa 1967
Originally uploaded by Kata hugsar
Ég var að fara í gegnum gamlar myndir og fann þessa yndislegu mynd. Ég hélt ég væri búin að týna henni en hún var í elsta albúminu mínu.
Efst frá vinstri: Hildur Birkis, Ásrún Kondrup, Sólveig Jóns, Kristín Hallgríms, Anna Sæm, Anna Jónína Ben, Kata, Elva Aðalsteins og svo Elli Óskars að kíkja inná.
Mikið var ég ánægð að sjá umfjöllun Moggans um ESB í dag. Ég renndi yfir það mesta en nú þarf ég að lesa þetta með athyglina í lagi og vonandi koma margar svona greinar. Ein grein dugir mér enganveginn. 

Nú erum við orðin ein í kotinu aftur. Karólína fór í skólann í gær og Bjarni og Nicole, sem voru hjá okkur yfir helgina, fóru seinni partinn í gær. Þetta var yndislegt jólafrí en nú er komið að rútínu hversdagsins. Nokkuð sem mér líkar afar vel. Nú er á áætlun að ganga frá doktorsritgerðinni svo hægt verði að gefa þessi ósköp út og svo að finna vinnu. Það verða forgangsverkefnin þennan veturinn. Ég á vona á að koma heim til Íslands í viku, c.a. 31. janúar - 6. febrúar en það fer svolítið eftir atvinnuleit þessa vikuna hvaða daga ég verð nákævæmlega heima en ferð heim er á dagskrá. Ég verð að kíkja á Lönguklöpp og sjá hvernig viðgerð gengur, athuga hvort allt sé í lagi á Kvisthaganaum, fygjast með mömmu, heimsækja fjölskylduna og svo vinina að sjálfsögðu. 

föstudagur, janúar 02, 2009

Ég velti mikið fyrir mér hvort betra sé fyrir Íslendinga að vera innan eða utan ESB. Við Halli ræðum þetta fram og til baka. Mér finnst ótækt að gefa frá sér sjálfstæði Íslands, fyrir því var barist of lengi, en ég viðurkenni að alþjóðavæðing hefur mikil áhrif á litlar þjóðir og stundum held ég að "you are dammned if you do, you are damned if you don´t" eigi allt of vel við í þessu samhengi. Það þarf að fara fram ótrúlega öflug umræða um kosti og galla áður en að þjóðaratkvæðagreiðslu kemur og ég er því miður ekki viss um að þjóðin sé í jafnvægi til að taka þátt í þeirri umræðu. Mér hefur fundist að allt of mikið sé skrifað með persónulegt skítkast sem upphafspunkt. Í umræðuþáttum, umfjöllun og fréttaskýringum hafa fréttamenn verið þungamiðjan og mér finnst þaða bara rangt. Fréttamenn eiga að spyrja kurteislega og hnitmiðað en láta stjórnmálamenn ekki komast upp með að leiða hjá sér mikilvægar spurningar en ekki að vera með skítkast og leiðindi. Þeir geta lært mikið af kollegum hérna vestanhafs, sérstaklega Katie Couric og Wolf Blitz.

Við erum enn með kosningarétt á Íslandi en það er á mörkum þess siðferðilega að nýta kosningaréttinn þegar við þurfum ekki að lifa með afleiðingunum nema að litlu leiti sem eigendur fasteigna á landinu.

fimmtudagur, janúar 01, 2009

Það var afskaplega rólegt hér hjá okkur á gamlárskvöld. Við vorum bara þrjú hérna heima í mat og svo skelltum við okkur í bíó. Það fer lítið fyrir áramótafagnaði hér í bæ, það er helst innan fjölskyldna og þar sem við eigum enga þá eru það bara við sem skemmtum hvoru öðru. Undanfarin ár höfum við verið hjá vinum okkar en þau eru í San Francisco þessi áramótin og því höfðum við það bara rólegt. Mér líkar það ágætlega þótt ég viðurkenni fúslega að ég hefði frekar kosið að vera á Íslandi, annað hvort sunnan eða norðan heiða. Kannski næsta ár. Annars hef ég verið illa haldin af Hawaii löngun síðustu daga og vikur. Það eru þrjú ár núna í janúar síðan við fórum þangað síðast og nú er kominn tíma á að fara aftur...að mér finnst en ekki Halla.

Annars bíður okkar mikið af ferðalögum útum allan heim svo og hér innanlands á þessu herrans ári 2009. Á Íslandi bíður okkar skipulagning á sumrinu en þá verður fimmtugsafmæli, 30 ára stúdentsafmæli og áttræðisafmæli tengdamömmu. Við erum að reyna að koma öllu fyrir á mánaðardeginum svo og mótunum hjá Karólínu. Það hefst en kannski með því að sleppa einhverju skemmtilegu, og það verður þá bara að hafa það.