miðvikudagur, október 11, 2006

Mikið er gott að vera ekki ein heima lengur. Ég þekki öll hljóð í þessu húsi sem og á Lönguklöppinni minni. Öll stígum við til jarðar mis þungt, mis mikill bægslagangur í hverjum og einum, allir ganga á sínum hraða, hver trappa hefur sitt hljóð, svo og hver hurð og hvert herbergi og þannig er hægt að vita hvar hver og einn er með því einu að hlusta. Það sem húsið mitt hér í Rochester og Langaklöpp hafa sameiginlegt er að þau eru timburhús og það brakar og brestur allt eftir hreyfingu hússins og þau svigna og dansa eftir takti vindsins og úrkomunni og hitastiginu utandyra. Þegar ég var ein hér heima um daginn þá mögnuðust öll þessi hljóð upp á kvöldin og þegar ég var að sofna þá heyrðist oft brak og brestir í annars hljóðri nóttinni og í mókinu hugsaði ég ósjálfrátt um manneskjuna sem þessi hljóð fylgdu en rauk svo upp með andkvælum og hraðan hjartslátt þegar ég áttaði mig á því að ég var ein í húsinu og viðkomandi hvergi nálægur. Það tók mig oft langan tíma að ná mér niður aftur. Ég tók á það ráð að sofna út frá sjónvarpinu, stillti það lágt og á einhvern þátt sem ég þekki vel og þar með heyrði ég ekki í hljóðum hússins. Mikið er nú gott að vera aftur með minn besta vin hér heima.

Engin ummæli: