þriðjudagur, október 31, 2006

Ég gerði fína ferð til Norður-Karólínu, við mæðgurnar fórum út að borða, versla og göngutúra í mikilli blíðu. Það var ótrúlega fallegt þessa helgina, 25 stiga hiti, sól og logn og haustlitirnir í algleymingi. Ég horfði svo á Karólínu æfa í gær, fyrst kúluvarp, svo spjótkast, og þá hlaupin. Hún keppir líklegast í fyrstu fimmþrautinni innanhúss um miðjan janúar. Klukkunni var breytt um helgina svo við fengum einn klukkutíma í kaupbæti, nú er 6 klukkutíma munur á okkur hér í Minnesota og Íslandi og í dag er Halloween, uppáhaldsdagur barnanna minna í mörg ár. Ég held ég hafi saumað síðasta búninginn fyrir þremur árum, þá var Karólína 15 ára!

fimmtudagur, október 26, 2006

Ég fer til Durham í Norður-Karólínu á morgun til að heimsækja hana Karólínu mína. Það er fjölskylduhelgi, pabbinn er á vakt, Bjarni að vinna og Kristín að keppa svo þetta verður mæðrahelgi í staðinn. Ég hlakka svo til því ég hef ekki séð hana í heila tvo mánuði. Hún bað um heimabakað rúgbrauð, skinkuhorn frá mömmueldhúsi og allan þann mömmumat sem ég get borið með mér. Svo bað hún um húfur, vettlinga og úlpu, hún tók nattúrulega ekkert með sér af þess háttar fatnaði enda er sjaldan kalt þarna niðurfrá en nú brá svo við að það fór niður undir frostmark í fyrrakvöld og minni konu var kalt. Það eru reyndar þetta 15-20 stig yfir daginn svo það verður notalegt en hún er svo oft á ferðinni á kvöldin og þá er kalt. Mamma verður því að pakka í stóra ferðatösku fyrir fjögurra daga ferð!

föstudagur, október 20, 2006

Ég er með voðalega mikla strengi í dag. Ég var hjá þjálfaranum mínum í fyrradag og reyndi greinilega mikið á mig því handleggirnir eru sárir og þungir, lærin loga svo og aðrir staðir á líkamanum sem óþarft er að minnast á. Á þriðjudaginn var ég í erfiðu yogalates og var aum og sár eftir það, og þá sérstaklega í maganum því við gerðum magaæfingar í allt að því hálftíma samfleytt, án hvíldar á milli æfinga, það var erfitt. Ég er rétt að vona að ég geti hlegið í dag með góðu móti. Í dag fer ég í léttari yogalates og það verður voðalega gott eftir átök vikunnar. Ég sem hélt ég væri í svo voðalega góðri þjálfun en það þarf greinilega ekki mikið til til að koma vöðvunum á enn meiri hreyfingu. Þjálfarinn minn er ung kona og hún sagði við mig í fyrradag, "you are so freakishly strong", þetta tek ég sem hól, sérstaklega þar sem hún var að bera mig saman við unga fólkið sem hún þjálfar. Það er best að njóta þess sem að manni er rétt, það er ekki svo oft sem hólið heyrist, þetta fylgir víst aldrinum.

Í gær var ég í borgarferð í Minneapolis, fór á fund með leiðbeinandanum mínu. Við erum að nálgast hvor aðra, hún er að átta sig á hvað ég vil og hvert ég er að fara í mínum skrifum. Hún þekkir reyndar þetta svið út og inn en ég held að hún hafi bara ekki sett sig inní mín skrif og mína nálgun en nú er þetta allt að koma.

mánudagur, október 16, 2006

Af hverju er það þversögn að vera hægrisinnaður og náttúruverndarsinni? Það á við hér í BNA rétt eins og á Íslandi að hægriöflin -sem eru reyndar allt öðruvísi hér en heima en það er annað mál- berjast ekki fyrir náttúruvernd. Ekki það að þau séu alltaf á móti náttúruvernd, enda er heilt haf á milli þess að vera með eða á móti, heldur eru þau ekki sett á oddinn og þar með eru þau aftarlega í forgangsröðinni. Við hjónin vorum hér heima í miklum rólegheitum yfir helgina og ræddum þó nokkuð um pólitík og þetta var eitt af því sem við vorum að velta fyrir okkur. Almenningssamgöngur, heilbrigðisþjónusta, náttúruvernd, menntun og annað í þeim dúr á ekki að vera bundið við pólitík, nálgunin er kannski pólitísk en ekki grundavallar atriðin í málinu og það hefur því miður brunnið við þessir málaflokkar "tilheyri" vinstri vængnum. Þetta á ekki að vera bundið einum eða neinum væng, þetta eru mannréttindamál og þau koma öllum við.

sunnudagur, október 15, 2006

Hvernig skildi mer liða i dag?

Land Mitt


Land Mitt er úthafseyja
eldfjallamóðir, -kona, -meyja,
sem ég ann svo heitt
að aldrei neitt
okkar á milli ber.

Á meðan aðrir heimsstríð heyja,
hér vil ég lifa og líka deyja,
eiga vísan stað
og vita að
vakað er yfir mér.

....


Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

föstudagur, október 13, 2006

Náttúran stendur í stríði þessa dagana um yfirráðin. Sumarið er að tapa stríðinu, vetur lætur sig sjást af og til svona til að benda á hver hann er og hvað hann gerir. Það snjóaði í gær, svona snjókorn hér og þar og hífandi rok rétt um frostmarkið, ekki nóg þó til að grána í rót. Það á hlýna í 15 stigin yfir helgina og svo vera þetta 10 stigin fram eftir viku, þá gæti vetur kall bankað aftur á dyr. Ég hafði hugsað mér að horfa á víðavangshlaup í gærkveldi en gat bara ómögulega fengið mig til að dúða mig og arka útí kulda kvöldsins. Frekar kveikti ég upp í arninum, hjúfraði mig uppí sófann minn rauða, prjónaði lopapeysu og horfði á CSI.

fimmtudagur, október 12, 2006

Börnin mín gáfu pabba sínum innrammað ljóð í gjöf á feðradaginn fyrir einum 13 árum eða svo. Karólína hafði verið að velta fyrir sér þessu MD sem var fyrir aftan nafn föður hennar á öllum skiltum allsstaðar í vinnunni og ég hafði sagt henni hvað þetta þýddi. Nokkrum dögum seinna rakst ég á þetta dásamlega ljóð sem börnin gáfu svo föður sínum:

My Daddy, M.D.

Whenever Daddy signs his name
he always writes M.D.
So people all will know
that he belongs to me.
For MD means "My Daddy"
or something just the same
and that is why he always
puts these letters in his name.
Some letters in his name are small
but these are not, you see.
He always makes them big like that
because he's proud of me.

Ramminn var á skrifstofu hans öll árin sem hann var á háskólasjúkrahúsinu en þegar við fluttum hingað niðureftir þá fannst ljóðið ekki. Ég var svo að grúska í gömlu dóti niður í geymslu í fyrradag og kemur þá ekki blessað ljóðið uppí hendurnar á mér. Góður dagur það.

miðvikudagur, október 11, 2006

Það var alveg ótrúlega fallegt í Eyjafirðinum þessa daga sem við vorum þar. Mér skilst að það sé haldur kaldara um að litast núna en var fyrir viku síðan.

Íslensk fegurð


Íslensk fegurð, originally uploaded by Kata hugsar.

Íslensk fegurð


Íslensk fegurð, originally uploaded by Kata hugsar.

Mikið er gott að vera ekki ein heima lengur. Ég þekki öll hljóð í þessu húsi sem og á Lönguklöppinni minni. Öll stígum við til jarðar mis þungt, mis mikill bægslagangur í hverjum og einum, allir ganga á sínum hraða, hver trappa hefur sitt hljóð, svo og hver hurð og hvert herbergi og þannig er hægt að vita hvar hver og einn er með því einu að hlusta. Það sem húsið mitt hér í Rochester og Langaklöpp hafa sameiginlegt er að þau eru timburhús og það brakar og brestur allt eftir hreyfingu hússins og þau svigna og dansa eftir takti vindsins og úrkomunni og hitastiginu utandyra. Þegar ég var ein hér heima um daginn þá mögnuðust öll þessi hljóð upp á kvöldin og þegar ég var að sofna þá heyrðist oft brak og brestir í annars hljóðri nóttinni og í mókinu hugsaði ég ósjálfrátt um manneskjuna sem þessi hljóð fylgdu en rauk svo upp með andkvælum og hraðan hjartslátt þegar ég áttaði mig á því að ég var ein í húsinu og viðkomandi hvergi nálægur. Það tók mig oft langan tíma að ná mér niður aftur. Ég tók á það ráð að sofna út frá sjónvarpinu, stillti það lágt og á einhvern þátt sem ég þekki vel og þar með heyrði ég ekki í hljóðum hússins. Mikið er nú gott að vera aftur með minn besta vin hér heima.

þriðjudagur, október 10, 2006

Morgunmaturinn í dag samanstendur af heimabökuðu rúgbrauði með reyktum silungi veiddum af heiðurs-húsbóndanum í Vinaminni, kaffi, appelsínudjús til að skola niður lýsisperlunum og svo Andreu Gylfadóttur með Tríói Björns Thoroddsen. Gerist ekki öllu betra hér á bæ. Í augnablikinu eru þau -og svo ég- að flytja Ömmubænina hans Jenna Jóns.

mánudagur, október 09, 2006

Mikið voðalega var gaman á Íslandinu í þessari ferð. Okkur tókst að framkvæma allt sem til stóð...klæða skúrinn, bera á og ganga frá útihurðinni og svo fórum við í þessa líku dásamlegu haustlitaferð austur í Helludal til Þilskipaútgerðarskrásetjarans, spúsu hans og höllina þeirra. Við fórum í stuttan göngutúr í Haukadalsskógi sem er óskaplega fallegur með falleg tré...bara eiginlega skóg...læk, gljúfur, útsýni yfir Geysi og umhverfi og svo inná öræfi, sumsé allt sem prýða getur fallegt umhverfi, svo ekki sé nú talað um kompaníið. Okkur var boðið í heljarins afmælisveislu í nýja húsinu, kaffi, kakó og heimabakað. Ég er farin að hlakka til næstu ferðar og líka til þess að flytja heim, hvenær sem það nú verður, vonandi innan fimm ára, kannski minna, kannski meira.

Halli gerði góða ferð austur í Rússíá, kom eldhress og andlega úthvíldur til baka.

Hamarinn og asparhlíðin


Hamarinn og asparhlíðin, originally uploaded by Kata hugsar.

Frá Lönguklöpp


Frá Lönguklöpp, originally uploaded by Kata hugsar.

vinnupallurinn kominn upp


vinnupallurinn kominn upp, originally uploaded by Kata hugsar.

gilið og lækirnir fossa á ......

Þetta var haustlitaferð


Þetta var haustlitaferð, originally uploaded by Kata hugsar.

ferðafélagarnir í Haukadalsskógi