miðvikudagur, júlí 30, 2008

Hjartans þakkir til allra sem heiðruðu hann Halla minn á fimmtugsafmælinu. Þið voruð yndisleg og hann er enn í skýjunum. Nú líður tíminn ekki nógu hratt fyrir hann þannig að tíminn styttist í flutning heim. Það er að sjálfsögðu ekkert ef, við flytjum heim innan örfárra ára.

Mikið hefur gengið á í fjölskyldunni síðasta mánuðinn. Fimmtugsafmæli Halla var haldið með pompi og prakt og komu 90 manns í óformlega veislu á Lönguklöpp í afar fallegu veðri. Við skemmtum okkur ofsalega vel í faðmi fjölskyldu og vina. Það versta er að það er lítið hægt að tala við alla, það er svona smá spjall hér og þar en gaman var þetta.

Við Halli og Karólína skelltum okkur svo í helgarferð til Noregs. Það sem kom mér mest á óvart í þeirri ferð var hversu mikið ég sakna Noregs. Á því átti ég ekki von.

Nú erum við komin heim á Westwood Court og hversdagurinn tekinn við með vinnu, rútínu og öðru sem tilheyrir. Það er afskaplega notalegt líka. 

Fallegur dagur í Eyjafirði


Þessi á heima í tímariti


Halli og stelpurnar hans


Afmælisbarnið


Afmælisbarnið
Originally uploaded by Kata hugsar

Þrír vinir við gróðursetningu á askinum


Eitthvað hefur Shree haft um grísinn að segja


sunnudagur, júlí 06, 2008

Ég sit hér ein á Kvisthaganum mínum og hlusta á gamla íslenska tónlist: Litla, sæta ljúfan góða; Fröken Reykjavík með Rói Tríóninu; Vor í Vaglaskógi; Þína innstu þrá, os.frv. Oh, mér finnst þetta svo gaman svona af og til. Ég sakna kallsins míns reyndar þegar ég hlusta á svona tónlist en hann er á leiðinni að norðan á leið frá ættarmóti. Ég varð eftir í Borginni hjá Karólínu sem vinnur alla daga á Landakoti. Við sjáumst svo sjaldan orðið að okkur fannt svo leiðinlegt að skilja hana eftir aleina. Hún er nú svo sem eins og móðir hennar, okkur líður ekki illa einum, öfugt við Kristínu og Halla sem erfitt eiga með að vera ein. En það hefur verið gott að vera saman, við förum í ræktina, göngum í vinnuna hennar, göngum í bæinn, og slöppum af hérna heimavið og tölum saman...stanslaust! 

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Vá, ég sendi ritgerðina til leiðbeinandans míns í gær. Hún er búin að samþykkja fyrstu tvo kaflana og því fóru kaflar 3-6 í gær. Mér finnst ég vera búin en hún er örugglega ekki sammála mér, ég á eftir að fá þetta í hausinn aftur. Ég kófsvitnaði og hjartslátturinn fór uppúr öllu valdi þegar ég ýtti á "send" takkann í gær því ég er dauðhrædd um að hún verði mjög óhress og hendi vinnu síðustu mánaða út á hafsauga. Það er aldrei að vita hvað henni dettur í hug blessaðri. Ég er tiltölulega sátt við það sem ég hef gert, ég er aldrei ánægð með eigin skrif, en þetta er ekki vont, en við sjáum til. Ég fékk svo tölvupóst í gærkveldi þar sem hún bað mig um að senda ritgerðina í sniglapósti því hún á víst ekki að prenta ritgerðir nemenda út sjálf og hún getur víst ekki lesið á skjá, svo í póst fer hún í dag. Þetta eru 110 bls og þegar allt verður komið á einn stað verður ritgerðin um 250 bls. 

Annars hefur húsið verið fullt af fólki að undanförnu. Björg okkar og Bo og Jóhannes og Haraldur strákarnir þeirra eru búin að vera hjá okkur síðan á fimmtudaginn. Karólína kom heim sama dag, og svo komu Bjarni og Nicole þann dag líka svo hér sváfu 11 manns aðfaranótt föstudagsins. En nóg er plássið og allir höfðu sér herbergi. Karólína fór svo til Íslands á sunnudaginn og byrjaði að vinna á Landakoti í gær. Við Halli förum svo af stað í frí á morgun og lendum á Íslandi á föstudagsmorguninn. Það verður kærkomið "frí"!